Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 131 . mál.


Ed.

135. Frumvarp til lagaum lögheimili.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)


1. gr.

    Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.
    Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
    Dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu.

2. gr.

    Hver sá, sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur, skal eiga lögheimili samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Sá sem dvelst eða ætlar að dveljast í landinu vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má þó eiga lögheimili hér.
    Starfsmenn sendiráða á Íslandi, sem eru erlendir ríkisborgarar, og liðsmenn Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110 19. desember 1951, eiga ekki lögheimili í landinu. Sama gildir um skyldulið þessara manna sem dvelst hér á landi og hefur ekki íslenskt ríkisfang.

3. gr.

    Lögheimili skal, svo framarlega sem unnt er, talið vera í tilteknu húsi við tiltekna götu eða á tilteknum stað, í nafngreindu húsi eða á sveitabæ.
    Félagsmálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að lögheimili þeirra, sem búa í fjölbýlishúsum, skuli auðkennt með sérstöku íbúðarnúmeri.

4. gr.

    Enginn getur átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn.
    Leiki vafi á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, t.d. vegna þess að hann hefur bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína enda hafi hann þar bækistöð. Það telst aðalatvinna í þessu sambandi sem gefur tvo þriðju hluta af árstekjum manns eða meira.
    Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst getur hann átt lögheimili þar áfram enda hafi hann þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar.
    Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra.
    Verði eigi skorið úr um fasta búsetu manns skv. 2. og 3. mgr. skal maðurinn sjálfur ákveða hvar lögheimili hans skuli vera. Geri hann það ekki ákveður Þjóðskráin það.

5. gr.

    Maður, sem stundar farmennsku, fiskveiðar eða flutningastarfsemi og hefur hvergi fasta búsetu skv. 1. gr., á lögheimili þar sem skip það, loftfar eða annað farartæki, sem hann starfar á, hefur aðalbækistöð sína.

6. gr.

    Verði eigi skorið úr um lögheimili manns samkvæmt undanfarandi ákvæðum, skal hann eiga lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann síðast hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl sem ekki fellur undir 3. mgr. 1. gr.

7. gr.

    Hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort skv. 1. gr. skal lögheimili þeirra vera hjá því hjónanna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveður Þjóðskráin það. Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð eftir því sem við getur átt.
    Hjón, sem slitið hafa samvistir, eiga sitt lögheimilið hvort.

8. gr.

    Barn 15 ára eða yngra á sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búa saman, ella hjá því foreldrinu sem hefur forsjá þess. Hafi barn fasta búsetu hjá því foreldri sem ekki hefur forsjá þess skal það eiga þar lögheimili enda sé forsjárforeldri samþykkt búsetunni. Hafi forsjá barns ekki verið falin öðru hvoru foreldranna á barnið sama lögheimili og það foreldri sem það býr hjá. Búi barn hjá hvorugu foreldra sinna á það lögheimili þar sem það hefur fasta búsetu.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um lögheimili kjörbarna og fósturbarna.

9. gr.

    Sá sem dvelst erlendis við nám eða vegna veikinda getur áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott enda sé hann ekki skráður með fasta búsetu erlendis.
    Íslenskur ríkisborgari sem gegnir störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði, svo og íslenskur ríkisborgari sem er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að, á lögheimili hér á landi hjá skyldfólki sínu eða venslafólki eða í því sveitarfélagi þar sem hann átti lögheimili er hann fór af landi brott.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um skyldulið þeirra manna sem þar um ræðir og dvelst með þeim erlendis.

10. gr.

    Ákvæði laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73 25. nóvember 1952, skulu gilda um breytingu á lögheimili samkvæmt þessum lögum eftir því sem við á.
    Tilkynning um að lögheimili sé að heimili annars manns verður ekki tekin til greina ef hann mótmælir því að lögheimilið sé talið hjá honum.

11. gr.

    Leiki vafi á um lögheimili manns samkvæmt lögum þessum skal leita úrskurðar dómara.
    Rétt er Þjóðskránni, aðila sjálfum svo og sveitarfélagi, er málið varðar, að beiðast rannsóknar og úrskurðar um lögheimili en dómari fer með málið að hætti opinberra mála. Hann skal að jafnaði leita umsagnar og upplýsinga hjá öllum framangreindum aðilum áður en úrskurður gengur.
    Velti úrslit einkamáls á því hvar maður á lögheimili samkvæmt lögum þessum er aðilum þess máls heimilt að leita úrskurðar um lögheimili í samræmi við 2. mgr. Þeim aðilum öllum er og heimilt að áfrýja úrskurði dómara til Hæstaréttar.

12. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1990. Jafnframt falla úr gildi lög um lögheimili, nr. 35 30. maí 1960, með síðari breytingum.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði 10. maí 1985. Í nefndinni áttu sæti Magnús E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, formaður, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti. Þá hefur Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár, starfað með nefndinni á árinu 1989.
    Nefnd þessi var skipuð að ósk Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem þessir aðilar töldu að full þörf væri á að endurskoða gildandi lög um lögheimili. Margar ástæður liggja þar að baki. Í fyrsta lagi eru nú liðnir nær þrír áratugir frá setningu gildandi lögheimilislaga. Á þessum tíma hafa þjóðfélagshættir tekið töluverðum breytingum. Þetta á ekki síst við um sambýlis- og búsetuhætti fólks. Í öðru lagi hefur ýmsum lögum, sem tengjast eða styðjast við lögheimilislög, verið breytt á þessu tímabili og er eðlilegt að lögheimilislögin séu endurskoðuð í því ljósi. Í þriðja lagi má loks nefna að vegna ýmissa norrænna samninga, einkum á sviði almannatrygginga, skattamála og almannaskráningar, er talin þörf á endurskoðun laganna.
    Helsta markmiðið með endurskoðun lögheimilislaga er að skapa meiri festu í skilgreiningu og ákvörðun lögheimilis en verið hefur. Er stefnt að því að það verði meginregla að menn hafi lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu. Hugtakið föst búseta er því þungamiðja í þessu frumvarpi og er lögð áhersla á að skilgreina það hugtak með ótvíræðum hætti. Í þessu felst mikilvæg breyting frá gildandi lögum en ákvæði þeirra hafa nú á síðari árum þótt gefa færi á hentisemi og hringlanda við ákvörðun lögheimilis. Ekki síst hefur á því borið að menn hafi talið sig geta átt formlega lögheimili á einum stað en búið annars staðar. Þannig hefur reynst æ örðugra fyrir sveitarfélögin og Hagstofuna (Þjóðskrá) að ákvarða lögheimili manna. Marka- og óvissutilvikum hefur fjölgað mikið. Þetta hefur valdið því að lögunum hefur ekki verið beitt sem skyldi.
    Nauðsynlegt er að skapa meiri festu um ákvörðun lögheimilis en verið hefur. Þetta er ákaflega brýnt vegna þess hve lögheimilisskráning skiptir miklu um framkvæmd ýmissa laga, sérstaklega skattalaga, og vegna hins hve opinberir aðilar og ýmsir aðrir eru orðnir háðir heimilisföngum í Þjóðskrá um útsendingu mikilvægra gagna og fjármuna.
    Sem fyrr segir hafa sambýlishættir og búsetuhættir breyst talsvert á þeim nær þrjátíu árum sem liðið hafa frá setningu gildandi laga um lögheimili.
Meðal þeirra breytinga, sem hér um ræðir, má nefna eftirfarandi:
     Breytingar á atvinnuháttum. Á síðari árum hefur dregið mjög úr árstíðabundinni atvinnu, t.d. vertíðarvinnu, og þar með flutningum fólks milli landshluta á hverju ári vegna atvinnu. Atvinna er nú mun jafnari á hverjum stað allt árið um kring en áður, bæði til sjávar og sveita. Enn fremur hefur það færst mjög í vöxt að útlendingar komi hingað til lands til skammtíma atvinnu og dvalar.
     Breytingar á búsetu. Auk þeirra áhrifa á búsetu, sem atvinnubreytingar hafa valdið, hefur það orðið æ algengara að menn hafi fleiri en eina bækistöð og í reynd því fleiri en eitt heimili. Ekki er óalgengt að menn hafi eina bækistöð vegna atvinnu sinnar og aðra þar sem þeir dveljast í frítíma sínum hvenær ársins sem er. Á sama hátt eiga námsmenn oft tvær bækistöðvar, á námsstað og á foreldraheimili. Loks má nefna að það færist í vöxt að hjón vinni hvort á sínum stað á landinu og hafi því tvær bækistöðvar og tvö heimili.
     Breytingar á sambýlisháttum hafa margar orðið. Veigamest er þó hve algengt það er nú að tveir einstaklingar búi saman án þess að ganga í hjónaband, þ.e. í óvígðri sambúð. Í ýmsum lögum hefur verið tekið tillit til slíkra sambýlishátta og skiptir þá form búsetu og sambýlis miklu máli, sérstaklega í skatta- og tryggingalöggjöf. Þannig geta einstaklingar haft verulegan fjárhagslegan hag eða óhagræði af því að vera taldir búa saman eða hvor í sínu lagi. Slík vandamál verða ekki leyst með beinum hætti í lögheimilislögum en þau valda því að brýnt er að ákvæði þeirra laga séu sem ótvíræðust. Á hinn bóginn valda þau hagsmunamál, sem hér um ræðir, oft miklum vanda við skráningu lögheimils og almannaskráningu yfirleitt.
    Af lagabreytingum síðustu árin, sem skipta máli við framkvæmd lögheimilislaga, má nefna ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt er snerta skiptingu skatttekna milli sveitarfélaga. Jafnframt hafa verið gerðar breytingar á hjúskaparlögum og sett barnalög sem m.a. kveða á um forsjá barna. Nauðsynlegt er að samræmi sé milli allra þessara laga og lögheimilislaga, bæði hvað snertir efni og framkvæmd.
    Lög annarra Norðurlandaþjóða um lögheimili eða fasta búsetu og breytingar þeirra laga skipta máli fyrir Íslendinga vegna ýmissa norrænna samninga þar sem lögheimili er lagt til grundvallar ýmsum réttindum og skyldum. Á undanförnum árum hafa lögheimilislög grannþjóðanna verið endurskoðuð og hafa breytingar þeirra hnigið í meginatriðum til tveggja átta. Annars vegar er svonefnd svefnstaðarregla, nú alls staðar notuð sem meginregla við ákvörðun fastrar búsetu og þar með lögheimilis. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á að ekki sé greint á milli raunverulegrar búsetu og lögheimilis. Í þessu efni hafa Danir gengið lengst þannig að þeir leyfa nær engar undantekningar. Í umræðum um þessi mál að undanförnu hefur komið skýrt fram að þjóðskráryfirvöld á Norðurlöndum telja að Danir gangi þarna á undan með góðu fordæmi.
    Á þingi Norðurlandaráðs 1986 var samþykkt tillaga, sem Íslendingar beittu sér fyrir, um endurskoðun norræna samningsins um almannaskráningu frá 5. desember 1968 (sjá Stjórnartíðindi C 2/1969). Verkið var falið sérstakri embættismannanefnd og skilaði hún áliti sínu til norrænu ráðherranefndarinnar í nóvember 1988. Á þingi Norðurlandaráðs í mars 1989 voru tillögur nefndarinnar um nýjan samning um almannaskráningu samþykktar. Samningurinn var undirritaður í Reykjavík 8. maí 1989 og tekur væntanlega gildi fyrri hluta ársins 1990 er allar þjóðirnar hafa fullgilt hann. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með frumvarpi þessu. (Skýrsla embættismannanefndarinnar er prentuð sem fylgiskjal með tillögu norrænu ráðherranefndarinnar á þingi Norðurlandaráðs 1989, sjá Nordiska raadet, 37:e sessionen 1989, B 92/j.)
    Nýi samningurinn felur í sér ýmsar breytingar frá gildandi samningi er lúta að því að skerpa og skýra ýmis ákvæði hans og koma í veg fyrir misræmi milli þjóða og sveitarfélaga í túlkun og framkvæmd hans. Að baki býr enn fremur að á vettvangi embættismannanefndarinnar náðist víðtækara samkomulag milli skráningaryfirvalda þjóðanna um samræmingu ýmissa framkvæmdaatriða. Ein veigamesta breytingin, sem felst í hinum nýja samningi, er að skemmri dvöl í einu aðildarlandi en sex mánaða telst, að öðru jöfnu, ekki jafngilda flutningi. Fram að þessu hafa þessi tímamörk verið á reiki og hafa Danir t.d. krafist skráningar allra þeirra sem koma til landsins ef dvöl er ætlað að standa í þrjá mánuði eða lengur. Í lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, er og gert ráð fyrir skráningarskyldu þeirra sem koma hingað til lands og ætla að dveljast í þrjá mánuði eða lengur. Hér gætir því nokkurs misræmis við ákvæði lögheimilislaga. Til þess að tryggja samræmi í framkvæmd og koma í veg fyrir að skammtímadvöl sé talin jafngilda búsetu varð samkomulag um að miða við sex mánaða dvöl sem meginreglu. Danir og Íslendingar munu þó heimila í samræmi við eigin löggjöf að menn verði skráðir sem fluttir til landsins ef þeir ætla að dveljast í landinu í þrjá mánuði eða lengur.
    Í skýrslu embættismannanefndarinnar, sem undirbjó hinn nýja samning, kemur fram að með þeim breytingum, sem í honum felast, sé gengið eins langt og auðið er í þá átt að samræma flutnings- og skráningarreglur að óbreyttum lögum landanna um fasta búsetu og lögheimili. Nefndin bendir á að þótt meginreglur þessara laga séu keimlíkar séu undantekningarákvæði mismörg og mismikilvæg.
    Ekki er vafi á að í gildandi lögum um lögheimili hér á landi eru einna flest og veigamest undantekningarákvæði og eru þau hvað örðugust í framkvæmd. Í þessu frumvarpi er m.a. tekið mið af löggjöf annarra Norðurlandaþjóða og leitast við að fá fram frekari samræmingu við hana en nú er, m.a. með því að fækka undantekningum frá meginreglum. Að þessu er vikið nánar hér á eftir.
    Helstu breytingar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir frá gildandi löggjöf, eru eftirfarandi:

    1. Skilgreining lögheimilis.
    Í gildandi lögum segir að maður eigi lögheimili þar sem heimili hans er og síðan er skilgreint hvað átt er við með hugtakinu heimili. Í frumvarpinu er lagt til að maður eigi lögheimili þar sem hann hefur fasta búsetu og síðan er skilgreint hvað felst í hugtakinu föst búseta.

    2. Skilgreining heimilis/fastrar búsetu.
    Í gildandi lögum segir að heimili manns sé sá staður þar sem hann hefur bækistöð og dvelst að jafnaði í tómstundum sínum og hefur þá hluti sem eru honum persónulega tengdir, svo sem fatnað, húsgögn, bækur o.fl. Í frumvarpinu er lagt til að miðað sé við fasta búsetu manns en hún er talin vera á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, þar sem hann dvelst í tómstundum, hefur heimilismuni sína og þar sem svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

    3. Tímalengd dvalar sem leiðir til skráningar lögheimilis.
    Í gildandi lögum er miðað við að dveljist maður eða ætli að dveljast á Íslandi í sex mánuði eða lengur skuli hann eiga hér lögheimili. Enn fremur er þess krafist að allir þeir, sem stunda hér launaða atvinnu, eigi hér lögheimili. Annmarkar eru á þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi ríma þau ekki vel við ákvæði laga um tilkynningu aðsetursskipta en þar er þess krafist að maður, sem kemur erlendis frá, tilkynni til skráningaryfirvalda ef hann dvelst eða ætlar að dveljast hér á landi í þrjá mánuði eða lengur. Í öðru lagi eru gildandi ákvæði um að krafist sé lögheimilisskráningar af þeim sem stunda hér launaða atvinnu án tillits til dvalarlengdar ekki í samræmi við ákvæði norræna samningsins um almannaskráningu. Í þriðja lagi eru þessi síðastnefndu ákvæði í reynd óraunhæf og naumast skynsamleg þar sem í þeim felst m.a. að maður, sem dvelst hér fáeina daga við vinnu, t.d. einleikari með Sinfóníuhljómsveitinni, verður að eiga hér lögheimili þessa fáu daga.
     Í frumvarpi þessu er lagt til að áfram verði miðað við sex mánaða dvöl sem meginreglu en jafnframt verði þeim heimilt, sem dvelst eða ætlar að dveljast í landinu við nám eða störf í þrjá mánuði eða lengur, að eiga hér lögheimili. Loks er gert ráð fyrir að fellt verði niður ákvæðið um að jafnan sé krafist lögheimilisskráningar ef maður stundar hér launaða vinnu. Það verði því dvölin ein og lengd hennar sem ráði.

    4. Álitamál um fasta búsetu.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að eigi maður samtímis heimili í fleiri en einu sveitarfélagi skuli hann eiga þar lögheimili sem aðalatvinna hans er. Í frumvarpinu er lagt til að í tilvikum sem þessum sé fyrst beitt meginreglu frumvarpsins um lengd dvalar á hverjum stað en dugi hún ekki ráðist lögheimilið af þeim stað þar sem viðkomandi stundar aðalatvinnu sína (sjá hér 4. gr.). Hér er m.a. haft í huga það sem að framan var rakið um breytingu atvinnuhátta undanfarin ár, svo og hversu algengt það er að menn eigi heimili í einu sveitarfélagi en hafi atvinnu í öðru. Ljóst er að oft gætir tilhneigingar hjá sveitarstjórnum til að skrá menn með lögheimili í sveitarfélaginu þar sem þeir vinna fremur en þar sem heimili þeirra eða bækistöð er. Þótt í vissum tilvikum megi færa rök fyrir þessu getur þetta þó ekki gengið sem regla. Eina reglan, sem brúkleg virðist, er sú að jafnan fari saman lögheimili og föst búseta.

    5. Lögheimili á dvalarheimilum aldraðra.
    Í gildandi lögum er kveðið á um að menn geti ekki átt lögheimili á elliheimili eða í sérhönnuðum heimilum og íbúðum aldraðra eða öryrkja byggðum í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra eða heilsugæslustöð nema sveitarstjórn heimili undantekningu frá þessu. Þetta gildir jafnt þótt viðkomandi eigi húsnæðið sem hann býr í. Í frumvarpinu er lagt til að þessi ákvæði verði felld niður þannig að aldraðir og öryrkjar geti á sama hátt og aðrir átt lögheimili þar sem þeir hafa fasta búsetu hvort sem þeir búa á elliheimilum eða í sérstökum íbúðum fyrir aldraða og öryrkja.
     Hvað snertir dvalarheimili aldraðra er ljóst að þeir sem þangað flytja koma þangað til að dveljast til frambúðar og taka þar upp fasta búsetu. Dvöl á dvalarheimili aldraðra verður ekki jafnað til dvalar í sjúkrahúsi, athvarfi eða á öðrum álíka stofnunum þar sem ætlast er til að menn vistist vegna tímabundinna vandkvæða. Kostnaður við vistun á dvalarheimilum aldraðra er í aðalatriðum greiddur af vistmönnum og af almannatryggingum að því marki sem lífeyrir vistmanna hrekkur ekki til greiðslu vistgjalda. Breyting á þessu ákvæði lögheimilislaga veldur því ekki sveitarfélögum sérstökum útgjöldum en færir þeim hins vegar tekjur eins og síðar er vikið að. Tekið skal fram að hvað þetta snertir er ákvæðum gildandi laga ekki beitt með samræmdum hætti. Þannig heimila mörg sveitarfélög vistmönnum á elliheimilum að skrá sig með lögheimili þar en önnur heimila það aðeins þeim vistmönnum sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu áður en þeir fluttust á elliheimili.
     Ákvæði gildandi laga um að mönnum sé ekki heimilt að eiga lögheimili í íbúð, sem byggð hefur verið fyrir aldraða eða í tengslum við þjónustumiðstöð fyrir aldraða, voru sett á árinu 1982 (lög nr. 68/1982). Þessi lagasetning var og er umdeild en hún var gerð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sveitarfélag þyrfti að bera kostnað við framfærslu eða heimilishjálp manna sem flyttust í þjónustuíbúðir aldraðra úr öðrum sveitarfélögum. Í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 68/1982, var talið að mikið yrði byggt af sérhönnuðum íbúðum fyrir aldraða. Um afleiðingar þessa segir: „Ef umtalsverður aðflutningur aldraðra af þessum sökum verður til eins sveitarfélags og þeir öðlast sveitfesti þar, má gera ráð fyrir auknum útgjöldum vegna þessa fólks, en litlum eða engum skatttekjum á móti.“
     Frá því þessi breyting á lögheimilislögunum var ákveðin hefur fyrirkomulag þessara mála og viðhorf til þeirra breyst. Þá hafa breytingar skattalaga við upptöku staðgreiðslu í ársbyrjun 1988 fært sveitarfélögunum verulegar „skatttekjur á móti“. Með lögum um málefni aldraðra, nr. 91/1982, var kveðið á um að ríkið greiddi 35% af kostnaði við heimilishjálp aldraðra til viðkomandi sveitarfélags. Afganginn bera sveitarfélögin sjálf. Algengt var að þau gerðu kröfur vegna kostnaðar við heimilishjálp manna sem skráðir voru með lögheimili í öðrum sveitarfélögum. Af þessu hlaust flókið uppgjör milli sveitarfélaga þar sem útkoman var oft óljós og að auki ekki endilega réttlát. Þetta stafar af því að aðeins sum sveitarfélög hafa gert slíkar kröfur en önnur ekki. Reykjavík er meðal hinna síðarnefndu en borgaryfirvöld hafa ekki amast við því að utanbæjarmenn flyttust í þjónustuíbúðir aldraðra og öryrkja í borginni og ættu þar lögheimili. Auk þessa má benda á að telja verður að breytingar lögheimilislaganna 1982 hafi byggst á fremur skammsýnum viðhorfum er tóku mið af mismunandi aldurssamsetningu íbúa í einstökum sveitarfélögum á tilteknum tíma. Aldurssamsetning er ekki óbreytanleg og staða eins sveitarfélags í þeim efnum getur breyst tiltölulega skjótt. Það sem sýnist hagstætt fyrir eitt sveitarfélag í dag getur þess vegna hæglega reynst því óhagstætt innan tíðar.
     Þær viðhorfsbreytingar, sem rætt var um hér á undan, koma m.a. fram í lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, sem taka gildi 1. janúar 1990. Með þeim lögum eru gerðar talsverðar breytingar á ákvæðum um kostnað við öldrunarþjónustu í V. kafla gildandi laga, nr. 91/1982. Samkvæmt 29. gr. hinna nýju laga skiptist kostnaður af rekstri heimaþjónustu þannig að sveitarfélög bera kostnað af félagslegum þætti hennar en ríkissjóður af heilbrigðisþættinum. Jafnframt geta sveitarstjórnir með gjaldskrá ákveðið þátttöku einstaklinga í veittri heimaþjónustu. Undanþegnir gjaldskyldu eru þó þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Önnur veigamikil breyting er að það verður skylda hvers sveitarfélags að reka heimaþjónustu fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Breytingar laganna á fyrirkomulagi á greiðslum fyrir heimaþjónustu aldraðra eru í samræmi við ný lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87/1989, sem gildi taka 1. janúar 1990.
     Er staðgreiðsla skatta var tekin upp í ársbyrjun 1988 urðu allar tekjur útsvarsskyldar en lífeyrir almannatrygginga hafði áður verið undanþeginn útsvari. Við þessa breytingu hækkaði sá stofn sem skattar ellilífeyrisþega eru reiknaðir af og enn fremur skilar skattkerfið nú sveitarfélögunum hlut þeirra af öllum skattskyldum tekjum manna í staðgreiðslu. Þá eru meðtalin útsvör þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum þar sem persónuafsláttur þessara manna nýtist til greiðslu útsvara þeirra. Í þessu felst mikil breyting fyrir sveitarfélögin og hefur það m.a. í för með sér að öldruðum, sem flytjast til einhvers sveitarfélags, fylgja skatttekjur, ólíkt því sem áður var.
     Rétt er að fram komi að gildandi ákvæði lögheimilislaga um takmörkun á rétti aldraðra og öryrkja til að eiga lögheimili, þar sem þeir hafa fasta búsetu, hafa valdið þeim ýmsum vandkvæðum. Af þessu hefur leitt að menn verða ýmist að eiga lögheimili sitt skráð hjá ættingjum eða venslafólki eða að vera skráðir sem óstaðsettir í því sveitarfélagi sem þeir bjuggu í áður. Þetta kemur m.a. í veg fyrir að þeim berist milliliðalaust ýmis póstur frá hinu opinbera og öðrum aðilum, auk þess sem hætta er á að slíkur póstur berist þeim alls ekki. Þá verða þeir háðari ættingjum sínum og venslafólki en þeir kunna að kjósa sjálfir og málefni þeirra opnari fyrir íhlutun annarra en ella hefði orðið. Í gildandi lögum getur því í reynd falist skerðing á sjálfstæði aldraðra og öryrkja og þar með mannréttindum þeirra.
     Eitt meginatriði þessa máls er að með fyrrnefndri breytingu á lögum um lögheimili á árinu 1982 var valin sú leið að leysa tiltekin vandamál, er snerta afmörkuð fjárhagssamskipti sveitarfélaga, með undantekningum frá meginreglum almennrar löggjafar um lögheimili. Slíkar lausnir eru yfirleitt óheppilegar og telja verður að það eigi einmitt við í þessu sérstaka tilviki. Af þeim ástæðum öllum, sem hér hafa verið raktar, er því í frumvarpi þessu lagt til að þessi takmarkandi ákvæði falli niður.

    6. Lögheimili námsmanna.
    Í gildandi lögum eru sérstök ákvæði sem heimila námsmönnum erlendis að telja lögheimili sitt í því sveitarfélagi, þar sem þeir áttu lögheimili er þeir fóru af landi brott, eða hjá skyldfólki sínu. Sama gildir um sjúklinga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta ákvæði haldist í meginatriðum en með nokkrum breytingum. Helsta breytingin er sú að lagt er til að þetta ákvæði gildi ekki ef menn eru skráðir með fasta búsetu erlendis. Þetta er m.a. í samræmi við samning Norðurlanda um almannaskráningu. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að þeir sem fara til náms á Norðurlöndum hafa alls staðar nema í Danmörku getað valið um hvort þeir væru skráðir þar eða ekki. Á þessu hefur nú orðið sú breyting að til að tryggja samræmi í almannaskráningu hafa Norðurlandaþjóðirnar orðið ásáttar um að ef menn dveljast lengur en sex mánuði í hverju landi skuli þeir skráðir með búsetu í því landi. Grundvöllur þessa er sá að tryggingalöggjöf er svipuð á öllum Norðurlöndum en tilgangur þessa ákvæðis er að koma í veg fyrir að menn geti ýmist verið skráðir í fleiri en einu landi eða hvergi. Þykir rétt að tekið sé mið af þessum samningi í lögheimilislögum. Í þessu sambandi má enn benda á að samkvæmt lögum um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 66/1989, halda menn sjálfkrafa kosningarrétti til alþingiskosninga í átta ár eftir að þeir voru hér síðast á íbúaskrá og lengur ef þeir sækja um það sérstaklega. Þessi regla gildir og um forsetakjör.
     Í frumvarpinu er einnig tillaga um nýtt ákvæði um þá sem stunda nám hér á landi en í öðru sveitarfélagi en þeir áttu heima í er námið hófst. Þessi tillaga er til þess ætluð að taka af tvímæli og skerpa framkvæmd í þessum efnum. Er gert ráð fyrir að menn geti haldið lögheimili í því sveitarfélagi sem þeir bjuggu í er námið hófst enda hafi þeir þar bækistöð í leyfum og taki ekki upp fasta búsetu annars staðar. Með þessu er annars vegar ætlast til að skýrt sé kveðið á um rétt manna til að telja sig áfram heimilisfasta í sveitarfélagi sínu meðan þeir hafa eðlileg tengsl við það en hins vegar að komið sé í veg fyrir að þeir verði áfram skráðir í sveitarfélaginu taki þeir upp fasta búsetu annars staðar.

    7. Heimild til að setja reglugerð um skráningu lögheimilis í ákveðnum íbúðum.
    Eins og nú háttar er lögheimili manna í þéttbýli yfirleitt skráð sem heimilisfang í tilteknu húsi við tiltekna götu. Undanfarin missiri hafa Hagstofunni borist óskir frá nokkrum sveitarfélögum um nákvæmari skráningu heimilisfanga í Þjóðskrá, þ.e. í tiltekna íbúð ef um fjölbýlishús er að ræða. Þessar óskir eru eðlilegar af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi eykur þetta festu í lögheimilisskráningu og gerir sveitarstjórnum kleift að fylgjast betur en ella með því hverjir búa raunverulega í sveitarfélaginu. Í öðru lagi eykur þetta mjög á öryggi við útburð mikilvægra póstsendinga, svo sem skattgagna, barnabóta, tryggingabóta o.fl. Í þriðja lagi ætti þetta að auðvelda fasteignaskráningu til muna.
     Hagstofan er meðmælt þessu og af hennar hálfu vegur einnig mjög þungt að með skráningu sem þessari mundi Þjóðskrá þjóna hagskýrslugerð mun betur en nú er. Eins og nú háttar eru til dágóðar skýrslur um búsetu fólks og um einstaklinga. Á hinn bóginn verður samhengi fjölskyldu ekki séð af Þjóðskrá og vitneskja um fjölskyldur og breytingu á heimilum og sambýlisháttum er því yfirleitt næsta lítil. Þessara upplýsinga hefur verið reynt að afla með manntölum, en það hefur ekki gefið góða raun vegna þess hve þau eru viðamikil og þung í úrvinnslu. Sýnt þykir að ef hægt er að telja menn til heimilis í ákveðnum íbúðum verður unnt að hætta að taka manntöl eins og þau hafa tíðkast til þessa en fá í staðinn sambærilega vitneskju úr Þjóðskrá. Þær upplýsingar um heimili og fjölskyldu, sem hingað til hefur verið aflað með manntölum, yrði þá hægt að vinna árlega úr Þjóðskrá. Þetta kæmi þó ekki algjörlega í stað manntala en annarra veigamikilla upplýsinga mætti ýmist afla úr tiltækum skrám, t.d. nemendaskrá og fasteignaskrá, eða með einföldum úrtaksathugunum. Í þessu fælist verulegur sparnaður því að hefðbundin manntöl eru ákaflega kostnaðarsöm. Þess má geta að Danir fóru inn á þessa braut fyrir nokkrum árum og byggja nú mannfjölda- og fjölskylduupplýsingar sínar eingöngu á Þjóðskrá í stað manntals áður. Þetta þykir hafa gefið mjög góða raun og hefur víða vakið mikla athygli.
     Ljóst er að þessi breyting krefst talsverðs undirbúnings og er nauðsynlegt að hún verði gerð í samráði við sveitarstjórnir og samtök þeirra, við Fasteignamat ríkisins, skipulagsyfirvöld, Hagstofuna og aðra er málið varða. Af þeim sökum þykir rétt að leggja til að ráðherra verði veitt heimild til þess að setja reglugerð er kveði á um skráningu lögheimilis í tilteknum íbúðum.
     Meðal þess sem gera þarf til undirbúnings þessari breytingu er að breyta tölvuskrám Þjóðskrár. Þetta þarf nokkurn aðdraganda en ætti ekki að verða mjög kostnaðarsamt þar sem breytingin getur orðið hluti af endurskoðun þessara skráa sem að er stefnt. Þá er ljóst að sú breyting, að skrá lögheimili í tilteknum íbúðum, verður haldlítil nema um leið verði gert skylt að allar íbúðir í fjölbýlishúsum verði merktar með áberandi hætti með númeri hverrar íbúðar. Ákvæði um merkingar af því tagi þykja ekki eiga heima í lögheimilislögum. Til greina kemur að setja um þetta sérstök ákvæði í lög um fjölbýlishús, nr. 59/1976, en þar er þegar að finna vísi að þeim. Í 4. gr. þeirra laga er kveðið á um skiptayfirlýsingu en hún skal greina svo ekki verði um villst hvar hver íbúð er. Þetta skal sýnt með götunafni, húsnúmeri, hæðartölu og sérstakri merkingu samkvæmt reglum Fasteignamats ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Í gildandi lögum er miðað við heimili og þykir það ekki lengur heppilegt, m.a. vegna þess að heimilishugtakið er ekki lengur nógu skýrt. Auk þess hefur það færst mjög í vöxt að menn telji sig eiga fleiri en eitt heimili. Fasta búsetu má skilgreina með ákveðnari hætti en heimili. Sú skilgreining, sem gert er ráð fyrir í 2. mgr., byggist að hluta á núverandi skilgreiningu heimilis í gildandi lögum en við hana er aukið með afgerandi hætti. Er þá gert ráð fyrir að upp verði tekin svonefnd svefnstaðarregla en í því felst að maður telst hafa fasta búsetu þar sem svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Þessi ákvæði eru m.a. sniðin eftir sambærilegum ákvæðum í löggjöf annarra Norðurlandaþjóða.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru svipuðu húsnæði sé ekki ígildi fastrar búsetu. Svipuð ákvæði eru í gildandi lögum en þau ganga þó lengra þar sem þau leggja bann við að menn geti átt lögheimili á elliheimili eða í íbúðum aldraðra. Lagt er til að sú takmörkun verði felld niður eins og rakið er í 5. lið almennra athugasemda. Tekið skal fram, að orðið „sjúkrahús“ er hér notað í þeirri merkingu sem fram kemur í 23. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983. Það felst því í 3. mgr. 1. gr. að menn geta ekki átt lögheimili í sjúkrahúsi en geta hins vegar átt lögheimili á stofnun, þar með talinni hjúkrunardeild eða hjúkrunarheimili sem starfar samkvæmt lögum um málefni aldraðra eða lögum um málefni fatlaðra. Þetta er í samræmi við þá tillögu að menn geti átt lögheimili á dvalarheimilum aldraðra, enda er vistun á hjúkrunardeild eða hjúkrunarheimili oft í beinu framhaldi af búsetu á dvalarheimili, og raunar oft í sama húsi. Um dvöl í verbúð er rétt að taka fram að um þau tilvik getur verið að ræða að túlka verði ákvæði 3. mgr. eftir eðli máls. Þau tilvik eru þekkt að menn hafi haft fasta búsetu árum saman í húsnæði sem fyrirtæki starfrækir sem verbúð. Þegar svo er verður að líta svo á að sá hluti húsnæðisins, sem þannig er nýttur, sé fremur leiguhúsnæði en eiginleg verbúð enda er hér ekki um dvöl heldur fasta búsetu að ræða í skilningi frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 2. gr. gildandi laga er sérákvæði um lögheimili þeirra sem dveljast á athafnasvæði varnarliðsins. Á þetta ákvæði hefur ekki reynt undanfarin ár og er það ekki talið hafa þýðingu lengur. Slíkt ákvæði er því ekki tekið upp í frumvarpið.

Um 2. gr.


    Um efni 1. mgr. þessarar greinar er fjallað sérstaklega í 3. lið almennra athugasemda hér að framan. Tvennt skiptir hér meginmáli. Annars vegar er áfram miðað við sem meginreglu að kvöð um lögheimili hér á landi vakni við sex mánaða dvöl. Jafnframt er tekið upp það nýmæli að mönnum verði heimilt að telja sig hér með lögheimili ef þeir dveljast í þrjá mánuði eða lengur vegna atvinnu eða náms. Þetta ákvæði tryggir betra samræmi en nú er milli lögheimilislaga og laga um tilkynningar aðsetursskipta. Hins vegar er hér gert ráð fyrir að niður falli sú kvöð sem nú er í lögheimilislögum að allir sem stunda hér atvinnu eigi lögheimili hér á landi. Það ákvæði er naumast raunhæft né framkvæmanlegt svo vel sé auk þess sem það samrýmist ekki norræna samningnum um almannaskráningu. Enn fremur er nú séð fyrir skráningu manna með öðrum hætti en áður hvað þetta snertir. Meginatriðið, er varðar skráningu útlendinga sem koma hingað til vinnu um mjög skamman tíma, er ekki að þeir séu skráðir í Þjóðskrá heldur að unnt sé að úthluta þeim auðkennisnúmeri, þ.e. kennitölu, vegna þarfa skattyfirvalda, tryggingakerfisins og launagreiðanda. Af þessum sökum hóf Hagstofan haustið 1987 að færa sérstaka skrá yfir aðila sem nauðsynlegt er að úthlutað sé kennitölu en eiga eðli málsins samkvæmt ekki að færast á Þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá. Þetta þykir mun heppilegra fyrirkomulag en núgildandi kvöð um lögheimilisskráningu en þjónar svipuðum tilgangi.
    Í 2. mgr. er lagt til að kveðið verði á um að starfsmenn sendiráða hér á landi, sem eru erlendir ríkisborgarar, og liðsmenn Bandaríkjanna samkvæmt lögum nr. 110/1951, eigi ekki lögheimili hér. Sama gildi um skyldulið þessara manna sem dvelst hér á landi og hefur ekki íslenskt ríkisfang. Eðli málsins samkvæmt geta þessir menn ekki átt lögheimili hér á landi, enda njóta þeir úrlendisréttar. Efnislega er því ekki beinlínis þörf á þessu ákvæði í lögheimilislögunum. Rétt þykir engu að síður að það sé sett í lögin þannig að þar sé öllum ákvæðum, er skilgreina lögheimili manna, haldið til skila á einum stað.

Um 3. gr.


    Um ákvæði þessarar greinar vísast til 7. liðar almennra athugasemda hér að framan. Rétt er þó að nefna tvö atriði sérstaklega. Orðalag 1. mgr., að lögheimili skuli, svo framarlega sem unnt er, skráð í tilteknu húsi o.s.frv., vísar til þess að gera verður ráð fyrir að ekki verði unnt að skrá lögheimili allra í tilteknu húsi. Er þá fyrst og fremst átt við menn sem hafa hvergi bækistöð svo og þá sem falla undir ákvæði 9. gr. Þessa menn kynni að þurfa að skrá sem óstaðsetta í sveitarfélagi. Slíkar skráningar eru nú mjög algengar en þar er mest um að ræða aldraða sem flust hafa á dvalarheimili eða í þjónustuíbúð í öðru sveitarfélagi en ekki fengið heimild til að telja lögheimili sitt þar. Þetta ætti að breytast verði frumvarpið að lögum. Þá skal tekið fram að hugtakið „fjölbýlishús“ vísar til þeirrar skilgreiningar er fram kemur í lögum um fjölbýlishús, nr. 59/1976.

Um 4. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru efnislega svipuð ákvæðum 3. gr. gildandi laga. Meginreglan sem mörkuð er í 1. mgr., er hin sama og nú er, að enginn geti átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn.
    Í 2. mgr. er lagt til að leiki vafi á hvar maður hafi fasta búsetu skuli það sveitarfélag jafnan ráða þar sem viðkomandi dvelst meiri hluta árs. Í gildandi lögum er hins vegar kveðið á um að aðalatvinna ráði lögheimili í slíkum tilvikum. Samkvæmt frumvarpinu ræður aðalatvinna því einungis lögheimili manns dveljist hann ekki í neinu sveitarfélagi meiri hluta af ári. Þessi breyting er í samræmi við meginstefnu frumvarpsins að lögheimili skuli ráðast af fastri búsetu manna, sé henni til að dreifa og eftir því sem frekast er unnt.
    Í 3. mgr. eru sérstök ákvæði um lögheimili þeirra sem fara úr sveitarfélagi sínu til náms annars staðar. Í reynd er hér ekki um efnisbreytingu að ræða en ástæða þykir til að hafa um þetta sérstakt ákvæði til að taka af tvímæli og auka festu í framkvæmd (sjá nánar 6. lið almennra athugasemda).
    Í gildandi lögum er í 11. gr. kveðið sérstaklega á um að þingseta alþingismanns breyti engu um lögheimili hans og ekki heldur dvöl hans vegna annarra tímabundinna trúnaðarstarfa, svo sem nefndarstarfa í þágu ríkisins. Sama gildi um ráðherra. Þessum ákvæðum var ætlað að tryggja að alþingismönnum yrði ekki gert að flytja lögheimili sitt þótt þeir hefðu bækistöð í Reykjavík eða nágrenni vegna þingmennsku sinnar eða annarra opinberra trúnaðarstarfa. Í þessu frumvarpi er lagt til að hliðstæð ákvæði verði tekin upp í 4. mgr. 4. gr. Er þar kveðið á um að alþingismanni sé heimilt að eiga áfram lögheimili þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Hið sama gildi um ráðherra. Sú breyting, sem hér er gerð tillaga um, er ekki efnisleg heldur gerð til samræmingar við skilgreiningar og orðalag þessa frumvarps.
    Ákvæði 5. mgr. eru efnislega óbreytt frá gildandi ákvæðum.

Um 5. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru hin sömu og nú eru í 5. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.


    Þessi ákvæði eru óbreytt frá 6. gr. gildandi laga.

Um 7. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í meginatriðum hin sömu og í núverandi 7. gr. lögheimilislaga. 2. mgr. felur þó í sér þá breytingu að ekki er talin ástæða til að hjón, sem slitið hafa samvistir, haldi sama lögheimili. Í núgildandi lögum er kveðið á um að hjón þurfi að hafa skilið að lögum eða búið hvort í sínu lagi í tvö ár eða lengur til þess að þau megi hafa sitt lögheimilið hvort. Þessu hefur hins vegar ekki verið fylgt eftir í framkvæmd.

Um 8. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eru í meginatriðum hin sömu og í 8. gr. gildandi laga. Hins vegar hafa ákvæðin verið skerpt nokkuð og samræmd barnalögum. Meginreglan er hér sú að barn eigi sama lögheimili og foreldrar þess eða forsjármaður. Það nýmæli felst í þessari grein að gert er ráð fyrir þeirri undantekningu að hafi barn fasta búsetu hjá því foreldri sem ekki hefur forsjá þess skuli það eiga þar lögheimili, enda sé forsjárforeldri samþykkt búsetunni. Tilvik af þessu tagi eru þekkt og þykir rétt að viðurkenna þau í löggjöf.
    Um þessa grein skal loks tekið fram að ekki þykir lengur ástæða til að hafa sérstök ákvæði um munaðarlaus börn eins og í gildandi lögum. Þau ákvæði má rekja til framfærslulaga og sýnast ekki eiga við lengur hvað þetta snertir.
    Í 9. gr. gildandi laga eru ákvæði þess efnis að eigi maður, sem er yngri en 21 árs, lögheimili hjá foreldrum sínum, skuli hann halda því lögheimili uns hann verður 21 árs – og jafnvel lengur sé um námsmann að ræða – nema hann stofni sjálfstætt heimili. Í þessum ákvæðum felst engin viðbót við meginreglur laganna heldur fremur árétting á þeim. Slík árétting þykir ekki nauðsynleg og því sýnist ekki ástæða til að hafa hliðstæð ákvæði í frumvarpinu, enda fer um lögheimili þeirra, sem hér eiga í hlut, eftir almennum ákvæðum þess.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. felast fjórar breytingar frá gildandi lögum.
    Í fyrsta lagi er talið eðlilegt að breyta röð á því hvar þeir sem dveljast við nám eða vegna veikinda í útlöndum geta talið lögheimili sitt. Er lagt til að þeir geti áfram átt lögheimili hér á landi hjá skyldfólki eða venslafólki sínu eða í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu heima er þeir fóru af landi brott. Í meiri hluta tilvika fer þetta saman. Ef svo er ekki er talið heppilegra að lögheimilið sé skráð hjá einhverjum nákomnum sem getur tekið við opinberum pósti, sem sendur er út eftir Þjóðskrá, og komið honum áleiðis eða annast slík málefni þess sem í hlut á fremur en að einstaklingurinn sé skráður með lögheimili á ótilteknum stað í sveitarfélagi. Af þessu geta spunnist ýmis vandkvæði. Hliðstæð regla er og látin gilda um starfsmenn sendiráða erlendis og starfsmenn alþjóðastofnana.
    Í öðru lagi er lagt til að heimild námsmanna og þeirra sem dveljast erlendis vegna veikinda til að halda lögheimili sínu hér á landi sé takmörkuð að því leyti að skilyrði sé að viðkomandi sé ekki skráður með fasta búsetu í öðru landi. Þetta er í samræmi við samning Norðurlanda um almannaskráningu. Í þessu sambandi má minna á að þar sem tryggingalöggjöf Norðurlandaþjóðanna er alls staðar svipuð ætti þetta ekki að hafa áhrif á réttindi manna í þessum efnum. Þó ætti þetta að stuðla að hvoru tveggja, að koma í veg fyrir að menn séu skráðir í tveimur löndum og geti því misnotað réttindi sín og að koma í veg fyrir að menn séu réttindalausir í þessum efnum af því þeir eru hvergi skráðir. Loks má benda á að menn eiga kosningarrétt við kosningar til Alþingis og við forsetakjör ef þeir hafa átt lögheimili hér á landi á síðustu átta árum, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag og raunar lengur ef þeir sækja um það sérstaklega.
    Í þriðja lagi er lagt til í 3. mgr. 9. gr. að ákvæði 1. og 2. mgr. um að þeir sem eru við nám eða vegna veikinda erlendis geti talið lögheimili sitt áfram hér á landi, og að íslenskir starfsmenn sendiráða erlendis eigi lögheimili hér á landi, gildi einnig um skyldulið þessara manna sem dvelst með þeim erlendis. Slík ákvæði eru ekki í gildandi lögum en rétt þykir að taka þau upp til að taka af tvímæli í þessum efnum. Í reynd hefur framkvæmdin verið með þeim hætti, sem hér er lagt til að beinlínis verði kveðið á um, og er því ekki um efnisbreytingu að ræða.
    Í 9. gr. núgildandi laga er kveðið svo á um að þeim „sem eru erlendis í heimsókn hjá venslafólki sínu um lengri eða skemmri tíma“ sé heimilt að telja lögheimili sitt hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir slíku ákvæði í þessu frumvarpi. Samkvæmt frumvarpinu er lögheimili tengt fastri búsetu. „Heimsóknir“ til ættingja í útlöndum breyta augljóslega ekki fastri búsetu og því er núgildandi ákvæði óþarft. Setjist menn hins vegar að hjá ættingjum í útlöndum felst í því breyting á búsetu og þar með á lögheimili.

Um 10. gr.


    Þessi grein er samhljóða 12. gr. gildandi laga.
    Rétt er að benda á að lagt er til að niður falli núgildandi 13. gr. um skyldu Þjóðskrár til að gefa út íbúaskrár, enda eru um það efni bein fyrirmæli í lögum um Þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.

Um 11. gr.


    Þessi grein er efnislega samhljóða 14. gr. gildandi laga. Í því sambandi má benda á að á síðasta Alþingi voru samþykkt lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, er taka gildi 1. júlí 1992. Af því tilefni vinnur réttarfarsnefnd nú að endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar og þar á meðal laga um meðferð opinberra mála. Af þeim sökum þykir rétt að bíða með að endurskoða þetta ákvæði lögheimilislaga.

Um 12. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 1990 en í því felst að nægur tími ætti að gefast til undirbúnings og kynningar frá samþykkt laganna til gildistöku þeirra.Fylgiskjal I.


Samningur


milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar


um almannaskráningu.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar hafa, til þess að auðvelda almannaskráningu í aðildarlöndunum, komið sér saman um eftirfarandi:

1. gr.

    Samningur þessi tekur til einstaklinga sem skráðir eru sem búsettir í einu aðildarlandi og hafa í hyggju að flytja, eða hafa þegar flutt, til einhvers hinna landanna. Skemmri dvöl en 6 mánaða telst, að öðru jöfnu, ekki jafngilda flutningi.

2. gr.

    1. Sá sem áformar að flytja frá einu aðildarlandi til annars skal tilkynna það hlutaðeigandi skráningaryfirvaldi (skráningarstofu) á hverjum stað í því landi sem flutt er frá.
    Skráningarstofan skal þegar afhenda þeim er flytur samnorrænt flutningsvottorð með viðfestu eyðublaði fyrir staðfestingu á flutningi. Flutningsvottorð gildir í 3 mánuði frá útgáfudegi.
    2. Sá sem hefur flutt frá einu aðildarlandi og tekið sér búsetu í öðru eftir komu þangað skal tilkynna hlutaðeigandi skráningarstofu flutninginn fyrir lok þess frests sem gildir um afhendingu flutningstilkynninga í viðkomandi landi. Hann skal jafnframt afhenda flutningsvottorð það sem um ræðir í 1. tölul. þessarar greinar ásamt staðfestingareyðublaði. Hafi hann ekki flutningsvottorð skal skráningarstofan afla þess sjálf frá viðkomandi skráningarstofu í brottflutningslandinu. Vottorð skal senda um hæl, þannig að það berist skráningarstofunni í innflutningslandinu eigi síðar en 14 dögum eftir að um það var beðið.
    3. Skráningarstofan í innflutningslandinu ákveður hvort sá sem flytur skuli tekinn á skrá með búsetu í því landi.
    Slík skráning getur aðeins farið fram á grundvelli flutningsvottorðs. Um leið og skráning hefur átt sér stað ber að tilkynna hana hlutaðeigandi skráningarstofu í brottflutningslandinu. Nota skal samnorræna flutningsstaðfestingu til þeirrar tilkynningar.
    Telji hlutaðeigandi skráningarstofa, að ástæða sé til að ætla að sá sem tilkynnt hefur flutning til hennar skuli að réttu teljast búsettur í öðru umdæmi innflutningslandsins, skal vísa honum til skráningarstofu þess umdæmis. Jafnframt fær hann aftur í hendur flutningsvottorðið með áritaðri athugasemd um þetta.
    Telji skráningarstofa að sá sem hefur afhent henni flutningsvottorð geti ekki talist búsettur í umdæminu og ekki er heldur um að ræða það tilvik, er um ræðir í næstu málsgrein hér á undan, skal rita um þetta athugasemd á eyðublaðið fyrir staðfestingu á flutningi. Þeim sem flytur skal jafnframt tilkynnt þetta. Skráningarstofan heldur eftir flutningsvottorðinu, en staðfestingareyðublaðið skal endursenda tafarlaust þeirri skráningarstofu sem gaf út flutningsvottorðið.
    Skráningarstofa í brottflutningslandi skal ekki taka brottfluttan einstakling af skrá fyrr en henni hefur borist staðfesting á flutningi hans. Dagsetning brottflutnings skal ráðast af skráningardegi í innflutningslandinu.
    4. Hafi hlutaðeigandi skráningarstofa í brottflutningslandinu ekki fengið staðfestingu á flutningi að liðnum einum mánuði frá tilgreindum flutningsdegi skal hún snúa sér beint til hlutaðeigandi skráningarstofu innflutningslandsins til að afla þeirra upplýsinga sem þörf er á vegna skráningarinnar. Sama gildir þegar skráningarstofa hefur ástæðu til að ætla að einstaklingur á skrá hennar hafi flutt til annars aðildarlands.

3. gr.

    Ákvörðun um það, hvort einstaklingur skuli talinn búsettur í innflutningslandinu, skal tekin á grundvelli laga þess lands.
    Fallist skráningarstofa brottflutningslands ekki á tiltekna skráningu getur hún vakið máls á því við hlutaðeigandi skráningarstofu í innflutningslandinu. Verði ekki samkomulag milli þeirra getur hin fyrrnefnda skotið málinu til eigin þjóðskráryfirvalda, en þau lagt það fyrir þjóðskráryfirvöld innflutningslandsins.
    Innflutningsland telst það land sem viðkomandi einstaklingur hefur tekið sér búsetu í eftir flutning frá öðru landi. Þetta gildir svo lengi sem ekki verður breyting á raunverulegri búsetu hlutaðeigandi frá því sem var þegar hann flutti.

4. gr.

    Aðildarríkin skuldbinda sig gagnkvæmt til að láta í té þær upplýsingar sem taldar eru nauðsynlegar til að unnt sé að taka afstöðu til búsetumála, svo og til að tilkynna þær ákvarðanir sem teknar eru í þeim málum.

5. gr.

    Skráningarstofa telst í þessum samningi:
    í Danmörku skráningarstofa hvers umdæmis,
    í Finnlandi skráningarstofa hvers umdæmis,
    á Íslandi Þjóðskráin,
    í Noregi skráningarstofa hvers umdæmis,
    í Svíþjóð sóknarskrifstofur (í Stokkhólmi og Gautaborg þó skattstofur). Frá 1. júlí 1991 skattstofa hvers umdæmis.

6. gr.

    Á eyðublaði samnorræns flutningsvottorðs og flutningsstaðfestingar skulu vera upplýsingar um: 1. brottflutningsland, 2. sveitarfélag, 3. heimilisfang, 4. innflutningsland, 5. sveitarfélag, 6. heimilisfang, 7. tilgreindan flutningsdag, 8. nafn, 9. barn hvers, 10. maki hvers, 11. kyn, 12. fæðingardag, -mánuð og -ár, 13. fæðingarstað, 14. hjúskaparstétt og dagsetningu, 15. ríkisfang, 16. hvort viðkomandi hafi áður verið búsettur í innflutningslandinu, 17. ef við á, nafn og fæðingardag maka sem ekki er getið um á vottorðinu, 18. ef við á, nöfn og fæðingardaga foreldra (barna undir 18 ára aldri) sem ekki er getið um á vottorðinu, 19. athugasemdir. Á flutningsvottorðinu skulu enn fremur vera útgáfudagsetning vottorðsins, stimpill og undirskrift, skráður innflutningsdagur, svo og afhendingarfrestur flutningstilkynninga í hverju einstöku aðildarlandi.
    Form og innihald eyðublaða flutningsvottorðs og flutningsstaðfestingar skal vera hið sama í öllum löndunum, en á máli hvers lands fyrir sig. þjóðskráryfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa samráð um gerð eyðublaðanna.

7. gr.

    Samningurinn öðlast gildi frá næstkomandi 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí eða 1. október, þremur mánuðum eftir þann dag er allir samningsaðilar hafa tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu að þeir hafi samþykkt hann.
    Að því er varðar Færeyjar og Grænland öðlast samningurinn þó fyrst gildi næstkomandi 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí eða 1. október, þremur mánuðum eftir að ríkisstjórn Danmerkur hefur tilkynnt norska utanríkisráðuneytinu að viðeigandi skilyrði hafi verið uppfyllt.
    Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku ofangreindra tilkynninga og gildistöku samningsins.

8. gr.

    Við gildistöku samnings þessa fellur úr gildi Norðurlandasamningur frá 5. desember 1968 um almannaskráningu.

9. gr.

    Hver samningsaðili getur gagnvart hverjum öðrum aðila að samningi þessum sagt honum upp með sex mánaða fyrirvara til brottfalls 1. janúar eða 1. júlí.
Skal honum sagt upp með skriflegri tilkynningu til viðkomandi samningsaðila og norska utanríkisráðuneytisins sem tilkynnir öðrum samningsaðilum um móttöku tilkynningarinnar og um efni hennar.

10. gr.

    Frumrit samningsins skal varðveitt í norska utanríkisráðuneytinu sem sendir öðrum samningsaðilum staðfest afrit af því.
    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar, sem til þess höfðu fullt umboð, undirritað samning þennan.
    Gjört í Reykjavík hinn 8. maí 1989 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku, og skulu allir textar jafngildir.

Fyrir ríkisstjórn Danmerkur:


Thor Pedersen


Fyrir ríkisstjórn Finnlands:


Erik Heinrichs


Fyrir ríkisstjórn Íslands:


Jón Sigurðsson


Fyrir ríkisstjórn Noregs:


Anders Helseth


Fyrir ríkisstjórn Svíþjóðar:


Mats Hellström