Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 51 . mál.


Ed.

181. Nefndarálit



um frv. til l. um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Til viðræðna komu Þorgeir Örlygsson prófessor og Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur, höfundar frumvarpsins, ásamt Stefáni Ólafssyni dósent, forstöðumanni Félagsvísindastofnunar. Einnig óskaði nefndin eftir skriflegri umsögn stjórnar Félagsvísindastofnunar um frumvarpið. Í viðræðum við þessa aðila kom fram að til bóta yrði að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum í 10 liðum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali. Miða þessar breytingartillögur að því að tryggja betur rétt hins skráða, sbr. 1.–7. brtt., kveða á um starfsleyfisskyldu í atvinnuskyni, sbr. 8. brtt., og loks að tryggja nefndinni nauðsynlegan starfskraft. Verður hér á eftir gerð nánari grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar.
    Um 1. brtt.: Í frumvarpinu er lagt til í 4. mgr. 5. gr. að eigi sé heimilt án sérstakrar lagaheimildar að skýra frá upplýsingum um atvik sem eru eldri en fimm ára nema undantekningarákvæði greinarinnar eigi við. Nefndin taldi rétt að stytta þennan frest og leggur til að hann verði fjögur ár.
    Um 2. brtt.: Hér er lagt til að gerð verði breyting á orðalagi 1. mgr. 9. gr. Miðar breytingin að því að taka af öll tvímæli um það að skráður aðili eigi rétt til þess að fá vitneskju um allt það sem um hann hefur verið skráð í viðkomandi skrá og þá í því formi sem þar er.
    Um 3. brtt.: Í fyrsta lagi leggur nefndin til að orðalagi 1. mgr. 12. gr. verði breytt með sama hætti og orðalagi 1. mgr. 9. gr. og í sama tilgangi. Til að treysta rétt hins skráða enn frekar þykir rétt að taka fram að orðið skuli við slíkri beiðni sem fyrst og eigi síðar en innan tveggja vikna, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjögurra vikna fresti.
    Um 4. brtt.: Nefndin leggur til að 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins verði felld brott þar sem hún telur ekki eðlilegt að skráður aðili þurfi að greiða fyrir aðgang að upplýsingum um sjálfan sig og önnur úrræði séu tæk til þess að mæta ósanngjörnum kröfum skráðs aðila um aðgang að upplýsingum, sbr. ákvæði 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins.
    Um 5. brtt.: Til samræmis við 1. brtt. nefndarinnar leggur hún til að sama breyting verði gerð á 2. mgr. 16. gr., þ.e. að miða aldur upplýsinga, sem heimilt er að skrá og miðla, við fjögur ár í stað fimm.
    Um 6. brtt.: Nefndin leggur til að frestur skv. 1. mgr. 18. gr. verði tvær vikur í stað fjögurra og er þar um að ræða sömu breytingu og nefndin lagði til varðandi 1. mgr. 12. gr.
    Um 7. brtt.: Í 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins er við það miðað að ekki megi veita upplýsingar um skuldir manna sem eru lægri en 10.000 kr. Vegna þess hve afdrifaríkt það getur verið fyrir menn að lenda á vanskilaskrám af þessu tagi telur nefndin eðlilegt að hækka viðmiðunarfjárhæðina í 20.000 kr.
    Um 8. brtt.: Nefndin leitaði eftir umsögn Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um frumvarpið. Í umsögn stofnunarinnar kom m.a. fram að hún telur eðlilegt að binda heimildina til þess að annast slíkar kannanir við starfsleyfi. Að höfðu samráði við höfunda frumvarpsins leggur nefndin til að breyting verði gerð á 24. gr. frumvarpsins í þá veru, enda mála sannast að ein viðamesta söfnun persónuupplýsinga hér á landi er framkvæmd með slíkum markaðs- og skoðanakönnunum. Það verður eigi að síður hlutverk tölvunefndar áfram að gæta þess að starfsleyfishafi og aðrir þeir, sem slíkar kannanir annast, fullnægi ætíð skilyrðum laganna. Í þeim tilvikum, þegar slíkar kannanir eru gerðar af starfsleyfishöfum, er við það miðað að þeir sendi tölvunefnd gögn um væntanlega könnun áður en könnun hefst þannig að nefndin geti fyrir fram gengið úr skugga um að fullnægt sé skilyrðum laganna, þar með töldum skilyrðum þeim sem upp eru talin í a–e-liðum 1. mgr. 24. gr.
    Ekki þykir fært að binda heimildina til þess að annast markaðs- og skoðanakannanir við stafsleyfi nema þegar um þá aðila er að ræða sem framkvæma slíkar kannanir í atvinnuskyni fyrir aðra, sbr. ákvæði 1. mgr. brtt. Aðrir þeir, sem hyggjast gera slíkar kannanir, þurfa ekki starfsleyfi heldur nægir að þeir sæki um heimild til tölvunefndar í hverju einstöku tilviki. Tekur ákvæði 2. mgr. brtt. til þeirra tilvika.
     Um 9. brtt.: Í 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins er kveðið á um það að starfsmaður dómsmálaráðuneytisins skuli vera ritari tölvunefndar, svo sem verið hefur frá upphafi. Nefndin telur ekki rétt að binda það í lögum að starfsmaður ráðuneytisins skuli vera ritari nefndarinnar og telur það eðlilegri skipan mála að tölvunefnd sé heimilt að höfðu samráði við dómsmálaráðherra að ráða nefndinni nauðsynlegt starfslið. Nefndin leggur hins vegar á það áherslu að áfram verði leitast við að nýta skrifstofuaðstöðu sem þegar er fyrir hendi með sama hætti og gert hefur verið. Verkefni tölvunefndar kunna að vera misjafnlega umfangsmikil frá einum tíma til annars og miðar þessi breytingartillaga að því að tryggja nefndinni jafnan þann starfskraft sem nauðsynlegur er til þess að sinna starfsskyldum hennar eftir því sem fjárveitingar leyfa.
     Um 10. brtt.: Til samræmis við 8. brtt. er nauðsynlegt að bæta 24. gr. við upptalninguna í 1. mgr. 38. gr.

Alþingi, 20. nóv. 1989.



Jón Helgason,


Guðmundur Ágústsson,


Jóhann Einvarðsson.


form., frsm.


fundaskr.


Ey. Kon. Jónsson.


Salome Þorkelsdóttir.


Skúli Alexandersson.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.