Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég verð satt að segja að lýsa talsverðum vonbrigðum mínum með það að meiri hl. hv. nefndar skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu sem sést í því þingskjali þar sem lagt er til að afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá. Í því plaggi kemur enginn haldbær rökstuðningur fram og ljóst er af starfi nefndarinnar að þeir aðilar sem um þetta mál hafa fjallað eru langflestir þeirrar skoðunar að fara eigi eftir þeim sjónarmiðum sem koma fram í því frv. sem hér er til umræðu. Um þetta mál urðu á sínum tíma miklar umræður og það er óþarfi að endurtaka þær hér. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði verið það til sóma að taka þetta mál upp. Ég harma svo sannarlega það sem ég leyfi mér að kalla lítilsigld sjónarmið hjá hæstv. ráðherra sem liggja til grundvallar þeirri ákvörðun sem hefur orðið ofan á í þessu máli.
    Ég minni á að umræður í Borgfl. á sínum tíma leiddu til þess að fram kom í blöðum að Borgfl. væri meðmæltur þeirri hugmynd sem kemur fram í frv. og hv. 1. þm. Vesturl. hefur lýst því yfir að þingflokkur Framsfl. hafi sömuleiðis komist að annarri niðurstöðu en varð niðurstaða hæstv. ráðherra á sínum tíma. Ég tel að hér sé á ferðinni mjög mikið sanngirnis- og réttlætismál fyrir utan það að ég hef haldið því fram að í raun og veru hafi ákvörðun hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar verið lögleysa. Ég veit um dæmi þess að þetta hefur leitt til verulegra vandræða fyrir fólk og þetta á eftir að valda meiri vandræðum, að hafa vexti misjafna á skuldabréfum sem eru frá gildistíma sömu laga. Mér hefði fundist eðlilegt að miða við 1986, ekki síst í ljósi þess að bæði formaður félmn. á þeim tíma og þáv. ráðherra hafa báðir lýst því yfir hvernig skilja átti þessa grein. Og ég verð að segja það að meiri hl. félmn. veldur mér sárum vonbrigðum, að hafa komist að þessari röngu niðurstöðu. Ég staðhæfi það því enn einu sinni hér úr þessum ræðustól. Það væri mikið slys ef
þessi tillaga meiri hl. yrði samþykkt því að sú samþykkt getur auðvitað orðið til lögskýringar gegn þeim sem gætu ellegar á annan hátt náð rétti sínum og ég segi: Mikil er ábyrgð þeirra manna sem hafa lagt það á sig að skila slíku nál.