Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 208 . mál.


Nd.

387. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og komu eftirtaldir til viðræðna við nefndina: Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, Georg Ólafsson verðlagsstjóri, Ásmundur Stefánsson og Ari Skúlason frá Alþýðusambandi Íslands, Björn Arnórsson og Sigurður Jóhannesson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Birgir Björn Sigurjónsson frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði, Ólafur Davíðsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Árni Reynisson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þórleifur Jónsson og Guðlaugur Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Gunnar S. Björnsson frá Meistara- og verktakasambandi byggingarmanna, Ágúst H. Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Erna Hauksdóttir frá Sambandi veitinga- og gistihúsa, Sigurgeir Sigurðsson, Magnús E. Guðjónsson og Eggert Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, María Jóna Gunnarsdóttir frá Sambandi íslenskra hitaveitna, Eiríkur Þorbjörnsson frá Sambandi íslenskra rafveitna, Pálmi Kristinsson og Gunnar Birgisson frá Verktakasambandi Íslands, Gunnlaugur Júlíusson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Guðrún Zoega, Pétur Stefánsson og Ólafur Erlingsson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Gestur Jónsson frá Lögmannafélagi Íslands, Árni Tómasson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Heiðar Ástvaldsson frá Dansráði Íslands, Valur Þorvaldsson frá Svínaræktunarfélagi Íslands, Bjarni Á. Jónsson frá Félagi kjúklingabænda, Stefán Þorbergsson og Rögnvaldur Hilmarsson frá flugskólanum Vesturflugi. Gestirnir greindu frá viðhorfum sínum til málsins, lögðu fram gögn og svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Nefndinni til ráðuneytis voru Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóri, Jón Guðmundsson frá embætti ríkisskattstjóra og Snorri Olsen, Bolli Þór Bollason, Maríanna Jónasdóttir og Guðrún Ásta Sigurðardóttir frá fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin varð sammála um að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu og eru tillögur um slíkt fluttar á sérstöku þingskjali. Hins vegar varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu málsins í heild. Meiri hl. leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum nefndarinnar. Breytingartillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:
1.    Við 1. gr. Lagt er til að flugnám verði undanþegið virðisaukaskatti á sama hátt og ökunám. Þá verði dansnám einnig undanþegið.
2.    Við 6. gr. Þar sem nú er komið í frumvarpið almennt ákvæði er undanþiggur tímarit virðisaukaskatti er ekki þörf á sérstökum lið um skattmeðferð erlendra tímarita.
3.    Á 13. gr. eru tvær breytingar:
    a.    Lagt er til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað fari fram eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti.
    b.    Lagt er til að sú regla, er heimilar endurgreiðslur til sveitarfélaga, verði einnig látin gilda um ríkisfyrirtæki og ríkisstofnanir til að unnt sé að tryggja samkeppnisstöðu þjónustugreina.
    Nefndarmenn fjölluðu ítarlega um gjaldfrest í tolli og er meiri hl. nefndarinnar ljóst mikilvægi þess að sporna við hækkun verðlags og vaxta. Ákveðið hefur verið að gjaldfrestur á virðisaukaskatti verði veittur við innflutning á hráefni til innlendrar iðnaðarframleiðslu. Meiri hl. telur mikilvægt að fjármálaráðuneytið kanni kosti þess að veita víðtækari gjaldfrest á innflutningi í því skyni að koma í veg fyrir verðlagshækkanir.
    Þá fjallaði nefndin nokkuð um frekari undanþágur á virðisaukaskatti vegna sölu á heitu vatni. Nefndin telur ekki ástæðu til að hafa undanþáguna víðtækari en efri deild féllst á. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að eftir breytingu efri deildar er undanþáguákvæðið svipað og verið hefur í söluskattslögunum. Núgildandi söluskattslög hafa t.d. verið túlkuð þannig að undanþága næði til snjóbræðslu.
    Nefndin ræddi áhrif virðisaukaskatts á starfsemi sveitarfélaganna. Í frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilt að ákveða með reglugerð að endurgreiða sveitarfélögunum virðisaukaskatt sem þau hafa greitt af kaupum á skattskyldri vöru eða þjónustu atvinnufyrirtækja. Meiri hl. vill vekja sérstaka athygli á yfirlýsingu fjármálaráðherra við 1. umr. í neðri deild, en hann sagði þar m.a.:
    „Samkvæmt gildandi lögum um virðisaukaskatt var ætlunin að sveitarfélögin greiddu neysluskatt af mun breiðari stofni en í dag vegna þess að vinna manna á byggingarstað verður skattskyld eftir áramót. Hins vegar hefur verið ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar, í fyrsta lagi að beita sér fyrir því að virðisaukaskattur sveitarfélaga verði endurgreiddur. Í öðru lagi hefur fjármálaráðuneytið nú þegar tilgreint ákveðna þætti þar sem endurgreiðslan mun gilda. Í bréfi fjármálaráðuneytisins til sveitarstjórna sem og á fundi sem ég átti með forráðamönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsti ég því yfir að það sé ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að hafa framkvæmdir sveitarfélaga að sérstakri tekjulind í þessum efnum og bauð forsvarsmönnum sveitarfélaga upp á nána samvinnu við fjármálaráðuneytið til að fylgjast með hvernig virðisaukaskatturinn kemur út gagnvart sveitarfélögum og aðlaga framkvæmdina þeirri reynslu. Það hefur tekið nokkurn tíma í ýmsum löndum, þar sem virðisaukaskattur hefur verið við lýði, að finna honum eðlilegt form varðandi sveitarfélögin. Það er einnig mikilvægt að tryggja að það gildi jafnræði milli sveitarfélaganna í þessum efnum vegna þess að það er ljóst að virðisaukaskatturinn mun koma nokkuð misjafnt við sveitarfélögin.“
    Meiri hl. fagnar þessari yfirlýsingu fjármálaráðherra og væntir þess að heimild skv. 3. mgr. 42. gr. verði nýtt.

Alþingi, 19. des. 1989.



Páll Pétursson,


form., frsm.


Guðmundur G. Þórarinsson,


með fyrirvara.


Þórður Skúlason,


með fyrirvara.


Jón Sæmundur Sigurjónsson.