Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 208 . mál.


Ed.

340. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

(Eftir 2. umr. í Ed., 15. des.)



1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 2. gr.:
a.     1. málsl. 1. mgr. orðist svo:
    Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.
b.    1. málsl. 3. mgr. orðist svo:
    Eftirtalin vinna og þjónusta er undanþegin virðisaukaskatti:
c.     3. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla.
d.    4. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Starfsemi safna, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.
e.     5. tölul. 3. mgr. orðist svo:
    Íþróttastarfsemi, svo og aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum.
f.    15. tölul. 3. mgr. falli niður.
g.    6. mgr. orðist svo:
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir undanþágum samkvæmt þessari grein.

2. gr.


    Eftirtaldar breytingar verði á 4. gr.:
a.    2. tölul. orðist svo:
    Listamenn, að því er varðar sölu þeirra á eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000–9703.0000, svo og uppboðshaldarar, að því er varðar sölu þessara verka á listmunauppboðum, sbr. lög nr. 36/1987.
b.    Við greinina bætist nýr töluliður er verði 4. tölul., svohljóðandi:
    Skólamötuneyti.

3. gr.


    Við 5. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú hefur aðili, sem að mati skattstjóra bar að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi skv. 1. mgr., eigi sinnt umræddri tilkynningarskyldu og skal þá skattstjóri úrskurða hann sem skattskyldan aðila samkvæmt ákvæðum 3. gr. og tilkynna aðilanum þar um.

4. gr.

    Við 8. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóri skal gefa út reglur um mat til verðs samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Í stað „81,97%“ í 1. mgr. 10. gr. komi: 80,32%.

6. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 12. gr.:
a.    Á undan „Viðgerðar-“ í 7. tölul. 1. mgr. komi: Skipasmíði og.
b.    9. tölul. 1. mgr. orðist svo:
    Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, svo og afnotagjöld útvarpsstöðva.
c.    Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 10. tölul., svohljóðandi:
        Sala bóka á íslenskri tungu jafnt frumsaminna sem þýddra.
d.    Við 1. mgr. bætist nýr töluliður er verði 11. tölul., svohljóðandi:
    Sala á heitu vatni, rafmagni og olíu til hitunar húsa og laugarvatns.
e.    3. málsl. 2. mgr. falli niður.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verði á 13. gr.:
a.    Í stað „81,97%“ í 3. og 5. mgr. komi: 80,32%.
b.    2. málsl. 3. mgr. falli niður.

8. gr.


    14. gr. orðist svo:
    Virðisaukaskattur skal vera 24,5% og rennur hann í ríkissjóð.

9. gr.

    Í stað „18,03%“ í 1. mgr. 20. gr. komi: 19,68%.

10. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 26. gr. orðist svo:
    Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslu.

11. gr.

    Í stað „1%“ í 2. mgr. 27. gr. komi: 2%. Í stað „10%“ í sama ákvæði komi: 20%.

12. gr.

    29. gr. orðist svo:
    Þeir sem ekki vilja sætta sig við ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti geta kært skattinn til hans innan þrjátíu daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Innsend fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 25. gr. Kærum vegna áætlana skv. 27. gr. skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Skattstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan þrjátíu daga frá lokum kærufrests.
    Úrskurði skattstjóra má skjóta til ríkisskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Kærufrestur til ríkisskattanefndar skal vera þrjátíu dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra.
    Ríkisskattstjóri hefur heimild til að skjóta úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar án tillits til kærufrests.
    Ríkisskattanefnd skal hafa lagt efnisúrskurð á allar kærur þremur mánuðum eftir að þær bárust nefndinni. Úrskurðir ríkisskattanefndar skulu vera ítarlega rökstuddir og í forsendum þeirra skal koma skýrt fram á hvaða kæruatriðum og skattheimildum skattstofn og álagning er byggð.
    Ákvæði 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu að öðru leyti gilda um kærur til ríkisskattanefndar eftir því sem við getur átt.
    Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af ríkisskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða frá því að ríkisskattanefnd úrskurðar í málinu.
    Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga skattsins né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans, en verði skattur lækkaður eftir úrskurði eða dómi skal endurgreiða það sem lækkuninni nemur.

13. gr.

    Á eftir 41. gr. komi nýr kafli, XIII. kafli, Um endurgreiðslu virðisaukaskatts, með tveimur nýjum greinum sem verða 42. og 43. gr. og breytist greinatala laganna og kaflanúmer til samræmis, svohljóðandi:


XIII. KAFLI

Um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

    a. (42. gr.)
    Endurgreiða skal hluta virðisaukaskatts af neyslumjólk, dilkakjöti, neyslufiski og fersku innlendu grænmeti þannig að skattgreiðslur samtals af þessari matvöru, að teknu tilliti til endurgreiðslunnar, verði sem næst 14% í stað 24,5%. Fjármálaráðherra ákveður með reglugerð nánar hvaða matvara fellur undir þessa málsgrein, svo og um framkvæmd endurgreiðslunnar.
    Endurgreiða skal byggjendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt, sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti og vera verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu. Jafnframt skal endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af vinnu manna við endurbætur þess, enda sé heildarkostnaður a.m.k. 7% af fasteignamati húseignarinnar í ársbyrjun. Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara endurgreiðslna. Á sama hátt skal í reglugerð kveðið á um endurgreiðslu ákveðins hutfalls virðisaukaskatts af verksmiðjuframleiddum íbúðarhúsum.
    Fjármálaráðherra getur ákveðið með reglugerð að endurgreiða sveitarfélögum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna kaupa á skattskyldri vöru eða þjónustu af atvinnufyrirtækjum.

    b. (43. gr.)
    Fjármálaráðherra getur kveðið svo á með reglugerð að endurgreiða megi virðisaukaskatt af vörum sem erlendir ferðamenn kaupa hérlendis og hafa með sér er þeir hverfa úr landi, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem hann telur nauðsynleg.
    Fjármálaráðherra getur ákveðið með reglugerð að hvaða marki skuli endurgreiða sendimönnum erlendra ríkja virðisaukaskatt af kaupum á vörum og þjónustu hér á landi.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja með reglugerð reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi.

14. gr.

    Orðin „á vörum sem ætlaðar eru til endursölu“ í 46. gr., er verður 48. gr., falli niður.

15. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 47. gr. laganna, er verður 49. gr., komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    Fjármálaráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að virðisaukaskattur af aðgangseyri að dansleikjum og öðrum skemmtanaskattsskyldum samkomum skuli innheimtur meðan á samkomunni stendur eða með skemmtanaskatti. Hann getur enn fremur ákveðið með reglugerð að sveitarfélög greiði virðisaukaskatt við framvísun virðisaukaskattsskýrslu einu sinni á ári, enda sé árleg virðisaukaskattsskyld velta þeirra af framleiðslu vöru og veittri þjónustu til eigin nota minni en 400.000 kr.

16. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I orðist svo:
    Fari afhending skattskyldrar vöru og þjónustu fram 1. janúar 1990 eða síðar skal hún teljast til virðisaukaskattsskyldrar veltu samkvæmt lögum þessum. Þetta gildir án tillits til þess hvort samningur um sölu skattskyldrar vöru og þjónustu hefur verið gerður fyrir 1. janúar 1990 eða greiðsla farið fram að hluta eða fullu.
    Hafi samningur, sbr. 1. mgr. þessa ákvæðis, verið gerður skal kaupandi greiða viðbót við samningsgreiðsluna sem svarar virðisaukaskatti samkvæmt lögum þessum sé um að ræða sölu á vöru og þjónustu sem ekki var skattskyld samkvæmt söluskattslögum, nema sannað sé að virðisaukaskattur hafi verið talinn með í kaupverðinu við ákvörðun þess. Hafi slík vara eða þjónusta verið skattskyld samkvæmt söluskattslögum skal seljandi endurgreiða kaupanda mismun á söluskatti og virðisaukaskatti, nema sannað sé að kaupverð samkvæmt samningnum hafi verið miðað við virðisaukaskatt samkvæmt lögum þessum.
    Um greiðslu virðisaukaskatts af innflutningi skattskyldrar vöru og þjónustu fer eftir þeim reglum sem gilda þegar tollmeðferð fer fram.
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskattsskyldum aðilum, sem hafa húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð með höndum í atvinnuskyni, söluskatt sem hvílir á birgðum þeirra af óseldu byggingarefni 31. desember 1989. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um þessar endurgreiðslur, þar á meðal hvaða gögn þurfi að liggja til grundvallar endurgreiðslubeiðni.
    Ákvæði 1. og 2. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga þessara skulu gilda eftir því sem við á um frádrátt frá skattskyldri veltu vegna viðskipta sem skattskyld voru samkvæmt söluskattslögum og ekki var unnt að leiðrétta með síðustu söluskattsskilum ársins 1989.
    Hafi verið gerður fjármögnunarsamningur fyrir 1. janúar 1990 þar sem kveðið er á um eignarrétt leigusala án kaupskyldu leigutaka í lok leigutíma skulu leigugreiðslur samkvæmt slíkum samningum vera undanþegnar virðisaukaskatti.
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Ákvæði c-liðar 6. gr. öðlast þó gildi 16. nóvember 1990.