Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir að ég styð að sjálfsögðu þá frávísunartillögu sem er birt á þskj. 1283. Við höfum ekki séð ástæðu til þess flestir hverjir sjálfstæðismenn að flytja brtt. Mig langar til þess samt að ræða örlítið almennt um þessi mál en skal stytta mál mitt mjög.
    Ég tel að menn eigi að nota næstu mánuði til þess að kanna þetta kerfi sem nú er að koma á, ekki síst vegna þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á kerfinu, einkum og sér í lagi með tilkomu hins nýja hagræðingarsjóðs. Það er ljóst að árangur fiskveiðistjórnunar á undanförnum árum hefur ekki í öllum atriðum verið góður eða mikill. Við þekkjum þær staðreyndir að heildaraflinn hefur verið talsvert meiri en ætlast var til. Fiskveiðiflotinn hefur í raun stækkað á undanförnum árum í stað þess sem menn bjuggust við að hann færi minnkandi. En það var eitt stærsta atriðið í röksemdunum fyrir því að koma þessari fiskveiðistefnu á, að draga úr sókninni. Fari málið til skoðunar á næstunni er ástæða til þess að það verði kannað með mjög víðtækum hætti. Það er auðvitað nauðsynlegt að hlusta á hagsmunaaðila og viðhorf þeirra eru mjög mikilvæg. En menn mega ekki gleyma því að þetta mál snertir alla þjóðina og kann að vera ástæða til að leggja einnig við hlustir þegar aðrir en beinir hagsmunaaðilar eiga í hlut.
    Þegar rætt er um réttinn til fiskveiðanna þarf að hafa í huga að Alþingi hefur skýrlega lýst því yfir að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Væri þessi auðlind ótakmörkuð gæti hver landsmaður tekið þann fisk úr sjó sem honum sýndist. Þar sem fiskimiðin eru takmörkuð auðlind er ljóst að rétturinn til veiðanna er verðmætur og eftirsóknarverður fyrir fleiri en þá sem fengið hafa veiðileyfi. Þessi staðreynd birtist m.a. í því verði sem greitt er fyrir aflakvóta og umframverð fyrir skip sem hafa veiðiréttindi. Það liggur því beint við að eigendur auðlindarinnar, íslenska þjóðin, selji veiðileyfi. Bent hefur verið á ýmsar leiðir í því sambandi, allt frá uppboðum á aflakvótum til leyfisgjalds fyrir tiltekinn hóp sem fengi veiðileyfi. Þessum hugmyndum hefur hingað til að mestu leyti verið hafnað með ýmsum ráðum en að mínu áliti með fáum rökum. Jafnvel hefur verið gripið til þess að kalla sölu á verðmætum veiðileyfum auðlindaskatt en slíkt jafngildir að mínu mati að kalla vöruverð eða húsaleigu skatta.
    Þegar spurt er hvort veiðileyfagjald sé skattur, þá er hægt að spyrja: Er það skattlagning ef t.d. Skagstrendingur eða Samherji borgar fyrir kvóta sem þeir kaupa hjá öðrum útgerðarfyrirtækjum? Þegar rætt er um veiðileyfagjald held ég að það sé líka mikilvægt að átta sig á því að þeir fjármunir sem fengjust af slíku gjaldi gætu auðvitað gengið til fjárframlaga og framkvæmda sem varða greinina sjálfa. Sterkustu rökin gegn veiðileyfasölu eru að mínu
mati þau að útvegsmenn hafa í raun greitt fyrir veiðileyfin vegna slæmra rekstrarskilyrða, einkum af

völdum rangrar gengisskráningar. Þannig hafi þjóðin lifað við betri lífskjör en ella á kostnað útgerðarinnar sem hefur safnað skuldum. Einnig er bent á að margir útvegsmenn hafi keypt skip á yfirverði og þannig hafi þeir greitt fyrir veiðileyfið. Gallinn við síðarnefndu rökin er sá að kvótafyrirkomulagið er tímabundið og enginn getur keypt eða selt rétt nema í þann tíma sem hann gildir. Þannig er ljóst að kvótahlutinn í skipsverði lenti ekki hjá þjóðinni heldur seljendum skipanna.
    Ég ætla ekki að reyna að rökstyðja hugmyndina um sölu veiðileyfa frekar. Það hafa margir gert í ræðu og riti á undanförnum árum. Ef menn á annað borð fallast á aflakvótakerfið tryggir veiðileyfasala að mínu mati jafnræði og hagkvæmni umfram aðra útfærslu.
    Ég vil einnig taka fram að útgerðarmenn hafa alltaf haft rétt til að veiða. Það sem er nýtt í þessum málum er að nú er kominn rétturinn til að útiloka aðra landsmenn frá veiðunum. Fyrir þennan réttindasvipti þarf auðvitað að koma eitthvert gjald. Annað væri ranglæti, a.m.k. að áliti þeirra sem eru talsmenn sölu veiðileyfa.
    Ég tel einnig, hæstv. forseti, að á næstunni þurfi að kanna betur það sem undirbúningsnefndin, sem samdi frv., ætlaði sér að gera en ekki sést að hún hafi gert af neinu almennilegu viti. Það er að fjalla um áhrif þessa fyrirkomulags á aðrar atvinnugreinar. Þá tel ég að einnig þurfi að svara ýmsum spurningum og reyna að átta sig á því til hvers þetta kerfi leiðir, þ.e.:
    1. Hvernig mun skipastóllinn þróast?
    2. Hvernig mun afkoma sjávarútvegsins þróast?
    3. Hvaða fyrirtækjastærð verður ofan á og hvaða vísbendingar gefur það um áhrif á byggðaþróun?
    4. Hvernig reiðir vinnslunni af og hvaða áhrif hefur það á byggð?
    5. Hver verða áhrif á raungengi og laun í landinu og hvaða svigrúm veitir ný skipan til geðþóttastjórnunar á þessu sviði?
    6. Hver verða áhrifin á viðskiptajöfnuð? Þá verði enn fremur tekið tillit til þess að hugsanlegt er að þegar um er að ræða sölu á skipum með kvóta geti auðvitað sá ágóði verið notaður til geymslu eða fjárfestingar erlendis.
    7. Loks tel ég ástæðu til þess að athugað sé með siglingaskattinn, sem ég leyfi mér að kalla svo, þann skatt sem menn verða að greiða er þeir landa erlendis og út af fyrir sig er ekkert ósanngjarn og mjög skiljanlegur. Er hugsanlegt að hann samræmist ekki því ef gerðir eru frekari samningar við okkar helstu viðskiptaþjóðir?
    Ég vil að allra síðustu, því hér verð ég að stytta mál mitt mjög þótt ástæða hefði verið til þess að ræða miklu meira um ýmsa þætti þessa máls, benda á að með frjálsari gengisskráningu, frjálsari gjaldeyrisverslun, hljóta allar forsendur þessara mála að breytast. Minni tilhneiging verður til þess að ríkisvaldið sjálft haldi útgerðinni í helgreipum með núllstefnu með alvarlegum afleiðingum, ekki einungis fyrir útgerðina heldur einnig fyrir alla aðra atvinnuvegi sem keppa við útgerð og fiskvinnslu.

Mestur vandinn er að sjálfsögðu sá að samræma annars vegar sem mest hagræði af þessu kerfi og hinn fullkomna jöfnuð, sem er krafa ýmissa sem tala í nafni hinna dreifðu byggða. Leikreglurnar mega ekki vera þannig að það skipti engu í raun hvort útgerðarfyrirtæki séu vel eða illa rekin. Ég vil leggja áherslu á þetta og ég tel að það verði sjá til þess í því kerfi sem nú er verið að koma á, fyrst það fæst ekki rætt á næstunni og ég á ekki von á því að meirihlutastuðningur sé við tillögu okkar sjálfstæðismanna, þá verður að gæta sín á því þegar verið er að vinna þetta kerfi að það verði ekki til þess að botninn detti úr því, að í stað þess að ná fram sem fyllstri hagkvæmni verði einhverri stjórn fengið það vald að geta með sínum geðþóttaákvörðunum afhent þeim sem ekki hafa reynst hafa hæfileika til að reka fyrirtæki fjármuni, t.d. í formi kvóta, og þannig ýtt undir þá óhagkvæmni sem menn hafa haft mestar áhyggjur af í þessum málum.