Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 167 . mál.


Ed.

189. Frumvarp til laga



um Námsgagnastofnum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Hlutverk Námsgagnastofnunar er að sjá grunnskólum fyrir sem bestum og fullkomnustum náms- og kennslugögnum. Uppeldis- og kennslufræðileg markmið Námsgagnastofnunar eru í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámsskrá.
    Heimilt er að fela Námsgagnastofnun að annast verkefni, hliðstæð þeim sem tilgreind eru í lögum þessum, fyrir framhaldsskóla.
    Stofnunin skal hafa samstarf við þá aðila sem vinna að stefnumörkun, rannsóknum og þróunarverkefnum í skólastarfi og menntun kennara.
    Námsgagnastofnun heyrir undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.

    Menntamálaráðherra skipar til þriggja ára í senn níu manna námsgagnastjórn og jafnmarga til vara:
a.    fjóra fulltrúa tilnefnda af Bandalagi kennarafélaga og skulu tveir þeirra starfa á grunnskólastigi,
b.    einn fulltrúa tilnefndan af Kennaraháskóla Íslands,
c.    einn fulltrúa tilnefndan af Háskóla Íslands,
d.    einn fulltrúa tilnefndan af foreldrafélagi,
e.    einn fulltrúa tilnefndan af fræðslustjórum,
f.    einn fulltrúa tilnefndan af menntamálaráðherra.
    Menntamálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna og ákveður laun stjórnarinnar.

3. gr.


    Námsgagnastofnun gerir fjárhags- og framkvæmdaáætlanir til allt að fimm ára. Námsgagnastjórn staðfestir áætlanir og fylgist með framkvæmd þeirra. Námsgagnastjórn ber ábyrgð á starfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar og ræður starfslið hennar að fengnum tillögum forstjóra, sbr. þó 4. gr. laga þessara.

4. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn að fengnum tillögum námsgagnastjórnar. Hann á sæti á fundum stjórnarinnar með málfrelsi og tillögurétt og sér um framkvæmd á ákvörðunum hennar. Forstjóri annast daglega stjórn og fjárreiður stofnunarinnar.

5. gr.

    Starfsemi Námsgagnastofnunar skiptist í deildir í samræmi við verkefni hennar, sbr. ákvæði í reglugerð.
    Verkefni stofnunarinnar eru í megindráttum þessi:
    Stofnunin annast gerð útgáfu, framleiðslu og dreifingu á náms- og kennslugögnum miðað við íslenskar þarfir og aðstæður. Hún kaupir og framleiðir fræðslumyndir eða er aðili að gerð þeirra.
    Stofnunin annast kynningar- og fræðslustarfsemi fyrir skóla um námsgögn og kennslutæki.
    Hún kaupir, selur og dreifir náms- og kennslugögnum frá öðrum aðilum.
    Stofnunin hefur með höndum þróun námsgagna, kannanir og rannsóknir á gerð þeirra og notkun.
    Námsgagnastofnun er heimilt að hafa þau náms- og kennslugögn, sem hún framleiðir, til sölu á frjálsum markaði.

6. gr.

    Nemendur í skyldunámi skulu fá ókeypis námsgögn til eignar eða afnota samkvæmt ákvörðun námsgagnastjórnar.
    Námsgagnastofnun sér um að námsgögn berist skólum á tilskyldum tíma samkvæmt gildandi úthlutunarreglum sem námsgagnastjórn setur.
    Afgreiðsla og uppgjör miðast við fjölda nemenda í hverjum aldursflokki samkvæmt opinberum skýrslum.

7. gr.

    Kostnaður við starfsemi Námsgagnastofnunar greiðist úr ríkissjóði og af eigin tekjum stofnunarinnar sem eingöngu má verja í þágu þeirra verkefna sem þessi lög mæla fyrir um.

8. gr.

    Námsgögn sem stofnunin framleiðir eða útvegar grunnskólum skulu vera sem vönduðust að innihaldi og útliti og uppfylla almenn skilyrði grunnskólalaga og aðalnámsskrár. Vafamálum geta aðilar, sem hlut eiga að máli, skotið til úrskurðar menntamálaráðuneytisins. Ráðuneytið setur nánari reglur um meðferð slíkra mála.

9. gr.

    Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um lög þessi og framkvæmd þeirra.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Jafnframt falla úr gildi lög nr. 45/1979, um Námsgagnastofnun.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er að stofni til samhljóða gildandi lögum um Námsgagnastofnun, nr. 45/1979. Það miðar fyrst og fremst að því að laga löggjöf um stofnunina að þeirri þróun sem orðið hefur í námsefnisútgáfu og námsgagnagerð á síðustu tíu árum. Verði frumvarpið að lögum er rennt styrkari stoðum undir starfsemi Námsgagnastofnunar sem auðveldar henni að gegna því hlutverki að sjá grunnskólum fyrir sem bestum náms- og kennslugögnum.
    Í janúar sl. skipaði menntamálaráðherra nefnd til að fjalla um Námsgagnastofnun. Í nefndinni áttu sæti: Ásgeir Guðmundsson námsgagnastjóri og Sylvía Guðmundsdóttir sérkennslufulltrúi, tilnefnd af Námsgagnastofnun, Birna Sigurjónsdóttir yfirkennari og Gunnlaugur Ástgeirsson kennari, tilnefnd af Bandalagi kennarafélaga, Maríanna Jónasdóttir viðskiptafræðingur, tilnefnd af fjármálaráðherra, Hrólfur Kjartansson deildarstjóri og Gerður G. Óskarsdóttir, ráðunautur menntamálaráðherra, bæði frá menntamálaráðuneytinu, og var Gerður G. Óskarsdóttir formaður nefndarinnar.
    Nefndinni var m.a. falið að meta starfsemi stofnunarinnar, yfirfara lög um Námsgagnastofnun, nr. 45/1979, og reglugerð og gera tillögur um breytingar á þeim á grundvelli matsins.
    Frumvarpið er ein þeirra tillagna sem nefndin setti fram í ítarlegri skýrslu í júni síðastliðnum.
    Meginbreytingarnar frá gildandi lögum um Námsgagnastofnun sem frumvarpið felur í sér eru þessar:
—     Níu manna námsgagnastjórn í stað sjö manna. Fulltrúi tilnefndur af Háskóla Íslands og fulltrúi foreldrafélags bætast við.
—     Forstjóri skipaður til fimm ára í senn.
—     Deildaskipting og skipulag starfseminnar ákveðið í reglugerð.
—     Auknar skyldur stofnunarinnar í þróun námsgagna með könnunum og rannsóknum á gerð þeirra og notkun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í fyrstu málsgrein er vísað til grunnskólalaganna í heild þar sem uppeldis- og kennslufræðileg markmið sem varða Námsgagnastofnun koma víðar fram en 2. gr. grunnskólalaganna. Þá er vísað til aðalnámsskrár grunnskóla sem m.a. felur í sér viðmiðanir um námsefni, viðfangsefni nemenda og námsgögn.
    Felld er niður heimild um að Námsgagnastofnun annist alhliða þjónustu fyrir skóla- og almenningsbókasöfn.
    Á undanförnum árum hafa verið starfandi tvær þjónustumiðstöðvar fyrir bókasöfn annars vegar Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, sem starfar á vegum Skólaskrifstofu Reykjavíkur og hins vegar Þjónustumiðstöð bókasafna sem er sjálfseignarstofnun sem starfar á vegum Bókavarðafélags Íslands og Félag bókasafnsfræðinga. Skólasafnamiðstöð í Reykjavík þjónar eingöngu skólasöfnum í skólum borgarinnar og nokkuð er um að skólar leiti til Þjónustumiðstöðvar bókasafna.
    Gert er ráð fyrir að fræðsluskrifstofur aðstoði skólasöfn við skráningu og öflun gagna. Kemur þetta m.a. fram í frumvarpi til laga um grunnskóla og í tillögum nefndar um kennslugagnamiðstöðvar við fræðsluskrifstofur sem nýlega skilaði niðurstöðum sínum.
    Mikilvægt er að fram fari athugun á því hvort ekki væri hagkvæmt að koma skráningu bóka á einn stað á landinu. Því er ekki talin ástæða að byggja upp og veita umrædda þjónustu í Námsgagnastofnun þar sem hún tengist ekki beinlínis starfsemi stofnunarinnar.
    Efnisatriði í 2. gr. gildandi laga eru felld inn í 3. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 5. gr.

Um 2. gr.


    Meginbreytingar á skipan stjórnar eru tvær. Það er fjölgað í stjórninni um tvo fulltrúa og skipunartími er styttur um eitt ár.
    Í stað þess að hin ýmsu félög skólamanna tilnefni í stjórn er gert ráð fyrir að Bandalag kennarafélaga sem er samstarfsvettvangur kennarasamtakanna tilnefni fjóra fulltrúa í stjórnina.
    Þá er bætt við tveimur fulltrúum í stjórnina annars vegar frá Háskóla Íslands og hins vegar frá foreldrafélagi.
    Kennaranám fer víðar fram en í Kennaraháskóla Íslands og m.a. er kennaranám við Háskóla Íslands orðið fjölbreyttara en áður var og umfjöllun um námsefni orðin þar fastur liður. Með breytingum á námi í uppeldisfræði, t.d. með tilkomu náms til meistaragráðu má búast við að meiri áhersla verði lögð á umfjöllun um námsefni en nú er gert. Með hliðsjón af þessu og 2. mgr. 1. gr. er lagt til að Háskóli Íslands eigi einn fulltrúa í stjórn. Ekki er óeðlilegt að kennaramenntunarnefnd Háskóla Íslands tilnefni þann fulltrúa.
    Talið er mikilvægt að foreldrar eigi fulltrúa í námsgagnastjórn.
    Heildarsamtök foreldrafélaga eru ekki til hér á landi en algengt er að foreldrafélög séu starfandi við einstaka skóla. Í Reykjavík hafa foreldrafélög bundist samtökum – SAMFOK – samtök foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík. Ekki er eðlilegt að samtök foreldra í einu fræðsluumdæmi tilnefni fulltrúa í stjórnina. Á meðan landssamtök foreldrafélaga eru ekki til er gert ráð fyrir að valið verði foreldrafélag sem tilnefni fulltrúa í stjórn og verði það í hendi ráðherra fyrst um sinn til hvaða félags verði leitað.

Um 3. gr.


    Gert er ráð fyrir að stofnunin geri áætlanir til allt að fimm ára er síðan verði staðfestar af námsgagnastjórn. Í 8. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir að stjórnin geri framkvæmdaáætlanir. Í frumvarpinu er reiknað með að þær áætlanir séu unnar af starfsmönnum stofnunarinnar en stjórnin staðfesti þær.
    Með breytingunni er í raun verið að staðfesta starfsvenjur í stofnuninni sem gefist hafa vel.

Um 4. gr.


    Við ráðningar yfirmanna að opinberum stofnunum hefur víða verið tekin upp sú stefna að ráða þá til ákveðins árafjölda. Lög margra stofnana hafa verið endurskoðuð og í flestum tilvikum hefur reglum um ráðningartíma yfirmanna verið breytt. Hér er farin sú leið sem algeng er. Þá er embættisheiti yfirmanns breytt með tilliti til þess að í Námsgagnastofnun er unnið að fjölmörgum öðrum verkefnum, og nafnið auk þess óþjált í notkun.

Um 5. gr.


    Ekki þykir ástæða til að tilgreina nákvæmlega í lögum um skipan stofnunarinnar í deildir eða að tilgreina nákvæmlega hvaða verkefni eru í hverri deild. Í greininni eru tilgreind öll meginverkefni stofnunarinnar og tekið tillit til starfseminnar hin síðari ár. Hér er gert ráð fyrir að stofnunin geti keypt, selt og dreift gögnum frá öðrum framleiðendum. Í greininni er gert ráð fyrir að stofnunin annist þróun námsgagna, kannanir og rannsóknir á gerð og notkun þeirra og er hér um nýmæli að ræða. Mikilvægt er að þessi verkefni haldist í hendur við meginverkefni stofnunarinnar.
    Gert er ráð fyrir að nákvæmari útfærsla á starfseminni, deildaskipting og verksvið deilda, verði sett í reglugerð.

Um 6. gr.


    Breytingar eru gerðar með hliðsjón af starfsvenjum og reynslu síðustu ára. Öll meginatriði greinarinnar eru óbreytt frá gildandi lögum.

Um 7. gr.


    Óbreytt ákvæði 1. mgr. 8. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. eru ítrekaðar viðmiðanir sem er að finna í grunnskólalögum og aðalnámsskrá og stofnuninni er skylt að hafa að leiðarljósi sbr. 1. gr. Gert er ráð fyrir að ágreinings- og álitamálum sem upp kunna að koma verði skotið til menntamálaráðuneytisins.
    Fellt er út heimildarákvæði í 9. gr. gildandi laga til handa skólum um notkun á námsgögnum og um veitingu viðurkenninga ráðuneytisins á námsefni frá öðrum útgefendum. Eðlilegra er að ákvæði um þessi atriði standi í grunnskólalögum.

Um 9. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

    10. gr. gildandi laga er felld brott. Varðveisla gamalla skólagagna er þýðingarmikið verkefni sem tryggja verður einhvern ákveðinn farveg til frambúðar, t.d. í samvinnu Þjóðminjasafns og byggðasafna.
    Í Námsgagnastofnun hefur ekki verið unnið að varðveislu gamalla skólagagna enda engin sérstök fjárveiting veitt til þess verkefnis. Þá er húsnæði til slíks safns ekki fyrir hendi í stofnuninni.
    Stofnunin hefur varðveitt flestar útgáfur sínar frá upphafi og afgreitt til Landsbókasafnsins samkvæmt reglum þar um.