Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Laugardaginn 05. maí 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Þetta er 508. mál Ed. og er hér prentað á þskj. 1235 eftir 2. umr. í Ed. Frv. felur í sér að heimildar er aflað til að leyfa stofnun sérstaks fyrirtækis eða félags til að undirbúa, fjármagna og annast framkvæmdir við vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, svo og að sjá um rekstur slíks mannvirkis um tiltekinn tíma. Öll nánari ákvæði sem að þessu lúta skulu sett í sérstakan samning milli félagsins og samgrh. Skal slíkur samningur koma fyrir Alþingi áður en hann öðlast endanlega staðfestingu.
    Sú hugsun liggur hér að baki að það eigi að geta verið arðbær fjárfesting, og í sjálfu sér fyrirtækis sem getur rekið sig af eigin tekjum, að koma á vegtengingu, vegasambandi undir eða um utanverðan Hvalfjörð vegna þeirrar miklu styttingar leiðar sem það er fyrir umferð norður og vestur um land. Þó veggjaldi sé þannig í hóf stillt að það sé hagstætt fyrir umferðina að nota sér vegarsambandið á eftir sem áður, samkvæmt því sem útreikningar sýna, að vera unnt að reka þetta mannvirki. Hér yrði farið inn á nokkuð nýja braut í framkvæmdum á þessu sviði hjá okkur, en það er mat manna að það hagi þannig til við þessar aðstæður að ekki sé óeðlilegt að gera slíka tilraun.
    Frv. er fyrst og fremst heimildarlög. Því fylgja engar skuldbindingar af hálfu ríkisins. Í raun og veru er hér eingöngu aflað nauðsynlegra lagaheimilda
til þess að á það geti reynt ef svo ber undir hvort hér er um arðvænlega framkvæmd að ræða sem unnt reynist að afla fjármagns til. Opnar þessi lagasetning möguleikana á því að á það sé látið reyna. En ég undirstrika og endurtek að áður en endanlegt samþykki fyrir framkvæmdum hæfist kæmi málið á nýjan leik fyrir Alþingi og yrði að staðfestast þar.
    Hv. samgn. Ed. var sammála í afstöðu sinni til frv. og lagði til að það yrði samþykkt með þeirri einni breytingu að röð greina væri breytt og sú grein sem áður var 5. gr. yrði 2. gr. og röð annarra greina breyttist samkvæmt því.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.