Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 210 . mál.


Ed.

416. Nefndarálit



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Þingflokkur Kvennalistans getur ekki stutt þetta frumvarp í núverandi mynd en leggur til breytingartillögur sem spegla ljóslega stefnu hans varðandi skattlagningu einstaklinga og fjölskyldna.
    Breytingartillögur Kvennalistans hníga í þá átt að létta skattbyrði og munu því draga úr tekjum ríkissjóðs. Fyrir þessum breytingartillögum eru þó mörg rök.
    Í fyrsta lagi ber að nefna að Kvennalistinn telur að stjórnvöld hafi nú þegar seilst allt of langt ofan í vasa lágtekju- og meðaltekjufólks. Skattbyrði hefur þyngst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur rýrnað að mun. Auknum skattaálögum er að sönnu ætlað að auka tekjur ríkisins og þar með að minnka halla ríkissjóðs. En staðreynd er að fjölmörg heimili eru nú þegar rekin með halla og geta hreinlega ekki risið undir meiru.
    Í öðru lagi má fullyrða að þær tekjur, sem ríkið missti ef breytingartillögur Kvennalistans yrðu samþykktar, væru ekki að öllu glataður eyrir. Þær mundu að stórum hluta skila sér eftir öðrum leiðum, m.a. gegnum óbeina skatta þar sem fólk hefði hærri ráðstöfunartekjur.
    Í þriðja lagi má benda á að nú þegar eru samningar ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja lausir og aðrir fylgja í kjölfarið. Lækkun skatta, hækkun persónuafsláttar og barnabóta væri verðugt innlegg stjórnvalda í þá kjaramálaumræðu sem framundan er.
    Í fjórða lagi hafa Kvennalistakonur lagt mikla áherslu á að annað og hærra tekjuskattsþrep verði tekið upp og vilja minna á þau fyrirheit sem fjármálaráðherra gaf þegar hann mælti fyrir breytingum á tekjuskatti og eignarskatti í desember 1988 um að hátekjuþrep yrði tekið upp í tekjuskatti. Það olli því nokkrum vonbrigðum að sú breyting skyldi ekki lögð til í þessu frumvarpi. Þótt hærra tekjuskattsþrep sé ekki lengur að finna á óskalista fjármálaráðherra samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu er þessi möguleiki vissulega fyrir hendi til að auka tekjur ríkisins ef áhugi er á.
    Lágtekju- og meðaltekjufólk, svo og barnafjölskyldur, eiga sér nú fáa málsvara en í breytingartillögum Kvennalistans felast mikilvægar breytingar til batnaðar til handa þessum hópum. Í þeim birtist það verðmætamat og sú forgangsröð sem Kvennalistinn leggur mikla áherslu á í stefnu sinni.
    Að öðru leyti er vísað í nefndarálit 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar á þskj. 352.
    Verði breytingartillögur Kvennalistans samþykktar munu þingkonur hans greiða atkvæði með frumvarpinu. Að þeim felldum munu þær greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild sinni.

Alþingi, 20. des. 1989.



Guðrún Agnarsdóttir.