Almannatryggingar
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir nál. heilbr.- og trn. um breytingar á lögum um almannatryggingar.
    Nefndin hefur haft frv. til athugunar og sendi það til umsagnar. Svör bárust frá Tryggingastofnun ríkisins (tryggingaráði), Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Sambandi ísl. bankamanna, Félagi ísl. iðnrekenda, Verslunarráði Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands og nefnd sem heilbr.- og trmrh. skipaði í október 1989 um fæðingarorlofsmál.
    Með frv. þessu sem flutt er af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur o.fl. er einkum reynt að eyða þeirri réttaróvissu sem nú ríkir um greiðslur til þeirra kvenna í fæðingarorlofi sem halda einhverjum launum meðan á orlofi stendur. Þær konur, sem svo stendur á um, hafa fram að þessu ekki átt kost á neinum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Nefndin hefur beðið með afgreiðslu þessa frv. um skeið vegna fyrirheita um að lagt yrði fyrir þetta þing frv. um heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna. Ljóst er nú að það frv. verður ekki lagt fram til afgreiðslu á þessu þingi.
    Þar sem hér er um mjög brýnt mál að ræða sem ekki mun valda neinum verulegum aukaútgjöldum hjá Tryggingastofnuninni telur nefndin rétt að afgreiða nú þetta frv. þannig að konur í fæðingarorlofi búi ekki við þá óvissu, sem nú ríkir, þangað til heildarendurskoðun laganna er lokið á Alþingi.
    Nefndin mælir því með samþykkt frv. og skrifa allir nefndarmenn undir þetta nál., Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir Gunnarsson, Geir H. Haarde, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.