Fjáraukalög 1990
Laugardaginn 05. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um þá tillögu 1. minni hl. sem fjallar um það að fella niður úr frv. hæstv. ríkisstjórnar niðurskurð á fé til Framkvæmdasjóðs aldraðra um 8 millj. kr. Fé til Framkvæmdasjóðsins var skert mjög alvarlega við afgreiðslu fjárlaga og það svo að það lamar starfsemi sjóðsins að verulegu leyti. Þrátt fyrir það lætur hæstv. ríkisstjórn og meiri hl. hér á hinu háa Alþingi sér sæma að vega enn í þennan sama knérunn. Til viðbótar hefur það gerst varðandi þennan sjóð að ákveðin var fjárveiting til sjóðsins fram hjá lögum um sjóðinn sem úthlutað var án þess að sjóðstjórnin fengi um það að fjalla, fé sem átti að verja í framkvæmdir á Suðurnesjum og e.t.v. annars staðar, e.t.v. einhvers konar pólitískt dúsufé úr því að það mátti ekki lúta lögum um sjóðinn varðandi úthlutun. Ég tel það mjög alvarlegt að skerða enn þennan sjóð og segi þess vegna já við þessari tillögu.