Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Geir Gunnarsson:
    Herra forseti. Samstaða íslensku þjóðarinnar var mikil þegar hún háði baráttu fyrir yfirráðum Íslendinga yfir fiskimiðunum við landið. Sú samstaða tryggði landsmönnum sigur í stærsta lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Allir landsmenn trúðu því að þegar stjórnun veiða á öllum fiskimiðum við landið yrði í höndum Íslendinga einna tækist okkur að tryggja vernd, vöxt og viðgang þeirra fiskstofna sem erlendar þjóðir höfðu veitt gegndarlaust áður. Um þær reglur sem lögfestar voru um nýtingu auðlinda þjóðarinnar var býsna góð samstaða í byrjun því menn væntu þess að með þeim aðferðum væri unnt að tryggja vöxt fiskstofnanna, hagkvæmni í fjárfestingum í útgerð, hæfilega stærð fiskiflotans og jafnræði milli landshluta. Yfirráðin yfir fiskimiðunum og lögbundnar reglur um nýtingu þeirra mundu tryggja framtíðarlífshagsmuni fólksins í hverju einasta sjávarplássi á Íslandi.
    Nú, þegar liðin eru um 15 ár frá því að fiskveiðilögsagan var færð í 200 sjómílur, gætir vaxandi efa meðal landsmanna um ágæti þeirra aðferða sem beitt hefur verið. Flotinn sem talinn var of stór hefur ekki minnkað né aðlagast þeirri hámarksveiði sem heimiluð er þannig að fjárhagslegrar hagkvæmni hafi verið gætt. Það sem alvarlegast er er að þorskstofninn, undirstaða fiskveiðanna, útflutningsframleiðsla Íslendinga, hefur minnkað. Þar á ofan er öllum nú ljóst að óheft sala á aflaheimildum milli landsvæða við eigendaskipti á skipum getur svipt fólk í sjávarplássum öllum rétti til fiskveiða þar sem íbúar þessara byggða hafa sótt lífsbjörg sína mann fram af manni.
    Sú stjórnun fiskveiða, sem lögbundin hefur verið innan þeirrar fiskveiðilandhelgi sem Íslendingar geta ráðið að öllu leyti einir hvernig nýtt er, hlýtur því að hafa verið í meira lagi gölluð. Þjóðin hefur verið að gera sér grein fyrir þessu í sívaxandi mæli eftir því sem tíminn hefur liðið og
vandkvæðin hafa komið betur í ljós. Hömlulausar heimildir til sölu veiðileyfa sem fylgja skipum við eigendaskipti og óheftar tilfærslur veiðiheimilda milli tegunda og stærðarflokka skipa við sölu felur í sér að í því veiðileyfakerfi þar sem veiðiheimildir eru bundnar við fiskiskipin og flytjast með þeim við eigendaskipti er í rauninni innibyggð sú tilhneiging að aflaheimildirnar safnast á æ færri hendur og geta, fræðilega séð a.m.k., endað á einni hendi, hendi þess sem fjárhagslega er sterkastur. Gildir þá einu hvaðan það fjármagn er komið. Það var því alveg augljóst að gildandi kerfi þurfti ítarlegrar endurskoðunar við áður en gildistími laga um stjórnun fiskveiða rynni út. Og vegna þess að það segir sig engan veginn sjálft hvernig úr göllum núverandi kerfis verður bætt og sýnist sitt hverjum í því efni hefði Alþingi þurft að ætla sér ríflegan tíma til þess.
    Það frv. sem lagt var fram í vetur til nýrra laga um stjórnun fiskveiða fól ekki í sér neinar þær breytingar sem verulegu máli skiptu í þá veru að ráða

bót á þeim megingöllum kerfisins sem með æ ógnvænlegri hætti gátu stofnað lífsafkomu fólks í sjávarplássunum í voða ef fiskiskip og veiðiheimildir voru seld frá staðnum. Þessi vandi sjávarplássanna hefur verið sífellt augljósari og í æ ríkari mæli brunnið á hv. alþm., hvar í flokki sem þeir hafa staðið. Þessi vandi krafðist úrlausnar sem Alþingi þurfti ríflegan tíma til þess að móta. En í því frv. sem lagt var fram fólst engin lausn í þessu efni. Þegar þar við bættist að frv. um stjórnun fiskveiða var ekki tekið til meðferðar í nefndum Alþingis fyrr en langt var liðið að lokum þess taldi ég að sá kostur væri vænstur að framlengja núgildandi lög til 1. sept. 1991 en sjútvn. Alþingis, en ekki einhverjar ráðgjafarnefndir þótt þingmenn væru á meðal, nýttu tímann í sumar og haust til að leita lausna sem gætu ráðið bót á aðalannmörkum núverandi kerfis, annmörkum sem eru eins og sverð sem hangir í þræði yfir íbúum í sérhverju sjávarplássi í landinu. Um þessa niðurstöðu varð ekki samstaða milli þingmanna stjórnarflokkanna.
    Ég er engan veginn ánægður með þá niðurstöðu sem varð innan ríkisstjórnarflokkanna um afgreiðslu þessa frv. í þeirri mynd sem það kemur frá hv. Ed. Þegar samkomulag náðist ekki um frestun til þess að gaumgæfa nýjar lausnir, eins og brýn þörf var á, þá tók ég innan þingflokks Alþb. þátt í því að ná fram þeim breytingum til bóta sem unnt væri á frv. Ég vanmet ekki þá staðfestingu sem nú fæst með lagasetningu á því að úthlutun veiðiheimilda færi handhöfum þeirra ekki varanlegan eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. Ég met það að endurbætur munu nást fram á réttarfarslegum athugunum í stjórnunarskipulagi varðandi fiskveiðar þannig að alræði sjútvrn. í eftirliti, úrskurðum og refsiathöfnum gagnvart handhöfum veiðiheimilda verði hnekkt. Ég met það einnig nokkurs að enda þótt varanleg réttindi fólks í einstökum byggðarlögum til þess að sækja sjó til frambúðar, eins og ný lög um stjórnun fiskveiða ættu að fela í sér, hafi ekki verið tryggð sem skyldi við afgreiðslu þessa frv. nú með byggðakvóta eða vinnslukvóta, þá er í fyrsta sinn í væntanlegum lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins ákvæði sem geta komið í veg fyrir stórslys í þeim efnum. Ég met þá breytingu svo að hún gæti orðið upphafið að frekari úrlausnum í því efni að tryggja lífsafkomu og lífsréttindi
fólks í sérhverju sjávarplássi í landinu.
    Ég er enn á þeirri skoðun að fresta hefði átt afgreiðslu þess frv. sem hér er til afgreiðslu og framlengja núgildandi lög um stjórnun fiskveiða til 1. sept. á næsta ári vegna þess að nýjar lausnir og úrbætur á göllum núverandi kerfis eru vandasamt verk sem þarf að nást sem víðtækast samstarf um auk þess sem huga þarf að því að marka sérstaka fiskvinnslustefnu. Til þessa verks er ekki gefið nægilegt svigrúm í þeirri brtt. sem flutt var í hv. Ed. og nú í hv. Nd. um frestun á afgreiðslu þessa frv. Auk þess sem sú ákvörðun að láta núgildandi lög falla úr gildi um næstu áramót þrengir of mikið að og veldur of mikilli óvissu um skipan þessara mála á

næsta ári.
    Ég átti þátt í því í þingflokki Alþb. að fá fram þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. Ég mun því standa að samþykkt þess með þeim breytingum úr því að samkomulag náðist ekki innan stjórnarflokkanna um þá lausn sem ég taldi skynsamlegasta, þ.e. að tryggja nægilegt ráðrúm til að vinna að miklu meiri úrbótum í þessu mikilvæga máli sem hér er til afgreiðslu. Ég vænti þess að þær breytingar á lögum um stjórnun fiskveiða sem nú er ætlunin að samþykkja séu aðeins upphafið að þeim grundvallarbreytingum sem nauðsynlegt er að gera á lögunum.