Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég sá hæstv. forsrh. Ef hann heyrir mál mitt þá langar mig aðeins til þess að segja nokkur orð við hann en á þskj. 1264 leyfi ég mér að leggja fram brtt. við frv. Kveikjan að því var, eins og kom fram við 1. umr., að við komum inn í stjórnarsáttmálann fyrir þá setningu að það yrði mörkuð sérstök fiskveiðistefna. Og af því að hæstv. forsrh. sagði frá því í svari sínu við spurningum mínum að hann væri meðmæltur þessari breytingu og af því að ég á þá hann að sem öruggan stuðningsmann þessarar tillögu, þá leyfi ég mér að leggja hana hér fram. Ég vil ekki eyða tíma þingsins í mikla umræðu en tillögurnar eru þannig:
    1. ,,Við 7. gr. 2. mgr. og 3. mgr. orðist svo:
    Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af á hverjum tíma, skal úthlutað til einstakra skipa og fiskvinnslustöðva. Skal hverju skipi og hverri vinnslustöð úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og aflahlutdeild fiskvinnslustöðvar og helst hún óbreytt milli ára, sbr. þó 5. málsl. þessarar mgr. Skal 30% veiðiheimilda á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður á, úthlutað til fiskvinnslustöðva en 70% til fiskiskipa. Við ákvörðun hlutdeildar einstakra skipa og fiskvinnslustöðva í botnfiskafla skal árlega áætla þann afla sem er utan aflamarks á grundvelli heimilda í 1. málsl. 6. mgr. 10. gr.
    Aflamark skips og aflamark fiskvinnslustöðvar á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins og fiskvinnslustöðvarinnar í þeim heildarafla skv. 2. mgr., sbr. þó ákvæði 9. gr. Skal sjútvrn. senda tilkynningu vegna hvers skips og hverrar fiskvinnslustöðvar um aflamark í upphafi veiðitímabils eða vertíðar.
    2. Við 10. gr. bætast tveir nýir málsl. svohljóðandi:
    Ráðherra getur ákveðið að einungis sé heimilt að flytja út sem óunninn afla tiltekið hlutfall af árlegu aflamarki fiskiskips og fiskvinnslustöðvar. Þá getur ráðherra ákveðið að heimilt sé að framselja útflutningsheimildir milli handhafa þeirra.
    3. Við 11. gr. 2. og 3. mgr. orðist svo:
    Við eigendaskipti að fiskiskipi og fiskvinnslustöð fylgir aflahlutdeild, enda sé fullnægt ákvæðum 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
    Ekki er heimilt að framselja aflahlutdeild fiskiskips eða fiskvinnslustöðvar nema til fiskiskips eða fiskvinnslustöðvar innan sama sveitarfélags.
    4. Við 12. gr. 3. mgr. orðist svo:
    Annar flutningur á aflamarki er óheimill.
    5. Nýtt ákvæði IX til bráðabirgða.
    Aflahlutdeild fiskvinnslustöðva skal fundin þannig að lagður er saman allur afli fiskvinnslustöðva sem móttekinn var til vinnslu árin 1987, 1988 og 1989. Síðan er mótteknum afla einstakra fiskvinnslustöðva í þessi þrjú ár deilt upp í heildartöluna.
    Hafi fiskvinnslustöð hætt starfsemi sinni vegna

gjaldþrots fyrir árslok 1988 skal reikna aflahlutdeild hennar fyrir árin 1987 og 1988 og bætist hún við aflahlutdeild þeirra fiskvinnslustöðva sem eftir eru í sveitarfélaginu.``
    Ástæðan fyrir því að ég flyt þessar brtt. eru þær sem ég hef þegar sagt og hef litlu við það að bæta öðru en því að ég held að það skipti meginmáli fyrir hinar dreifðu byggðir, fyrir landsbyggðina, að svona skipting komist á. Þetta er auðvitað lítið skref, of lítið, en ég skil að það er erfitt að hafa það stærra eins og á stendur, en þetta er eitt stærsta ef ekki allra stærsta mál byggðanna.