Stjórn fiskveiða
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég ætla að reyna að hlaupa yfir það svið sem við blasir í þessu máli. Það er fyrst til að taka að í Ed. er till. til rökstuddrar dagskrár sem kemur frá Sjálfstfl., þeim flokki íslenskum sem löngum hefur haft mesta ábyrgð á atvinnulífi í þessu landi. Það merkilega við þá rökstuddu dagskrá er að þar skrifa undir tveir sjálfstæðismenn og báðir eru flm. að frv. til laga um þetta sama efni sem flutt var í fyrra.
    Mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir að sjá hér hugmyndir eins og koma fram í þessari rökstuddu dagskrá þar sem m.a. er lagt til, eins og segir hér, með leyfi forseta: ,,... í þeim tilgangi verði undirbúið annað frv. um stjórn fiskveiða þar sem í stað stjórnar með veiðileyfum komi stjórn á stærð fiskiskipastólsins og sóknarstýring á veiðitíma, veiðisvæðum, gerð skipa ...`` Það er sem sagt stjórn á gerð skipa sem m.a. er verið að leggja til. Ég fæ ekki séð hvernig þeir sem vilja auka frelsið ætla að bæta þessu ofan á þá stjórnun sem fyrir er.
    Niðurstaðan er sú að það frv. sem hv. 4. þm. Vestf. flutti ásamt hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfi Konráði Jónssyni og hæstv. núv. umhverfisráðherra á sínum tíma hefur ekki dugað sem samkomulagsmál í Ed. Og svo verður að segjast eins og er að kannski hefur ekki verið mikill viljinn hjá stjórnarsinnum að taka tillit til þess sem þar stendur, en þar er lagt til að sektir verði greiddar í gullkrónum. Ég hef tekið eftir því að í núverandi frv. er það ekki einu sinni tekið til greina.
    Stórt séð eru hugmyndirnar þær sömu. Það á fyrst að ákveða aflann, svo á ráðherra að skipta. Það eru sömu hugmyndirnar sem þarna koma fram, að því viðbættu að í frv. sem ég er að tala um, frá hv. 4. þm. Vestf., er gert ráð fyrir því að siglingamálastjóri fái það hlutverk að reikna út hve mikið skip geti
veitt. Hefur ábyggilega fyrir mörgum vafist að reikna út minna dæmi en það. En hann skal taka öll skip og reikna þetta út.
    Svo kemur þetta frv. til Nd. og þar er nú svo komið að sá sem gekk í Sjálfstfl. í gær er orðinn leiðtogi þeirra í dag því fyrstur skrifar hér Hreggviður Jónsson undir tillöguna um hvernig eigi að standa að þessum málum. Í öðru sæti er svo hv. 1. þm. Vestf. sem löngum hefur verið leiðtogi þeirra í þessum efnum. Það sem þeir leggja til er að hafa af alþingismönnum sumarleyfið. Nú skulu þeir vinna í sumar og svo skal þingið koma saman 3. sept. Ég verð að segja eins og er að ég sé ekki hvernig stærsti stjórnmálaflokkur landsins getur leyft sér að koma ekki með brtt. við svona frv., koma fyrst og fremst annars vegar með rökstudda dagskrá og hins vegar tillögur um vinnubrögð. Að mínu viti er þetta hrein og klár yfirlýsing um það að annaðhvort hafa þeir engar tillögur í þessu máli eða þeir eru í anda sínum sammála þeim breytingum sem verið er að leggja til á frv.
    Ef við víkjum svo að þeim efnisatriðum sem hér koma fram frá Kvennalistanum er þar fyrst til að taka

að svo virðist sem sveitarfélögin eigi að taka yfir alla stjórn á fiskveiðimálum á Íslandi. Nú er það svo að sveitarfélögin hafa um margt að sýsla og vissulega bera þau ábyrgð á atvinnulífi á sínum svæðum. En ég verð að segja eins og er að ég lít á það sem betri reglu að hafa það til undantekningar að þau stjórni atvinnulífinu en það verði meginreglan. Og í ljósi þess sýnist mér að þau spor sem stigin hafa verið í frv., að hafa það sem undantekningu og öryggisventil að sveitarfélögin komi inn í málin, séu spor í rétta átt. Hitt sporið sé ekki það sem geti talist æskilegt. Ég verð aftur á móti að taka undir það að mér fyndist að hnýta hefði mátt þá hnúta ögn fastara. M.a. skil ég ekki hvers vegna forkaupsréttur við uppboð er ekki hafður með heldur felldur út. Einnig hefði verið eðlilegt að binda það í lögunum að óheimilt væri að gera leigusamninga um skip undir slíkum kringumstæðum þar sem e.t.v. væri hægt að standa þannig að málum að fyrst væri skipið leigt og svo væri öðrum gert ókleift að kaupa og þar með sveitarfélaginu að ganga inn í kaupsamninginn.
    Ef við víkjum að þeim hugmyndum sem fram koma í þessum efnum frá Eggert Haukdal verður að segjast eins og er að þar er á ferðinni mikil traustsyfirlýsing til sjútvrh. og varla hægt að styðja nema menn taki á sig þá ábyrgð að lögbinda það hver ráðherrann sé. Nokkurt hik held ég þó að sé á slíku. Engu að síður skal ég viðurkenna að ég hef um margt þá skoðun eins og hann hefur hér að sóknarmark hafi sína kosti þó að því fylgi vissulega annmarkar. Og helstu annmarkarnir eru þeir að miðað við þá stöðu sem við erum komnir í með flotann gengur það ekki upp gagnvart fiskvinnslunni í landi ef fyrst og fremst er beitt hindrunum í sóknartakmörkunum hvenær afli skuli veiddur. Við erum komnir í þá stöðu að ef slíkt yrði sem meginregla og sagt: Þið byrjið að veiða 1. janúar og fáið að veiða ákveðinn skammt fram í mars, þá er hætt við að menn yrðu kannski búnir í marsbyrjun og þá yrði atvinnuleysi í öllum fiskvinnslustöðvum á eftir. Þetta eru vandamálin sem við blasa gagnvart sóknarmarki.
    Ég held þess vegna að þó ég verði að taka undir það með hv. 5. þm. Vestf. að honum er að því leyti stillt upp við vegg að þeir hafa ekki tök á því að ráðgast um það við sína umbjóðendur heima í héraði hvort þær breytingar á frv., sem hér er verið að leggja til, séu svo mikið til bóta að réttlætanlegt sé að styðja þær verði menn þó í þessari stöðu að hugleiða það fyrst og fremst: Er verið að breyta núgildandi lögum til betri vegar eða ekki? Ég segi hiklaust: Það er ekki verið að breyta þeim til þess vegar sem ég mundi vilja ef ég mætti því einn ráða. Sá valkostur er ekki til staðar. Spurningin er aftur á móti þessi: Er verið að breyta þeim til betri vegar eða ekki? Og tvímælalaust hlýtur það að verða niðurstaða þess sem fer yfir þessi mál að ýmsir gallar þess kerfis sem nú er og hefur ekki skilað þeim markmiðum sem ætlað var, m.a. að ná því að minnka bilið á milli veiðimöguleikanna og veiðiheimildanna, kerfið hefur ekki gengið upp eins og spámenn þess boðuðu á

sínum tíma, en vissir agnúar eru nú sniðnir af. Það er verið að reyna að taka á vissum erfiðum þáttum í þessu kerfi og niðurstaðan er þess vegna tvímælalaust að verði það samþykkt sem hér er lagt til fáum við betri lög en við bjuggum við.
    Spurningin er þá þessi: Er það áhættunnar virði að fresta málinu til haustsins og búast við því að þá gerist það að menn verði búnir að vinna enn betur og breyta því á þann veg að fleiri geti við unað? Ég óttast mjög að ef það yrði gert yrði þetta mál tafið og tafið í deildum þingsins. Það yrði ekki hugsað um hagsmuni sjávarútvegsins, það yrði hugsað um þá möguleika fyrst og fremst hvort hægt væri að nota málið með málþófi til að steypa þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Ég tel þess vegna að það sé tvímælalaust skynsamlegri kostur að lögfesta þær hugmyndir sem hér eru. En að sjálfsögðu er hægt á haustdögum þegar þing kemur saman að leggja til breytingar, frv. til breytinga á þeim lögum. Og auðvitað mundi það þá fá sína eðlilegu vinnslurás í gegnum þingið ef menn væru þá, þeir sem nú eru hvað ákafastir í því að leggja á sig þá vinnu í sumar að hugsa málið upp á nýtt og vinna það, tilbúnir með brtt. sem þeir hafa einhvern stuðning við.
    Ég verð aftur á móti að segja það eins og er að tvímælalaust er nú í fyrsta skipti viðurkennt að þorpin eigi einhvern rétt. Þau eiga einhvern rétt. Á tveimur stöðum er tekið á þessu í þeim hugmyndum sem liggja fyrir. Annars vegar er tekið á þessu varðandi Hagræðingarsjóðinn þar sem gert er ráð fyrir því að hluta af þeim afla sem hann hefur undir höndum sé hægt að ráðstafa til ákveðinna byggðarlaga ef neyðarástand skapast. Í annan stað er tekið á þessu í frv. sjálfu þar sem lagt er til að sveitarfélögin fái forkaupsrétt við sölu fiskiskipa. Það breytir ekki því að auðvitað geta enn orðið slys í þessum efnum og þá verður að reyna að taka á þeim með breiðari hætti. En ég ætla líka að geta þess að í 16. gr. frv. eru hugmyndir um eftirlit með því kerfi sem verið er að leggja til að verði hér á næstu árum. Þar eru ákvæði sem e.t.v. eiga eftir að hafa það í för með sér að menn sjái að magnið sem veiðist á Íslandsmiðum er kannski meira en það sem talað er um að hafi verið veitt á undanförnum árum. Hér er sett inn það ákvæði að afli skuli veginn á löndunarstað. Hvernig halda menn að hægt hafi verið að standa að því að fylgjast með því hvort afli hafi verið rétt skráður miðað við það eftirlit sem verið hefur þegar ekki var skylda að vigta á löndunarstað heldur áttu menn að vigta þar sem húsin voru? Það getur margt gerst á minni leið.
    Ég held þess vegna að einnig það ákvæði að hafa eftirlit með því magni sem verið er að selja upp úr skipum erlendis og að fylgst sé með því hvernig nýtingin er hjá frystitogurunum séu atriði sem skipti verulegu máli.
    Herra forseti. Við erum hér í þeirri stöðu að það er legið á hverjum einasta þingmanni um að hann þegi en tali ekki. Ég verð að segja eins og er að mér þykir það nokkuð hart að Nd. Alþingis fái ekki rýmri tíma til að fjalla um þetta mál. Þar hefur þó margt

komið til sem ekki var svo gott að hafa vald á. Hins vegar tel ég að í þeirri stöðu sem málið er nú standi ég frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar að bera ábyrgð á því að það kerfi sem er verði framlengt óbreytt eða þá að hér verði engin stjórn fiskveiða, sem ég hygg nú að enginn ábyrgur maður treysti sér til að bera ábyrgð á. Ellegar hitt að breyta því sem hér er verið að leggja til til betri vegar, þó ekki náist að fullu þau markmið sem ég tel æskileg. Í þeirri stöðu sýnist mér sá kostur vænlegri að styðja þær breytingar sem hér eru og verja þær heima í héraði. Það verður þá auðna að ráða hvernig fer. En ég get sagt eins og hv. 5. þm. Vestf., mér hefur ekki gefist það ráðrúm sem ég hefði þurft til þess að fara með þær hugmyndir sem komu frá Ed. í þessu máli heim í hérað til að átta mig á þeim viðhorfum sem þar ríktu og þeim vilja sem væri til staðar í þeim efnum, hvort menn vildu að hér yrði stuðlað að því að breyta á þennan veg sem er tvímælalaust til bóta eða hvort menn segðu: Þessi jákvæða framþróun er svo lítil að ekki er hægt að sætta sig við hana á nokkurn hátt og við munum þess vegna ekki una henni.
    Ég tel að áfram þurfi að vinna í þessum málum. Það skulu vera mín seinustu orð hér. Og það sem menn þurfa að gera númer eitt, tvö og þrjú í sumar er að
setjast niður og hugleiða fiskvinnslustefnu fyrir þetta land, því það er hárrétt sem komið hefur fram hjá Kvennalistanum, ef það verður ekki gert blasir við atvinnuleysi, verulegt atvinnuleysi í landinu. Og þá gætum við e.t.v. staðið frammi fyrir sömu dæmunum og rakin eru í þeirri ágætu bók eftir John Steinbeck, Þrúgum reiðinnar, að tæknin yrði okkur ekki að öllu leyti til góðs.