Fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að bera hér af mér sakir, en úr barka hv. 5. þm. Vestf. komu ýmislegar ásakanir sem óhjákvæmilegt er að svara.
    Það var enginn að tala um að stöðva þetta mál og það hefur aldrei vakað fyrir mér. Málið fær þinglega meðferð og ég þykist hafa meðhöndlað það í nefndinni með eðlilegum hætti. Varðandi það að ég hafi ekki setið undir allri umræðunni þá er það að vissu leyti rétt. Ég missti t.d. af ræðu hv. þm. Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar sem fjallaði um þetta mál. Hins vegar vil ég láta það koma fram að ég reyni alltaf þegar ég mögulega get að hlusta á ræður hv. 5. þm. Vestf. Sighvats Björgvinssonar, þ.e. svona fyrsta þriðjunginn því að þegar hann fer að endurtaka sig vík ég stundum frá, en hann þríflytur hverja ræðu eins og menn vita.
    Efni þessa frv. ætla ég ekki að fara að ræða í smáatriðum, enda er ekki tækifæri til þess hér. Í 2. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Kjarasamningar sem kveða á um frekari launaútgjöld ríkisins en fjárlög gera ráð fyrir skal undirrita með fyrirvara um samþykki Alþingis. Leita skal samþykkis Alþingis fyrir auknum launaútgjöldum svo fljótt sem verða má eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir`` o.s.frv.
    Þetta held ég að sé óskynsamleg niðurstaða. Ég held að það sé óskynsamlegt
að bera kjarasamninga undir Alþingi. Ég held að við verðum að treysta fjmrh. til að fara með þessi mál og um þetta atriði geri ég efnislegan ágreining við hv. flm. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson taldi að frv. yki ekki vald fjvn. Ég minni á 10. gr. þar sem segir:
    ,,Falli fyrirvaralaus greiðsluskylda á ríkissjóð sem rekja má til óviðráðanlegra atvika sem ókleift var að sjá fyrir eða gera ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga er fjmrh. heimilt að fengnu samþykki fjvn. að inna greiðsluna af hendi, enda þoli hún ekki bið.``
    Mér þykir þeir rýmilegir við hæstv. fjmrh.