Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Það hefur komið í ljós í umræðum um þingsköp um þetta mál að hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur vanrækt að leggja þá vinnu í að athuga frv. sem eðlilegt hefði mátt teljast. Þeir tillögupunktar sem hæstv. fjmrh. dreifði hér við 1. umr. málsins voru ýmsir hverjir með þeim hætti að þeir eru óháðir frv. þótt í einum þeirra væri lýst eindregnum stuðningi við þá stefnu sem frv. byggir á. Eðlilegt hefði verið að hv. nefnd hefði kallað eftir athugasemdum hæstv. fjmrh. og jafnframt athugasemdum hæstv. forsrh., ef hann hefur einhverjar sem ég efa ekki að gæti verið, en það liggur fyrir að hv. nefnd hefur ekki sinnt þeirri þingskyldu sinni að taka þetta mál til eðlilegrar meðferðar.
    Sú rökstudda dagskrá sem hér liggur fyrir hefði því átt að hljóða eitthvað á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur lítið athugað frv. en telur þó að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Í ljósi þessa og að nefndin hefur látið undir höfuð leggjast að sinna þeirri skyldu sinni að fjalla um frv. eins og eðlilegt hefði verið og ýmsir aðilar eru tilbúnir til samþykkir deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá.``
    Þetta hefði verið eðlilegur texti í þeirri rökstuddu dagskrá sem hv. nefnd er að flytja hér við þinglok um þetta mál.