Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 05. maí 1990


     Frsm. minni hl. félmn. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég vil láta þess getið að það hefur orðið samkomulag í félmn. eftir samtöl milli stjórnar og stjórnarandstöðu um brtt. sem formaður félmn. kynnti hér. Ég vek jafnframt athygli á því að þær eru byggðar á þremur brtt. sem prentaðar voru upphaflega á þskj. 1195 og fluttar af okkur hv. þm. Eggert Haukdal en sem dregnar voru til baka við 2. umr. hér fyrr í dag. Ég vek sérstaka athygli á 1. brtt. félmn. sem er byggð á tillögu nr. 7 í þskj. 1195 en er víðtækari. Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir því að í Reykjavíkurborg skyldi félagsmálaráð hafa umsjón með og annast útleigu leiguhúsnæðis í eigu Reykjavíkurborgar en í nál. okkar minnihlutamanna var vakin athygli á því að þetta vandamál væri víðtækara en eingöngu í Reykjavík. Brtt. félmn. er þess efnis að öllum sveitarstjórnum verði heimilt, ef þær svo kjósa eða telja að henti betur, að fela félagsmálaráði í viðkomandi sveitarfélagi að annast umsjón og útleigu leiguhúsnæðis í eigu sveitarfélagsins.
    Ég vil láta það koma fram að þetta ákvæði er mjög mikilvægt, ekki síst fyrir Reykjavíkurborg, en félmn. þingsins bárust sérstök mótmæli frá félagsmálaráði Reykjavíkur vegna þeirra breytinga sem frv. fyrirhugaði í þessu efni.
    Eins og fram hefur komið á Reykjavíkurborg fjölmargar íbúðir sem leigðar eru skjólstæðingum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og þær íbúðir verða ekki frá henni teknar, hvorki með þessum lögum né öðrum. Og í raun og veru er kannski óþarft að taka fram í lögum að eigandi íbúðarhúsnæðis hafi yfir því full og óskoruð yfirráð, en það sem verið er að gera hér er að á því er hnykkt að yfirráðaréttur þessara íbúða er eingöngu á forræði viðkomandi sveitarfélaga en ekki nefndar með utanaðkomandi aðilum innan borðs þó svo að sveitarfélagið eigi meiri hluta í þeirri nefnd. Þannig er þetta tilkomið og með þessu er tryggt að íbúðarhúsnæði sem er undir forræði félagsmálaráðs Reykjavíkur og ætlað
skjólstæðingum Félagsmálastofnunar verður þar áfram ef borgin kýs að hafa það þannig. Enda er á það bent í ályktun félagsmálaráðs að óeðlilegt sé að aðskilja þennan þátt félagslegrar aðstoðar, þ.e. aðstoð við öflun leiguhúsnæðis, þeirri annarri félagslegu aðstoð sem veitt er á þeim vettvangi. Að eðlilegast og skynsamlegast sé með tilliti til yfirsýnar að þessi mál séu á sama stað, þ.e. hjá félagsmálaráði. Ég fagna því að um þetta atriði hefur náðst samkomulag og á athugasemdir okkar í stjórnarandstöðu og frá félagsmálaráði Reykjavíkurborgar hefur verið fallist í einu og öllu að því er þetta mál varðar.
    Ég lýsi jafnframt ánægju minni með það að í nefndinni skyldi hafa tekist samkomulag um að taka upp sem 2. og 3. lið í brtt. nefndarinnar þær brtt. sem áður voru nr. 17 og 21.1 á þskj. 1195 með þeirri breytingu í því sem áður var 17. liður að þar sem talað er um fimm ár er nú talað um sex ár. Það tel ég fyllilega ásættanlegt. Um þessi atriði er því komið

þetta samkomulag. Við í stjórnarandstöðunni munum engu að síður sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frv. vegna þess að við erum andvígir --- þ.e. við í Sjálfstfl., ég tala nú ekki fyrir aðra --- ýmsu sem fram kemur í þessu frv. og ekki síst ýmsu því sem við reyndum að færa til betri vegar við 2. umr. en mistókst. Við lögðum t.d. til, og veit ég ekki hvort hv. stjórnarþingmenn hafa gert sér grein fyrir því, að Byggingarsjóður verkamanna yrði áfram svo sem verið hefur eingöngu ætlaður láglaunafólki. En stjórnarmeirihlutinn hefur við 2. umr. fellt tvær brtt. þessa efnis. Nú er ekki lengur gert ráð fyrir því að í markmiðskafla laganna sem er verið að breyta og í verkefnalýsingu Byggingarsjóðs verkamanna sé talað um það sem hlutverk hans að liðsinna láglaunafólki. Nú á að koma miklu fleirum þar inn en bara fólkinu sem býr við erfiðustu aðstæðurnar. Þetta tel ég algerlega óeðlilegt eins og það að ætla að flytja lán til almennra kaupleiguíbúða inn í Byggingarsjóð verkamanna. Brtt. um að fá þessu breytt var felld hér í morgun eins og þá rekur minni til sem vissu hvað þeir voru að gera í atkvæðagreiðslunni í morgun.
    Ég tel að með þessu sé verið að stíga óhyggilegt skref og vil nota tækifærið og lýsa því enn fremur yfir að fyrirkomulag húsnæðisnefnda eins og það er í frv. er ekki viðunandi að okkar dómi. En brtt. okkar í því efni hafa verið felldar af meiri hl. deildarinnar. Sömuleiðis var það fellt við 2. umr. að sveitarstjórnin skipi sjálf formann húsnæðisnefndar. Að sveitarstjórnir ákveði sjálfar hver verður formaður húsnæðisnefndar. Og það verður ekki skilið öðruvísi en svo að ætlunin sé að minni hluti í sveitarstjórn ásamt þeim fulltrúum sem tilnefndir eru utan frá eigi að fá að ráða því hver er formaður í húsnæðisnefnd á hverjum tíma. Þetta tel ég miður og hafi verið rangt að fella þessa brtt.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í það sem búið er að ákveða hér með atkvæðagreiðslu. Felld hafa verið ýmis stefnumótandi ákvæði sem horfðu til bóta og ýmsar ábendingar sem fram komu, m.a. frá stjórn verkamannabústaða í Reykjavík. En líka hefur verið fellt að taka sérstakt tillit til þess
starfsfólks sem vinnur hjá stjórn verkamannabústaðanna um þessar mundir þegar að því kemur að starfsemi þeirra flyst yfir til svokallaðra húsnæðisnefnda. Ég vek athygli á því að í morgun var borin upp brtt. þar sem sagði að starfsmenn stjórna verkamannabústaða skyldu hafa forgang að störfum á vegum húsnæðisnefnda en hún var felld. Það er mjög athyglisvert að þeir flokkar sem fara með þessi mál og telja sig í forsvari fyrir launþega og alþýðu þessa lands og tala gjarnan mikið um réttindi starfsfólks gagnvart vinnuveitendum o.s.frv. skuli fella slíkt ákvæði. Mér er það algerlega óskiljanlegt að það skuli vera fellt að taka beri tillit til þess starfsfólks sem þarna hefur unnið, oft um langan tíma, þegar verið er að gera skipulagsbreytingar eins og hér er um að tefla, fella niður með lögum vinnustað fólks og taka upp nýjar nefndir án þess að séð sé fyrir hag þessa fólks sérstaklega. Þannig var það ekki til að mynda þegar lög voru sett um Útvegsbanka Íslands. Þá var

sérstakt ákvæði, að mig minnir, um að starfsmennirnir þar ættu forgang að störfum í hinu nýja hlutafélagi. En þannig er það ekki í því frv. sem Alþfl. ber ábyrgð á um þetta málefni.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að flytja hér lengra mál við þessa umræðu. Ég fagna því að það hefur tekist að þoka hér örfáum atriðum til betri vegar í samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég fagna því svo langt sem það nær. En ég tek fram að sjálfstæðismenn bera að öðru leyti ekki ábyrgð á frv. og taka ekki þátt í afgreiðslu þess.