Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 210 . mál.


Nd.

352. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nú er að ganga í garð þriðja árið þar sem innheimta skatta er samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Síðan þau tóku gildi hafa ítrekað verið gerðar veigamiklar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem flestar miða í eina átt, þ.e. að þyngja skattbyrði fólks. Hæst ber að í fyrra var tekjuskattshlutfall einstaklinga hækkað úr 28,5% upp í 30,8%. Þessu mótmælti Kvennalistinn og flutti breytingartillögur, sem ekki náðu fram að ganga, um óbreytt hlutfall. Einnig var gerð sú afdrifaríka breyting að hætt var að miða framreikning persónuafsláttar og barnabóta við lánskjaravísitölu og skyldi nú miðað við skattvísitölu sem breytist einu sinni á ári. Þessi breyting hafði í för með sér aukna skattbyrði, til viðbótar þeirri sem hlaust af hækkun tekjuskattshlutfallsins, þar sem með henni var skorið á þá tengingu sem verið hafði milli skattbyrði einstaklinga og verðlagsþróunar. Kvennalistinn lagði til í fyrra að persónuafsláttur og barnabætur skyldu áfram miðaðar við lánskjaravísitölu. Það fékkst ekki samþykkt. Í því frumvarpi, sem hér um ræðir, er tekjuskattshlutfallið enn hækkað úr 30,8% í 32,8% og fest í sessi ranglæti við framreikning persónuafsláttar og barnabóta.
    Fjölmargir aðilar voru kallaðir til viðtals í umfjöllun nefndarinnar um frumvarp þetta. Bar fulltrúum ASÍ, BSRB og BHMR öllum saman um að ef frumvarpið yrði samþykkt óbreytt þýddi það aukna skattbyrði, gagnstætt fullyrðingum ríkisstjórnarinnar um að skattbyrði mundi minnka hjá ýmsum hópum, t.d. lágtekju- og barnafólki. Rökin eru þau að ríkisstjórnin bæri saman máli sínu til sönnunar skattbyrði í desember 1989 og janúar 1990. Sá samanburður væri ekki raunhæfur og gæfi ekki rétta mynd (sjá fskj. I).
    Með breytingartillögum, sem verða nánar skýrðar hér á eftir, freistar Kvennalistinn þess enn að ná fram leiðréttingum á áðurtöldum atriðum.
    Í frumvarpinu eru að nokkru dregnar til baka breytingar sem gerðar voru við álagningu eignarskatts í fyrra í slíkum flýti að enginn sá afleiðingarnar fyrir. Nú er lagt til að háþrep eignarskatts lækki auk þess sem tekjuviðmiðun er nú tekin upp við álagningu. Kvennalistinn leggur þó fram breytingartillögu við 10. gr. frumvarpsins í þá veru að jafna stöðu einstaklinga og einstæðra foreldra annars vegar og hjóna hins vegar gagnvart lögunum.
    Vaxtabætur eiga nú að leysa af hólmi vaxtaafslátt og húsnæðisbætur. Þar er ýmsum spurningum ósvarað. Milliþinganefnd, sem samkvæmt samkomulagi Kvennalistans við ríkisstjórnina átti að endurskoða húsbréfakerfið, bar einnig að taka sérstaklega til athugunar ákvæði um tekju- og eignarviðmiðun í nýsettum lögum um vaxtabætur. Við þetta var ekki staðið og m.a. af þeirri ástæðu samþykkti fulltrúi Kvennalistans í húsnæðisstjórn ekki hækkun vaxta af húsnæðislánum í 4,5%. Þar til sú endurskoðun hefur farið fram og upplýsingar um áhrif vaxtabóta liggja fyrir á þeim forsendum er erfitt að segja til um hvort þær ná þeim tilgangi sem ætlað var. Kvennalistinn ítrekar að umræddri endurskoðun verði flýtt svo að enn einu sinni gerist þess ekki þörf að grípa til leiðréttinga á nýsettum lögum. Auk þess má benda á að skattyfirvöld hafa bent á mikla erfiðleika við útreikning vaxtabóta eins og framkvæmdin verður samkvæmt lögunum.
    Breytingartillögur Kvennalistans hníga í þá átt að létta skattbyrði og munu því draga úr tekjum ríkissjóðs. Fyrir þessum breytingartillögum eru þó mörg rök.
    Í fyrsta lagi ber að nefna að Kvennalistinn telur að stjórnvöld hafi nú þegar seilst alltof langt ofan í vasa lágtekju- og meðaltekjufólks. Skattbyrði hefur þyngst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur rýrnað að mun. Auknum skattaálögum er að sönnu ætlað að auka tekjur ríkisins og þar með að minnka halla ríkissjóðs. En staðreynd er að fjölmörg heimili eru nú þegar rekin með halla og geta hreinlega ekki risið undir meiru.
    Í öðru lagi má fullyrða að þær tekjur, sem ríkið missti ef breytingartillögur Kvennalistans yrðu samþykktar, væru ekki að öllu glataður eyrir. Þær mundu að stórum hluta skila sér eftir öðrum leiðum, m.a. gegnum óbeina skatta þar sem fólk hefði hærri ráðstöfunartekjur.
    Í þriðja lagi má benda á að nú þegar eru samningar ríkisins og BSRB lausir og aðrir fylgja í kjölfarið. Lækkun skatta, hækkun persónuafsláttar og barnabóta væri verðugt innlegg stjórnvalda í þá kjaramálaumræðu sem framundan er.
    Í fjórða lagi hafa Kvennalistakonur lagt mikla áherslu á að annað og hærra tekjuskattsþrep verði tekið upp og vilja minna á þau fyrirheit, sem fjármálaráðherra gaf þegar hann mælti fyrir breytingum á tekjuskatti og eignarskatti í desember 1988, um að hátekjuþrep yrði tekið upp í tekjuskatti. Það olli því nokkrum vonbrigðum að sú breyting skyldi ekki lögð til í þessu frumvarpi Þótt hærra tekjuskattsþrep sé ekki lengur að finna á óskalista fjármálaráðherra samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu er þessi möguleiki vissulega fyrir hendi til að auka tekjur ríksins ef áhugi er á.
    Skattlagning fjármagnstekna er þó tilgreind í fyrrnefndum athugasemdum sem næsta verkefni eftir áramót og er það von Kvennalistans að það reynist ekki orðin tóm. Þar er einnig tekjuaukningar að vænta fyrir ríkissjóð.
    Kvennalistinn leggur áherslu á að verði þessir möguleikar til tekjuöflunar nýttir verði auknum tekjum ríkisins varið til að jafna aðstöðu fólks.

BREYTINGARTILLÖGUR KVENNALISTANS



Tekjuskattur, persónuafsláttur og barnabætur.
    1. breytingartillaga: Í henni felst að færa tekjuskattshlutfallið til baka í 28,5%. Það ákvæði, sem sett var til bráðabirgða í lögum nr. 97/1988, um að tekjuskattur manna reiknist 30,8% af tekjuskattsstofni við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 1989 og við álagningu tekjuskatts á árinu 1990 vegna tekna ársins 1989, rennur út 1. janúar 1990. Því er í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar verið að leggja til 4,3% hækkun á skatthlutfalli, en ekki 2% eins og látið er í veðri vaka. Kvennalistinn leggur til að skatthlutfallið verði óbreytt eins og lög gera ráð fyrir.
    2. breytingartillaga: Þarna er lagt til að persónuafsláttur hækki í 300 þús. kr. í stað 250.200 þús. kr., þ.e. í 25 þús. á mánuði í stað 20.850 kr. Við þessa breytingu yrðu skattleysismörk rétt um 63 þús. kr. á mánuði. Þessi hækkun persónuafsláttar vegur langþyngst hjá lágtekjufólki og síðan æ minna eftir því sem ofar dregur og er því það sem lág- og meðaltekjufólk munar mest um. Kvennalistinn vill réttlátt samhengi milli skattleysismarka og lágmarksframfærslu. Þótt ljóst sé að með breytingartillögu þessari verði því marki ekki náð er stigið skref í rétta átt. Aðrar breytingar, sem Kvennalistinn vill gera í tengslum við persónuafslátt, koma fram í sérstöku frumvarpi á þskj. 354 sem þingkonur Kvennalistans í neðri deild hafa lagt fram.
    3. og 4. breytingartillaga: Kvennalistinn leggur til sömu hlutfallshækkun á barnabótum og barnabótaauka og persónuafslætti. Allur kostnaður af framfærslu barna hefur hækkað í samræmi við annað og má þar nefna hækkun á matvöru, dagvistargjöldum og vöruverði almennt. Kvennalistanum er ljóst að sú hækkun, sem hann leggur til, er umfram verðlagsþróun. Kvennalistinn telur hins vegar að skerfur hins opinbera til barnafjölskyldna í landinu hafi síst verið of stór og telur rétt að bæta þar um. Að mati Kvennalistans er ekki rétt að tengja barnabætur sköttum með þeim hætti sem sífellt er gert í opinberum útreikningum um skattbyrði. Þær aðferðir eru einugis til þess fallnar að villa um fyrir fólki. Þessari fullyrðingu til staðfestingar má benda á síendurtekna útreikninga sem gætu bent til að þorri fjölskyldna í landinu væri foreldrar eða foreldri og tvö börn, annað undir sjö ára aldri. Því lét Kvennalistinn reikna nokkur dæmi þar sem barnabætur eru ekki teknar með í reikninginn og má sjá niðurstöður þeirra á fskj. II.

Eignarskattar.
    5. breytingartillaga: Í frumvarpi þessu eru eignarskattsálögur færðar til betri vegar og vill Kvennalistinn í því sambandi benda sérstaklega á það nýmæli að tekjutengja álögur eignarskatts í efra þrepi. Eitt er þó ógert. Samanlagður eignarskattsstofn hjóna, sem lagður er til grundvallar álagningu, er alltaf helmingi hærri en einstaklinga og einstæðra foreldra. Í þessu felst nokkurt óréttlæti þar sem ekki er sjálfgefið að einstaklingar eða einstæðir foreldrar geti alltaf látið sér nægja helmingi minna húsnæði en hjón eða sambýlisfólk. Dýrustu hlutar hvers húsnæðis, t.d. eldhús og salerni, þurfa líka að vera í húsnæði einstaklinga og einstæðra foreldra. Því sýnist Kvennalistanum réttlátt að einstaklingar og einstæðir foreldrar væru 60% ígildi hjóna hvað eingarskattsstofn áhrærir. Í samræmi við þá skoðun sína vill Kvennalistinn hækka þann eignarskattsstofn sem enginn eignarskattur er greiddur af upp í 3.450.000 kr. hjá einstaklingum og einstæðum foreldrum, en halda honum óbreyttum hjá hjónum, þ.e. 2.875.000 kr. hjá hvoru. Hvað efra þrepið varðar heldur Kvennalistinn eignarskattsstofni einstaklinga og einstæðra foreldra óbreyttum, þ.e. 8.050.000. kr., en lækkar eignarskattsstofn hjóna niður í 6.708.000 kr. hjá hvoru um sig. Tekjuviðmiðun í efsta þrepi helst óbreytt.

Framfræsluvísitala í stað skattvísitölu.
    6. breytingartillaga: Kvennalistinn telur brýnt að hætt verði að miða breytingar m.a. á persónuafslætti og barnabótum við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárlögum ár hvert. 14. gr. þessa frumvarps tekur til 122. gr. laganna. Breytingartillaga Kvennalistans felur í sér að þær upphæðir, sem samkvæmt henni eiga að hækka eða lækka í samræmi við skattvísitölu, miðist framvegis við framfærsluvísitölu.
    Þar til breytingar voru gerðar á tekjuskatts- og eignarskattslögunum í desember 1988 miðuðust þessar tölur við lánskjaravísitölu. Kvennalistinn telur það ekki ráðlegt lengur vegna þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á henni. Nú vega laun þriðjung í útreikningi lánskjaravísitölu og hækkar hún því minna en ella hefði orðið. Hún mælir ekki lengur kostnað í sama mæli og áður þar sem laun hafa ekki hækkað í samræmi við aðrar hækkanir. Því virðist Kvennalistanum framfærsluvísitalan nú vera vænlegri til viðmiðunar.
    Auk þess vill Kvennalistinn að persónuafsláttur og barnabætur hækki (eða lækki) mánaðarlega í samræmi við framfærsluvísitölu. Þannig yrði komið í veg fyrir að skattbyrðin yrði sífellt þyngri í lok viðmiðunartímabils, eins og nú er, þegar breytingar á persónuafslætti eru aðeins gerðar tvisvar á ári og barnabætur mundu hækka í réttu hlutfalli við framfærslu.

Afstaða Kvennalistans til frumvarpsins í heild.
    Annar minni hl. stendur að sameiginlegum breytingartillögum nefndarinnar sem eru á þskj. 343, en flytur einn breytingartillögur á þskj. 353 sem hefur verið lýst hér að framan.
    Í breytingartillögum Kvennalistans kemur ljóslega fram stefna hans varðandi skattlagningu einstaklinga og fjölskyldna. Lágtekju- og meðaltekjufólk, svo og barnafjölskyldur, eiga sér nú fáa málsvara, en í breytingartillögum Kvennalistans felast mikilvægar breytingar til batnaðar til handa þessum hópum. Í þeim birtist það verðmætamat og sú forgangsröð sem Kvennalistinn leggur mikla áherslu á í stefnu sinni.
    Verði breytingartillögur Kvennalistans samþykktar munu þingkonur hans greiða atkvæði með frumvarpinu. Að þeim felldum munu þær greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni.


Alþingi, 17. des. 1989.


Þórhildur Þorleifsdóttir,


fundaskr.







Fylgiskjal I.


(Texti er ekki til tölvutækur.)




Fylgiskjal II.


(Texti er ekki til tölvutækur.)