Ferill 51. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 51 . mál.


Nd.

294. Nefndarálit



um frv. til l. um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Frá minni hl. allsherjarnefndar.



    Eftir að hafa athugað frumvarpið sýnist undirrituðum að það hafi að geyma ákvæði sem tryggi víðtæk völd tölvunefndar, en hins vegar sé ekki hugað nægilega að rétti einstaklingsins. Því er lagt til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum sem lagðar eru fram á sérstöku þingskjali í 14 liðum. Flestar breytingarnar miða að því að tryggja rétt einstaklingsins og koma í veg fyrir að vissar upplýsingar verði skráðar. Eins er gert ráð fyrir því að tölvunefnd þurfi dómsúrskurð til að fá aðgang að húsnæði skráningaraðila, enda er sú heimild, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, brot á meginreglu. Þá er mælt með því að sú grein frumvarpsins sem fjallar um markaðs- og skoðanakannanir, verði felld niður en þess í stað verði lagt fram á Alþingi frumvarp til heildarlöggjafar um þetta efni.
    Ef veigamestu breytingartillögurnar, sem minni hl. nefndarinnar gerir, verða ekki samþykktar leggur hann til að það verði fellt.

Alþingi, 11. des. 1989.


Ingi Björn Albertsson.