Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 210 . mál.


Nd.

247. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 30. gr.:
a.    Í stað „90.000“ og „180.000“ í 1. málsl. 2. tölul. B-liðar 1. mgr. komi: 108.000 og 216.000.
b.    Í stað „72.000“ og „144.000“ í 2. málsl. 4. tölul. B-liðar 1. mgr. komi: 100.000 og 200.000.
c.    Í stað „15.400.000“ og „30.800.000“ í 3. málsl. 2. mgr. komi: 18.200.000 og 36.400.000.

2. gr.


    Í stað „82.600“ í 41. gr. komi: 100.000.

3. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 67. gr. orðist svo:
    Af tekjuskattsstofni reiknast 32,8%.

4. gr.

    Í stað „214.104“ í 1. mgr. A-liðar 68. gr. komi: 250.200.

5. gr.

    Í stað „492“ í 1. mgr. B-liðar 68. gr. komi: 575.

6. gr.

    Í stað „21.568“, „32.353“ og „64.705“ í A-lið 69. gr. komi: 25.204, 37.807 og 75.614.

7. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á B-lið 69. gr.:
a.    Í stað „51.224“ í 2. mgr. komi: 59.860.
b.    Í stað „825.000“ og „550.000“ í 3. mgr. komi: 920.000 og 613.000.
c.    Í stað „2.850.000“ og „4.275.000“ í 4. mgr. komi: 3.280.000 og 4.920.000.

8. gr.


    Í stað 2. og 3. mgr. C-liðar 69. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 79/1989, komi þrjár nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Vaxtabætur skal ákvarða þannig að frá vaxtagjöldum, eins og þau eru skilgreind í 3. mgr., skal draga fjárhæð er svarar til 6% af tekjuskattsstofni eins og hann er skilgreindur í 62. gr. Sé um hjón eða sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr., að ræða skal framangreint hlutfall reiknast af samanlögðum tekjuskattsstofni þeirra beggja. Þannig ákvarðaðar vaxtabætur einstaklings skerðast hlutfallslega fari eignir hans skv. 73. gr., að frádregnum skuldum skv. 76. gr., fram úr 2.500.000 kr. uns þær falla niður við tvöfalt hærri mörk. Vaxtabætur hjóna eða sambýlisfólks skerðast með sama hætti fari samanlagðar eignir þeirra skv. 73. gr., að frádregnum skuldum skv. 76. gr., fram úr 4.150.000 kr. uns þær falla niður við tvöfalt hærri mörk. Jákvæður mismunur telst vera vaxtabætur. Vaxtabætur geta þó aldrei orðið hærri en 107.000 kr. fyrir hvern mann, 140.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 174.000 kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 63. gr. Vaxtabætur greiðast út eigi síðar en 1. sept. ár hvert að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs og eignir í lok þess sama árs. Vaxtabætur, sem eru lægri en 500 kr. á mann, falla niður.
    Vaxtabætur skv. 2. mgr. miðast við fjárhæð vaxtagjalda hjá hverjum framteljanda. Vaxtagjöld samkvæmt þessari málsgrein geta aldrei verið hærri en 400.000 kr. hjá einstaklingi, 525.000 kr. hjá einstæðu foreldri, en 650.000 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Til vaxtagjalda í þessu sambandi teljast:
1.     Vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 1., 2. og 4. tölul. 51. gr. að því marki sem þau eru umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr., enda séu gjöld þessi vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða lána við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára, enda séu lánin sannanlega notuð til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Til vaxtagjalda sem verðbætur og gengistöp teljast í þessu sambandi aðeins gjaldfallnar verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti. Með eigin notum er átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum.
2.     Vaxtagjöld umfram vaxtatekjur skv. 3.–5. tölul. 1. mgr. 8. gr. vegna annarra lána en um ræðir í 1. tölul., enda er einungis heimilt að telja þau með á næstu fjórum árum talið frá og með kaupári ef um er að ræða kaup á íbúð til eigin nota, sbr. 1. tölul. Sé um nýbyggingu að ræða er heimilt að telja þau með á næstu sjö árum talið frá og með því ári þegar bygging hefst, eða til og með því ári sem húsnæðið er tekið til íbúðar ef það er síðar.
    Hvorki teljast til vaxtagjalda hjá seljanda áfallnar uppsafnaðar verðbætur af lánum sem kaupandi yfirtekur við sölu íbúðar né heldur uppsafnaðar áfallnar verðbætur á lán skuldara sem hann greiðir á lánstíma umfram ákvæði viðkomandi skuldabréfs.
    Ef annað hjóna, sem rétt eiga á vaxtabótum, fellur frá skal ákvarða eftirlifandi maka, sem situr í óskiptu búi, vaxtabætur eins og um hjón væri að ræða næstu fimm ár eftir lát maka.

9. gr.


    Eftirfarandi breytingar verði á 78. gr.:
a.    Í stað „900.000“ og „1.800.000“ komi: 1.080.000 og 2.160.000.
b.    Við greinina bætist ný málsgrein svohljóðandi:
         Auk heimildar í 1. mgr. er mönnum heimilt að draga frá eignum sínum, sbr. 73. gr., markaðsverðbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins svo og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða, sbr. lög nr. 20/1989, þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

10. gr.


    83. gr. laganna orðist svo:
    Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 2.875.000 kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af eignarskattsstofni yfir 2.875.000 kr. greiðist 1,2%. Af eignarskattsstofni yfir 8.050.000 kr. greiðist að auki 0,75%, þó þannig að hjá þeim sem hafa tekjuskattsstofn undir 1.680.000 kr. skal lækka reiknaðan eignarskatt samkvæmt þessum málslið, hlutfallslega þannig að hann falli að fullu niður ef tekjuskattsstofn er undir 840.000 kr.

11. gr.

    89. gr. laganna orðist svo:
    Ríkisskattanefnd skal vera óháður úrskurðaraðili í ágreiningsmálum um ákvörðun skattstofna og skatta samkvæmt lögum þessum eins og nánar er kveðið á um í þeim. Hefur nefndin aðsetur í Reykjavík.
    Ríkisskattanefnd ákveður sektir við brotum á lögum þessum skv. 107. og 108. gr.
    Ríkisskattanefnd skal úrskurða kærur um gjöld sem skattstjórar leggja á samkvæmt ákvæðum annarra laga og ákveða sektir skv. 31. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, 41. gr. laga um virðisaukaskatt og 26. gr. laga um söluskatt. Ríkisskattstjóri skal koma fram gagnvart ríkisskattanefnd fyrir hönd gjaldkrefjenda, en við ákvörðun sekta kemur skattrannsóknarstjóri fram af hálfu hins opinbera. Ákvæði 100. gr. gilda um alla málsmeðferð fyrir ríkisskattanefnd eftir því sem við á.
    Fjármálaráðherra skipar fimm menn í ríkisskattanefnd. Allir nefndarmenn skulu hafa nefndarstörfin að aðalstarfi og fer um heimild þeirra til að gegna öðrum störfum eftir 2. mgr. 34. gr. laga nr. 38/1954. Fjármálaráðherra skipar einn þessara manna formann nefndarinnar og annan varaformann. Báðir skulu þeir fullnægja skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Aðrir nefndarmenn skulu fullnægja skilyrðum sem sett eru í 86. gr. um embættisgengi skattstjóra. Um skipunartíma fer eftir almennum reglum um skipun opinberra starfsmanna, sbr. 4. gr. laga nr. 38/1954.
    Í hverju máli skulu þrír nefndarmenn úrskurða eftir nánari ákvörðun formanns nefndarinnar. Ætíð skal annaðhvort formaður eða varaformaður taka þátt í úrlausn hvers máls. Eigi má nefndarmaður taka þátt í meðferð máls ef honum bæri að víkja sæti í því sem dómari samkvæmt lögum um meðferð einkamála í héraði.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 100. gr. laganna:
a.    1. mgr. 100. gr. laganna orðist svo:
         Heimilt er skattaðila að skjóta úrskurði skattstjóra skv. 99. gr. til ríkisskattanefndar. Kærufrestur skattaðila til ríkisskattanefndar skal vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra.
b. 3. mgr. 100. gr. orðist svo:
         Kærur skulu vera skriflegar og studdar nauðsynlegum gögnum. Ef ríkisskattanefnd telur gögn ófullnægjandi, mál ekki nægilega upplýst eða kæru vanreifaða skal hún tilkynna málsaðilum um slíkt áður en hún kveður upp úrskurð í málinu og veita málsaðilum færi á að koma að viðbótargögnum, greinargerð og skýringum innan þess tíma sem nefndin ákveður.
c.    7. mgr. 100. gr. falli niður.
d.    8. mgr. 100. gr. verði 7. mgr. 100. gr.
e.    9. mgr. 100 gr., er verði 8. mgr. 100. gr., hljóði svo:
         Ríkisskattanefnd skal hafa lagt efnisúrskurð á allar kærur þremur mánuðum eftir að þær bárust nefndinni. Úrskurðir nefndarinnar skulu ítarlega rökstuddir og í forsendum þeirra skal koma skýrt fram á hvaða kæruatriðum og skattheimildum skattstofn og álagning er byggð.
f.    10. mgr. verði 9. mgr. og 11. mgr. verði 10. mgr.
g.    12. mgr. 100. gr. falli niður.

13. gr.


    1. og 2. mgr. 121. gr. laganna orðist svo:
    Fjárhæðir, sem um ræðir í 68. gr., A-lið 69. gr., 2. mgr. B-liðar 69. gr. og hámarksfjárhæð vaxtabóta skv. 6. málsl. 2. mgr. C-liðar 69. gr., skulu 1. júlí á staðgreiðsluári taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. des. næstan á undan staðgreiðsluári og lánskjaravísitölu sem er í gildi 1. júní á staðgreiðsluári.
    Fjárhæðir þær, sem um ræðir í 1. mgr., skulu breytast í fyrsta sinn 1. júlí 1990 í samræmi við mismun sem verður á lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. des. 1989, þ.e. 2,722 stig, og þeirrar sem í gildi verður 1. júní 1990.

14. gr.

    Í stað „1990“ í 122. gr. komi: 1991.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. jan. 1990 og gilda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1990 og við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1991. Jafnframt falla úr gildi frá og með sama tíma lög nr. 7/1974, um skattalega meðferð verðbréfa o.fl., sem ríkissjóður selur innan lands og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 79/1983, um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs.
    Þó skulu ákvæði 1. gr., 2. gr., 7. gr., 8. gr., 9. gr., 10. gr. og 13. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts og ákvörðun bóta á árinu 1990 vegna tekna á árinu 1989 og eigna í lok þess árs.
    Ákvæði 11. og 12. gr. taka gildi 1. júní 1990 og skal þá nýskipuð ríkisskattanefnd samkvæmt lögum þessum taka við öllum óloknum málum fráfarandi nefndar.

Ákvæði til bráðabirgða I.



    Húsnæðisbætur, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 79/1989, skulu vera 53.400 kr. miðað við lánskjaravísitölu sem í gildi er 1. des. 1989, þ.e. 2,722 stig.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir margvíslegum breytingum á gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þessar breytingar þarf að skoða í samhengi við ýmsa aðra þætti skattkerfisins sem nú eru í endurskoðun.
    Þar ber hæst gildistöku virðisaukaskattsins nú um áramótin, en sú breyting er einhver umfangsmesta skattkerfisbreyting sem hér hefur verið framkvæmd. Næsta verkefni er skattlagning fjármagnstekna sem verið hefur í undirbúningi og verður frumvarp um það mál lagt fram á Alþingi eftir áramótin. Þriðja stóra verkefnið er endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja sem unnið verður að á næsta ári.
    Þannig tengjast fyrirhugaðar breytingar á tekjusköttum einstaklinga gildistöku virðisaukaskattsins á þann hátt að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til að virðisaukaskattur skuli vera 24,5%, 0,5% lægri en söluskattur. Þessi ákvörðun veldur því að tekjur af virðisaukaskatti verða 1.900 m.kr. lægri en reiknað var með í forsendum fjárlagafrumvarpsins, en þar var miðað við 26% skatthlutfall. Á móti vega breytingar á tekjuskatti, annars vegar hækkun á tekjuskattshlutfallinu úr 30,8% í 32,8%, hins vegar kemur sérstök hækkun á barnabótum og persónuafslætti.
    Þessar breytingar má skoða í enn víðara samhengi sem viðleitni til þess að draga úr skattlagningu á almennum neysluvörum heimilanna. Samsetning skatta hér á landi er talsvert frábrugðin því sem gengur og gerist víða erlendis. Hér á landi bera óbeinu skattarnir fjóra fimmtu hluta tekjuöflunarinnar en beinir skattar innan við fimmtung. Annars staðar er skiptingin mun jafnari milli beinna og óbeinna skatta, raunar víða nálægt því að vera helmingaskipti.
    Það hefur margsinnis verið á það bent, m.a. af sérfræðingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni í París (OECD), að það væri óheppilegt frá sjónarhóli almennrar hagstjórnar að leggja svona mikið upp úr skattlagningu á neysluvörur. Skynsamlegra væri að færa tekjuöflunina meira yfir á beinu skattana. Slíkt mundi stuðla að meiri stöðugleika í efnahagslífinu.
    Af öðrum breytingum, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, má nefna lækkun eignarskatta um 20% að raungildi frá því sem nú er, endurskoðun á gildandi lögum um vaxtabætur vegna íbúðakaupa, sem einkum miða að því að rýmka rétt þeirra einstaklinga, sem hafa lágar tekjur, á kostnað hinna tekjuhærri. Þá eru heimildarákvæði um frádrátt vegna fjárfestinga í atvinnurekstri rýmkuð, m.a. til þess að stuðla að aukinni eiginfjármyndun fyrirtækja með sölu hlutabréfa. Jafnframt er gert ráð fyrir að skoða þennan þátt enn frekar í tengslum við almenna endurskoðun á skattlagningu fyrirtækja. Enn fremur eru breytingar varðandi skattfrelsi húsbréfa o.fl. Loks eru breytingar á skipun og starfsháttum ríkisskattanefndar.
     Tekjuskattar einstaklinga. Í fjárlagafrumvarpi var gengið út frá þeirri meginforsendu að heildarskattbyrði ríkissjóðstekna yrði svipuð og áætlað er fyrir þetta ár. Þetta sjónarmið var einnig lagt til grundvallar hvað snertir álagningu tekjuskatta á einstaklinga.
    Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja til að virðisaukaskattur skuli vera 24,5%, eða 0,5% lægri en söluskattur hafa þessar forsendur breyst. Þessi ákvörðun þýðir sem fyrr segir að tekjur af virðisaukaskatti verða 1.900 m.kr. minni en reiknað var með í forsendum fjárlagafrumvarpsins. Á móti vega breytingar á tekjuskatti, annars vegar hækkun á tekjuskattshlutfallinu úr 30,8% í 32,8%, hins vegar kemur sérstök hækkun á barnabótum og persónuafslætti.
    Þessi hækkun á tekjuskattshlutfallinu gæti ein sér skilað um 2.800 m.kr. brúttó á næsta ári ef persónuafsláttur og barnabætur hækka ekki sérstaklega. Með þessu væri í reynd verið að lækka skattleysismörkin um tæplega 2.600 kr. á mánuði og þyngja skattbyrðina um næstum því 2% af heildartekjum frá því sem nú er.
    Til þess að koma í veg fyrir þessa aukningu á skattbyrði er gert ráð fyrir að verja um það bil helmingi tekjuaukans, þ.e. um 1.400 m.kr, til þess að hækka persónuafslátt og barnabætur. Þannig er miðað við að persónuafsláttur og barnabætur hækki um tæplega 7 1 / 2 % um áramótin í stað 3 1 / 2 % eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Þar með hækka skattleysismörkin um rúmlega 1.000 kr. á mánuði, úr 51.455 í 52.466 kr.
    Þessar breytingar hafa það í för með sér að skattbyrði tekjulágra barnafjölskyldna lækkar að meðaltali milli áranna 1989 og 1990 þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Raunar kemur þetta yfirleitt þannig út að endurgreiðsla ríkisins til tekjulágra barnafjölskyldna hækkar í krónutölu þar sem þessir aðilar greiða almennt ekki tekjuskatt. Hjá hjónum munar þetta upp undir 1% af tekjum, en hjá einstæðum foreldrum allt upp í 2% og rúmlega það. Þetta kemur fram á fylgiskjölum II og III.
    Heildaráhrifin af þessari tilfærslu frá neyslusköttum yfir í tekjuskatta eru þau að framfærslukostnaður heimilanna verður allt að 1% lægri en annars hefði orðið eftir áramótin. Matvæli lækka enn meira, eða um 2% í heild, en einstök matvæli allt að 8–9%. Skattbyrði tekjuskatta eykst, þegar á heildina er litið, um 0,9% að meðaltali. Þessi hækkun kemur mest við fólk með tiltölulega háar tekjur. Aftur á móti leiðir þessi breyting á tekjusköttum beinlínis til léttari skattbyrði hjá barnafjölskyldum með lágar tekjur miðað við það sem annars hefði orðið.
    Hér á eftir eru sýnd nokkur dæmi um áhrif þessara breytinga á skattgreiðslur nokkurra framteljenda nú um áramótin. Á fylgiskjölum með þessu frumvarpi eru ítarlegri upplýsingar þar sem hvort tveggja er sýnt, breytingin milli janúar og desember annars vegar og meðalbreyting milli ára hins vegar.


(Töflur, ekki til tölvutækar.)



    Eins og sést af þessum dæmum breytist skattbyrði fólks með meðaltekjur lítið sem ekkert milli þessara tveggja mánaða. Hins vegar þyngist skattbyrði hátekjufólks nokkuð. Sama gildir um breytingar á meðalskattbyrði milli ára.
     Eignarskattar einstaklinga. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að í tengslum við upptöku skatts á fjármagnstekjur mundu eignarskattar lækka á næsta ári. Þótt skattlagning fjármagnstekna komi ekki til framkvæmda á næsta ári hefur ríkisstjórnin ákveðið að halda fast við fyrri ákvörðun og lækka eignarskatta á næsta ári.
    Breytingin er tvíþætt. Annars vegar lækkar hærra þrepið í eignarskatti um helming, úr 1,5% eins og það er nú niður í 0,75%. Í þessu felst að skattur á skuldlausa eign yfir 8.050.000 krónur lækkar úr 2,7% í 1,95%. Sérstakur eignarskattsauki til byggingar Þjóðarbókhlöðu breytist ekki frá því sem nú er. Hins vegar er ákveðið að tekjutengja hærra þrepið í eignarskatti. Þannig er gert ráð fyrir að einstaklingur með minna en 70.000 krónur í skattskyldar tekjur á mánuði miðað við núgildandi verðlag fari ekki í hærra þrepið, jafnvel þótt hann eigi skuldlausa eign yfir viðmiðunarmörkunum. Fari tekjurnar yfir 140.000 kr. á mánuði greiði hann hins vegar fullan skatt og hlutfallslega á bilinu 70.000 til 140.000 kr.
    Sem dæmi um áhrif þessarar lækkunar má nefna að eignarskattur einstaklings sem á skuldlausa eign sem nemur 14 m.kr. — en það er meðaleign þeirra einstaklinga, sem lentu í hærra þrepinu í ár — og hefur minna en 70.000 kr. tekjur á mánuði, lækkar um 7.400 kr. á mánuði, eða um 36% að raungildi. Hafi þessi sami einstaklingur 100.000 kr. mánaðarlaun lækkar eignarskattsgreiðslan um 5.200 kr. á mánuði, eða um 25% að raungildi. Hafi hann yfir 140.000 kr. tekjur, lækkar eignarskatturinn um 3.700 kr. á mánuði, eða um 18% að raungildi. Breytingar hjá hjónum eru svipaðar. Í fylgiskjölum með þessu frumvarpi eru sýnd nokkur dæmi um áhrif þessara breytinga á skattgreiðslur einstaklinga og hjóna.
    Á þessum forsendum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eignarskatti einstaklinga lækki um tæplega 300 m.kr. frá því sem þær hefðu orðið að óbreyttum lögum, eða um 20% að raungildi frá þessu ári. Í fylgiskjölum með þessu frumvarpi eru til fróðleiks birtar upplýsingar úr skattframtölum um fjölda þeirra framteljenda sem lentu í hærra þrepi eignarskattsins á þessu ári, meðaltekjur, eignir þeirra o.fl.
     Vaxtabætur. Um næstu áramót taka gildi þau ákvæði tekjuskatts- og eignarskattslaganna sem varða vaxtabætur vegna íbúðakaupa, en lög um vaxtabætur voru samþykkt á Alþingi sl. vor. Samhliða því falla úr gildi ákvæðin um vaxtaafslátt og húsnæðisbætur.
    Þó er rétt að vekja athygli á því að þeir aðilar, sem fengu á árinu 1988 úrskurð um húsnæðisbætur, halda þeim rétti til ársins 1993. Þeim er hins vegar gefinn kostur á að koma inn í vaxtabótakerfið á næsta ári. Jafnframt er ljóst að þótt vaxtaafsláttarkerfið falli úr gildi um áramótin munu þeir aðilar, sem fengu endurgreiðslu samkvæmt því kerfi, flytjast yfir í vaxtabótakerfið svo framarlega sem þeir uppfylla almenn skilyrði þess um tekju- og eignarmörk.
    Í vaxtabótakerfinu felst enn fremur sá ávinningur fyrir húsbyggjendur og íbúðakaupendur að það er ekki takmarkað við tiltekinn árafjölda. Endurgreiðslur samkvæmt vaxtaafsláttar- og húsnæðisbótakerfunum eru hins vegar takmarkaðar við 4–7 ár og falla þá skilyrðislaust niður, óháð því hver vaxtabyrðin er. Þá má nefna að vaxtabætur eru ekki takmarkaðar við þá sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn eins og húsnæðisbætur.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu einkennum hins nýja vaxtabótakerfis svo og þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.
     Megineinkenni vaxtabótakerfisins og helstu frávik frá þeim tveimur kerfum, sem nú eru í gangi, eru eftirfarandi:
1.    Hugsunin á bak við vaxtabótakerfið er í meginatriðum sú sama og í vaxtaafsláttar- og húsnæðisbótakerfinu, þ.e. að létta undir með húsbyggjendum og íbúðakaupendum með einhvers konar endurgreiðslu í gegnum skattkerfið.
2.    Þó er sá grundvallarmunur á þessum kerfum að í vaxtabótakerfinu er jafnframt leitast við að koma til móts við almenn jöfnunarsjónarmið með því að fjárhæð vaxtabóta skerðist í hlutfalli við hækkandi tekjur. Jafnframt fá einstaklingar, sem eiga miklar eignir, skertar vaxtabætur og jafnvel engar.
    Þetta þýðir að fjárhæð vaxtabóta er mjög misjöfn allt eftir vaxtabyrði, tekjum og eignum viðkomandi. Húsnæðisbætur eru hins vegar ákveðnar sem sama krónutala til allra.
3.    Greiðsla vaxtabóta er ekki takmörkuð við tiltekinn árafjölda eins og húsnæðisbótakerfið og vaxtaafsláttarkerfið. Einstaklingar geta því komið til álita um greiðslu vaxtabóta hvenær sem er svo framarlega sem þeir uppfylla önnur skilyrði vaxtabótakerfisins.
4.    Greiðsla vaxtabóta er ekki takmörkuð við þá sem eru að kaupa eða byggja í fyrsta sinn eins og húsnæðisbætur.
5.    Þá er rétt að vekja á því athygli að aðeins þeir einstaklingar koma til greina við endurgreiðslu vaxtabóta sem sannanlega bera vaxtagjöld vegna íbúðakaupa. Þetta er breyting frá því kerfi sem gilt hefur frá árinu 1988, húsnæðisbótakerfinu, en þar geta einstaklingar fengið húsnæðisbætur jafnvel þótt þeir beri engin vaxtagjöld.
    Í stuttu máli þá eru reiknireglurnar fyrir greiðslu vaxtabóta þessar:
a.    Grunnstærð til ákvörðunar vaxtabóta eru frádráttarbær vaxtagjöld samkvæmt skattframtali, þ.e. vextir og verðbætur.
b.    Óskertar vaxtabætur jafngilda vaxtagjöldum einstaklingsins að frádregnu ákveðnu hlutfalli af tekjum, sem í gildandi lögum er 5%, en hækkar samkvæmt þessu frumvarpi í 6% af tekjuskattsstofni.
c.    Vaxtabætur skerðast um ákveðið hlutfall fari skuldlaus eign einstaklings, þ.e. eignir að frádregnum skuldum upp fyrir ákveðin mörk. Meginbreytingin samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi felst í hækkun þessara viðmiðunarmarka, sérstaklega hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum.
d.    Vaxtabætur geta þó ekki orðið hærri en 107.000 kr. hjá einstaklingum, 140 þús. kr. hjá einstæðum foreldrum og 174.000 kr. hjá hjónum. Þessar fjárhæðir miðast við verðlag í desember 1989 og fylgja breytingum á lánskjaravísitölu einu sinni á ári.
e.    Vaxtabætur greiðast út eigi síðar en 1. sept. ár hvert að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld og tekjur ársins á undan og eignir í lok sama ár.
     Fyrirhugaðar breytingar samkvæmt þessu frumvarpi eru þrenns konar. Veigamesta breytingin snýr að hækkun á eignarmörkunum. Sem fyrr segir er eignarstaða einstaklings, þ.e. skuldlaus eign hans, einn meginþátturinn í ákvörðun vaxtabóta.
    Upplýsingar úr skattframtölum ársins 1989 benda til þess að nokkrar breytingar hafi orðið á eignarstöðu framteljenda frá árinu áður, en gildandi lög um vaxtabætur tóku mið af skattframtölum áranna 1987 og 1988. Þannig er meðaleign fjölskyldna nokkru hærri nú en gert hafði verið ráð fyrir þegar eignarmörk laganna voru sett. Þá virðist líka hafa dregið talsvert úr mun á eignarstöðu einstaklinga og einstæðra foreldra annars vegar og hjóna hins vegar undanfarin tvö ár.
    Í ljósi þessara nýju upplýsinga er lagt til að þau eignarmörk, sem áður voru sett, verði hækkuð um 30% að raungildi hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum og um 6–7% hjá hjónum. Samkvæmt tillögunni verður munurinn á eignarmörkum einstaklinga/einstæðra foreldra og hjóna þriðjungi minni en í gildandi lögum þar sem hann er tvöfaldur. Þannig er miðað við að vaxtabætur einstaklings verði óskertar sé skuldlaus eign hans undir 2.500.000 kr. í árslok 1989, en 4.150.000 kr. í tilviki hjóna. Þá falla vaxtabæturnar alveg niður þegar skuldlaus eign er orðin tvöföld sú fjárhæð sem að framan greinir. Til samanburðar má nefna að þessi viðmiðunarmörk eru mun hærri en sem nemur meðaltalinu. Þannig er meðaleign, þ.e. skuldlaus eign, einstaklings og einstæðra foreldra tæplega 2 m.kr. samkvæmt skattframtölum og 3,7 m.kr. hjá hjónum, reiknað á sambærilegu verðlagi (sjá töflu).
    Það er rétt að vekja sérstaka athygli á einu atriði sem valdið hefur misskilningi í umræðunni um vaxtabætur, en það er sú regla að miða við sömu eignarmörk hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum. Ástæðan fyrir þessu er sú að samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum er eignarstaða, þ.e. skuldlaus eign einstæðra foreldra, mjög svipuð og hjá einstaklingum, jafnvel heldur lægri. Þetta kemur fram í meðfylgjandi töflu sem unnin er upp úr skattframtölum ársins 1989.
    Skýringin á þessu er vafalaust sú að enda þótt einstæðir foreldrar búi í stærri íbúðum en einstaklingar kemur þetta ekki fram í eignarstöðunni þar sem þeir skulda jafnframt meira. Nettóeignin er því svipuð. Þess vegna er ekki ástæða til að gera greinarmun á milli einstaklinga og einstæðra foreldra í þessu tilliti.


(Tafla ekki til tölvutæk.)



    Á hinn bóginn er vaxtabyrði einstæðra foreldra þyngri en einstaklinga og er það hin hliðin á meiri skuldabyrði. Til þessa er tekið tillit við ákvörðun á hámarksgreiðslu vaxtabóta sem eru 140.000 kr. hjá einstæðum foreldrum samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps, en 107.000 kr. hjá einstaklingum.
    Önnur breyting á gildandi lögum um vaxtabætur snýr að skilgreiningu á eignarviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabótanna, en það er eignarskattsstofn framteljandans. Þetta þýðir að skattfrjálsar eignir, verðbréf o.fl., skerða ekki rétt til vaxtabóta. Þar eru húsbréf og ríkisskuldabréf meðtalin.
    Með þessu frumvarpi er hins vegar stefnt að víðari skilgreiningu á eignarviðmiðuninni við ákvörðun vaxtabóta þannig að hún nái til allra framtalsskyldra eigna að frátöldum skuldum. Með því yrði aðstoðin við íbúðakaupendur gerð markvissari, þ.e. þeir njóti hennar fremur sem helst þurfa á að halda.
    Þriðja breytingin gerir ráð fyrir hækkun á hlutfalli tekjuskerðingar úr 5% í 6%. Hér er annars vegar verið að mæta því tekjutapi sem hlýst af hækkun eignarmarkanna, hins vegar er með þessu gengið enn lengra í átt til tekjujöfnunar en felst í gildandi lögum.
    Fjórða breytingin felst í því að sett er þak á þau vaxtagjöld sem geta komið til álita við ákvörðun vaxtabóta. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að tekjuháir einstaklingar með óeðlilega mikil vaxtagjöld hagnist meira á vaxtabótakerfinu en hinir tekjulágu.
    Loks er lagt til að það ákvæði eignarskattslaganna, er varðar skattlagningu eftirlifandi maka sem situr í óskiptu búi, gildi einnig við ákvörðun vaxtabóta, en til þess er ekki tekið í gildandi lögum.
    Í fylgiskjölum með frumvarpi þessu eru sýnd nokkur dæmi um greiðslu vaxtabóta miðað við forsendur frumvarpsins.
     Skattbyrði einstaklinga 1990. Þær breytingar, sem ýmist eru boðaðar í þessu frumvarpi eða tengjast því, eru þríþættar. Í fyrsta lagi lægra hlutfall í virðisaukaskatti en söluskatti. Í öðru lagi veruleg lækkun eignarskatta. Í þriðja lagi breytingar á tekjusköttum með hækkun skatthlutfalls og sérstakri hækkun barnabóta og persónuafsláttar.
    Lægra hlutfall í virðisaukaskatti leiðir til allt að 1% lækkunar á framfærslukostnaði heimilanna. Matvæli lækka meira eða um 2% að jafnaði, og einstakar tegundir um 8–9%. Lækkun eignarskatta snertir fyrst og fremst fólk með lágar tekjur þar sem það er undanþegið hærra þrepinu. Breytingar á tekjusköttum hafa í för með sér léttari skattbyrði hjá barnafjölskyldum með lágar tekjur, en nokkra þyngingu hjá hátekjufólki.
     Skattaleg meðferð hlutabréfa. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimildir til frádráttar vegna fjárfestinga í atvinnurekstri verði auknar sérstaklega umfram verðlagshækkanir. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að örva viðskipti með hlutabréf.
    Ríkisstjórnin mun í framhaldi af þessu leggja til við Alþingi að stimpilgjald af útgáfu hlutabréfa verði lækkað og að ákvæðum í lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt á þann veg að kostnaður við verðbréfakaup viðskiptavaka myndi ekki stofn við útreikning aðstöðugjalds.
    Fyrri breytingin felur í sér að stimpilgjöld af hlutabréfum verði a.m.k. helmingi lægri en af skuldabréfum. Viðskiptavakar með verðbréf munu þurfa að kaupa og selja verðbréf í miklu magni. Það getur hins vegar orðið mikill hemill á þessum viðskiptum ef greiða þarf af þeim aðstöðugjald. Aðstöðugjald af þessum stofni mundi fyrst og fremst renna til stærri og betur stæðari sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins.
    Ráðgert er að frekari skref verði stigin til að bæta skattalega stöðu hlutabréfaeignar miðað við aðrar fjáreignir í tengslum við fyrirhugaða skattlagningu raunvaxtatekna. Það eitt út af fyrir sig að farið verður að skattleggja raunvaxtatekjur af skuldabréfaeign og innstæðum í bönkum felur í sér stórt skref til jöfnunar á skattalegri stöðu hlutabréfa- og skuldabréfaeignar.
    Gert er ráð fyrir því í tillögum nefndar um skattlagningu fjármagnstekna að greiddur arður verði að fullu frádráttarbær hjá fyrirtækjum en skattlagður eins og aðrar tekjur hjá einstaklingum. Þetta felur í sér fulla samræmingu á skattlagningu tekna af hlutafjáreign og af öðrum fjáreignum og að öll tvísköttun tekna af hlutafjáreign verður úr sögunni. Eignarskattlagning hlutabréfa verður á næstunni skoðuð sérstaklega, m.a. með tilliti til skattmats.
    Að þessum breytingum yfirgengnum yrði skattaleg staða hlutabréfaeignar mun betri en skattaleg staða annarra fjáreigna. Það er ekki óeðlilegt í ljósi þess að þetta hefur snúið öfugt á undanförnum árum og mikil þörf er á að auka eigið fé í íslenskum atvinnurekstri. Til frambúðar hlýtur hins vegar stefnan að vera sú að skattkerfið sé hlutlaust gagnvart því hvernig einstaklingar og fjölskyldur setja saman eignir sínar.
     Eignarskattfrelsi skuldaviðurkenninga ríkissjóðs. Frumvarp þetta felur í sér tvær efnisbreytingar varðandi eignarskattsfrelsi skuldaviðurkenninga ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, sem eingöngu eru myndaðir af eignarskattsfrjálsum skuldaviðurkenningum ríkisins, veitt eignarskattsfrelsi. Í öðru lagi er eignarskattfrelsi þessara skuldaviðurkenninga ekki lengur háð því að þær séu umfram skuldir viðkomandi aðila.
    Þegar eignarskattsfrelsi spariskírteina ríkissjóðs var ákveðið voru verðbréfasjóðir ekki komnir til sögunnar. Eðlilegt þykir að ekki sé gerður greinarmunur á því með hvaða hætti einstaklingar fjárfesta í spariskírteinum og öðrum ríkispappírum, þ.e. hvort sem það er beint eða í gegnum verðbréfasjóði. Ekki þykir þó fært sakir framkvæmdaörðugleika að veita eignarskattsfrelsi á hlutdeildarskírteinum í hlutfalli við hlutdeild ríkisskuldaviðurkenninga í einstökum sjóðum. Því er eignarskattsfrelsið aðeins bundið við hreina ríkisskuldaviðurkenningasjóði.
    Þessi breyting er gerð í samræmi við yfirlýsingar um aðgerðir í ríkisfjármálum í júlí 1989 vegna fyrirsjáanlegs halla ríkissjóðs á þessu ári. Þess er vænst að þessi breyting geti orðið til að örva sölu spariskírteina án þess að þurfa að hækka vexti.
    Full ástæða var til að skilyrða eignarskattsfrelsi spariskírteina ríkissjóðs að því mati sem þau væru umfram skuldir á þeim tíma sem spariskírteini nutu forréttinda hvað varðar kjör og verðtryggingu. Nú er verðtrygging hins vegar orðin útbreidd á lengri skuldbindingum og vaxtarófið í landinu er að færast í það eðlilega horf að vextir spariskírteina ríkissjóðs séu lægstu vextir á markaðnum, enda um að ræða öruggustu pappíra sem völ er á. Enginn hvati er því lengur til að taka bankalán í því skyni að kaupa spariskírteini ríkissjóðs. Það hefur einnig valdið nokkrum ruglingi á undanförnum árum að spariskírteini ríkissjóðs eru aðeins eignarskattsfrjáls ef þau eru umfram skuldir. Það er því talin ástæða til að afnema þetta ákvæði nú.
    Hér er gert ráð fyrir að húsbréf fái sömu skattalegu meðferð og spariskírteini ríkissjóðs. Þetta er í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar voru sl. vor í tengslum við upptöku húsbréfakerfisins. Röksemdirnar fyrir eignarskattfrelsi húsbréfa til samræmis við spariskírteini ríkissjóðs eru einkum tvær. Í fyrsta lagi auðveldar það eldra fólki að losa sig við of stórar íbúðir og veitir því hvatningu til þess með því að gera því kleift að breyta þeim að hluta yfir í eignarskattsfrjálsar eignir. Þetta stuðlar þannig að þeirri innri fjármögnun sem að er stefnt með húsbréfakerfinu, en hún felst í því að íbúðaseljendur lána stærri hluta við sölu og auka sparnað sinn með því að halda að einhverju marki í þau húsbréf sem þeir fá við söluna.
    Í öðru lagi stuðlar eignarskattsfrelsi húsbréfa að því að samkeppnisstaða spariskírteina ríkissjóðs skekkist ekki. Eignarskattlagning húsbréfa mundi valda því að þau bæru hærri vexti en spariskírteini. Þar sem lífeyrissjóðir verða hins vegar helstu kaupendur húsbréfa, en þeir greiða ekki eignarskatta, mundi áhugi þeirra á spariskírteinum vera lítill sem enginn svo lengi sem húsbréf eru í boði.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að lög nr. 7/1974 og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 79/1983, um innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs, falli úr gildi, en skattfrelsi ríkispappíra byggði á þeim lögum. Eðlilegra þykir að ákvæði um skattfrelsið sé beint að finna í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt. Í þessari breytingu felst því viss lagahreinsun.
     Ríkisskattanefnd. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á skipun og starfsháttum ríkisskattanefndar.
    Ástæða þess, að þær breytingar eru lagðar til, er sú að á síðustu árum hefur afgreiðsla skattamála eigi verið nægilega greið. Tafir hafa orðið á uppkvaðningu úrskurða bæði af hálfu skattstjóra og ríkisskattanefndar. Umsagnir ríkisskattstjóra og kærur hafa borist ríkisskattanefnd seint. Til að ráða bót á þessu ástandi þykir nauðsynlegt að gera skipulagsbreytingar á starfsháttum ríkisskattanefndar, svo og skipan hennar. Samhliða því er nauðsynlegt að ríkisskattstjóri geri sérstakt átak til að flýta afgreiðslu umsagna um einstök kærumál til ríkisskattanefndar. Er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri fái heimild til að verkefnaráða starfsmann í eitt ár til að sinna þessu verki svo að unnt verði að koma ástandinu í viðunandi horf.
    Þá hefur að frumkvæði fjármálaráðuneytis verið unnið verulegt starf í skipulagsmálum skattstjóra. Fyrir liggur skýrsla nefndar þar að lútandi og hefur fjármálaráðuneytið sett skattstjórum nýtt skipurit og í ráði er að efla starfsmenntun starfsmanna skattkerfisins. Skattstjórum hefur verið fenginn tölvubúnaður sem ætlað er að auðvelda þeim störf sín og fyrirhugað er að ljúka tölvuvæðingu á árinu 1990. Þá var stöðum hjá skattstjórum fjölgað á árinu 1989 um 6,9 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir fjölgun um 27 til viðbótar vegna upptöku á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Loks má geta þess að húsnæðismál skattstjóra hafa verið til sérstakrar athugunar um nokkurt skeið og er úrbóta að vænta á næstunni. Hvað ríkisskattanefnd varðar hefur skipan hennar verið óbreytt frá því á árinu 1980, svo og það fyrirkomulag hvernig hún hefur verið skipuð. Í núgildandi lögum eru aðeins tveir menn skipaðir í ríkisskattanefnd sem hafa það starf að aðalstarfi en auk þeirra eru fjórir menn í ríkisskattanefnd sem gegna því starfi samhliða öðrum störfum. Veigamikil rök þykja mæla gegn þessu fyrirkomulagi og heppilegra sé að nefndin verði eingöngu skipuð mönnum sem hafi þau störf sem aðalstarf. Ætla má að meðferð mála verði greiðari ef nefndarmenn sinni ekki öðrum störfum samhliða nefndarstörfum.
    Þá er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1990 gert ráð fyrir tímabundinni fjölgun á skrifstofu ríkisskattanefndar um tvo starfsmenn.
    Þá er þess að vænta að verkefni nefndarinnar muni aukast frá því sem verið hefur með upptöku á virðisaukaskatti. Enn fremur er ríkisskattanefnd ætlað með frumvarpi þessu að ákveða sektir vegna brota á lögum um staðgreiðslu. Sérstök sektarnefnd sinnir nú þessu hlutverki, en ekki þykir vera ástæða til annars en öll refsimeðferð hjá skattyfirvöldum sé hjá sama aðila. Er ljóst að verkefni ríkisskattanefndar muni því enn aukast og endurskoðun á skipan nefndarinnar orðin brýn.
    Samhliða frumvarpi þessu mun fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda varðandi refsimeðferð þar sem ríkisskattanefnd tekur við hlutverki sektarnefndar skv. 31. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Ætla má að þær breytingar, sem hér er lagt til að verði lögfestar, muni hraða mjög verulega gangi mála fyrir ríkisskattanefnd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þar eð ekki er gert ráð fyrir því að skattvísitala verði ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1990 er nauðsynlegt að færa upp í samræmi við verðlagsþróun þær fjárhæðir laganna sem breytast eiga í samræmi við skattvísitölu skv. 122. gr. Allar fjárhæðir í þessu frumvarpi eru á verðlagi í desember 1989.
    Þá er í b-lið þessarar greinar gerð tillaga um að heimildir til frádráttar vegna fjárfestinga í atvinnurekstri verði auknar sérstaklega umfram verðlagshækkanir. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að örva viðskipti með hlutabréf. Hækkunin nemur tæplega 40% frá því sem gildir á þessu ári, eða um 20% að raungildi. Um þetta er nánar fjallað í almennu athugasemdunum hér að framan.

Um 2. gr.


    Eins og fram kemur í skýringum við 1. gr. verður ekki ákveðin skattvísitala í fjárlögum fyrir árið 1990. Er því nauðsynlegt að færa upp fjárhæðir laganna, sbr. skýringu við 1. gr.

Um 3. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar tekjuskattshlutfall einstaklinga úr 30,8% á árinu 1989 í 32,8% árið 1990. Um áhrif þessa vísast til þess sem rakið er í almennum athugasemdum.

Um 4. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er stefnt að því að skattbyrði lægri tekna haldist óbreytt þrátt fyrir hærra skatthlutfall. Við það er miðað að skattar einstaklinga með allt að 70.000 kr. mánaðartekjur lækki eða haldist óbreyttir. Samkvæmt þessari grein er persónuafsláttur hækkaður úr 214.104 kr. í 250.200 kr. Miðað er við verðlag í desember 1989.

Um 5. gr.


    Samkvæmt þessari grein hækkar sjómannaafsláttur úr 492 kr. í 575 kr. fyrir hvern lögskráðan dag. Er það í samræmi við áætlaða launa- og verðlagsþróun að undanförnu og á næsta ári.

Um 6. og 7. gr.


    Samkvæmt þessum greinum hækka barnabætur og barnabótaauki nokkuð umfram áætlaða launa- og verðlagsþróun að undanförnu og á næsta ári. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda og athugasemda við 11. gr.

Um 8. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til breytingar á vaxtabótum. Tilgangur breytingarinnar er fyrst og fremst sá að gera bæturnar þannig úr garði að þær komi þeim til góða sem á þeim þurfa að halda. Tekjuskerðing er aukin en á móti eru eignarmörk hækkuð bæði hjá hjónum og einstaklingum/einstæðum foreldrum, þó meira í tilviki þeirra síðarnefndu. Um nánari skýringu er vísað til almennra athugasemda um vaxtabætur.

Um 9. gr.


    Með þessari grein eru annars vegar hámarksfjárhæðir eignarskattsfrjálsrar hlutabréfaeignar og stofnsjóðsinnstæðna hækkaðar í samræmi við verðlag. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. gr.
    Hins vegar er gerð sú breyting að mönnum er heimilað að draga frá eignum sínum markaðsbréf sem gefin eru út af ríkissjóði, ríkisvíxla, happdrættisskuldabréf ríkissjóðs, húsbréf gefin út af Byggingarsjóði ríkisins svo og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða þar sem verðbréfasjóðurinn er eingöngu myndaður af framangreindum skuldaviðurkenningum, enda séu eignir þessar ekki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda um þetta atriði.

Um 10. gr.


    Samkvæmt þessari grein eru gerðar tvær meginbreytingar á hærra þrepi eignarskatts. Annars vegar lækkar hærra þrepið í eignarskattinum um þriðjung, úr 1,5%, eins og það er nú, niður í 0,75%. Í þessu felst að skattur á skuldlausa eign yfir 8.050 þús. kr. lækkar úr 2,95%, að meðtöldum eignarskattsauka, í 2,20%. Hins vegar er ákveðið jafnframt að tekjutengja þennan hluta eignarskattsins, þ.e. hærra þrepið. Í almennum athugsemdum með frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir þessum breytingum og vísast til þess sem þar kemur fram.

Um 11. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að skipuð verði ný ríkisskattanefnd skipuð fimm föstum nefndarmönnum. Þá er lagt til að skipaður verði bæði formaður og varaformaður í nefndina og sitji ætíð annar hvor þeirra í nefndinni þegar hún úrskurðar í deilumálum. Í hverju máli skulu þrír nefndarmenn úrskurða. Með því að nefndarmenn verði fimm ætti að vera tryggt að hún geti starfað óslitið allt árið þrátt fyrir orlof einstakra nefndarmanna.
    Þá er með þessu ákvæði gerð sú krafa að bæði formaður og varaformaður ríkisskattanefndar uppfylli skilyrði til skipunar í héraðsdómaraembætti eins og hefur verið varðandi formann núverandi nefndar. Í ákvæðinu er einnig getið helstu verkefna ríkisskattanefndar sem ákveðin eru með öðrum lögum. Tilgangur þess er að hafa heildarlagaákvæði um ríkisskattanefnd og verkefni hennar. Gert er ráð fyrir að ríkisskattanefnd úrskurði framvegis um skattsektir vegna brota á staðgreiðslulögum og samhliða verði sérstök sektarnefnd staðgreiðslu lögð niður.
    Loks er lokamálsgrein 100. gr. laganna flutt í 89. gr. og verður þar efnislega 3. mgr. ákvæðisins.

Um 12. gr.


    Hér er lagt til það nýmæli að ríkisskattanefnd veiti málsaðila möguleika á að gera frekari grein fyrir kæruefni ef ríkisskattanefnd telur að málið varði frávísun vegna ónógra gagna og upplýsinga af hálfu málsaðila. Með ákvæðinu þannig breyttu er unnt að kveða upp endanlegan úrskurð um kæruefni í stað þess að vísa frá kröfu vegna skorts á upplýsingum eða gögnum. Verður þannig meiri festa í skattframkvæmd og óútkljáðum málum ætti að fækka.
    Efnisákvæði 7. mgr. 100. gr. eru nú færð í talsvert breytt horf í 3. mgr. 100. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til í ákvæðinu að frestur ríkisskattanefndar til að kveða upp úrskurð verði þrír mánuðir í stað sex eins og er í núgildandi lögum. Með því að fastir nefndarmenn verði fimm í stað tveggja áður og fjögurra, sem gegna öðrum störfum samhliða, ættu mál að vinnast skipulegar og greiðar og því óhætt að stytta verulega þann frest sem nefndin hefur til að úrskurða um kærumál.
    Loks er í ákvæði þessu lagt til að úrskurðir ríkisskattanefndar skuli vera ítarlega rökstuddir, en nokkuð hefur þótt á skorta að forsendur úrskurða ríkisskattanefndar væru að fullu skýrar.

Um 13. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum felast í frumvarpi þessu umfangsmiklar breytingar á álagningu tekjuskatts einstaklinga, persónuafslætti og barnabótum. Þessar breytingar taka mið af því almenna markmiði með frumvarpinu að skattbyrði þeirra, sem miðlungstekjur hafa og lægri, verði sem næst óbreytt milli áranna 1989 og 1990. Með hliðsjón af þessu, svo og almennri launa- og verðlagsþróun er nauðsynlegt að endurskoða allar fjárhæðir í gildandi lögum. Samkvæmt gildandi lögum breytast fjárhæðir þeirra í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og ákvörðun um skattvísitölu.

Um 14. gr.


    Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að skattvísitala verði ákveðin í fjárlögum fyrir árið 1990 er nauðsynlegt að færa upp í samræmi við verðlagsþróun þær fjárhæðir laganna sem breytast eiga í samræmi við skattvísitölu skv. 122. gr. Allar fjárhæðir í þessu frumvarpi eru á verðlagi í desember 1989.

Um 15. gr.


    Í þessari grein, sem fjallar um gildistöku einstakra ákvæða frumvarpsins, er kveðið á um hvaða ákvæði koma til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1990, hver við álagningu 1990 og hver við álagningu 1991.
    Samkvæmt greininni koma allar breytingar á fjárhæðum persónuafsláttar, sjómannaafsláttar, barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta til framkvæmda við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1990. Hækkun á skattprósentu einstaklinga kemur með sama hætti til framkvæmda í staðgreiðslu á árinu 1990 og gildir við álagningu 1991 vegna tekna ársins 1990.
    Öll ákvæði frumvarpsins sem varða álagningu eignarskatts vegna eigna í lok ársins 1990 koma til framkvæmda við álagningu á árinu 1990. Þá koma einnig til framkvæmda breytingar á fjárhæðum er varða barnabótaauka.
    Ákvæði, sem gilda frá 1. jan. 1990 og koma til framkvæmda við álagningu 1991, eru m.a. skattprósenta einstaklinga.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Samkvæmt þessu ákvæði hækka húsnæðisbætur í samræmi við áætlaða launa- og verðlagsþróun að undanförnu. Miðað er við verðlag í desember 1989.


(Texti fylgiskjala er ekki til tölvutækur.)



Fylgiskjal I.




Fylgiskjal II.




Fylgiskjal III.




Fylgiskjal IV.





Fylgiskjal V.





Fylgiskjal VI.