Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er eins og ég vænti. Það fjármagn sem útvegað var var vegna umsókna sem lágu fyrir í janúarmánuði og ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að útvega fjármagn til þess að mæta erfiðleikum þess fólks sem er nú við það að missa íbúðir sínar. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra var ekki að því. Ég hef sjálfur rætt við starfsmenn Húsnæðisstofnunar og þeir hafa gefið þau svör að það sé þýðingarlaust að sækja vegna þess að peningar séu þorrnir og ég man ekki betur en ég hafi heyrt að þeir peningar sem eftir eru séu á bilinu 10--15 millj., er það rétt? ( Félmrh.: Ég hygg að þeir séu nálægt ... þessir peningar því að þeir duga fyrir þessum umsóknum.) Peningarnir duga fyrir umsóknunum í janúar. Peningarnir eru búnir núna og hæstv. húsnæðisráðherra hefur ekki haft dugnað í sér til þess að útvega viðbótarfjármagn við fjáraukalögin og hefur ekki áhuga á því að leysa vanda þessa fólks. Það liggur fyrir að peningarnir eru uppurnir að kalla. Það liggur fyrir að ráðstafanir ráðherrans miðast við það eitt að geta svarað þeim umsóknum sem lágu fyrir í janúar. Svo má bara hitt fólkið eiga sig sem eftir stendur. Hæstv. húsnæðisráðherra kórónaði skömmina með því að segja að ríkisstjórnin yrði að taka ákvörðun um hversu miklum fjármunum hún vildi eyða til þess að koma til móts við fólk sem ætti í þessum erfiðleikum. Nú hafa þeir peningar gengið til þurrðar og þá verður bara að setja fólkið á vergang. Því ekki er við því að búast að hægt sé að fá einhver uppgrip með mikilli vinnu og þó svo takist til að menn fengju vinnu þá eiga þeir í hæsta lagi eftir 50% þess sem þeir afla sér þegar frádrættinum lýkur þannig að ekki er hægt lengur með mikilli vinnu að rétta hag sinn. Ég vildi að það kæmi fram að um leið og verið er að gefa ný stór loforð þá er það fólk skilið eftir á köldum klaka sem er við það að missa íbúðir sínar. Ég heyrði ekki betur en húsnæðisráðherra teldi að þetta væri kerfislega rétt og þess vegna ekkert við því að gera. Og
ég heyrði ekki betur en húsnæðisráðherra væri fullkomlega ánægður með það ástand sem nú ríkir í þessum efnum.