Sveitarstjórnarlög
Laugardaginn 05. maí 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Efni þess er að Lánasjóður sveitarfélaga fái heimild til þess að taka veð í tekjum sveitarfélaga til tryggingar á skuldum við sjóðinn.
    Það var í júlí 1989 sem ég skipaði nefnd til þess að kanna fjárhagsstöðu verst stöddu sveitarfélaganna og gera tillögur til úrbóta. Þar var m.a. lagt til að Lánasjóður sveitarfélaga breyti, a.m.k. um sinn, nokkuð áherslum sínum í sambandi við útlán og leggi meiri áherslu á að veita sveitarfélögunum skuldbreytingalán til greiðslu óhagstæðra lána sökum þeirrar erfiðu fjárhagsstöðu sem mörg sveitarfélög fást við. Þótt heimild sé fyrir hendi hjá Lánasjóðnum til skuldbreytinga hefur hingað til einungis verið lánað til stofnframlaga. Samkvæmt 89. gr. sveitarstjórnarlaga mega sveitarfélög ekki veðsetja tekjur sínar. Því er farið fram á þá lagabreytingu sem ég hér mæli fyrir en forsenda fyrir því að hægt sé að veita skuldbreytingalán er að mati stjórnar Lánasjóðsins að sú lagabreyting sem ég mæli fyrir nái fram að ganga.
    Samband ísl. sveitarfélaga mælir eindregið með því að frv. það sem ég mæli hér fyrir verði að lögum. Alger samstaða var um málið í Ed.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.