Umferðarlög
Laugardaginn 05. maí 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Það er nú svo að stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ein lög séu í gildi og jafnræði á milli þegnanna. Óneitanlega kemur það dálítið undarlega fyrir ef hér á að lögleiða það að sumir farþegar á Íslandi eigi að vera í öryggisbeltum en aðrir þurfi ekki að vera í öryggisbeltum í sams konar bílum á sams konar vegum á sams konar ferð með hliðstæðum bílstjórum. Ég verð að segja eins og er að ég næ ekki þessari hagspeki, ég hreinlega næ henni ekki. Og þó að ég sitji nú uppi með það þegar björtust er nóttin að þurfa að nota ljós vegna þess að menn voru orðnir svo miklir --- hvað eigum við að segja, Norðurlandaþjóðasinnar, að þeir lærðu það úti í Svíþjóð að það ætti að vera ljós hvort sem sólin skini eða ekki. Og svo þegar Svíarnir breyttu þá gleymdu Íslendingar að fara af stað aftur og breyta á nýjan leik. Mér skilst að við séum að verða þeir einu í þessum volaða heimi sem ekki sjá sólina en nota ljós þegar albjart er. Og núna taka menn sig til og breyta frv. sem þó gerði ráð fyrir því að það væri jafnræði meðal þegnanna, menn skyldu allir bundnir í aftursætum hvort sem þeim líkaði betur eða verr, og snúa því þannig að þetta eigi að vera þeim atvikum háð hvort menn séu í leigubíl eða öðrum.
    Vel má vera að búið sé að semja um það að hér sé ekki talað, hvað sem mönnum dettur í hug að samþykkja. (Gripið fram í.) Hér kemur athugasemd frá forseta Sþ. um þá einu undanþágu sem náttúrlega hefði gjarnan mátt vera hérna en engum hefur hugkvæmst að láta sér detta í hug og auðvitað verður forseti Sþ. til að koma því á framfæri. En kannski er það ekki skortur á öryggi sem þar er aðallega til umræðu.
    Ég lýsi andstöðu minni við svona afgreiðslu eins og hér hefur komið fram en ég ætla ekki að standa hér í málþófi.