Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 241 . mál.


Nd.

357. Frumvarp til laga



um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.

    Samkvæmt því sem mælt er fyrir í lögum þessum má til bráðabirgða kyrrsetja fjármuni, taka fjármuni í löggeymslu eða leggja lögbann við athöfn.

2. gr.

    Sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fara með kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerðir.
    Um hæfi sýslumanna og fulltrúa þeirra til að fara með gerðir samkvæmt lögum þessum fer eftir reglum laga um hæfi dómara til að fara með einkamál í héraði, eftir því sem við getur átt. Ekki veldur það þó vanhæfi sýslumanns að hann annist innheimtu kröfu ef krafist er kyrrsetningar eða löggeymslu fyrir henni.
    Ef sýslumaður er vanhæfur til að fara með gerð samkvæmt lögum þessum setur dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að vinna verkið. Þóknun hans greiðist samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra úr ríkissjóði.

3. gr.

    Að því leyti, sem fyrirmæli laga þessara heimila að ágreiningur um gerð verði borinn undir héraðsdómstól, án þess að um mál sé að ræða til staðfestingar gerðinni, á úrlausn hans undir héraðsdómstólinn sem hefur dómsvald í umdæmi þess sýslumanns sem fer með gerðina.

4. gr.

    Sýslumaður færir gerðabók um þær gerðir sem lög þessi taka til, en um form hennar fer eftir reglum sem dómsmálaráðherra setur.
    Um framlagningu gagna við gerðina og varðveislu þeirra, efni bókunar sýslumanns um hana í gerðabók og undirritun og viðurvist votts við hana skal farið eftir fyrirmælum 32. gr., 2. og 3. mgr. 33. gr., 34. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga um aðför.

II. KAFLI

Kyrrsetning.

5. gr.

    Kyrrsetja má eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri.
    Ekki er það skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.

6. gr.

    Kyrrsetningarbeiðni skal vera skrifleg. Í henni skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
1.    hver sé gerðarbeiðandi og hver gerðarþoli, ásamt kennitölum þeirra og upplýsingum um heimilisföng þeirra eða dvalarstaði.
2.    hver sú fjárhæð sé, sem kyrrsetningar er krafist fyrir, og hvernig hún sundurliðist.
3.    á hverju gerðarbeiðandi byggi heimild sína til kyrrsetningar.
    Þau gögn skulu fylgja kyrrsetningarbeiðni sem kröfur gerðarbeiðanda styðjast við.

7. gr.


    Að jafnaði skal kyrrsetningarbeiðni beint til sýslumanns í því umdæmi þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing. Heimilt er þó einnig að beina kyrrsetningarbeiðni til sýslumanns í einhverju því umdæmi sem hér segir:
1.    þar sem rökstudd ástæða er til að ætla að gerðarþoli muni hittast fyrir þegar til framkvæmdar gerðarinnar kemur.
2.    þar sem gerðarþoli rekur atvinnustarfsemi ef krafa gerðarbeiðanda á rætur að rekja til hennar. Fari atvinnustarfsemi gerðarþola fram í fleiri umdæmum en einu skal að jafnaði beiðst kyrrsetningar þar sem aðalstöðvar hennar eru, nema krafa gerðarbeiðanda eigi rætur að rekja til starfseminnar á öðrum stað og gerðarbeiðandi kjósi þann stað fremur.
3.    þar sem eignir gerðarþola er að finna ef hann á ekki skráð heimili hér á landi.
    Ef kyrrsetningarbeiðni er beint til sýslumanns í öðru umdæmi en þar sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing skal ástæðu þess getið í beiðninni.

8. gr.


    Þegar kyrrsetningarbeiðni hefur borist sýslumanni kannar hann hvort hún sé í lögmæltu horfi og hvort hún hafi komið fram í réttu umdæmi. Ef svo er getur sýslumaður ekki synjað um kyrrsetningu af sjálfsdáðum, nema hann telji bersýnilegt að skilyrðum 5. gr. sé ekki fullnægt.
    Ef einhverjir þeir annmarkar eru á málstað gerðarbeiðanda sem í 1. mgr. getur endursendir sýslumaður honum kyrrsetningarbeiðnina og fylgigögn hennar ásamt stuttum rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni.
    Áður en frekari aðgerðir fara fram vegna kyrrsetningarbeiðni er sýslumanni rétt að setja það skilyrði að gerðarbeiðandi setji tiltekna tryggingu til bráðabirgða eftir ákvörðun hans fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar eða meðferðar hennar, nema líklegt sé þá þegar að tryggingar verði ekki þörf vegna fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. Sýslumaður skal, ef með þarf, tilkynna gerðarbeiðanda með sannanlegum hætti ákvörðun sína um að tryggingu þurfi að setja og getur hann þá veitt gerðarbeiðanda tiltekinn frest til þess, að því viðlögðu að beiðni hans skoðist annars fallin niður.
    Um aðrar upphafsaðgerðir kyrrsetningargerðar, þann stað sem gerð má byrja og ljúka og viðurvist málsaðila eða málsvara þeirra við hana skal farið eftir fyrirmælum 20.–24. og 35. gr. laga um aðför.

9. gr.

    Í upphafi gerðar skal sýslumaður kynna gerðarþola eða málsvara hans málavexti og fyrirliggjandi gögn og skal hann inntur álits á þeirri kröfu sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja. Ber sýslumanni í þeim efnum sem endranær við framkvæmd gerðarinnar að veita gerðarþola eða málsvara hans nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu hans við gerðina og um efni kröfu gerðarbeiðanda, á sama hátt og dómara í einkamáli ber að leiðbeina ólöglærðum málsaðila. Komi ekki fram athugasemdir af hálfu gerðarþola sem sýslumaður telur varða stöðvun á framgangi gerðarinnar eftir ákvæðum 13. gr. leiðbeinir hann gerðarþola eða málsvara hans um að varna megi kyrrsetningu með greiðslu eða tryggingu, sbr. 10. gr., en sinni gerðarþoli eða málsvari hans því ekki skal gerðinni fram haldið eftir því sem hér á eftir segir.

10. gr.

    Heimilt er gerðarþola að afstýra kyrrsetningu ef hann setur þegar í stað nægilega tryggingu fyrir greiðslu kröfu gerðarbeiðanda, að meðtöldum vöxtum til áætlaðs greiðsludags, málskostnaði og áföllnum kostnaði af gerðinni. Um form tryggingar gilda ákvæði 4. mgr. 16. gr., eftir því sem við getur átt, nema gerðarbeiðandi samþykki annað, en leiki vafi á verðgildi hennar skal hún metin með sama hætti og eignir yrðu annars metnar til kyrrsetningar. Með sama hætti skal að einhverju leyti eða öllu fella niður kyrrsetningu sem þegar hefur átt sér stað ef gerðarþoli býður síðar fram nægilega tryggingu fyrir kröfum gerðarbeiðanda.
    Sýslumaður varðveitir skilríki fyrir tryggingu gerðarþola eða hana sjálfa ef því er að skipta, en afhenda skal hann þau eða hana hlutaðeiganda þegar af einhverju eftirtalinna atvika verður:
1.    að krafan falli niður sem tryggð er.
2.    að gerðarbeiðandi höfði ekki mál til staðfestingar tryggingunni eða sátt er ekki gerð um málefnið samkvæmt ákvæðum VI. kafla.
3.    að gerðarþoli sé sýknaður í dómsmáli af kröfu gerðarbeiðanda um staðfestingu tryggingarinnar.
4.    að dómur gangi um lausn tryggingarinnar.
5.    að gerðarbeiðandi öðlist rétt til umráða tryggingarinnar á grundvelli fjárnáms fyrir kröfu sinni.
6.    að annar hvor málsaðila lýsi yfir fyrir sýslumanni að hann samþykki að hinn fái umráð tryggingarinnar.

11. gr.


    Gerðarþola eða málsvara hans er skylt að segja satt og rétt frá öllu sem sýslumaður krefur hann svara um við framkvæmd gerðarinnar og máli skiptir um framgang hennar. Heimilt er sýslumanni að neyta úrræða 29.–31. gr. laga um aðför við gerðina, ef gerðarbeiðandi krefst, með sömu skilyrðum og þar greinir.

12. gr.

    Frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á kyrrsetningargerð stendur, nema málsaðilar séu á það sáttir.
    Ef gerðarþoli eða sá sem málstað hans tekur við gerðina krefst að henni verði frestað, en gerðarbeiðandi fellst ekki á þá kröfu, skal sýslumaður ákveða þegar í stað hvort hann heldur gerðinni áfram eða hvort henni verði frestað til tiltekins tíma. Að öðru jöfnu skal ekki fresta gerðinni gegn andmælum gerðarbeiðanda, nema tryggt megi telja að gerðarþoli hafist ekkert það að sem spillt gæti rétti gerðarbeiðanda.

13. gr.

    Ef gerðarþoli eða sá sem málstað hans tekur mótmælir réttmæti kröfu gerðarbeiðanda rétti hans til að gerðin fari fram eða hún fari fram með þeim hætti, sem gerðarbeiðandi krefst, skal sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda ákveða þegar í stað hvort gerðin fari fram eða hvort henni verði fram haldið og eftir atvikum með hverjum hætti. Gegn andmælum gerðarbeiðanda skal sýslumaður að jafnaði ekki stöðva framgang gerðarinnar vegna mótmæla gerðarþola, nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telur þau af öðrum sökum valda því, að óvíst sé að skilyrði séu fyrir að gerðin nái fram að ganga eða að hún fari þannig fram sem gerðarbeiðandi krefst.
    Ákveði sýslumaður vegna mótmæla gerðarþola eða málsvara hans að stöðva framgang gerðar að nokkru leyti en ekki öllu er gerðarbeiðanda rétt að krefjast þess að gerðinni verði þegar fram haldið að því leyti sem sýslumaður hefur ákveðið, þótt hann beri enn fremur synjun sýslumanns undir héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum V. kafla.

14. gr.

    Ef gerðin gæti ranglega skert rétt þriðja manns er honum heimilt að afstýra gerðinni með sama hætti og segir í 10. gr. eða að krefjast frestunar hennar eða mótmæla framgangi hennar að því leyti sem hún varðar rétt hans. Farið skal með slíkar kröfur eða slík mótmæli eins og um væri að ræða kröfur eða mótmæli gerðarþola skv. 12. eða 13. gr.

15. gr.

    Um þær eignir, sem kyrrsettar verða, virðingu þeirra og rétt málsaðila til að vísa á þær og um heimildir til að ljúka kyrrsetningargerð án árangurs, gilda ákvæði 36.–50. gr., 2. mgr. 51. gr., 62. og 63. gr. laga um aðför.

16. gr.

    Þótt sýslumaður hafi ekki krafið gerðarbeiðanda um tryggingu til bráðabirgða skv. 3. mgr. 8. gr. má hann með sama hætti og sömu afleiðingum og þar greinir setja að skilyrði fyrir frekari framkvæmd gerðar að slík eða aukin trygging verði sett hvenær sem er meðan á gerðinni stendur.
    Þegar vísað hefur verið á eignir til kyrrsetningar fyrir kröfu gerðarbeiðanda eða fram er komin trygging af hendi gerðarþola skv. 10. gr. skal sýslumaður taka endanlega ákvörðun um þá tryggingu sem gerðarbeiðanda kann að verða gert að setja fyrir kyrrsetningu. Við þá ákvörðun er sýslumaður óbundinn af ákvörðun sinni um tryggingu til bráðabirgða. Setji gerðarbeiðandi ekki fullnægjandi tryggingu innan frests sem sýslumaður ákveður skal gerðin felld niður.
    Heimilt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda að ljúka kyrrsetningargerð án tryggingar úr hendi hans ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
1.    að krafist sé kyrrsetningar fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfi, víxli eða tékka hafi gerðarþoli ekki haft uppi mótmæli við gerðina gegn kröfunni sem komið verður að í dómsmáli um hana.
2.    að gerðarþoli hafi afsalað sér tryggingu fyrir sýslumanni.
3.    að gerðarþoli hafi viðurkennt réttmæti kröfunnar fyrir sýslumanni eða dómi og að skilyrði séu til kyrrsetningar fyrir henni.
4.    að dómsúrlausn hafi gengið um kröfu gerðarbeiðanda, en aðfararfresti er ólokið.
5.    að krafa gerðarbeiðanda sé annars með þeim hætti að sýslumaður telji réttmæti hennar og gerðarinnar tvímælalaust í ljósi atvika.
    Ef tryggingu þarf að setja og aðilar lýsa sig ekki sammála um annað skal hún að jafnaði vera í formi peninga, en annars í sambærilegu formi, þannig að greiðslu megi fá í skjóli hennar án fullnustugerða. Sýslumanni er rétt að hafna tryggingu ef telja verður form hennar óviðunandi eða vafa leika á um verðmæti hennar.
    Við ákvörðun um fjárhæð tryggingar skal sýslumaður einkum hafa hliðsjón af því að hverju marki kyrrsetning kunni að hefta athafnir gerðarþola honum til tjóns, hvort líklegt megi telja að gerðin eða beiðnin um hana spilli lánstrausti hans eða viðskiptahagsmunum og hvort hann hafi haft uppi athugasemdir um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda og gerðarinnar. Skal einnig tekið tillit til kostnaðar sem gerðarþoli kynni síðar að hafa af rekstri dómsmála í tengslum við gerðina.

17. gr.


    Sýslumaður varðveitir skilríki fyrir tryggingu af hendi gerðarbeiðanda eða hana sjálfa ef því er að skipta, en þeim eða henni skal skila gerðarbeiðanda að fullnægðu einhverju eftirtalinna skilyrða:
1.    að kyrrsetning hafi verið staðfest með dómi eða sátt verið gerð um gildi hennar sem fullnægja má með aðför.
2.    að gerðarþoli höfði ekki mál til heimtu bóta innan frests skv. 43. gr.
3.    að gerðarbeiðandi sé sýknaður í dómsmáli af bótakröfu gerðarþola.
4.    að gerðarþoli lýsi yfir fyrir sýslumanni að hann samþykki að tryggingunni verði skilað.
    Ef sýslumaður hefur krafið gerðarbeiðanda um hærri tryggingu til bráðabirgða en hann ákveður að endingu skal því skilað sem umfram er.

18. gr.


    Þegar gerðarbeiðandi hefur sett nægilega tryggingu skv. 16. gr. ef hún er áskilin kyrrsetur sýslumaður þær eignir sem vísað hefur verið á við gerðina og lýkur þannig gerðinni. Sýslumaður skal leiðbeina gerðarþola eða þeim sem tekið hefur málstað hans við gerðina um réttaráhrif hennar. Hafi enginn verið við gerðina af hálfu gerðarþola skal sýslumaður tilkynna honum um hana og réttaráhrif hennar ef vitað er hvar hann er niður kominn.

19. gr.

    Hafi peningar verið kyrrsettir tekur sýslumaður þá til varðveislu á bankareikningi þar til gerðarbeiðandi öðlast rétt til afhendingar þeirra á grundvelli fjárnáms fyrir kröfu sinni eða gerðarþoli hefur verið sýknaður af kröfu gerðarbeiðanda í dómsmáli um hana.
    Hafi viðskiptabréf verið kyrrsett eða skuldakrafa tekur sýslumaður bréfið eða skilríki fyrir kröfunni til varðveislu, ef gerðarbeiðandi krefst, fram til þess tíma sem í 1. mgr. getur. Berist sýslumanni greiðsla slíkrar kröfu skal hún varðveitt með sama hætti og kyrrsettir peningar. Heimilt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda og á kostnað hans að fela öðrum manni innheimtu kyrrsettrar kröfu.
    Aðrar kyrrsettar eignir en þær sem ákvæði 1. og 2. mgr. taka til skulu framvegis vera í vörslum gerðarþola eða annarra sem hann hefur falið þær. Þó getur sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda tekið slíka eign úr umráðum gerðarþola eða annars vörslumanns og annast hana sjálfur á kostnað gerðarbeiðanda eða falið hana öðrum manni þann tíma sem í 1. mgr. segir ef hagsmunir gerðarbeiðanda verða taldir í brýnni hættu að óbreyttum umráðum, enda standi réttur þriðja manns þeirri ráðstöfun ekki í vegi. Ber sýslumanni að krefja gerðarbeiðanda um sérstaka tryggingu við slíka umráðatöku vegna spjalla eða afnotamissis gerðarþola og kostnaðar af varðveislu eignarinnar. Fyrirmæli 3. mgr. 16. gr. eiga ekki við um slíka tryggingu.

20. gr.

    Óheimilt er gerðarþola eða öðrum eiganda kyrrsettrar eignar að ráðstafa henni með samningi þannig að í bága fari við rétt gerðarbeiðanda, enda er gerðarbeiðandi ekki bundinn gagnvart þriðja manni af slíkri ráðstöfun.
    Þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. vinnur grandlaus þriðji maður rétt yfir fasteign eða skrásettu skráningarskyldu skipi, hafi kyrrsetningu ekki verið þinglýst, og yfir viðskiptabréfi, hafi það ekki verið áritað um kyrrsetningu. Þá losnar skuldari undan kröfu, sem kyrrsett hefur verið, hafi hann greitt gerðarþola kröfuna, afborgun af henni eða vexti, ef honum hefur ekki verið tilkynnt um gerðina eða mátt vera kunnugt um hana af öðrum sökum eða viðskiptabréf, sem krafan styðst við, hefur ekki verið áritað um kyrrsetninguna. Þriðja manni, sem varðveitir kyrrsetta eign, er og rétt að afhenda hana gerðarþola hafi honum ekki verið tilkynnt um kyrrsetningu og hann er grandlaus um hana.
    Óheimilt er gerðarþola að nýta eða fara með kyrrsetta eign, sem hann heldur umráðum yfir, á nokkurn hátt sem farið gæti í bága við rétt gerðarbeiðanda. Gerðarþola er þó heimilt að nýta fylgifé fasteignar, skips eða loftfars sem kyrrsett hefur verið með slíkri eign, að því leyti sem nauðsynlegt er til eðlilegra nota hennar.

21. gr.

    Kyrrsetning víkur fyrir fjárnámi í kyrrsettri eign.
    Kyrrsetning fellur niður ef nauðasamningur milli gerðarþola og lánardrottna hans hlýtur staðfestingu, ef bú gerðarþola er tekið til gjaldþrotaskipta eða ef dánarbú gerðarþola er tekið til skipta án ábyrgðar erfingja á skuldbindingum þess.

22. gr.

    Gerðin skal tekin upp á ný ef allir málsaðilar eru á það sáttir eða til skila á tryggingu samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 10. gr. eða 17. gr.
    Eftir kröfu gerðarbeiðanda verður gerð endurupptekin:
1.    ef hann telur nauðsyn bera til umráðasviptingar samkvæmt ákvæðum 2. eða 3. mgr. 19. gr.
2.    ef hann vill að einhverju leyti eða öllu falla frá réttindum sínum samkvæmt gerðinni.
3.    ef hann krefst að kyrrsettar eignir verði skrásettar með nánara hætti en í upphafi var gert.
4.    ef kyrrsetningargerð var áður lokið án árangurs að einhverju leyti eða öllu og hann telur unnt að vísa á eignir til kyrrsetningar.
    Eftir kröfu gerðarþola verður gerð endurupptekin:
1.    ef hann hefur ekki verið staddur við gerðina og eign hefur verið kyrrsett sem heimild brast til eða mátti undanþiggja.
2.    til að setja tryggingu til að fá gerð, sem þegar hefur farið fram, fellda niður að einhverju leyti eða öllu.
3.    ef krafa gerðarbeiðanda er fallin niður, gerðarþoli hefur verið sýknaður í dómsmáli af kröfu gerðarbeiðanda eða staðfestingarmál hefur ekki verið höfðað innan frests skv. 36.–38. gr., enda þyki gerðarþoli hafa hagsmuni af að gerðin verði endurupptekin af þeim sökum.
4.    ef gerðarbeiðandi heldur ekki fram dómsmáli til staðfestingar gerðinni með eðlilegum hraða.
    Þriðja manni, sem telur gerðina fara í bága við rétt sinn, er heimilt að krefjast endurupptöku hennar hafi hann ekki átt þess kost að koma fram mótmælum gegn henni meðan á gerðinni stóð.
    Beiðni um endurupptöku skal beint til þess sýslumanns sem lauk gerðinni, en farið skal með hana eftir þeim reglum sem almennt gilda um framkvæmd gerðar, eftir því sem við getur átt. Sýslumaður er óbundinn af fyrri ákvörðunum sínum að því leyti, sem þær geta komið til endurskoðunar við endurupptöku.

III. KAFLI


Löggeymsla.

23. gr.

    Taka má eignir skuldara í löggeymslu til tryggingar kröfu um greiðslu peninga samkvæmt dómi eða úrskurði sem skotið hefur verið til æðra dóms ef annars hefði þegar mátt fullnægja kröfunni með aðför.
    Ákvæði 6.–20. og 22. gr. gilda um löggeymslu eftir því sem við getur átt, sbr. þó 3. og 4. mgr.
    Sá sem löggeymslu krefst verður ekki krafinn um tryggingu vegna beiðni sinnar eða gerðarinnar.
    Löggeymsla gengur fyrir fjárnámi sem síðar er gert í sömu eign.
    Mál skal ekki höfðað til staðfestingar löggeymslugerð, en heimilt er að bera ágreining um hana undir héraðsdóm eftir reglum XV. kafla laga um aðför.

IV. KAFLI

Lögbann.

24. gr.

    Lögbann má leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.
    Lögbann verður ekki lagt við stjórnarathöfn þess sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags.
    Lögbann verður ekki lagt við athöfn:
1.    ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
2.    ef sýnt þykir að stórfelldur munur sé á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af að fyrirbyggja hana, enda setji gerðarþoli eftir atvikum tryggingu fyrir því tjóni sem athöfnin kann að baka gerðarbeiðanda.

25. gr.


    Við lögbannsgerð má sýslumaður eftir kröfu gerðarbeiðanda leggja fyrir gerðarþola að leysa af hendi tiltekna athöfn ef hún er þess eðlis að annar maður gæti þá þegar leyst hana af hendi í hans stað og sýnt þykir að hún sé nauðsynleg til að tryggja að gerðarþoli hlíti lögbanninu. Fari gerðarþoli ekki að fyrirmælum sýslumanns getur hann falið öðrum manni að framkvæma athöfnina á kostnað gerðarbeiðanda eða leyst hana af hendi sjálfur.
    Við lögbannsgerð getur sýslumaður eftir kröfu gerðarbeiðanda tekið muni úr vörslum gerðarþola og varðveitt þá á kostnað gerðarbeiðanda, uns dómur eða sátt kveður á um réttindi málsaðila, hafi munirnir verið nýttir eða bersýnilega verið ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbann er lagt við, enda þyki sýnt að brýn hætta sé á að gerðarþoli muni nýta þá til að brjóta lögbannið ef hann heldur vörslum þeirra.

26. gr.

    Beiðni um lögbann skal annaðhvort beint til sýslumanns í því umdæmi sem gerðarþoli á heimilisvarnarþing eða í því umdæmi þar sem athöfn, sem lögbanns er beiðst við, fer eða mun fara fram. Í beiðninni, sem skal vera skrifleg, skal eftirfarandi koma fram svo skýrt sem verða má:
1.    hver gerðarbeiðandi sé og gerðarþoli, ásamt kennitölum þeirra og upplýsingum um heimilisföng þeirra eða dvalarstaði.
2.    hver sú athöfn sé, sem lögbanns er krafist við.
3.    rökstuðningur gerðarbeiðanda fyrir því að hann telji skilyrðum 24. gr. fullnægt.
    Þau gögn skulu fylgja lögbannsbeiðni sem gerðarbeiðandi byggir kröfur sínar á.
    Um upphafsaðgerðir sýslumanns að fram kominni lögbannsbeiðni skal farið
eftir fyrirmælum 8. gr., eftir því sem við getur átt. Þó má lögbannsgerð byrja á þeim stað þar sem athöfnin, sem hún beinist að, fer eða mun fyrirsjáanlega fara fram.

27. gr.


    Með sama hætti og mælt er fyrir um í 9. gr. skal sýslumaður í upphafi lögbannsgerðar kynna gerðarþola eða málsvara hans kröfur gerðarbeiðanda og veita honum leiðbeiningar. Komi ekki fram athugasemdir af hálfu gerðarþola sem sýslumaður telur varða stöðvun á framgangi lögbannsgerðar, sbr. 3. mgr. 29. gr., skorar hann á gerðarþola að láta af þeirri athöfn sem lögbanns er krafist við. Verði gerðarþoli eða málsvari hans ekki við þeirri áskorun skal gerðinni fram haldið, eftir því sem hér á eftir segir.
    Ákvæði 11. gr. og 1. mgr. 16. gr. taka til lögbannsgerða.

28. gr.

    Nú býður gerðarþoli eða málsvari hans fram tryggingu til að afstýra lögbanni skv. 2. tölul. 3. mgr. 24. gr. og skal þá sýslumaður inna gerðarbeiðanda álits á því boði. Samþykki gerðarbeiðandi þau málalok eða fallist sýslumaður að öðrum kosti á kröfu gerðarþola skal sýslumaður þegar ákveða fjárhæð tryggingarinnar, form hennar og frest handa gerðarþola til að setja hana ef því er að skipta. Ef sérstaklega stendur á getur gerðarþoli með sama hætti óskað eftir að niður verði fellt lögbann sem þegar hefur verið lagt á.
    Um form tryggingar skv. 1. mgr. skal farið eftir fyrirmælum 4. mgr. 16. gr.
    Beita má ákvæðum 2. mgr. 29. gr. ef gerðarþola er veittur frestur til að setja tryggingu. Ef trygging er ekki sett innan frestsins skal gerðinni þegar fram haldið að honum loknum er gerðarbeiðandi krefst.
    Um varðveislu og skil á tryggingu skv. 1. mgr. gilda ákvæði 2. mgr. 10. gr.

29. gr.

    Frestir skulu að jafnaði ekki veittir meðan á lögbannsgerð stendur, nema málsaðilar séu á það sáttir.
    Taki sýslumaður til greina kröfu gerðarþola um frestun gerðarinnar gegn andmælum gerðarbeiðanda getur hann að kröfu gerðarbeiðanda sett það skilyrði fyrir fresti að gerðarþoli láti af athöfn sinni meðan á fresti stendur.
    Rísi annar ágreiningur við framkvæmd lögbannsgerðar eða hafi þriðji maður uppi kröfur við hana skal farið eftir fyrirmælum 13. og 14. gr.

30. gr.

    Þegar sýslumaður hefur ákveðið að lögbann verði að einhverju leyti eða öllu lagt við athöfn skal hann taka endanlega ákvörðun um þá tryggingu sem gerðarbeiðanda kann að verða gert að setja fyrir lögbanni og er hann þá óbundinn af fyrri ákvörðun sinni um tryggingu til bráðabirgða. Setji gerðarbeiðandi ekki fullnægjandi tryggingu innan frests sem sýslumaður ákveður skal gerðin felld niður.
    Heimilt er sýslumanni samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda að leggja á lögbann án tryggingar af hans hendi ef svo stendur á sem í 2., 3. eða 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. segir.
    Um form lögbannstryggingar gilda ákvæði 4. mgr. 16. gr.
    Við ákvörðun um fjárhæð lögbannstryggingar skal sýslumaður einkum hafa hliðsjón af því, hverju beinu og afleiddu tjóni og hverjum miska gerðarþoli kunni að verða fyrir af stöðvun athafna sinna, hvort gerðarþoli hafi haft uppi athugasemdir um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda og gerðarinnar og hvern kostnað gerðarþoli kynni síðar að hafa af rekstri dómsmála í tengslum við gerðina. Hafi gerðarbeiðandi krafist að munir verði teknir úr umráðum gerðarþola skv. 2. mgr. 25. gr., skal áskilin sérstök trygging sem ákvörðuð verður eftir fyrirmælum 3. mgr. 19. gr.
    Um varðveislu og skil lögbannstryggingar skal farið eftir ákvæðum 17. gr.

31. gr.

    Þegar gerðarbeiðandi hefur sett nægilega tryggingu skv. 30. gr. ef hún er áskilin leggur sýslumaður lögbann við þeirri athöfn sem um ræðir og gerir eftir atvikum aðrar ráðstafanir, sbr. 25. gr., og lýkur þar með gerðinni. Skal bókað svo skýrlega sem verða má í gerðabók hver sú athöfn er sem lögbann er lagt við. Um leiðbeiningar af hendi sýslumanns og tilkynningar skal farið eftir ákvæðum 18. gr.
    Taka má upp lögbannsgerð þegar svo stendur á sem í 1. mgr., 2. tölul. 2. mgr., 2.–4. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. 22. gr. segir. Við endurupptöku skal farið eftir 5. mgr. 22. gr., eftir því sem við getur átt.

32. gr.

    Skylt er sýslumanni að kröfu gerðarbeiðanda að gera ráðstafanir til að halda uppi lögbanni. Ber lögreglumönnum að veita aðstoð í þeim efnum eftir ákvörðun sýslumanns.
    Brjóti gerðarþoli af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögbann má dæma hann í máli, sem gerðarbeiðandi höfðar, til greiðslu sektar, sem renni í ríkissjóð, eða í varðhald. Hið sama á við um aðra menn sem vísvitandi liðsinna gerðarþola í broti á lögbanni.
    Brjóti gerðarþoli eða einhver á hans vegum lögbann af ásetningi eða gáleysi ber þeim að bæta gerðarbeiðanda það tjón sem brotið bakar honum. Sækja má bótakröfu í refsimáli skv. 2. mgr.
    Fresta má refsi- eða bótamáli vegna brots á lögbanni þar til dómur hefur gengið í máli til staðfestingar á lögbanninu.

V. KAFLI

Meðferð mála fyrir héraðsdómi til úrlausnar ágreinings um

undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar.

33. gr.

    Gerðarbeiðandi getur krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar, stöðvun gerðar eða synjun kröfu hans um endurupptöku hennar með því að tilkynna það sýslumanni innan viku frá því honum verður sú ákvörðun kunn.
    Heimilt er gerðarbeiðanda að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðrar ákvarðanir sem sýslumaður tekur um undirbúning, framkvæmd eða endurupptöku gerðar samkvæmt lögum þessum ef hann hefur þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina.

34. gr.

    Meðan gerð samkvæmt lögum þessum er ólokið getur gerðarþoli því aðeins krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar að gerðarbeiðandi mótmæli því ekki, enda hafi gerðarþoli þá kröfu sína uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina. Gerðarþola er þó ávallt frjálst að hafa kröfur uppi fyrir dómi um atriði sem gerðarbeiðandi krefst úrlausnar um skv. 33. gr.
    Gerðarþola er heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um synjun sýslumanns á kröfu hans um endurupptöku gerðar ef hann hefur þá kröfu uppi við sýslumann innan viku frá því honum verður synjunin kunn.
    Að því leyti, sem þriðji maður getur haft hagsmuni af ákvörðun sýslumanns um gerð samkvæmt lögum þessum, er honum heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um hana með sama hætti og gerðarþola.

35. gr.

    Ákvæði 86.–91. gr. laga um aðför taka að öðru leyti til mála samkvæmt kafla þessum.
    Ákvarðanir sýslumanns um kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, sem ekki hafa verið bornar undir héraðsdóm samkvæmt framansögðu, verða það ekki síðar nema í máli til staðfestingar gerðinni.

VI. KAFLI

Mál til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni.

36. gr.

    Eftir að kyrrsetningar- eða lögbannsgerð hefur verið lokið skal gerðarbeiðandi fá gefna út réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni, nema gerðarþoli hafi lýst yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Ef mál um kröfu gerðarbeiðanda verður jafnframt sótt á hendur gerðarþola fyrir dómstól hér á landi skal réttarstefna gefin út í staðfestingarmáli innan viku frá lokum gerðar og gilda þá ákvæði 2.–5. mgr.
    Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda skal í einu lagi höfða mál um hana og til staðfestingar gerðinni.
    Hafi mál áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda, en dómur hefur ekki gengið um hana í héraði, skal staðfestingarmál sameinað því með endurupptöku þess ef með þarf.
    Nú hefur héraðsdómur gengið um kröfu gerðarbeiðanda þegar staðfestingarmál er þingfest og dóminum er eða hefur verið skotið til æðra dóms, og má þá héraðsdómari fresta meðferð staðfestingarmáls uns fengin er úrlausn æðra dóms.
    Þegar svo stendur á sem í 2. mgr. segir má sækja mál í þinghá þar sem gerðinni var lokið ef gerðarþoli verður annars sóttur til sakar hér á landi. Staðfestingarmál skv. 3. og 4. mgr. skal sækja í þinghá þar sem mál um kröfu gerðarbeiðanda er eða var rekið.

37. gr.

    Ef sækja verður mál um kröfu gerðarbeiðanda fyrir dómstól í öðru ríki skal hann fá útgefna réttarstefnu til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni innan þriggja vikna frá lokum gerðar í þeirri þinghá sem henni var lokið, nema gerðarþoli lýsi yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Hafi mál ekki áður verið höfðað um kröfu gerðarbeiðanda í öðru ríki skal það gert innan sama frests.
    Ef dómur um kröfu gerðarbeiðanda, uppkveðinn í öðru ríki, yrði aðfararhæfur hér á landi skal héraðsdómari fresta meðferð staðfestingarmáls uns dómur er genginn um kröfuna.

38. gr.

    Fyrirmæli 36. og 37. gr. gilda einnig um staðfestingu tryggingar ef kyrrsetningu eða lögbanni hefur verið afstýrt eða gerðin felld niður með tryggingu úr hendi gerðarþola. Frestur til málshöfðunar telst frá þeim tíma sem sýslumaður tekur við tryggingu eða skilríkjum fyrir henni.

39. gr.

    Ef mál er ekki höfðað með þeim hætti sem áskilið er í 36.–38. gr. fellur kyrrsetning eða lögbann sjálfkrafa úr gildi frá þeim tíma sem gerðarbeiðandi mátti í síðasta lagi fá gefna út réttarstefnu í málinu.
    Þótt synjað sé um staðfestingu gerðar í héraðsdómi stendur hún í þrjár vikur frá dómsuppsögu. Að loknum þeim fresti fellur gerðin niður, nema gerðarbeiðandi fái áður gefna út stefnu til æðra dóms til að fá héraðsdómi hrundið. Ef æðri dómur staðfestir ákvæði héraðsdóms um synjun um staðfestingu gerðar fellur hún úr gildi frá dómsuppsögu þar.
    Ef staðfestingarmál verður ekki þingfest gerðarbeiðanda að vítalausu, því er vísað frá dómi eða það er hafið með samkomulagi málsaðila stendur gerðin í eina viku frá því honum urðu þau málalok kunn. Að loknum þeim fresti fellur gerðin sjálfkrafa úr gildi, nema gerðarbeiðandi hafi áður fengið stefnu gefna út á ný til staðfestingar henni. Aðeins má þó eitt sinn fara þannig að, nema það verði talið gerðarbeiðanda óviðráðanlegt að máli hans hafi lokið á ný með þeim hætti.

40. gr.

    Þriðji maður, sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, getur haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli með meðalgöngu eða sótt þær í sérstöku máli, hvort sem er til niðurfellingar gerðar eða til skaðabóta vegna hennar.

41. gr.

    Í máli skv. 36.–38. gr., sbr. 40. gr., má hafa uppi málsvarnir um kröfu gerðarbeiðanda, hvort sem þær eru eldri eða yngri en gerðin og hvort sem þeim var hreyft við framkvæmd hennar eða ekki. Með sama hætti má hafa uppi varnir um gildi gerðarinnar að því leyti sem héraðsdómur hefur ekki leyst úr þeim í máli samkvæmt ákvæðum V. kafla.
    Samkvæmt kröfu gerðarþola er héraðsdómara heimilt að ákveða að skipta sakarefni þannig að staðfestingarmál verði fyrst í stað aðeins sótt og varið um atriði sem varða skilyrði eða framkvæmd gerðarinnar sjálfrar.
    Heimilt er málsaðilum að ljúka dómsmáli með réttarsátt um staðfestingu kyrrsetningar eða lögbanns.

VII. KAFLI

Skaðabætur vegna kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar.

42. gr.

    Nú fellur kyrrsetning, löggeymsla eða lögbann niður vegna sýknu af þeirri kröfu sem gerðinni var ætlað að tryggja og skal þá gerðarbeiðandi bæta þann miska og það fjártjón, þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum sem telja má að gerðin hafi valdið. Heimilt er að dæma skaðabætur eftir álitum ef ljóst þykir að fjárhagslegt tjón hafi orðið, en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess.
    Ef sýknað er vegna atvika sem fyrst urðu eftir lok gerðar skulu bætur þó aðeins dæmdar ef ætla má að gerðarbeiðandi hafi ekki átt þá kröfu sem gerðin átti að tryggja.
    Ef sýknað er að nokkru leyti en ekki öllu af kröfu gerðarbeiðanda og gerðin fellur niður að því marki skal gerðarbeiðandi bæta það tjón sem ætla má að hlotist hafi af því að gerðin hafi verið umfangsmeiri en efni voru til.
    Ef synjað er um staðfestingu kyrrsetningar eða lögbanns vegna annmarka á gerðinni sjálfri eða henni hefur ekki verið réttilega haldið til laga samkvæmt fyrirmælum VI. kafla skal gerðarbeiðandi bæta tjón með þeim hætti, sem í 1. mgr. segir ef talið verður að ekki hafi verið tilefni til gerðarinnar. Hið sama á við ef löggeymslugerð er felld úr gildi í máli skv. 5. mgr. 23. gr. vegna annmarka á henni sjálfri.
    Fyrirmæli 1.–4. mgr. taka til skaðabóta ef gerðinni hefur verið afstýrt með tryggingu úr hendi gerðarþola.
    Hafi krafa gerðarbeiðanda um kyrrsetningu, löggeymslu eða lögbann ekki náð fram að ganga fer um bætur eftir 1.–3. mgr., að því leyti sem beiðni um gerðina eða ráðstafanir vegna hennar hafa valdið tjóni.

43. gr.

    Bótakröfu skv. 42. gr. má hafa uppi í staðfestingarmáli til skuldajafnaðar eða sjálfstæðs dóms.
    Höfða má sjálfstætt mál til heimtu skaðabóta skv. 42. gr. innan þriggja mánaða frá því þeim sem bóta krefst varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, um niðurstöðu staðfestingarmáls eða um niðurfellingu gerðar af öðrum sökum. Slíkt mál má höfða í þeirri þinghá sem gerðinni var lokið eða hennar var beiðst.
    Kröfu um miskabætur samkvæmt fyrirmælum laga þessara má framselja hafi hún verið dæmd eða viðurkennd. Gengur hún að arfi með sama skilorði, svo og ef mál hefur verið höfðað til heimtu hennar fyrir lát tjónþola.

VIII. KAFLI

Gildistaka, brottfallin lög o.fl.

44. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirfarandi lög og ákvæði laga:
1.     Lög um kyrrsetningu og lögbann, nr. 18 22. mars 1949.
2.     3. mgr. 209. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85 23. júní 1936.
3.     93. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20 8. mars 1954.
4.     Í 4. málsl. 26. gr. laga um prentrétt, nr. 57 10. apríl 1956, orðin „nr. 18/1949“.
5.     5. tölul. 4. mgr. 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54 6. apríl 1971.
6.     2. mgr. 15. gr. þinglýsingalaga, nr. 39 10. maí 1978.
7.     2. gr. laga um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, nr. 12 30. apríl 1981.
8.     2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 26 14. apríl 1982.
9.     2. mgr. 39. gr. hafnalaga, nr. 69 28. maí 1984.
10.     2. mgr. 31. gr. laga um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985.
11.     2. mgr. 35. gr. laga um sparisjóði, nr. 87 4. júlí 1985.

45. gr.


    Hafi kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð byrjað fyrir gildistöku laga þessara, en er ólokið á því tímamarki, fer um framhald hennar eftir fyrirmælum þessara laga. Á það og við um skilyrði fyrir gerðinni, hvort sem skilyrði hafi verið fyrir henni eða ekki eftir fyrirmælum eldri laga.

46. gr.

    Fyrirmæli laga þessara um varðveislu og skil á tryggingu, sem málsaðili setur, skulu frá gildistöku þeirra taka til tryggingar sem sett hefur verið fyrir gerð eftir eldri lögum.

47. gr.

    Beitt skal ákvæðum 19. gr. um vörslur eigna og umráðasviptingu þótt gerð hafi farið fram fyrir gildistöku laga þessara.
    Fyrirmæli 25. gr. og 1. mgr. 32. gr. gilda um ráðstafanir til að halda uppi lögbanni sem lagt hefur verið á fyrir gildistöku laga þessara.

48. gr.

    Um heimildir til endurupptöku gerðar, sem farið hefur fram fyrir 1. júlí 1992, skal farið eftir fyrirmælum eldri laga þótt endurupptöku sé beiðst eftir þann tíma, en um framkvæmd hennar skal farið eftir ákvæðum 5. mgr. 22. gr., eftir því sem við getur átt.

49. gr.


    Fyrirmæli 32. gr. um refsingu og skaðabætur vegna brota á lögbanni taka til athafna, sem eiga sér stað eftir gildistöku laga þessara þótt lögbann hafi verið lagt á í gildistíð eldri laga.

50. gr.

    Ef ágreiningsmál er rekið fyrir fógetarétti um kyrrsetningu, löggeymslu eða lögbann við gildistöku laga þessara eða ákvörðun hefur verið tekin um rekstur slíks máls fyrir þann tíma skal málið sjálfkrafa sæta áframhaldandi meðferð fyrir þeim héraðsdómi sem tekur við lögsögu í umdæminu. Meðferð slíks máls skal lokið eftir þeim reglum sem giltu fyrir 1. júlí 1992.
    Atriði varðandi kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð, sem upp hafa komið fyrir gildistöku laga þessara, verða ekki borin undir héraðsdóm eftir fyrirmælum 5. mgr. 23. gr. eða V. kafla.

51. gr.

    Mál til staðfestingar kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, sem lokið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, skal höfðað og rekið eftir reglum eldri laga.

52. gr.

    Fyrirmæli VII. kafla um skaðabætur taka aðeins til atvika við kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerð sem fara eftir fyrirmælum þessara laga. Gilda fyrirmæli eldri laga um bætur vegna gerðar sem farið hefur eftir þeim.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Hefur verið unnið að gerð þess í samráði við réttarfarsnefnd, en jafnframt voru drög að því kynnt laganefnd Lögmannafélags Íslands, stjórn Dómarafélags Íslands og stjórn Sýslumannafélags Íslands og var leitað tillagna þeirra og ábendinga.
    Frumvarpinu er einkum ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um kyrrsetningu og lögbann, nr. 18 22. mars 1949. Viðfangsefni frumvarpsins, líkt og núgildandi laga, er fyrst og fremst að kveða á um heimildir til bráðabirgðaverndar réttinda, sem ekki verður þegar fullnægt með aðför, með því að tryggja að óbreytt ástand vari meðan aflað er úrlausnar dómstóla um þau. Samkvæmt frumvarpinu verður þetta einkum gert með tvennu móti eins og núgildandi lög mæla einnig fyrir um. Er annars vegar um að ræða að valdsmanni er með tilteknum skilyrðum heimilað að kyrrsetja eign skuldara samkvæmt kröfu þess, sem á peningakröfu á hendur honum, en tilgangur gerðarinnar er þá að tryggja að viðkomandi eign verði fyrir hendi til að gera fjárnám í, þegar skuldareigandi hefur aflað sér aðfararheimildar fyrir kröfu sinni. Hins vegar er kveðið á um heimildir valdsmanns til að leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn manns, sem brýtur eða brjóta mundi gegn rétti annars, til að tryggja að viðkomandi athöfn fari ekki fram meðan leitað er úrlausnar dómstóla um heimildir til hennar. Þessu til viðbótar er ráðgert í frumvarpinu að taka megi eignir skuldara í löggeymslu til tryggingar kröfu, sem héraðsdómur hefur gengið um, ef þeim dómi er áfrýjað til æðra dóms þannig að ekki geti orðið af aðför fyrir kröfunni. Löggeymslu svipar mjög til kyrrsetningar fyrir peningakröfu því að í báðum tilvikum er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða sem á að tryggja tilvist eigna til tryggingar kröfu þar til endanlegur dómur gengur um hana og unnt er að gera aðför fyrir henni eftir almennum reglum. Fyrirmælum frumvarpsins um þetta efni er ætlað að koma í stað reglu um löggeymslu í norskum lögum Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, ákvæði I–22–24. Tilgangur þessara þrenns konar gerða er vissulega ólíkur og hið sama má að nokkru segja um skilyrði fyrir þeim. Allt að einu er ýmislegt þeim sammerkt, þannig að til hagræðis horfi að reglur um þær komi fram í einni og sömu löggjöf, auk þess að söguleg hefð er fyrir þeirri skipan bæði hér á landi og í ýmsum nágrannalöndum.
    Frumvarp þetta er samið sem þáttur í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan og réttarfar og um meðferð framkvæmdarvalds í héraði. Er það sniðið að þeirri skipan, sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989, og að þeim forsendum sem gengið var út frá við samningu frumvarps að þeim lögum og nánar er lýst í athugasemdum með því.
    Frumvarp að núgildandi lögum um kyrrsetningu og lögbann mun á sínum tíma hafa verið samið með hliðsjón af þágildandi lagareglum um sama efni í Danmörku. Á þeim 40 árum, sem lög þessi hafa verið í gildi hér á landi, hefur aðeins verið gerð ein lítils háttar breyting á þeim, en hún varð með lögum nr. 48/1978 og tengdist setningu þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Hefur því ekki áður farið fram nein heildarskoðun á því, hvort efni séu til breytinga á núgildandi lögum þótt á tíðum hafi orðið nokkur slík umræða um afmörkuð atriði þeirra, einkum um skilyrði fyrir kyrrsetningu og lögbanni. Sú endurskoðun, sem á sér stað á núgildandi lögum með frumvarpi þessu, er nauðsynleg þegar vegna breyttra reglna um skipan dómstóla og framkvæmdarvalds í héraði, en um leið hefur verið hugað að því hvort rétt sé að breyta einstökum reglum þeirra í ljósi reynslu undanfarinna áratuga. Varð niðurstaðan að gera tillögur um ýmsar slíkar breytingar, sem nánar er lýst hér á eftir, en við mótun þeirra hefur einnig verið höfð hliðsjón af endurskoðun löggjafar í Danmörku sem leiddi til setningar nýrra reglna um þetta efni með lögum nr. 731/1988 þar í landi.
    Meginbreytingin frá núgildandi lögum, sem lögð er til í frumvarpinu, snýr að því hverjum er falið að annast framkvæmd kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerða, en þetta varðar um leið grundvallaratriði um eðli þessara gerða. Núgildandi lög byggjast á þeirri skipan að dómari framkvæmi þessar gerðir og að þær séu þar með dómsathafnir. Í frumvarpinu er hins vegar gengið út frá að framkvæmdarvaldshafar í héraði, sýslumenn, annist framkvæmd þessara gerða sem þannig verða stjórnsýsluathafnir. Þessi breyting er lögð til í samræmi við skipan dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði samkvæmt áðurnefndum lögum nr. 92/1989, en enn fremur er hér tekið mið af framkvæmd aðfarargerða samkvæmt nýsettum lögum um aðför, nr. 90/1989, enda eru kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerðir mjög eðlislíkar aðfarargerðum. Sú breyting, sem hér er lögð til í þessum efnum, byggist á sömu röksemdum og viðhorfum og hin breytta skipan aðfarargerða samkvæmt lögum nr. 90/1989. Má því vísa til umfjöllunar um þessi atriði í athugasemdum við frumvarp til laga um aðför á þingskjali 114 á 111. löggjafarþingi 1988–1989. Þessi breytta skipan hefur ein út af fyrir sig í för með sér að óhjákvæmilegt er að gera tillögur um talsverðar breytingar frá núgildandi lögum í frumvarpinu. Ekki eru efni til að víkja nánar að þeim á þessu stigi, enda koma þær eftir þörfum til umfjöllunar hér á eftir þegar gerð verður grein fyrir einstökum ákvæðum frumvarpsins. Áður en komið verður að þeirri greinargerð er hins vegar rétt að geta annarra þeirra meginbreytinga frá núgildandi lögum, sem tillögur eru gerðar um í frumvarpinu, en telja má þessar helstar:
1.     Skilyrði fyrir kyrrsetningu fjármuna eru þrengd nokkuð í 5. gr. frumvarpsins frá því sem mælt er fyrir um í 6. gr. núgildandi laga.
2.     Lagt er til að afnumin verði ýmis sérákvæði um heimildir til kyrrsetningar fyrir einstökum tegundum krafna, sem bæði má finna dæmi um í lögum nr. 18/1949 og í fyrirmælum annarra laga, þannig að sömu skilyrði kyrrsetningar eigi almennt við um allar peningakröfur, ef frumvarpið verður að lögum.
3.     Lagt er til að heimild til kyrrsetningar á manni vegna skuldakröfu, sem bæði er mælt fyrir um í 8. gr. laga nr. 18/1949 og sérákvæðum annarra laga, verði með öllu felld brott. Slík heimild samrýmist tæplega orðið almennum viðhorfum um hverjar ráðstafanir verði taldar eðlilegar til innheimtu eða tryggingar peningakröfu, enda hefur hennar ekki verið neytt nema fáein skipti í gildistíð laga nr. 18/1949, eftir því sem næst verður komist. Afnám þessarar heimildar er enn fremur í samræmi við löggjafarstefnu í næstu nágrannaríkjum.
4.     Gert er ráð fyrir mun nánari reglum um tryggingar í tengslum við kyrrsetningar- og lögbannsgerðir en nú er mælt fyrir um, sbr. einkum 10., 16. og 17. gr. frumvarpsins. Má einnig vekja athygli á því að í frumvarpinu eru lagðar til mun ítarlegri reglur en nú gilda um möguleika gerðarþola til að afstýra gerð með peningatryggingu.
5.     Í III. kafla frumvarpsins, sem hefur að geyma 23. gr. þess, er kveðið sérstaklega á um löggeymslu, sem fara má fram, fyrir kröfu eftir héraðsdómi eftir að honum hefur verið skotið til æðra dóms. Fyrirmæli 23. gr. frumvarpsins vísa um flest atriði í tengslum við framkvæmd löggeymslugerðar til ákvæða þess um kyrrsetningu, en um viss atriði er þó vikið frá þeirri samsvörun, svo sem nánar verður vikið að í athugasemdum við 23. gr. hér síðar. Regla 23. gr. frumvarpsins á sem fyrr segir að koma í stað reglna um löggeymslu samkvæmt fyrirmælum norskra laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, ákvæði I–22–24, en sú regla var afnumin með þetta í huga með 99. gr. laga nr. 90/1989.
6.     Í 24. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að heimildir til lögbannsgerðar verði þrengdar talsvert frá því, sem kveðið er á um í 26. gr. núgildandi laga, en tillögum í þeim efnum er nánar lýst í athugasemdum við 24. gr. hér á eftir.
7.     Í 25. gr. frumvarpsins er lögð til bein heimild til að skylda gerðarþola við lögbannsgerð til að leysa af hendi afmarkaðar athafnir í því skyni að tryggja að hann hlíti lögbanninu. Þá er í sömu grein gert ráð fyrir
        heimild til að taka muni úr vörslum gerðarþola sem brýn ástæða er til að ætla að hann muni nýta til að brjóta lögbann. Samsvarandi reglur eru ekki fyrir hendi í núgildandi lögum, en í framkvæmd hefur þótt heimilt að fara áþekkar leiðir í skjóli 30. gr. þeirra.
8.     Reglur IV. kafla frumvarpsins um framkvæmd lögbannsgerðar eru til muna ítarlegri en núgildandi lagafyrirmæli, sem vísa svo til alfarið til fyrirmæla laganna um framkvæmd kyrrsetningargerðar að þessu leyti. Sú skipan núgildandi laga hefur ekki tekið nægilegt tillit til sérstaks eðlis lögbannsgerða í samanburði við kyrrsetningargerðir og er þannig leitast við að ráða hér nokkra bót á því.
9.     Ákvæði VI. kafla frumvarpsins um dómsmál til staðfestingar kyrrsetningar- eða lögbannsgerð eru að miklu leyti sambærileg við fyrirmæli 20.–23. gr. núgildandi laga um sama efni. Þó er lagt til að komast megi hjá höfðun staðfestingarmáls ef gerðarþoli vill una við gerðina án málshöfðunar, en heimild er ekki fyrir því í núgildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir þeirri breytingu að staðfestingarmál verði aðeins höfðað með réttarstefnu, en ekki með utanréttarstefnu sem núverandi reglur heimila jöfnum höndum. Loks má nefna að tekin eru af tvímæli um að ljúka megi staðfestingarmáli með sátt, auk þess að tillögur eru gerðar um sérreglur varðandi höfðun máls til staðfestingar á kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, ef mál um réttindi aðilanna á að öðru leyti undir erlendan dómstól.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram sú almenna afmörkun á efni þess að til bráðabirgða megi kyrrsetja fjármuni taka fjármuni í löggeymslu eða leggja lögbann við athöfn samkvæmt þeim reglum sem á eftir koma. Upphafsákvæði þetta samsvarar að sínu leyti efni 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga og dregur fram það megineinkenni þessara gerða að um bráðabirgðagerðir sé að ræða. Með þessu er skírskotað til að þessum gerðum sé ætlað að tryggja að óbreytt ástand haldist meðan leyst er endanlega úr um réttindi málsaðila í dómsmáli.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra fari með kyrrsetningar-, löggeymslu- og lögbannsgerðir. Í ljósi fyrirmæla laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, felst í þessu að umræddar gerðir verði stjórnvaldsathafnir, ef frumvarpið verður að lögum, í stað þess að teljast til dómsathafna eins og núgildandi lög byggjast á. Er hér sem áður segir um sömu skipan að ræða og gildir um framkvæmd aðfarargerða samkvæmt lögum nr. 90/1989, en í 1. mgr. 4. gr. þeirra er að finna samsvarandi reglu um þær og hér um ræðir.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins um vanhæfi sýslumanns til að fara með gerð og um úrræði í slíkum tilvikum samsvara reglum 2. og 3. mgr. 4. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.

Um 3. gr.


    Í V. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að í vissum tilvikum megi bera ágreiningsatriði um framkvæmd kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar undir héraðsdómstól, meðan gerðinni er enn ólokið, til að leyst verði úr um lögmæti ákvörðunar sýslumanns um það áður en lengra er haldið. Í 3. gr. frumvarpsins er sú regla lögð til í þessu sambandi að slík mál eigi undir héraðsdómstólinn sem hefur lögsögu í umdæmi hlutaðeigandi sýslumanns. Þessi regla svarar til ákvæða 4. mgr. 4. gr. laga nr. 90/1989 um það hver héraðsdómstóll leysi úr ágreiningi sem rís við framkvæmd aðfarargerðar, að því leyti sem slík málsmeðferð er heimiluð í þeim lögum.


Um 4. gr.


    Í 1. mgr. 4. gr. er kveðið á um að sýslumaður færi gerðabók um þær gerðir, sem frumvarpið tekur til, í því formi, sem dómsmálaráðherra yrði falið að mæla fyrir um í reglugerð. Þessi ákvæði um gerðabækur samsvara reglum 2. mgr. 33. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989.
    Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er vísað til tiltekinna ákvæða aðfararlaga, nr. 90/1989, um ýmis atriði varðandi gögn, sem lögð eru fram við gerðina, bókanir sýslumanna um hana og viðurvist votts við hana. Viðkomandi reglur aðfararlaga, sem ákvæðið vitnar til, fjalla eftir hljóðan sinni um aðstæður við aðfarargerðir, en að teknu tilliti til að reglur frumvarpsins varði annars konar gerðir, eiga hinar fyrrnefndu fyllilega við eftir efni sínu.

Um 5. gr.


    Ákvæði þetta er hið fyrsta í II. kafla frumvarpsins, sem geymir reglur þess um kyrrsetningu, og fjallar það um skilyrði fyrir slíkri gerð. Eins og áður var getið í almennum athugasemdum eru lagðar til breytingar á skilyrðum kyrrsetningar með 5. gr. frumvarpsins frá því, sem mælt er fyrir um í 6. gr. núgildandi laga, og er ástæða til að víkja nánar að þeim hér.
    Umrædd 6. gr. laga nr. 18/1949 kveður svo á í 1. mgr. að kyrrsetja megi fjármuni skuldunautar til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu til peninga eða peningaverðmætis, enda sé krafan fallin í gjalddaga, ekki nægilega tryggð og ekki megi tryggja hana með aðför. Í 2. mgr. nefndrar 6. gr. er síðan mælt fyrir um undantekningarheimildir til kyrrsetningar fyrir ógjaldfallinni kröfu. Við samanburð á þeirri reglu við 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins má fyrst nefna að í frumvarpinu er að nokkru lagt til breytt orðalag frá núgildandi ákvæðum, án þess að um efnislegan merkingarmun sé þó að ræða. Af slíku má benda á að í reglu frumvarpsins er mælt fyrir um heimild til að kyrrsetja „eignir skuldara“, en núgildandi ákvæði heimilar að kyrrsetja „fjármuni skuldunauts“, og regla frumvarpsins gerir ráð fyrir því skilyrði kyrrsetningar að kröfu verði „ekki þegar fullnægt með aðför“, en núgildandi ákvæði setur að skilyrði að „eigi megi tryggja hana með aðför“. Tillögur um efnisbreytingar eru hins vegar einkum fólgnar í tveimur atriðum sem nú verður getið nánar.
    Annars vegar skal nefnt í þessu sambandi að í 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga er kyrrsetning heimiluð til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu „til peninga eða peningaverðmætis“. Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er á hinn bóginn lagt til að kyrrsetning verði heimiluð til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu „um greiðslu peninga“. Hér á milli er ekki teljandi munur að öðru leyti en því að með ívitnuðu orðalagi frumvarpsins er leitast við að taka af tvímæli um að kyrrsetning geti ekki farið fram til að tryggja kröfu til „peningaverðmætis“, í þeim skilningi að um kröfu sé að ræða sem gæti eftir aðalefni sínu varðað skyldu til annars en greiðslu peninga. Telja verður þessa breytingu samrýmast ríkjandi skilningi í framkvæmd hér á landi.
    Hins vegar er um tillögu að ræða um efnislega breytingu að því leyti að í 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga eru þau skilyrði sett fyrir kyrrsetningu að krafa sé fallin í gjalddaga og ekki nægilega tryggð, en í 2. mgr. ákvæðisins er sem fyrr segir heimilað að víkja frá fyrrnefnda skilyrðinu við tilteknar aðstæður. Í stað þessara skilyrða er lagt til í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins að heimild til kyrrsetningar verði því háð að fari kyrrsetning ekki fram mundi annaðhvort draga mjög úr líkindum til að fullnusta kröfunnar tækist eða að fullnustan yrði verulega örðugri.
    Um þessa síðastnefndu breytingu má almennt segja að henni er ætlað að árétta með gleggri hætti en núgildandi lagafyrirmæli að kyrrsetning eigi ekki að fara fram, nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfueiganda. Ef frumvarp þetta verður að lögum má að vísu ætla að skilyrði 1. mgr. 5. gr. þess verði m.a. metin með hliðsjón af sömu atriðum og getið er í 6. gr. núgildandi laga, ekki síst af tilliti til þeirra atvika sem talin eru í 2. mgr. 6. gr. þeirra og heimila kyrrsetningu fyrir ógjaldfallinni kröfu vegna háttsemi skuldarans. Ætlast verður hins vegar til að gengið yrði lengra en núgildandi fyrirmæli ráðgera við mat á nauðsyn kyrrsetningar á grundvelli 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins, enda gefur orðalag ákvæðisins svigrúm til þess. Þessu til frekari skýringa má nefna að með því að núgildandi reglur áskilja aðeins að krafa sé ótryggð og gjaldfallin til að kyrrsetning geti farið fram útiloka þær ekki kyrrsetningu að beiðni eiganda kröfu, sem fullnægir þessum áskilnaði, þótt hún beinist að skuldara sem ekkert tilefni er til að óttast að muni ekki geta greitt kröfuna, að gengnum dómi um greiðsluskyldu sína eða bent á eignir til að tryggja hana við aðför. Á þetta jafnt við um atvinnufyrirtæki og einstaklinga, svo ekki sé nefnt að kyrrsetningu mætti að fullnægðum framangreindum skilyrðum eins beina að viðskiptabanka eða þess vegna ríkissjóði. Hlýtur að vera ljóst að kyrrsetning við slíkar aðstæður getur ekki helgast af megintilgangi hennar samkvæmt núgildandi lögum, sem er að tryggja kröfueiganda fyrir yfirvofandi hættu á að skuldara takist að eyða, selja, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti öllum eignum sínum meðan dómsmál er rekið um kröfuna, þannig að engar eignir liggi fyrir til aðfarar að gengnum dómi. Við slíkri misnotkun kyrrsetningar, sem nokkuð hefur borið á í framkvæmd, yrði hins vegar væntanlega séð með reglu 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins, þar sem við þær aðstæður, sem nefndar voru hér á undan, yrði vart talið að kyrrsetning breytti neinu um líkindi til að fullnusta kröfunnar tækist og þar með væri ófullnægt meginskilyrði frumvarpsákvæðisins fyrir að kyrrsetning gæti farið fram.
    Um ákvæði 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins má að öðru leyti árétta að það útilokar alls ekki að kyrrsetning fari fram fyrir ógjaldfallinni kröfu eða fyrir kröfu, sem að einhverju leyti kann að vera tryggð með veði eða ábyrgð, ef þeim skilyrðum er annars fullnægt sem ákvæðið setur almennt fyrir kyrrsetningu.
    Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er sú regla lögð til að það verði ekki skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi færi sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skuli um gerðina ef ætla verður af framkomnum gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja. Tillaga þessi felur í sér umtalsverða breytingu frá ákvæði 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga. Fyrri hluti síðastnefnds ákvæðis er sama efnis og upphaf 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, en síðan er þar hins vegar mælt svo fyrir að því aðeins skuli synja um gerðina að tvímælalaust megi telja að gerðarbeiðandinn eigi ekki þann rétt sem hann hyggst tryggja. Með fyrirmælum frumvarpsins er dregið úr þeirri sönnunarbyrði, sem hvílir eftir núgildandi reglu á gerðarþola um óréttmæti kröfu gerðarbeiðandans, ef hann leitast við að varna kyrrsetningu á þessum grundvelli. Núgildandi regla um þetta hefur byggst á því viðhorfi að með því að gerðarbeiðandi verði að ábyrgjast allt tjón, sem gerðarþoli kann að bíða vegna kyrrsetningar, og hann verði að setja tryggingu við gerðina fyrir bótum, þá beri að meta vafa gerðarbeiðandanum í hag. Þessi skipan hefur haft í för með sér að gerðarþola er í reynd nánast útilokað að verjast kröfu um kyrrsetningu, jafnvel þótt hann geti fært að því veigamikil rök að málstaður gerðarbeiðandans eigi ekki við rétt að styðjast. Hefur talsvert verið deilt á þetta, bæði hér á landi og erlendis, þar sem búið hefur verið við sömu skipan, og bent á að regla sem byggist á þessum grunni feli í reynd í sér að gerðarbeiðandi geti „keypt“ kyrrsetningu fyrir óréttmætri kröfu með því einu að setja nægilega háa tryggingu fyrir tjóni sem hún kann að valda. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til breyttra viðhorfa í erlendri löggjöf þykir ástæða til að rétta nokkuð hlut gerðarþola að þessu leyti, eins og lagt er til í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að geta þess um ákvæði 1. og 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins, að þær breytingar frá núgildandi löggjöf, sem lagðar eru til með þeim, miða að setningu áþekkra reglna hér á landi og gilda um skilyrði kyrrsetningar í Danmörku, eins og þeim var breytt með setningu áðurnefndra laga nr. 731/1988 þar í landi.

Um 6. gr.


    Fyrirmæli 6. gr. frumvarpsins um form og efni kyrrsetningarbeiðni eru hliðstæð reglum 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðfararbeiðnir. Sá munur er þó á ákvæðunum að í 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að gerðarbeiðandi þurfi að tiltaka sérstaklega í beiðninni á hverjum atvikum hann byggi heimild sína til kyrrsetningar. Með þessu er nánar tiltekið átt við að gerðarbeiðandi verði að gera sérstaka grein fyrir því í beiðninni, hver þau atvik séu sem verði talin nægileg til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 5. gr. fyrir að gerðin fari fram.
    Að öðru leyti verður ekki séð að ákvæði þetta þarfnist skýringa.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram í hverju umdæmi megi beiðast kyrrsetningar hverju sinni, en reglur hennar eru sama efnis og 16. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, að öðru leyti en því að kostir gerðarbeiðanda um umdæmi eru færri í 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins en þeir, sem veittir eru í 2. mgr. 16. gr. aðfararlaga, enda geta ekki öll fyrirmæli síðarnefndu reglunnar átt við um kyrrsetningu.

Um 8. gr.


    Fyrirmæli 1. og 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins um upphafsathugun sýslumanns á kyrrsetningarbeiðni og heimildir hans til að vísa henni á bug af sjálfsdáðum eru hliðstæð reglum 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/1989 um upphafsathugun sýslumanns á aðfararbeiðni.
    Í 3. mgr. 8. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður krefji gerðarbeiðanda yfirleitt um tryggingu fyrir tjóni, sem gerðarþoli kynni að verða fyrir af kyrrsetningarbeiðninni eða gerðinni sjálfri, um leið og staðreynt hefur verið með upphafskönnun skv. 1. mgr. 8. gr. að skilyrði séu fyrir að byrja gerðina. Miðað er við að hér verði um bráðabirgðaákvörðun sýslumanns að ræða, bæði um nauðsyn tryggingar og fjárhæð hennar, sem hann tæki til endurskoðunar undir lok gerðarinnar, eins og lýst er nánar í 16. gr. frumvarpsins. Þótt um bráðabirgðatryggingu yrði að ræða, er gengið út frá að ákvörðun sýslumanns um hana yrði að öðru jöfnu með þeim hætti að reikna mætti með að endanleg ákvörðun um tryggingu skv. 16. gr. frumvarpsins yrði sama efnis. Regla þessi, um að áskilja tryggingu þegar á þessu stigi meðferðar kyrrsetningarbeiðni, samsvarar að mestu fyrirmælum 2. mgr. 9. gr. núgildandi laga, en sá munur er þó á að núgildandi regla gerir síður ráð fyrir að þetta sé almennt gert, gagnstætt því sem lagt er til í frumvarpinu. Þá má einnig benda á að 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins tekur af tvímæli um að sýslumaður megi telja kyrrsetningarbeiðni fallna niður ef tilskilin trygging er ekki sett, en óvíst er hvort komast mætti að sömu niðurstöðu með skýringu ákvæða 2. mgr. 9. gr. núgildandi laga.
     Í 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að tiltekin ákvæði aðfararlaga, nr. 90/1989, eigi að gilda um upphafsaðgerðir við kyrrsetningu, að því leyti sem reglur frumvarpsins mæla ekki á annan veg um staðinn, sem byrja má kyrrsetningargerð og ljúka henni, og um nauðsyn þess að mætt sé til gerðarinnar af hálfu aðila hennar. Er með þessu byggt á því sama grundvallarviðhorfi og í núgildandi lögum að æskilegt sé að sömu reglur gildi um framkvæmd kyrrsetningargerðar og framkvæmd fjárnámsgerðar að því leyti sem því verður komið við af tilliti til eðlismunar á þessum tvenns konar gerðum.

Um 9. gr.


    Í ákvæði þessu er gert ráð fyrir að í upphafi kyrrsetningargerðar verði staðið að verki með svipuðum hætti og við fjárnámsgerð, sbr. einkum 1. og 4. mgr. 25. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, og þarfnast þessi regla því ekki frekari skýringa.

Um 10. gr.


    Regla 10. gr. frumvarpsins er að mestu sama efnis og 13. gr. núgildandi laga um heimild gerðarþola til að afstýra kyrrsetningu með því að setja gerðarbeiðanda tryggingu fyrir kröfu hans. Fyrirmæli 10. gr. frumvarpsins eru þó til muna ítarlegri en núgildandi reglur, bæði að því leyti, að tekin eru af tvímæli um form tryggingar sem þessarar, og að kveðið er nánar á um varðveislu hennar og skil á henni. Þá má enn fremur vekja hér athygli á að í 14. gr. frumvarpsins er tekið af skarið um að þriðji maður geti afstýrt kyrrsetningu með tryggingu eins og gerðarþoli, en sú heimild þriðja manns er þó háð því að kyrrsetningin gæti skert rétt hans.
    Þess má geta að hverfandi lítið hefur reynt á heimild til að afstýra kyrrsetningu með tryggingu skv. 13. gr. núgildandi laga og virðist tæplega ástæða til að búast við að lögfesting þessa frumvarps hefði í för með sér breytingu á því.

Um 11. gr.


    Í grein þessari er kveðið á um skyldu gerðarþola eða málsvara hans til að veita upplýsingar, en enn fremur er með tilvísun hennar til 29.–31. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, veitt heimild til að skerða frelsi gerðarþola vegna neitunar hans um upplýsingar og til að framkvæma húsleit eða líkamsleit. Heimildir til sömu aðgerða í 1. mgr. 15. gr. núgildandi laga eru til muna víðtækari, en rétt þykir að draga úr þeim hér til samræmis við nýsettar reglur aðfararlaga um þessi efni.

Um 12. gr.


    Fyrirmæli 12. gr. um fresti eru hliðstæð reglum 1. og 2. mgr. 26. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, að því frátöldu að í síðari málslið 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að almennt skuli ekki fresta gerð gegn mótmælum gerðarbeiðanda, nema tryggt megi telja að gerðarþoli muni ekkert hafast að á frestinum til að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda. Slík takmörkun á athafnafrelsi gerðarþola er óhjákvæmileg í ljósi tilgangs kyrrsetningargerðar, en hún gæti vissulega bakað honum óréttmætt tjón ef síðar væri leitt í ljós að kröfur gerðarbeiðanda ættu ekki við rök að styðjast. Af þessum ástæðum verður að ráðgera að sýslumaður fresti almennt ekki gerð gegn þessum skilmála, nema gerðarbeiðandi krefjist og hafi áður sett tryggingu til bráðabirgða skv. 3. mgr. 8. gr. eða 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins, þannig að bótaréttur gerðarþola verði ekki fyrir borð borinn.
    Að öðru leyti skal vakin athygli á því að gerðarbeiðanda yrði heimilt að bera ákvörðun sýslumanns um frest undir héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 33. gr. frumvarpsins, en gerðarþola væri hins vegar því aðeins heimilt að leita dómsúrlausnar um frestsynjun að gerðarbeiðandi mótmælti því ekki, sbr. 1. mgr. 34. gr.

Um 13. gr.


    Í 13. gr. er fjallað um viðbrögð sýslumanns við ágreiningi sem rís við kyrrsetningargerð, en efnislega eru fyrirmæli þessi hin sömu og í 1.–3. mgr. 27. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Þarfnast ákvæði þetta því ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Regla þessi kveður á um samsvarandi réttarstöðu þriðja manns við kyrrsetningargerð og honum er veitt við aðför skv. 28. gr. laga nr. 90/1989, að öðru leyti en því að sérstaklega er tekið fram að honum sé heimilt að afstýra kyrrsetningu með tryggingu, eins og vikið var að í athugasemdum við 10. gr. Verður ekki séð að ákvæðið þarfnist frekari skýringa.

Um 15. gr.


    Eins og texti þessa ákvæðis ber með sér, er gert ráð fyrir að ákvæði aðfararlaga, nr. 90/1989, um andlag fjárnáms gildi alfarið um rétt aðila til að vísa á eignir til kyrrsetningar, um virðingu þeirra eigna og um það, hverjar eignir verði kyrrsettar og hverjar verði undanþegnar kyrrsetningu. Sú hugsun býr hér að baki, eins og á við um 1. og 3. mgr. 15. gr. núgildandi laga, að kyrrsetning fari fram í því skyni að tryggja að kyrrsett eign verði fyrir hendi til að gera megi fjárnám í henni, þegar gerðarbeiðandi hefur aflað aðfararheimildar fyrir kröfu sinni, þannig að ein og sama eign verði fyrst kyrrsett, en síðan gert fjárnám í henni. Þessu væri ekki fullnægt ef gera yrði fjárnám í annarri eign en þeirri sem kyrrsett var, en hætta væri á að svo færi ef mismunandi reglur giltu um andlag kyrrsetningar annars vegar og andlag fjárnáms hins vegar.
    Í 15. gr. frumvarpsins er enn fremur vísað til reglna um árangurslaust fjárnám í 62. og 63. gr. laga nr. 90/1989 um heimildir til að ljúka kyrrsetningargerð að einhverju leyti eða öllu án árangurs. Þessi samsvörun milli reglna um kyrrsetningu og fjárnám er óhjákvæmileg í ljósi þess að árangurslaus kyrrsetning hefur í flestu tilliti sömu áhrif og árangurslaust fjárnám. Rétt er þó að vekja athygli á því að í 15. gr. frumvarpsins er ekki vísað til reglu 64. gr. aðfararlaga, en þar er kveðið á um heimildir til sérstakra rannsóknaraðgerða við fjárnámsgerð sem fyrirsjáanlega gæti lokið án árangurs. Er þeim heimildum því ekki ætlað að gilda við kyrrsetningargerð.

Um 16. gr.


    Í 1. mgr. 16. gr. kemur fram heimild handa sýslumanni til að krefja gerðarbeiðanda um tryggingu til bráðabirgða hvenær sem er meðan á kyrrsetningargerð stendur þótt hann hafi ekki áskilið slíka tryggingu í byrjun skv. 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Þá er sýslumanni einnig heimilað að mæla fyrir um hækkun á þeirri tryggingu sem sett hefur verið í öndverðu, en ástæða gæti verið til slíkrar hækkunar til dæmis vegna þess að gerðarþola væri veittur frestur með þeim áskilnaði sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 2. mgr. 12. gr. og ætla mætti að sú skerðing athafnafrelsis hans gæti haft sérstakt tjón í för með sér.
    Í 2. mgr. 16. gr. er mælt fyrir um að sýslumaður taki endanlega ákvörðun um tryggingu úr hendi gerðarbeiðanda þegar bent hefur verið á eignir gerðarþola til kyrrsetningar eða gerðarþoli hefur sett tryggingu fyrir kröfum gerðarbeiðanda að hætti 10. gr., en þessi endanlega ákvörðun yrði þá tekin á lokastigi gerðarinnar. Tekið er fram í ákvæðinu að sýslumaður sé óbundinn af ákvörðun sinni um tryggingu til bráðabirgða þegar hingað er komið. Gæti hann því ákveðið hærri tryggingu eða lægri að endingu en í öndverðu eða ákveðið t.d. að enga tryggingu þurfi að setja þótt ákvörðun hans til bráðabirgða hafi verið á gagnstæðan veg. Í niðurlagi 2. mgr. 16. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður geti ákveðið gerðarbeiðanda frest til að setja tryggingu ef hærri trygging er áskilin en í byrjun. Slík frestun ætti að sjálfsögðu aðeins við ef gerðarbeiðandi gæti ekki reitt trygginguna af hendi þá þegar. Ef til frestunar kæmi af þessum sökum ber að hafa í huga að kyrrsetning væri ekki enn lögð á og tafir á setningu tryggingar væru þannig á áhættu gerðarbeiðanda. Í þessu sambandi má loks vekja athygli á því að mælt er svo fyrir í ákvæðinu að setji gerðarbeiðandi ekki tryggingu innan þess frests sem sýslumaður hefur ákveðið skuli kyrrsetningargerðin felld niður. Samsvarandi reglu er ekki að finna um þessi efni í núgildandi lögum sem hefur orðið til nokkurra vandkvæða í framkvæmd.
    Í 3. mgr. 16. gr. er kveðið á um tilvik þar sem sýslumanni er heimilt að kröfu gerðarbeiðanda að ljúka kyrrsetningargerð án tryggingar úr hendi hans. Ástæða er til að leggja áherslu á að hér er aðeins um heimild að ræða og gæti sýslumaður því ávallt áskilið tryggingu þótt reglan heimili hið gagnstæða. Um þau atriði, sem fram koma í einstökum töluliðum 3. mgr. 16. gr., má fyrst
nefna að í 2. og 3. tölul. eru fyrirmæli 2. og 3. tölul. 1. mgr. 12. gr. núgildandi laga tekin upp efnislega óbreytt. Í annan stað má nefna að ákvæði 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. er samsvarandi sérreglu um undanþágu frá tryggingu í 3. mgr. 209. gr. laga nr. 85/1936, en í 2. mgr. 44. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sú regla falli niður. Loks skal bent á að heimildir 4. og 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. eiga sér ekki hliðstæður í núgildandi lögum. Hin fyrrnefnda er lögð til með hliðsjón af tilvikum þar sem gerðarbeiðandi telur sér þörf kyrrsetningar áður en aðfararfrestur eftir dómsúrlausn er liðinn, en þegar sá frestur er á enda þarf gerðarbeiðandi almennt ekki að leita tryggingar fyrir hagsmunum sínum með kyrrsetningu, enda er þá að þessu leyti fullnægt skilyrðum til aðfarar fyrir kröfunni eða til löggeymslu eftir 23. gr. frumvarpsins. Hin síðarnefnda tekur tillit til þess að kyrrsetning geti verið bersýnilega réttmæt í einstökum tilvikum og því megi telja óeðlilegt að gerðarbeiðandi þurfi að setja tryggingu fyrir skaðabótum handa gerðarþola sem fyrir fram þykir sýnt að aldrei muni reyna á.
    Regla 4. mgr. 16. gr. frumvarpsins geymir fyrirmæli um form tryggingar, sem ætla má að skýri sig sjálf. Þótt ekki hafi verið lögfest regla um þetta efni til þessa, má telja að hér sé ekki lögð til breyting frá því sem gengið hefur verið út frá í framkvæmd.
    Í 5. mgr. 16. gr. eru lagðar til leiðbeiningarreglur um ákvörðun fjárhæðar tryggingar, en hér er aðeins getið meginsjónarmiða í þeim efnum og er því ekki um að ræða tæmandi talningu þeirra atriða sem geta skipt máli í þessu sambandi. Þessi regla á sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum, en tekur mið af fræðikenningum um þetta efni.

Um 17. gr.


    Í ákvæði þessu er að finna fyrirmæli um varðveislu þeirrar tryggingar, sem gerðarbeiðandi setur fyrir kyrrsetningu, og um skilyrði þess að henni verði skilað. Reglan er að nokkru sama efnis og 3. mgr. 12. gr. núgildandi laga, en til muna fyllri um skil tryggingar.

Um 18. gr.


    Hér koma fram fyrirmæli um lok kyrrsetningargerðar, leiðbeiningar sýslumanns við gerðarþola um réttaráhrif hennar og tilkynningu til gerðarþola um kyrrsetningu, hafi enginn verið staddur við hana af hans hálfu. Verður ekki séð að fyrirmæli þessi þarfnist sérstakra skýringa.

Um 19. gr.


    Í 19. gr. frumvarpsins er kveðið á um vörslur kyrrsettra eigna eftir að kyrrsetningargerð hefur verið lokið. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að sýslumaður varðveiti peninga hafi þeir verið kyrrsettir. Sambærilega reglu er ekki að finna í lögum nr. 18/1949, en hún á sér hliðstæðu í 55. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989. Í 2. mgr. koma fram fyrirmæli um vörslur viðskiptabréfa og skilríkja fyrir skuldakröfum sem kyrrsett hafa verið, en regla þessi er svipaðs efnis og 2. mgr. 14. gr. núgildandi laga. Loks er í 3. mgr. mælt fyrir um vörslur annarra eigna en á undan getur og er meginreglan í þeim efnum að vörslur verði óbreyttar þótt kyrrsetning hafi farið fram, en heimilað er þó að taka kyrrsetta eign úr vörslum eða umráðum gerðarþola eða annars manns ef brýn ástæða er til vegna hagsmuna gerðarbeiðanda. Ef þessarar undantekningarheimildar yrði neytt er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi verði að setja sérstaka tryggingu sem væri með öllu óháð tryggingu skv. 16. gr. frumvarpsins. Umræddar reglur 3. mgr. 19. gr. eru efnislega hinar sömu og fram koma í 16. gr. núgildandi laga.

Um 20. gr.


    Reglur 20. gr. frumvarpsins svara til fyrirmæla 17. og 18. gr. núgildandi laga og þarfnast því ekki skýringa.

Um 21. gr.


    Ákvæði 21. gr. frumvarpsins eru að öllu leyti samsvarandi 19. gr. núgildandi laga og þarfnast því ekki sérstakra skýringa.

Um 22. gr.


    Í 22. gr. er að finna ákvæði frumvarpsins um heimildir til endurupptöku kyrrsetningargerðar, sem eru til muna fyllri en ákvæði 25. gr. núgildandi laga um sama efni. Reglur 22. gr. eru sniðnar eftir fyrirmælum 9. kafla um endurupptöku fjárnámsgerðar í lögum nr. 90/1989 og þarfnast því ekki sérstakra skýringa.

Um 23. gr.


    Í 23. gr. frumvarpsins, sem er eina ákvæði III. kafla þess, koma fram fyrirmæli um heimildir til að fá eignir skuldara teknar í löggeymslu, hvernig staðið verði að slíkri gerð og hver áhrif hennar eru. Eins og vikið var að í almennum athugasemdum hér á undan er löggeymsla sérstök bráðabirgðagerð sem grípa má til í því skyni að tryggja hagsmuni samkvæmt dómsúrlausn um skyldu til greiðslu peningaupphæðar, sem hefur verið skotið til æðra dóms. Löggeymslu svipar mjög til kyrrsetningar, en sá meginmunur er þó á þessum bráðabirgðagerðum, að gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir löggeymslu verði hvergi nærri jafnströng og skilyrði kyrrsetningar eftir 5. gr. frumvarpsins, að staða löggeymslu gagnvart síðara fjárnámi verði önnur en staða kyrrsetningar undir sömu kringumstæðum, að gerðarbeiðandi þurfi ekki að setja tryggingu fyrir löggeymslu og loks að gerðarbeiðandi þurfi ekki að höfða mál til staðfestingar löggeymslu. Þessi atriði koma nánar fram í einstökum málsgreinum 23. gr. frumvarpsins, en eldri reglur um löggeymslu í ákvæði I–22–24 í norskum lögum Kristjáns V. frá 1687 eru í flestu tilliti samsvarandi.
    Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins er lagt til að nægilegt verði sem skilyrði fyrir löggeymslu að gerðarbeiðandi hafi fengið dómsúrlausn á hendur gerðarþola um skyldu hins síðarnefnda til greiðslu peningaupphæðar og að þeirri dómsúrlausn hafi verið skotið til æðra dóms ef aðfararfrestur vegna dómsúrlausnarinnar er á annað borð á enda. Hér er ekki gerður greinarmunur á því hvort gerðarþoli hafi staðið að málskoti eða annar aðili dómsmálsins, og gæti gerðarbeiðandi því fengið löggeymslu fyrir kröfum sínum, sem hafa verið teknar til greina í héraðsdómi þótt hann áfrýi úrlausninni til að frekari kröfur hans verði teknar til greina. Ástæða er til að vekja athygli á að um löggeymslu eru ekki lögð til skilyrði á borð við þau sem fram koma í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins fyrir kyrrsetningu, enda er aðstaðan ósambærileg að því leyti að gerðarbeiðandi hefur hér þegar fengið dómsúrlausn fyrir kröfu sinni, gagnstætt því sem almennt á við um aðstæður við kyrrsetningu, og að komið hafi verið í veg fyrir að gerðarbeiðandinn fengi aðför eftir úrlausninni með því að henni hafi verið skotið til æðra dóms. Er hér gengið út frá að þetta eitt út af fyrir sig réttlæti að gerðarbeiðandi geti sóst eftir bráðabirgðavernd réttinda sinna án þess að þau sérstöku atvik þurfi að vera uppi sem 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins kveður á um. Þá er jafnframt vert að nefna að skilyrði fyrir löggeymslu eftir 23. gr. frumvarpsins eru einungis frábrugðin skilyrðum fyrrnefndrar reglu í norskum lögum Kristjáns V. að því leyti að í 23. gr. er ekki áskilið að þegar hafi komið fram beiðni um aðför fyrir annarri peningakröfu á hendur gerðarþola, en ákvæði þess efnis í eldri lögum hefur leitt til örðugleika í framkvæmd og hefur ekki þjónað brýnum tilgangi.
    Eftir 2. mgr. 23. gr. frumvarpsins á í öllum meginatriðum að fara eftir reglum um kyrrsetningu í II. kafla frumvarpsins um undirbúning og framkvæmd löggeymslugerðar auk þess að réttaráhrif gerðarinnar eru í meginatriðum hin sömu og réttaráhrif kyrrsetningar. Frá þessu eru þó gerðar tvær veigamiklar undantekningar sem vikið er að í 3. og 4. mgr. 23. gr. Annars vegar er kveðið á um það í 3. mgr. að gerðarbeiðandi þurfi ekki að setja tryggingu vegna löggeymslu, andstætt því sem almennt á við um kyrrsetningu. Hins vegar eru tekin af tvímæli um það í 4. mgr. að löggeymsla víki ekki fyrir fjárnámi sem síðar er gert í þeirri eign, sem tekin hefur verið löggeymslu, en þetta ákvæði er aðeins sett til áréttingar því að 21. gr. frumvarpsins, sem kveður á um stöðu kyrrsetningar gagnvart fjárnámi, nauðasamningum o.fl., tekur ekki til löggeymslu eftir tilvísunum í 2. mgr. 23. gr. Reglur 3. og 4. mgr. 23. gr. frumvarpsins svara að þessu leyti til reglna sem hafa átt við um löggeymslu eftir eldri reglum.
    Í 5. mgr. 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ekki þurfi að höfða sérstakt mál til staðfestingar á löggeymslu, andstætt því sem á við um kyrrsetningu, en þessi regla er sama efnis og eldri lagareglur um löggeymslu. Til þess að tryggja hins vegar að réttur gerðarþola verði ekki fyrir borð borinn ef hann telur annmarka hafa verið á framkvæmd löggeymslugerðar eða að skilyrði hafi ekki verið fyrir henni er mælt sérstaklega fyrir um rétt til að leita úrlausnar héraðsdóms um löggeymslugerð, eftir að henni hefur verið lokið samkvæmt reglum 15. kafla aðfararlaga, nr. 90/1989, sem kveða á um heimildir til að leita dómsúrlausnar um aðfarargerð eftir lok hennar.
    Að öðru leyti má vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að ákvæði V. og VII. kafla frumvarpsins taki til löggeymslugerða eins og beinlínis kemur fram í fyrirmælum þeirra kafla þótt þess sé ekki getið í orðum 23. gr.

Um 24. gr.


    Í 24. gr. frumvarpsins, sem er fyrsta grein IV. kafla þess, er mælt fyrir um skilyrði lögbanns. Regla þessi á að koma í stað 26. gr. núgildandi laga, en í henni segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar sem raskar eða raska mundi rétti gerðarbeiðanda með ólögmætum hætti. Þar er sú takmörkun þó sett að lögbann verði aðeins lagt við athöfn þeirra sem fara með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags ef athöfnin varðar meðferð einstaklingsréttinda eða er í þágu einstaks manns, enda eigi dómstólar úrlausn málsins eða telja megi stjórnvaldið fara út fyrir valdsvið sitt. Regla 24. gr. frumvarpsins geymir tillögur um þrengri heimildir til lögbanns og verður nú gerð frekari grein fyrir þeim með samanburði við umrædda 26. gr. laga nr. 18/1949.
    Í fyrsta lagi eru fyrirmæli 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins og 26. gr. núgildandi laga samsvarandi að því leyti að í báðum tilvikum segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar. Greinarmunur er því ekki gerður í þessu
tilliti á einstökum tegundum athafna í frumvarpinu fremur en í núgildandi lögum að öðru leyti en því að bæði ákvæðin geyma sérreglur um hverjar þær framkvæmdarvaldsathafnir ríkis og sveitarfélaga séu sem stöðvaðar verða eða fyrirbyggðar með lögbanni. Í 2. mgr. 24. gr. frumvarpsins er heimild til lögbanns við slíkri athöfn takmörkuð með þeim hætti að það verði ekki lagt við stjórnarathöfn þess, sem fer með framkvæmdarvald ríkis eða sveitarfélags, og felst í þessu þrenging á heimild til lögbanns frá því sem segir í síðari málslið 26. gr. núgildandi laga. Með orðalagi frumvarpsins um þetta atriði er miðað við að lögbann verði ekki lagt við töku stjórnvaldsákvörðunar eða við framkvæmd hennar, heldur komi lögbann aðeins til álita þegar um athafnir hins opinbera er að ræða á vettvangi einkaréttar. Slíkar athafnir gætu einkum tengst mannvirkjagerð hins opinbera eða atvinnustarfsemi þess, hvort sem hún er rekin í samkeppni við einkafyrirtæki eða í skjóli einkaréttar. Þótt hér sé lögð til breyting frá reglu 26. gr. núgildandi laga, sem heimilar að lögbann sé einnig lagt við stjórnarathöfn framkvæmdarvaldsins í þágu einstaks manns, mundi 24. gr. frumvarpsins ekki girða fyrir að tryggja mætti með lögbannsgerð þá hagsmuni sem kynnu að vera í húfi í þessu sambandi. Þessu til frekari skýringar má taka það dæmi að ef maður óskar eftir að fá firma skrásett með tilteknu heiti, sem annar telur brjóta gegn rétti sínum, er hugsanlegt samkvæmt núgildandi reglu að fá lögbann lagt við skráningu í firmaskrá, því skráningin yrði talin athöfn valdsmanns, firmaskrárritara, sem fram fer í þágu einstaks manns. Ef frumvarp þetta verður að lögum stæði regla 2. mgr. 24. gr. í vegi fyrir að lögbann yrði lagt við skráningarathöfn valdsmannsins í framangreindu dæmi og færi hún því fram að fullnægðum viðeigandi skilyrðum. Á hinn bóginn gæti sá sem teldi rétti sínum hallað leitað eftir lögbanni við notkun firmaheitisins og beindist þá gerðin að þeim sem hefði fengið það skráð, en ekki að skráningarvaldsmanni. Í þessu ljósi má segja að reglur frumvarpsins ættu ekki að breyta því að lögbanni yrði yfirleitt beitt til réttarverndar undir kringumstæðum sem þessum, heldur mundu þær aðeins beina notkun þessa úrræðis inn á aðra braut sem telja verður eðlilegri en núverandi skipan.
    Í öðru lagi geymir regla 1. mgr. 24. gr. frumvarpsins tillögu um breytingu frá núverandi skipan með því skilyrði lögbanns að gerðarbeiðandi þurfi að sanna eða að gera sennilegt að athöfn gerðarþola brjóti eða muni brjóta gegn rétti hans. Eftir núgildandi lögum er nánast um hið gagnstæða að ræða því að áðurnefnd 2. mgr. 1. gr. þeirra gildir í þessum efnum eins og við kyrrsetningu og leggur þannig á gerðarþola að hnekkja rétti gerðarbeiðanda ótvírætt ef honum á að takast að varna lögbanni. Þessi regla núgildandi laga hefur ekki síður en við kyrrsetningu haft óeðlilega notkun lögbannsúrræðisins í för með sér sem talsvert hefur verið deilt á. Tillaga frumvarpsins um breytingu í þessum efnum yrði til að auka réttarvernd gerðarþola sem vart verður deilt um að skorti á í þessu tilliti eftir núgildandi lögum.
    Í þriðja lagi geymir 24. gr. frumvarpsins tillögur um þrjú skilyrði enn, sem fullnægja yrði til að lögbanni yrði beitt, en þau eiga sér ekki hliðstæður í orðum 26. gr. núgildandi laga. Í þessum efnum má fyrst telja til að samkvæmt niðurlagi 1. mgr. 24. gr. yrði lögbanni ekki beitt, nema gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að hagsmunir hans muni fara forgörðum verði hann knúinn til að bíða dómsúrlausnar um vernd þeirra. Með því að lögbann er í eðli sínu neyðarráðstöfun verður að telja ófært að því sé beitt í tilvikum þar sem almenn úrræði geta komið að haldi, en engin takmörkun hefur þó verið þar á eftir orðalagi núgildandi reglna. Í annan stað er kveðið svo á í 1. tölul. 3. mgr. 24. gr. að lögbann verði ekki lagt við athöfn ef réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggja þá nægilega. Loks er í 2. tölul. sama ákvæðis gert ráð fyrir að synjað verði um lögbann ef hagsmunir gerðarþola af athöfn eru stórfelldir í samanburði við hagsmuni gerðarbeiðanda af stöðvun hennar, enda setji gerðarþoli þá að öðru jöfnu tryggingu fyrir því tjóni sem gerðarbeiðandi yrði að þola. Í báðum þeim tilvikum, sem hér um ræðir, má segja að ætlast sé til að hagsmunir gerðarbeiðandans af framgangi lögbanns verði metnir sérstaklega, en munurinn milli hinna tveggja töluliða 3. mgr. 24. gr. felst í því í hverju samhengi eða hverjum samanburði þetta mat yrði lagt á hagsmunina. Þótt reglur þessa efnis hafi ekki verið í lögum hefur verið gengið út frá því í framkvæmd að niðurstaða hagsmunamats af þessum toga geti leitt til synjunar um lögbann, en slík sjónarmið styðjast við viðteknar fræðikenningar á þessum vettvangi.
    Þau skilyrði fyrir lögbannsgerð, sem lögð eru til með 24. gr. frumvarpsins, víkja nokkuð frá orðalagi 26. gr. núgildandi laga eins og ráða má af framangreindri lýsingu. Vekja verður þó athygli á því að ýmis skilyrði lögbanns, sem tekin eru upp í 24. gr., hafa þótt gilda í framkvæmd án beinna lagafyrirmæla. Nokkur óvissa hefur þó verið um afmörkun þeirra sem vænta má að lögfesting frumvarpsins geti bætt úr. Þess skal og getið í þessu sambandi að tillögur 24. gr. frumvarpsins eru sambærilegar nýlega breyttum dönskum lagareglum um skilyrði lögbanns.

Um 25. gr.


    Í 25. gr. eru gerðar tillögur um heimildir til tvenns konar aðgerða, sem beita mætti við lögbannsgerð eða í tengslum við hana, til að stuðla að því að lögbann komi að haldi. Eins og nefnt var hér áður í almennum athugasemdum með frumvarpinu hefur verið álitið í framkvæmd að grípa megi til þeirra aðgerða, sem hér um ræðir, þótt ekki sé kveðið beinlínis á um heimildir til þeirra í núgildandi lögum, en þetta hefur þótt eiga stoð í reglum þeirra um úrræði til að halda uppi lögbanni. Þar sem þessar aðgerðir eru um margt annars eðlis en lögbannið sem slíkt verður að telja rétt að taka af skarið um heimildir til þeirra í lögum eins og hér er lagt til.
    Í fyrri málsgrein 25. gr. er gert ráð fyrir að sýslumaður geti samkvæmt kröfu gerðarbeiðanda lagt fyrir gerðarþola að leysa af hendi tiltekna athöfn ef hún telst nauðsynleg til að tryggja að hann hlíti lögbanninu. Möguleikum í þessum efnum eru talsverð takmörk sett í ákvæðinu með þeim áskilnaði að athöfnin þurfi að vera þess eðlis að annar maður gæti framkvæmt hana þá þegar. Í þessu felst annars vegar að sýslumaður getur ekki við þessar aðstæður fremur en við framkvæmd aðfarar þvingað gerðarþola til að vinna tiltekið verk. Skyldu til athafnar verður því ekki fullnægt gegn vilja gerðarþola með öðrum hætti en þeim að öðrum manni verði falið að framkvæma hana í hans stað. Þetta setur því umræddri heimild talsverðar skorður. Hins vegar felst í umræddum áskilnaði ákvæðisins að sú athöfn, sem hér gæti komið til greina, yrði ávallt fremur viðurhlutalítil því annar maður þarf að geta framkvæmt hana „þá þegar“ í stað gerðarþola. Má því vera ljóst að hér gæti ekki verið um umfangsmikið verk að ræða af þessari ástæðu. Þótt heimild 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins sé þannig fremur takmörkuð getur hún haft talsverða þýðingu í framkvæmd og má ætla í ljósi reynslu að hún geti komið að þó nokkrum notum við algengar aðstæður. Sýslumaður gæti t.d. neytt hennar í tengslum við lögbann við notkun firmaheitis með því að leggja fyrir gerðarþola að fjarlægja af húsi auglýsingaskilti þar sem heitið kæmi fram. Ef gerðarþoli léti ekki verða af því gæti sýslumaður annaðhvort fjarlægt skiltið sjálfur eða ráðið mann til þess á kostnað gerðarbeiðanda.
    Í síðari málsgrein 25. gr. er gert ráð fyrir heimild handa sýslumanni til að taka muni úr vörslum gerðarþola ef gerðarbeiðandi krefst þess við lögbannsgerð, en þessi heimild er háð því að viðkomandi muni megi nota til að brjóta gegn lögbanninu og sýnt þyki að brýn hætta sé á að svo verði gert ef þeir verða ekki teknir úr umráðum gerðarþola. Tilgangur þessarar heimildar er í meginatriðum að gefa kost á að fyrirbyggja bersýnilega yfirvofandi brot gegn lögbanni með því að taka væntanlegt brotaverkfæri úr hendi gerðarþola áður en honum tekst að drýgja það. Í skjóli hennar gæti sýslumaður t.d. tekið í vörslur sínar hlið eða annars konar hluti sem gerðarþoli hefur notað eða aflað sér til að hindra umferð um veg ef lögbann er lagt við slíkri hindrun.
Einnig gæti verið hugsanlegt í tengslum við lögbann við byggingarframkvæmd að sýslumaður tæki verkfæri eða vinnuvélar úr vörslum gerðarþola. Hér ber þó að leggja sérstaka áherslu á að það eitt mætti hvergi nærri telja nægjanlegt til aðgerða sem þessara að gerðarþoli hafi hugsanlegt brotaverkfæri undir höndum, heldur verður háttsemi hans einnig að gefa bersýnilega til kynna að brýn hætta sé á að hann muni nota það til brots gegn lögbanninu. Í ljósi þess að aðgerð sem þessi gæti hæglega haft tilfinnanlegt tjón í för með sér fyrir gerðarþola verður að ætlast til að þessari heimild yrði beitt sparlega og af varfærni.

Um 26.–31. gr.


    Reglur 26.–31. gr. frumvarpsins fjalla um aðdraganda og framkvæmd lögbannsgerðar og geyma í meginatriðum tilvísanir í ákvæði um hliðstætt efni í II. kafla frumvarpsins, en með tilteknum frávikum sem leiða af mismun á kyrrsetningar- og lögbannsgerðum. Reglurnar eru teknar upp með þessum hætti fremur en að vísa til reglna II. kaflans í heild í því skyni að draga úr vafa um beitingu einstakra reglna um kyrrsetningargerðir á þessum vettvangi. Ætla má að þessi ákvæði skýri sig sjálf og er því ástæðulaust að fjalla frekar um þau hér.

Um 32. gr.


    Í 1. mgr. 32. gr. er kveðið á um skyldu sýslumanns til að gera ráðstafanir til að halda uppi lögbanni eftir lok gerðarinnar ef gerðarbeiðandi krefst, og getur sýslumaður leitað atbeina lögreglu í því skyni. Með þessu ákvæði er lögð til breyting frá fyrirmælum 30. gr. núgildandi laga, en þar er lögreglumönnum gert skylt að halda uppi lögbanni án þess að sá komi nærri sem hefur lagt lögbann á. Ekki hefur reynt teljandi á þessa heimild, en skipan núgildandi laga fylgir sá ókostur að lögreglumenn geta staðið frammi fyrir þeim vanda hve langt megi ganga í aðgerðum sem þessum auk þess er ekki sjálfgefið að lögregluvald þurfi til að kveða niður yfirvofandi brot á lögbanni. Sú leið, sem hér er lögð til, ætti að leiða til úrbóta á framangreindu og gæti einnig reynst nauðsynleg til að nota mætti úrræði 25. gr. frumvarpsins með raunhæfum hætti gagnvart brotlegri háttsemi sem þegar er hafin.
    Í 2. og 3. mgr. 32. gr. er kveðið á um viðurlög við broti á lögbanni og heimildir gerðarbeiðanda af þeim sökum til að höfða einkarefsimál og skaðabótamál á hendur gerðarþola og eftir atvikum hlutdeildarmönnum hans í brotinu. Ákvæði þessi svara að mestu til reglna 29. og 31. gr. núgildandi laga.

Um 33.–35. gr.


    Í V. kafla frumvarpsins, sem hefur að geyma 33.–35. gr. þess, er að finna reglur um heimildir til að leita úrlausnar héraðsdómara um ákvarðanir sem sýslumaður tekur um einstök atriði kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar jafnharðan og þær hafa verið teknar. Í 33. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi hafi lítt takmarkaðan rétt til að leita dómsúrlausnar um slíkar ákvarðanir, en réttur gerðarþola og þriðja manns í þessum efnum yrði verulega takmarkaður skv. 34. gr. frumvarpsins. Tillögur um þennan mun á réttarstöðu aðilanna byggjast öðru fremur á því að gerðarbeiðanda yrði almennt mikið í mun að koma gerðinni fram og tafir í þeim efnum gætu hæglega spillt hagsmunum hans. Ef hann teldi þjóna hagsmunum sínum að fá ákvörðun sýslumanns um málefnið hnekkt eða breytt mundu tafir af þeim sökum væntanlega bitna fyrst og fremst á honum sjálfum. Ef gerðarþoli hefði á hinn bóginn sambærilegan rétt til að tefja framgang gerðarinnar með kröfu um úrlausn héraðsdómara um tiltekið atriði væri honum bersýnilega gefinn kostur á að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda með mótmælum til málamynda. Ætla verður að hagsmunir gerðarþola njóti nægilegrar verndar með því að sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans taki afstöðu til álitaefna við gerðina, auk þess sem frumvarpið gerir ráð fyrir hertum skilyrðum fyrir þessum gerðum, að gerðarbeiðandi beri ríka skaðabótaábyrgð á réttmæti þeirra, og síðast en ekki síst að gerðarþoli komi óhindrað að vörnum í dómsmáli til staðfestingar gerðinni skv. VI. kafla frumvarpsins ef um kyrrsetningar- eða lögbannsgerð væri að tefla, en í máli eftir 5. mgr. 23. gr. ef um löggeymslugerð væri að ræða. Byggjast ákvæði 33. og 34. gr. frumvarpsins á mjög líkum sjónarmiðum og heimildir 85. gr. laga nr. 90/1989 til að bera ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd aðfarargerðar jafnharðan undir héraðsdóm.
    Í 35. gr. frumvarpsins er að finna tilvísun til ákvæða 86.–91. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989, um það hvernig farið yrði með mál fyrir héraðsdómi, sem þangað yrði skotið skv. 33. eða 34. gr. Þar sem umræddar reglur aðfararlaga ættu við án sérstakra frávika er ástæðulaust að fjalla hér um einstök atriði í tengslum við meðferð mála sem þessara.

Um 36. gr.


    Í 36.–41. gr., sem mynda VI. kafla frumvarpsins, er að finna fyrirmæli um höfðun og rekstur dómsmáls til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni. Fyrirmæli þessi eru að mestu efnislega eins og reglur 20.–23. gr. núgildandi laga, en orðalagi er breytt á köflum og innbyrðis röð ákvæða er nokkuð önnur. Þar sem telja má ástæðulaust að fjalla sérstaklega um þau ákvæði, sem ætlast
er til að verði skýrð með sama hætti og núgildandi reglur, verður í athugasemdum við 36. til 41. gr. að mestu látið við það sitja að víkja að breytingum sem þar eru gerðar tillögur um.
    Í upphafi 1. mgr. 36. gr. er meginregla 1. mgr. 20. gr. núgildandi laga tekin upp efnislega óbreytt að því leyti að gerðarbeiðandi verði að gera reka að höfðun dómsmáls til staðfestingar á kyrrsetningu eða lögbanni innan tiltekins tíma frá því gerðinni er lokið, að því viðlögðu að gerðin falli niður, sbr. 1. mgr. 39. gr. frumvarpsins. Eftir núgildandi reglum er frestur í þessu skyni ein vika og innan hans verður gerðarbeiðandi annaðhvort að fá stefnu útgefna af héraðsdómara (réttarstefnu) eða láta birta stefnu sem hann gefur sjálfur út eða umboðsmaður hans (utanréttarstefnu). Frávik eru ekki heimiluð frá höfðun staðfestingarmáls þótt aðilar séu sammála um að komast hjá því. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum varðandi þessi þrjú atriði sem hér ber að geta nánar. Í fyrsta lagi er eins og hingað til gengið út frá að almennt verði að hefjast handa um staðfestingarmál innan einnar viku frá lokum gerðar, en sá frestur gildir því aðeins að mál um kröfur gerðarbeiðanda verði að öðru leyti höfðað fyrir dómstól hér á landi. Ef höfða verður mál um kröfur hans fyrir erlendum dómstól er lagt til í 1. mgr. 37. gr. að fresturinn til að hefjast handa um staðfestingarmálið verði þrjár vikur, en allt að einu er byggt á því að staðfestingarmálið sem slíkt verði höfðað og rekið fyrir dómstól hér á landi. Sérregla um lengri fresti undir þessum kringumstæðum byggist á því að gerðarbeiðandi yrði að höfða mál fyrir erlendum dómstól um aðrar kröfur sínar en um staðfestingu gerðar samhliða höfðun staðfestingarmáls hér á landi og innan sama frests, en einnar viku frestur yrði tæpast nægjanlegur í því skyni. Í öðru lagi er lagt til í 1. mgr. 36. gr. að höfða verði staðfestingarmál með réttarstefnu þannig að gerðarbeiðandi hefði ekki valfrelsi til að höfða málið með utanréttarstefnu. Tillaga þessi á einkum rætur að rekja til þess að héraðsdómari hefði úrslitavald um lengd stefnufrests með því að höfða yrði málið með stefnu, útgefinni af honum, en að öðrum kosti gæti verið undir hælinn lagt að máli yrði haldið fram með eðlilegum hraða. Loks er í þriðja lagi gerð tillaga um að komast megi hjá höfðun staðfestingarmáls ef gerðarþoli lýsir yfir við gerðina sjálfa eða eftir atvikum við endurupptöku hennar innan málshöfðunarfrests að hann uni við gerðina án dóms um staðfestingu hennar. Þótt núgildandi lög heimili ekki þá leið verður að telja hana eðlilega af tilliti til hagsmuna aðilanna sjálfra og í ljósi þess, að þeir hefðu hvort sem er forræði á rekstri staðfestingarmáls ef til þess kæmi. Með þessari heimild mætti komast hjá kostnaði og fyrirhöfn af óþörfu dómsmáli ef gerðarþoli hefði ekkert við aðgerðir gerðarbeiðanda að athuga. Verður ekki séð að þessi heimild geti skert hagsmuni annarra svo máli skipti, enda gengið út frá því í 40. gr. frumvarpsins að þriðji maður geti höfðað sjálfstætt mál til að fá gerð fellda niður ef rétti hans yrði hallað með henni. Ef nýta ætti þá heimild, sem hér er lögð til, er gengið út frá því að sýslumaður leiðbeini gerðarþola sérstaklega um afleiðingar slíkrar ráðstöfunar, sbr. ákvæði 9. gr. um leiðbeiningarskyldu hans, og að yfirlýsing gerðarþola um þetta sé ótvírætt bókuð.
    Í 2.–4. mgr. 36. gr. koma sömu reglur fram og í 1. málsl. 2. mgr. og 3. og 4. mgr. 20. gr. núgildandi laga.
    Ákvæði 5. mgr. 36. gr. eiga sér ekki með öllu hliðstæðu í núgildandi lögum. Má einkum benda á fyrri málslið ákvæðisins í þessu sambandi, sem heimilar höfðun máls um kröfur gerðarbeiðanda, og um staðfestingu gerðar í þeirri þinghá sem gerðinni var lokið. Þetta á aðeins við ef mál hefur ekki áður verið höfðað um aðrar kröfur gerðarbeiðanda en um staðfestingu gerðarinnar, og heimildin er enn fremur háð því skilyrði að höfða mætti mál á hendur gerðarþola um kröfur gerðarbeiðandans fyrir dómstól hér á landi þótt gerðin hefði ekki farið fram. Heimild þessi gæti leitt til einhvers hagræðis því að skv. 1. mgr. 20. gr. núgildandi laga skapar kyrrsetningar- eða lögbannsgerð almennt ekki sjálfstæða varnarþingsheimild. Ákvæði samsvarandi síðari málslið 5. mgr. 36. gr. koma ekki berum orðum fram í núgildandi lögum, en sýnilega er gengið út frá sambærilegri reglu í 3. og 4. mgr. 20. gr. þeirra.

Um 37. gr.


    Í 37. gr. frumvarpsins eru lagðar til sérreglur um staðfestingarmál við þær aðstæður að höfða þurfi mál um aðrar kröfur gerðarbeiðanda en um staðfestinguna fyrir erlendum dómstól. Eins og getið var í athugasemdum við 36. gr. yrði allt að einu að höfða staðfestingarmálið hér á landi, en frestir í þessu skyni yrðu lengri þar sem hér yrði ekki vikið frá því grundvallaratriði, sem byggt er á í 36. gr., að höfða verði mál um kröfur gerðarbeiðanda ekki síðar en samhliða höfðun staðfestingarmálsins. Í 1. mgr. 37. gr. kemur fram að höfða ætti mál til staðfestingar gerðinni í þeirri þinghá sem henni var lokið. Samkvæmt ákvæðinu yrði þó með sama hætti og skv. 1. mgr. 36. gr. heimilt að komast hjá höfðun staðfestingarmáls ef því væri lýst yfir við gerðina af hálfu gerðarþola að hann uni við hana án málshöfðunar.
    Í 2. mgr. 37. gr. er sérákvæði þar sem mælt er svo fyrir að héraðsdómara beri að fresta meðferð staðfestingarmáls ef erlendur dómur í máli um aðrar kröfur gerðarbeiðanda yrði aðfararhæfur hér á landi. Er þetta lagt til svo komast megi hjá hættu á að dómar gengju hvor á sinn veg, hér á landi og erlendis. Héraðsdómara væri þó heimilt skv. 2. mgr. 41. gr. frumvarpsins að skipta sakarefninu í staðfestingarmáli eftir ósk gerðarþola þannig að leyst yrði þegar úr um atriði varðandi gerðina sjálfa sem ekki væru háð niðurstöðum dóms í hinu erlenda dómsmáli.

Um 38. gr.


    Í 38. gr. er mælt fyrir um að reglur 36. og 37. gr. um staðfestingarmál taki einnig til staðfestingar á tryggingu sem sett hefur verið til að afstýra kyrrsetningu eða lögbanni skv. 10. eða 28. gr. frumvarpsins. Er hér efnislega um sömu reglu að ræða og kemur fram í 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að í 38. gr. frumvarpsins er afmarkað mun nánar en nú er hvenær frestur til málshöfðunar í þessu skyni teldist byrja að líða.

Um 39. gr.


    Reglur 39. gr. samsvara að mestu ákvæðum 1. mgr. 22. gr. og 1. og 2. mgr. 23. gr. núgildandi laga og þarfnast því ekki skýringa.

Um 40. gr.


    Ákvæði 40. gr. um heimildir þriðja manns til meðalgöngu í staðfestingarmáli og til sjálfstæðrar málshöfðunar vegna kyrrsetningar- eða lögbannsgerðar eru efnislega þau sömu og koma fram í 6. mgr. 20. gr. núgildandi laga.

Um 41. gr.


    Fyrirmæli 1. mgr. 41. gr. samsvara reglu 2. málsl. 2. mgr. 20. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að í niðurlagi 1. mgr. 41. gr. er gert ráð fyrir að varnir verði ekki hafðar uppi í staðfestingarmáli, sem héraðsdómur hefur áður leyst úr í máli skv. V. kafla frumvarpsins, en í niðurlagi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 18/1949 er að finna gagnstæða reglu sem síður gæti átt við að breyttri skipan í samræmi við frumvarpið.
    Í 2. mgr. 41. gr. er að finna sérstaka heimild handa héraðsdómara til að skipta sakarefni í staðfestingarmáli eftir ósk gerðarþola til þess að fyrst verði leyst sérstaklega úr um atriði, sem varða skilyrði eða framkvæmd kyrrsetningar- eða lögbannsgerðar, áður en fjallað verður um efnisleg réttindi aðilanna. Þessi sérrregla er lögð til í því skyni að flýta megi dómsmeðferð ef gerðarþoli hefur sérstök andmæli uppi um formsatriði gerðarinnar þannig að bráðabirgðaástand í kjölfar kyrrsetningar eða lögbanns standi sem skemmst þegar slík atriði kunna ein að nægja til að fá hana fellda niður. Telja verður rétt að veita heimild sem þessa í því ljósi að réttur gerðarþola til að fá leyst úr andmælum sínum gegn gerðinni fyrir dómi yrði verulega takmarkaður eftir ákvæðum V. kafla frumvarpsins. Að öðru leyti skal tekið fram að gengið er út frá að almennar reglur 4. mgr. 70. gr. laga nr. 85/1936 um skiptingu sakarefnis gildi um þessa heimild að því þó gættu að ekki þyrfti sammæli málsaðila til skiptingarinnar, eins og sú regla gerir ráð fyrir.
    Í 3. mgr. 41. gr. frumvarpsins er tekið beinlínis fram að heimilt sé að ljúka staðfestingarmáli með réttarsátt þar sem kveða mætti á um staðfestingu gerðar eða niðurfellingu hennar eftir atvikum samhliða sáttargerð um réttindi aðilanna að öðru leyti. Þótt gengið hafi verið út frá gagnstæðri reglu til þessa án þess þó að lagafyrirmæli hafi kveðið svo á verður ekki séð að breyting sem þessi geti verið varhugaverð, en hún gæti orðið til talsverðs hagræðis og einföldunar.

Um 42. og 43. gr.


    Í VII. kafla frumvarpsins, sem ákvæði 42. og 43. gr. eru í, er kveðið á um skaðabætur vegna kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar. Reglur 42. gr. frumvarpsins mæla fyrir um bótarétt gerðarþola eða annarra sem kunna að hafa beðið tjón vegna beiðni um gerð eða framkvæmdar hennar og svara þær að mestu til þess sem leitt verður af núgildandi reglum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 18/1949 þótt þær séu settar fram með nokkuð öðrum hætti. Vekja má þó athygli á að í niðurlagi 1. mgr. 42. gr. er berum orðum mælt fyrir um heimild handa dómstólum til að ákvarða tjónþola bætur eftir álitum ef sannað er að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna ólögmætrar gerðar, en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Slík regla er ekki í núgildandi lögum, en ætla má að hún teldist allt að einu gilda eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar. Fyrirmæli 43. gr. eru sama efnis og reglur 2. og 3. mgr. 24. gr. núgildandi laga.
    Þess ber að geta að reglur laga nr. 18/1949, sem hér er vísað til, hafa aðeins gilt um skaðabætur vegna kyrrsetningar- og lögbannsgerða, en lögfestar reglur hafa hins vegar ekki tekið til bóta vegna löggeymslu. Rétt þykir að leggja til að sömu reglur taki til þessara þriggja afbrigða bráðabirgðagerða, enda má ætla að réttur til bóta vegna ólögmætrar löggeymslugerðar yrði hvort sem er talinn áþekkur eftir ólögfestum reglum skaðabótaréttar.

Um 44. gr.


    Í 1. mgr. 44. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um gildistöku verði það að lögum, en miðað er við að lögin taki gildi á sama tíma og lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, og aðrar lagabreytingar sem þeim fylgja, eða 1. júlí 1992.
    Í 2. mgr. 44. gr. er kveðið á um brottfallin lög, en auk laga nr. 18/1949 er gert ráð fyrir að niður falli að einhverju leyti eða öllu tíu önnur lagaákvæði. Rétt er að gera hér stutta grein fyrir ástæðum þeirra ráðagerða varðandi einstök lagaákvæði:
—     Í 2. tölul. ákvæðisins er mælt fyrir um brottfall 3. mgr. 209. gr. laga nr. 85/1936, en sú regla kveður á um sérstaka undanþágu frá skyldu gerðarbeiðanda til að setja tryggingu við kyrrsetningu fyrir kröfu samkvæmt víxli, tékka eða skuldabréfi. Fyrirmæli þessi yrðu óþörf í ljósi ákvæða 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins.
—     Í 3. tölul. er gert ráð fyrir brottfalli 93. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954, en þar er um reglu að ræða, sem kveður á um skyldu tryggingafélags til að afstýra kyrrsetningu fyrir bótakröfu með tryggingu sé hennar krafist. Þeim fyrirmælum sérlaga er með öllu ofaukið í ljósi 10. og 14. gr. frumvarpsins.
—     Í 4. tölul. er gert ráð fyrir brottfalli tilvísunar í lög nr. 18/1949 í 26. gr. laga nr. 57/1956, en tillögur eru ekki gerðar um brottnám sérreglna um lögbann við útbreiðslu prentaðs máls samkvæmt þeim lögum.
—     Í 5. tölul. er lagt til afnám sérreglu í 5. gr. laga nr. 54/1971 sem heimilar Innheimtustofnun sveitarfélaga að fá mann kyrrsettan vegna meðlagsskulda. Slík heimild samþýðist engan veginn þeirri stefnu frumvarpsins, sem lýst er í almennum athugasemdum hér á undan, að afnema með öllu heimildir til kyrrsetningar á manni.
—     Í 6. tölul. er mælt fyrir um brottfall ákvæðis 2. mgr. 15. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, en þar er skírskotað til tiltekins ákvæðis laga nr. 18/1949 um rétthæð fjárnáms gagnvart kyrrsetningu. Slíkt tilvísunarákvæði þjónar ekki tilgangi og yrði villandi ef það stæði óhaggað vegna tilvitnunar í lög sem féllu brott ef frumvarpið verður að lögum.
—     Í 7. tölul. er lagt til að niður falli sérregla 2. gr. laga nr. 12/1981 um heimild handa verðlagsyfirvöldum til að leita lögbanns vegna verðlagsbrota. Ákvæði þetta á verulega illa við eftir núgildandi lögum, en gæti engan veginn samþýðst reglu 1. tölul. 3. mgr. 24. gr.
        frumvarpsins.
—     Í 8. tölul. er lagt til brottnám 2. mgr. 12. gr. laga nr. 26/1982 sem heimilar yfirvöldum að leita lögbanns við óheimilli atvinnustarfsemi útlendinga hér á landi. Rök fyrir niðurfellingu þessa ákvæðis eru hin sömu og getið er hér á undan varðandi 2. gr. laga nr. 12/1981.
—     Í 9. tölul. er ráðgert að niður falli sérstök heimild í 2. mgr. 39. gr. hafnalaga, nr. 69/1984, til að kyrrsetning geti farið fram fyrir gjöldum og sektum samkvæmt þeim lögum. Slík fyrirmæli eru algerlega óþörf og yrði réttur til kyrrsetningar við þær aðstæður að ráðast af heimildum 5. gr. frumvarpsins eins og endranær.
—     Í 10. og 11. tölul. er loks gert ráð fyrir brottfalli sérreglna í 2. mgr. 31. gr. laga nr. 86/1985 og 2. mgr. 35. gr. laga nr. 87/1985 sem kveða á um að innlánsfé við viðskiptabanka og sparisjóði sé undanþegið kyrrsetningu. Sambærileg ákvæði í eldri lögum voru skýrð með þeim hætti í dómsúrlausnum að þau stæðu ekki í vegi fyrir að réttindi gerðarþola til innstæðu yrðu kyrrsett, en í ljósi þess verður ekki séð að reglur sem þessar þjóni neinum tilgangi.
    Það skal tekið fram að gengið er út frá að önnur sérákvæði laga um kyrrsetningu eða lögbann en þau sem hér hafa verið talin standi óhögguð.

Um 45.–52. gr.


    Í ákvæðum þessum koma fram reglur um skil milli eldri laga og yngri varðandi tiltekin efni. Verður ekki séð að ástæða sé til að skýra þau í einstökum atriðum.