Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 69 . mál.


Ed.

401. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Óvanalega mikil óvissa ríkir nú um stöðu ríkisfjármála á síðustu dögum þingsins fyrir jólahlé. Mikill niðurskurður er fyrirhugaður hjá fjárveitinganefnd fyrir lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarpsins vegna halla á fjárlögum og frumvarp til lánsfjárlaga tekur því stórum breytingum rétt áður en því er ætlað að koma til 2. umræðu í fyrri deild, tveimur dögum fyrir áætlað þinghlé.
    Sem dæmi má nefna að heildarupphæð umbeðinnar lántökuheimildar hefur skyndilega hækkað um 1 milljarð en innlendrar lántökuheimildar um 300 milljónir í ofanálag.
    Erfitt er því að meta forsendur frumvarpsins og ýmsir liðir þess í raun mjög óvissir. Erfitt er einnig að sjá hvernig síðari deild á að geta kynnt sér og fjallað um janfviðamikið mál á einum til tveimur dögum.
    Slík vinnubrögð eru algerlega óviðunandi.
    Lánsfjárlög fyrir árið 1989 voru ekki afgreidd fyrr en í mars 1989. Rammi þeirra reyndist þó ekki raunhæfur og fengu opinberir sjóðir t.d. um 7 milljarða króna á árinu en áttu að fá 4,9 milljarða. Breytingar á þeim lögum hafa nýlega verið gerðar í samræmi við aukna lánsfjárþörf.
    Upphafleg ætlun ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi var að halda erlendum lántökum mjög í hófi en sækja þeim mun meira lánsfé á innlendan lánsfjármarkað.
    Þessi áform hafa nú breyst þannig að leita skal aukinna erlendra lána sem nemur einum milljarði. Hafa ber einnig í huga að aukin ásókn ríkisstjórnar í innlent lánsfé getur leitt til hækkunar vaxta en raunvextir eru nú taldir vera um 7–8%. Háir vextir hafa verið þungur baggi bæði á húsnæðiskaupendum og fyrirtækjum. Það ber einnig að hafa í huga að húsbréfakerfið mun auka þörf fyrir lánsfé og talið er að fjárbinding fyrirtækja og iðnaðar vegna innflutnings í kjölfar þess að virðisaukaskattur er tekinn upp muni leiða til 4–5 milljarða króna lánsfjárþarfar strax á fyrri hluta næsta árs.

Nýjar lántökuaðferðir.
    Í þessu frumvarpi er það nýmæli að gert er ráð fyrir hámarkslánum til Iðnþróunar- og Iðnlánasjóðs og skulu lántökur vegna fyrirtækja rúmast innan þeirra lántökuheimilda. Enn fremur er þessum og öðrum tilgreindum lántökuaðilum gert skylt að kynna áform sín og leita fyrir fram samþykkis Seðlabanka Íslands, í umboði fjármálaráðuneytisins, á kjörum og skilmálum erlendra lána.
    Þetta er gert til að reyna að samræma lánskjör stofnana með ríkisábyrgðir og ríkissjóðs sjálfs á alþjóðlegum lánamörkuðum. Fram kom í viðræðum nefndarinnar við forstöðumenn ýmissa sjóða og stofnana að þeir hafi sneitt fram hjá Framkvæmdasjóði við öflun erlendra lána vegna óhagkvæmni. Sú skoðun kom fram að nauðsynlegt væri að fleiri en Seðlabankinn tækju erlend lán, ekki síst vegna þess að þekking á erlendum viðskiptum þyrfti að vera fyrir hendi á fleiri stöðum en í Seðlabankanum.
    Hins vegar kom það einnig fram að flestir ef ekki allir fyrrgreindir viðmælendur nefndarinnar sögðust hafa haft samráð við Seðlabankann og mátu það mikils en voru andvígir þeirri hugmynd að leita þyrfti samþykkis Seðlabankans.
    Annar minni hl. telur að draga þurfi sem mest úr erlendum lántökum en eðlilegt sé að leita samræmingar um slíkar lántökur og hagnýta þá reynslu og þekkingu sem til er í landinu á því sviði og miðla henni. Annar minni hl. telur jafnframt að nægilegt sé að leita samráðs við Seðlabankann.

Skerðingarákvæði.
    Í þessu frumvarpi er afturgenginn ósiður fyrri ára þar sem löggjafinn notar lagasetningu eins og leikfang og ómerkir fyrri gerðir sínar.
    Þannig er lagt til að fella niður lögbundin framlög til einstakra málaflokka en í sumum tilvikum hefur jafnvel aldrei verið staðið við þau.
    Þetta háttalag veikir þá virðingu sem löggjafinn sjálfur ber fyrir þeim lögum sem hann setur og grefur jafnframt undan trausti almennings til Alþingis.
    Réttara væri að endurskoða fremur þau lög sem Alþingi treystir sér ekki til að standa við í stað þess að stunda vinnubrögð af þessu tagi árum saman.

Ferðamálaráð og Ferðamálasjóður.
    Hér er um að ræða gróft dæmi þess hvernig framkvæmdarvaldið gengur yfir vilja Alþingis, en aldrei hefur verið staðið við lögboðið framlag til ferðamála.
    Skv. 1. og 2. mgr. 8. gr. og 26. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, gildir eftirfarandi um framlög ríkissjóðs:

a.    8. gr. Fríhöfn í Keflavík skal greiða til Ferðamálaráðs 10% af árlegri vörusölu. Kostnaður af starfsemi Ferðamálaráðs skal að öðru leyti greiddur úr ríkissjóði.
b.    26. gr. Árlegt framlag til Ferðamálasjóðs skal vera eigi lægri fjárhæð en 12 milljónir króna.

    Áætluð velta flughafnarinnar á næsta ári mun vera um 1,4 milljarðar kr. Tekjur Ferðamálaráðs ættu því að vera um 145 millj. kr. Hins vegar eru fjárframlög til þess samkvæmt þessu frumvarpi ætluð eftir hækkun 38.600 þús. kr. eða 26,5% og nægir sú fjárhæð engan veginn fyrir fjárhagsskuldbindingum ráðsins eins og sjá má af meðfylgjandi gögnum:

„Ferðamálaráð Íslands.
Til upplýsinga fyrir fjárveitinganefnd Alþingis.
    Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga verða tekjur Ferðamálaráðs, sbr. 8. gr. laga nr. 79/1985 um skipulag ferðamála, frá Fríhöfn á Keflavíkurflugvelli 145,5 m.kr. Samkvæmt sama frumvarpi er reiknað með að Ferðamálaráð fái aðeins 24,7 af lögbundnum tekjum, eða 36 m.kr.

Fjárhagsskuldbindingar Ferðamálaráðs vegna verkefna á árinu 1990 eru þessar.



    1. Rekstur skrifstofu í New York ..........         11,0 m.kr.
    2. Rekstur skrifstofu í Frankfurt (56%) ...........         10,5 m.kr.
    3. Upplýsingamiðstöð í Reykjavík (50%) ............         7,0 m.kr.
    4. Prentun bæklinga ...............................         1,5 m.kr.
    5. Þátttaka í ferðasýningum .......................         0,5 m.kr.
    6. Alþjóðlegt samstarf (NT/ETC) ...................         1,2 m.kr.
    7. Skrifstofa í Reykjavík .........................         10,4 m.kr.
    8. Skuld við ríkissjóð 1989 .......................         9,5 m.kr.
     Samtals ....             51,6 m.kr.

Drög að fjárhagsáætlun 1990.



    1. Fjárhagsskuldbindingar samkvæmt
     . ofangreindri sundurliðun ...................         51,6 m.kr.
    2. Umhverfismál....................................         30,0 m.kr.
    3. Landkynningarmál................................         40,0 m.kr.
    4. Ferðamálafulltrúar í landshlutum ...............         10,0 m.kr.
    5. Menntun leiðsögumanna ..........................         5,0 m.kr.
    6. Önnur fræðslumál ...............................         1,5 m.kr.
    7. Alþjóðlegt samstarf ............................         2,0 m.kr.
    8. Önnur starfsemi ................................         5,4 m.kr.
     Samtals ....         145,5 m.kr.

Athuga að kostnaður við rekstur skrifstofu í Reykjavík er greiddur beint úr ríkissjóði.“

    Er einna tilfinnanlegast að Ferðamálaráð skuli ekki geta brugðist við auknum ferðamannastraumi til landsins með því að huga að brýnni umhverfisvernd. Því flytur 2. minni hl. breytingartillögur á sérstöku þingskjali um aukið fé til umhverfisverndar. Öðrum minni hl. þykir það undarleg forgangsröðun fjármálastjórnar að skammta svo naumt til þeirrar vaxandi og vænlegu atvinnugreinar sem ferðamál eru.
    Ferðamálasjóðs er í raun ekki getið í þessu frumvarpi utan nafnsins en hans er getið í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Sjóðurinn hefur ekki getað veitt styrki vegna skorts á fjárveitingum, en vanskil hans eru 100 millj. kr. en eigið fé 127 millj. kr.

Menningarsjóður.
    Fjárframlög til þessa sjóðs fara lækkandi ár frá ári, en þau renna að mestu leyti til launa starfsmanna en Menningarsjóður hefur með höndum bókaútgáfu og styrkveitingar til listamanna. Á árinu 1987 fékk sjóðurinn 9 millj. kr., 1989 11 millj. kr. og í þessu frumvarpi eru honum ætlaðar 8,5 millj. kr.
    Samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 50/1957, um Menningarsjóð, skal ríkissjóður greiða sjóðnum það gjald sem fæst af skemmtanaskatti í aðgöngumiðum að kvikmyndasýningum og dansleikjum í samræmi við ákvæði laga um skemmtanaskatt. Minnkandi aðsókn hefur verið að kvikmyndahúsum og tekjustofninn fer því þverrandi.
    Að mati forsvarsmanns sjóðsins hefur Fjárlaga- og hagsýslustofnun ofáætlað tekjur af sölu bóka og einnig kom fram að mikið upplag óseldra bóka um þjóðhátíðina 1974 lægi hjá sjóðnum. Hann taldi það rothögg fyrir sjóðinn ef framlag ríkisins yrði ekki hærra. Annar minni hl. flytur breytingartillögu um að fella þetta skerðingarákvæði niður.

Ríkisútvarpið.
    Samkvæmt ákvæðum 22. og 23. gr. laga nr. 68/1985, útvarpslaga, skulu tekjur af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau renna óskiptar til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins. Jafnframt skulu 10% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins af auglýsingum og afnotagjöldum renna til Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins.
    Forsvarsmenn RÚV lýstu yfir mikilli óánægju með þá skerðingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og stofnunin hefur þurft að sæta undanfarin ár. Um 63 millj. kr. þyrfti til að ljúka framkvæmdum við útvarpshúsið í Efstaleiti en þær hafa staðið í stað síðan 1987 og er það mjög bagalegt fyrir stofnunina. Sjónvarpið hefði átt að vera löngu flutt undir sama þak og útvarpið og er full eining meðal starfsmanna stofnunarinnar um að svo verði sem fyrst.
    RÚV verður 60 ára á næsta ári og er það kjörið tilefni til að fullgera húsakost þessarar merku stofnunar. Ríkisstjórnin hefur samið við RÚV um greiðslu á launaskuldum að upphæð 318 millj. kr. en skerðing fjárframlaga til stofnunarinnar á árinu 1987 nam 250 millj. kr. Annar minni hl. telur að ríkisstjórnin geti ekki vikið sér undan því að efna loforð sín við RÚV. Það er umhugsunarefni að standi ríkisstjórnin ekki við gefin loforð blasir það beint við RÚV að hækka afnotagjöldin til að reyna að bjarga við fjárhag stofnunarinnar. Á hinn bóginn hefur ríkisstjórnin gefið aðilum vinnumarkaðarins loforð um að halda niðri hækkunum á opinberum gjöldum á næsta ári til að greiða fyrir kjarasamningum og er erfitt að sjá hvernig það dæmi gengur upp.

Framkvæmdasjóður aldraðra.
    Samkvæmt ákvæði 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni
aldraðra, skulu renna til Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skal gjaldið nema 2.500 kr. á hvern gjaldanda. Fjárhæð gjaldsins skal breytast árlega í samræmi við breytingar er kunna að verða á byggingarvísitölu, í fyrsta skipti við álagningu á árinu 1990, miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá 1. desember 1989.
    Hér reynir í fyrsta sinn á framkvæmd endurskoðaðra laga sem Alþingi hefur nýlega samþykkt á sl. vori. Forsvarsmaður Framkvæmdasjóðsins lýsti yfir mikilli óánægju með þá skerðingu sem nú fer fram þriðja árið í röð.
    Óskert hefði framlagið átt að vera 230 millj. kr. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir 160 millj. kr. Ef sjóðurinn hefði fengið að starfa með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir í fimm ár má reikna með að honum hefði að mestu tekist að byggja upp aðstöðu fyrir aldraða um land allt.
    Nú stefnir hins vegar í vandræði og ekki verður unnt að sinna sem skyldi þörfum aldraðra, en vandi þeirra fer vaxandi.
    Því leggur 2. minni hl. til að þetta skerðingarákvæði verði fellt niður og gerir breytingartillögu um það.

Skerðing á framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).
    Fyrirhuguð er í breytingartillögum við frumvarpið skerðing á framlagi ríkisins til LSR og Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna. Fjárlaga- og hagsýslustjóri taldi rétt sjóðsfélaga ótvírætt tryggðan samkvæmt beinum lagaákvæðum án tillits til stöðu sjóðsins. Fulltrúar samtaka launafólks, sem komu á fund nefndarinnar og höfðu einnig sent alþingismönnum bréf áður um sama efni, lýstu sig andvíga þessari skerðingu og töldu að 500 millj. kr. skerðing á framlagi ríkisins til LSR væri annað tveggja frestun á lögbundnu framlagi ríkisins eða fyrsta skref í átt að því að ríkið hlaupist undan skyldum sínum gagnvart sjóðfélögum. Annar minni hl. telur þessa aðgerð mjög varhugaverða og birtir til áréttingar bréf samtaka launafólks en samtök hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfólks sem mætti á fund nefndarinnar lýstu stuðningi við efni þess:

    „Efni: Áform í fjárlagafrumvarpi um skerðingu á framlögum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

    Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir lækkun á framlagi ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem nemur um hálfum milljarði króna.
Jafnframt og til samræmis er boðuð breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Samtök opinberra starfsmanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Kennarasamband Íslands telja að með þessu sé verið að stíga fyrsta skrefið til að skerða lögbundinn rétt félagsmanna til lífeyris.
    Með bréfi þessu vilja áðurnefnd samtök gera alþingismönnum grein fyrir gildandi lagaákvæðum, hefðbundinni framkvæmd laganna og rökum sínum gegn því að framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði lækkað.

Gildandi lagaákvæði.
    Samkvæmt 25. gr. laga nr. 63/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, skal launagreiðandi endurgreiða lífeyrissjóðnum þær hækkanir sem verða á lífeyrisgreiðslum vegna almennra hækkana á launum opinberra starfsmanna. Á móti skal lífeyrissjóðurinn ávaxta a.m.k. 40% af útlánum sínum í skuldabréfum ríkisins og skulu vextir og verðbætur af þessum lánum ganga upp í endurgreiðslu ríkisins.
    Það er því ekki rétt sem staðhæft er í greinargerð hagsýslustjóra til fjárveitinganefndar að lífeyrir sé verðtryggður samkvæmt áðurnefndum lögum. Hvorki laun né lífeyrir eru verðtryggð eins og alkunna er.

Framkvæmd.

    Framkvæmd lífeyrissjóðsins á þessu lagaákvæði er heldur ekki nýtilkomin. Hún byggir á langri hefð sem fyrst komst á er utanaðkomandi oddamaður í stjórn sjóðsins ásamt fulltrúum sjóðsaðila komu sér saman um verklag. Þessi framkvæmd hefur síðan verið staðfest af öllum stjórnum sjóðsins fram á þennan dag. Um núverandi framkvæmd ríkir því löng hefð.

Rök.
    Af hálfu fjármálaráðherra hefur því verið haldið fram að nauðsynlegt sé að breyta 25. grein um endurgreiðslur ríkisins vegna lánsfjárþarfar ríkisins.
    Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Kennarafélag Íslands geta ekki fallist á að aukin lánsfjárþörf ríkisins réttlæti skerðingu á lögbundnum framlögum ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Því er einnig haldið fram að óþarft sé að endurgreiða Lífeyrissjóðnum framlag samkvæmt 25. grein svo lengi sem sjóðurinn getur sjálfur fjármagnað lífeyrisgreiðslur með vaxtatekjum og nýjum iðgjöldum. Það fæli í sér að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins yrði gerður að hreinum gegnumstreymissjóði. Slíkt gengur þvert á hugmyndir manna um nauðsyn á sjóðsmyndun til að tryggja hag lífeyrisþega sem hefur verið grundvallarsjónarmið launafólks, atvinnurekenda og lífeyrissjóða.
    Raunveruleg skuldbinding lífeyrissjóðsins er aðeins formgerð að hluta með 25. gr. gildandi laga. Rangt er að þannig sé búinn til sérstakur kostnaður fyrir ríkissjóð.
    Þá má einnig benda á að ríkið er ekki eini launagreiðandinn sem á aðild að sjóðnum. Meðal annarra eru mörg sveitarfélög, landshlutafélög, sparisjóðir, uppeldis- og heilbrigðisstofnanir, stéttarfélög og stjórnmálaflokkar. Ef einhverjir ofangreindra aðila hafa ekki staðið í skilum á endurgreiðslum við sjóðinn hefur þeim verið vikið úr honum. Það bæri keim af hreinni valdníðslu ef ríkið breytti nú lögum til að skapa sjálfu sér léttari greiðslustöðu sem fulltrúar ríkis og stéttarfélaga í sjóðsstjórn hafa ekki viljað veita öðrum hingað til.
    Öll samtök opinberra starfsmanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og Kennarasamband Íslands, skora á alþingismenn að fallast ekki á lækkun á lögbundnum greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það grefur undan möguleikum sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar.

Reykjavík, 30. nóvember 1989.



Páll Halldórsson,


f.h. BHMR


Ögmundur Jónasson,


f.h. BSRB


Svanhildur Kaaber,


f.h. KÍ.“



    Nú, stundu áður en þetta frumvarp kemur til annarrar umræðu, liggur ekki ljóst fyrir hver raunverulegur halli fjárlaga er. Það er því jafn óljóst og áður hverjar endanlegar forsendur þessa frumvarps verða.
    Sá óstöðugleiki, sem stjórnvöld bjóða stofnunum, fyrirtækjum og heimilum landsins upp á með síðbúnum ákvörðunum í tímaþröng um jafnviðamikið mál og búreikning ríkisins, er með öllu óverjandi.
    Af ofangreindum ástæðum getur annar minni hl. ekki stutt þetta frumvarp en mun leggja fram breytingartillögur við það á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 19. des. 1989.



Guðrún Agnarsdóttir.