80. mál úr nefnd í efri deild
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég hafði þann skilning á málum að áhugi væri fyrir því að ljúka þinginu í dag. Til þess að svo gæti orðið ítrekaði ég þá ósk mína að í það yrði gengið í Ed. Alþingis að ná úr nefnd ákveðnu máli og láta þá reyna á vilja deildarinnar til afstöðu. Ég lít ekki svo á að það sé neinn áhugi á að ljúka þessu þingi í dag ef þetta verður ekki gert. Er gersamlega vonlaust við það að búa að hér séu tekin mál í gegn með þeim hraða sem verið er að gera ef mál sem flutt eru í þriðja sinn á Alþingi og tvívegis hafa verið samþykkt í Nd. Alþingis fást ekki út úr nefnd í Ed.
    Það verður auðvitað alltaf að meta það hvað menn vilja kaupa friðinn fyrir mikið. Ég hélt að menn vildu kaupa friðinn fyrir heiðarleg vinnubrögð. Það er ekki verið að þvinga fram neina efnisafstöðu í því hvernig menn greiða atkvæði um það mál í Ed. Að sjálfsögðu gera þeir það eftir því sem hver og einn telur rétt. En að beita þeim bolabrögðum að koma í veg fyrir að mál fari þar inn í deildina til afgreiðslu er gersamlega ólíðandi. Og ég segi það enn og aftur við hæstv. forseta að ég óska eftir upplýsingum um stöðu þess máls.