Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 69 . mál.


Ed.

400. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp til lánsfjárlaga endurspeglar þann samdrátt sem hvarvetna blasir við í þjóðfélaginu, ef undan er skilin eyðsla ríkissjóðs. Þannig hefur eftirspurn eftir lánum til fjárfestingar verið minnkandi á þessu ári, en á hinn bóginn hefur mikið af lánum sem afgreidd hafa verið úr stofnfjársjóðum atvinnuveganna farið til skuldbreytinga og gætir þeirrar tilhneigingar í vaxandi mæli. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur fallið svo ört að ljóst er að við Íslendingar erum að dragast aftur úr helstu samkeppnisþjóðum okkar í atvinnuþróun.
    Endurskoðuð þjóðhagsáætlun gerir ráð fyrir að fjármunamyndun dragist saman um eitt prósent. Þar af stendur fjárfesting í íbúðarhúsnæði í stað, fjárfesting hins opinbera eykst um 3,7%, en fjárfesting atvinnuveganna dregst saman um 4,4%. Ekki verður séð að samdráttur í fjárfestingu skapi nægilegt svigrúm fyrir áframhaldandi sókn ríkissjóðs inn á lánamarkaðinn. Þrátt fyrir það að nokkur hluti fjárfestingarinnar séu innfluttar flugvélar er samdráttur fjárfestingar áætlaður minni í ár. Alls dregst fjárfesting atvinnuveganna saman um fimmtung án flugvélakaupa og mun allt það svigrúm hverfa og ríflega það vegna minni sparnaðar og aukinnar lántöku ríkissjóðs.
    Allar líkur eru á að lánsfjáröflunin í ár muni ganga treglega og ríkissjóður verði að brúa bilið með erlendri lántöku í byrjun næsta árs.
    Enn þá verr horfir um næsta ár. Ríkissjóður áformar að stórauka sölu spariskírteina nettó og velta áfram 3,8 milljörðum í ríkisvíxlum á sama tíma og þjóðhagsáætlun felur í sér minni sparnað. Við þetta bætist að horfur eru á að halli á ríkissjóði verði meiri en fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir og að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða virðist ofmetið. Það mun eitthvað bresta, annaðhvort verða raunvextir innan lands áfram háir eða hækka eða ríkissjóður verður að taka stór erlend lán til að rétta stöðuna við Seðlabanka í upphafi árs 1991. Líklega verður það blanda af þessu tvennu.
    Frumvarp til lánsfjárlaga er í raun fylgifrumvarp fjárlaga og er lýsandi fyrir þá stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála sem þar er mörkuð. Minni hl. mun taka afstöðu til einstakra greina frumvarpsins eins og gerð verður grein fyrir í framsögu, en situr hjá við málið í heild.

Alþingi, 20. des. 1989.



Halldór Blöndal,


frsm.


Ey. Kon. Jónsson.