Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. sem síðast talaði um mikilvægi þess að samkomulag sé um þetta mál. Ég vil undirstrika það að málum eins og jafnréttismálum er best fyrir komið að hér náist algert samkomulag á hv. Alþingi og í þjóðfélaginu öllu um að þróa þetta mikilvæga mál á réttan hátt. Ég vonast til þess að þær breytingar sem á frv. voru gerðar til að ná þessu markmiði verði til framdráttar fyrir málið í heild. Og jafnframt að menn komi sér saman um að fylgja þessari þróun eftir á eðlilegan máta, ekki þvinganir heldur samkomulag. Það er það besta í svo mikilvægu máli sem þessu.