Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 271 . mál.


Sþ.

500. Skýrsla


um norrænt samstarf frá mars 1989 til desember 1989.

Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.


1. Inngangur.
    Samstarfsráðherra Norðurlanda leggur nú fyrir Alþingi í þriðja sinn sérstaka skýrslu um störf ráðherranefndar Norðurlanda og er skýrsla Íslandsdeildar lögð fram með henni. Með því skapast möguleiki á sérstakri umræðu á Alþingi um norrænt samstarf í stað þess að sú umræða fléttist inn í umræðuna um utanríkismál eins og áður hefur tíðkast.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og í fastanefndir Norðurlandaráðs.
    Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fer fram í sameinuðu Alþingi og gildir frá kjördegi og þar til ný kosning hefur farið fram á næsta reglulegu Alþingi. Þann 12. desember 1988 voru eftirtaldir þingmenn kosnir til setu í Norðurlandaráði: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Eiður Guðnason, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn voru þá kjörnir Guðni Ágústsson, Friðjón Þórðarson, Árni Gunnarsson, Friðrik Sophusson, Guðrún Helgadóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Kristjánsson.
    Á fundi 16. desember 1988 skipti Íslandsdeild þannig með sér verkum að Ólafur G. Einarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar og fulltrúi í fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins. Hann var auk þess tilnefndur í forsætisnefnd ráðsins. Páll Pétursson var endurkjörinn
varaformaður deildarinnar og í félags- og umhverfisnefnd og tilnefndur í forsætisnefnd. Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson voru kjörnir í efnahagsmálanefnd, Óli Þ. Guðbjartsson í samgöngumálanefnd, Valgerður Sverrisdóttir í menningarmálanefnd og Eiður Guðnason í laganefnd. Óli Þ. Guðbjartsson og Hjörleifur Guttormsson voru tilnefndir í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Ólafur G. Einarsson í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið frá maí 1989 til maí 1991.
    Að tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs kaus 37. þing Norðurlandaráðs Pál Pétursson og Ólaf G. Einarsson í forsætisnefnd, Óla Þ. Guðbjartsson og Hjörleif Guttormsson í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Ólaf G. Einarsson í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans.
    Óli Þ. Guðbjartsson tók sæti í ríkisstjórn Íslands 10. september 1989 og gegndi Guðrún Agnarsdóttir, varamaður hans, störfum í samgöngumálanefnd í hans stað frá þeim tíma og þar til kjör fulltrúa í Íslandsdeild fór fram á ný 22. desember 1989. Þá voru eftirtaldir fulltrúar kjörnir í Norðurlandaráð: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Hreggviður Jónsson og Valgerður Sverrisdóttir. Varamenn voru kjörnir Guðni Ágústsson, Friðrik Sophusson, Rannveig Guðmundsdóttir, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir, Jón Kristjánsson og Ingi Björn Albertsson. Nýkjörin Íslandsdeild hefur, þegar skýrsla þessi er skrifuð, ekki enn þá haldið fund til að skipta með sér verkum.

2.2. Fundir Íslandsdeildar og störf.
    Á tímabilinu frá lokum 37. þings Norðurlandaráðs 3. mars 1989 og til áramóta 1989–1990 hélt Íslandsdeild sex fundi, einn með ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins um samninga Evrópubandalagsins og EFTA, einn með sérfræðingum um mengunarmál og einn fréttamannafund.
    Störf skrifstofu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs hafa á starfsárinu mótast af undirbúningi undir 38. þing Norðurlandaráðs sem haldið verður í Reykjavík 27. febrúar til 2. mars. Þingið verður haldið í Háskólabíói. Samið hefur verið um leigu á atkvæðagreiðslu- og túlkakerfi til nota á þinginu ásamt prentvélum, ljósritunarvélum, símakerfi, telefax-tækjum og lausum veggjum. Fundir tengdir þinginu verða haldnir í fyrirlestrasölum í nýbyggingu Háskólabíós og fundarsölum á Hótel Sögu. Skrifstofur verða í nýbyggingu Háskólabíós, bæði þeim hluta sem Háskólabíó mun nýta og þeim sem leigður verður Landsbanka Íslands. Afhending bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verður í Borgarleikhúsinu. Áætlað er að fjöldi fulltrúa, embættismanna og fréttamanna, sem þingið sækja, verði milli 900 og 1000.
    Eftirtaldir fréttamenn hlutu fréttamannastyrk Norðurlandaráðs árið 1989: Garðar Guðjónsson, Sigrún Bára Friðfinnsdóttir, Sigurður Sverrisson, Yngvi Kjartansson, Sigrún Björnsdóttir og Halldór Leví Björnsson. Úthlutað var jafnvirði 60.000 sænskra króna.
    Á fundum Íslandsdeildar var m.a. fjallað um reynslu af því að takmarka ræðutíma almennra ræðumanna í almennu umræðunum á 37. þingi Norðurlandaráðs við fimm mínútur. Fulltrúar töldu slíka takmörkun til bóta. Fram komu sjónarmið um að stytta þyrfti almennu umræðurnar enn meira og hefir nú verið ákveðið að stytta almennu umræðurnar á næsta Norðurlandaráðsþingi og þar með þingið sjálft um hálfan dag.
    Til Íslandsdeildar var vísað þingmannatillögu um að fulltrúar í Norðurlandaráð verði kosnir beinni kosningu. Íslandsdeild taldi slíka breytingu ekki tímabæra og lagði til að tillagan yrði felld.
    Á fundi Íslandsdeildar var rætt um að styrkja þyrfti samstarf íslenskra, færeyskra og grænlenskra fulltrúa í Norðurlandaráði vegna ýmissa sameiginlegra hagsmuna og talið að það gerðist best með sameiginlegum fundum á þingum ráðsins.
    Fjallað var á fundi í Íslandsdeild 8. júní um drög að skipuriti fyrir skrifstofu Alþingis. Deildin hafnaði tillögum um að skipa skrifstofu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs undir þingsvið, sem heyrði undir sviðsstjóra þingsviðs, sem svo heyrði undir skrifstofustjóra Alþingis. Sú skipan var talin rjúfa eðlileg tengsl Íslandsdeildar við skrifstofu sína og stríða gegn Helsinkisáttmálanum, sem Alþingi hefur staðfest. Forsetar Alþingis ákváðu svo síðla sumars að skrifstofa Íslandsdeildar skyldi heyra undir forseta Alþingis beint, en að rekstrarskrifstofa þingsins hefði umsjón með áætlanagerð og annaðist fjárreiður, bókhald og útgjaldaeftirlit skrifstofunnar.
    Um skeið hafa verið uppi í Norðurlandaráði deilur um kjör í trúnaðarstöður og þá sérstaklega í forsætisnefnd. Annars vegar nýtur sú skoðun fylgis að fara beri að tillögum landsdeildanna við
kosningu fulltrúa í forsætisnefnd, en hún fer fram á þingum Norðurlandaráðs. Sú skoðun nýtur og fylgis að allir flokkahópar eigi rétt á sæti í forsætisnefnd, a.m.k. ef þeir uppfylli ákveðnar stærðarkröfur. Þegar sú staða kom upp við kjör í forsætisnefnd á 37. þingi ráðsins að engin landsdeild tilnefndi fulltrúa frá minnsta flokkahópnum vinstri sósíalistum í forsætisnefnd, og kjör fór fram í samræmi við tilnefningar landsdeildanna, var ákveðið að fela laganefnd ráðsins að gera tillögur um reglur fyrir kjör í trúnaðarstöður ráðsins sem endurspegluðu styrk flokkahópanna betur en áður hefði verið. Tillögur laganefndar lágu fyrir sumarið 1989 og Eiður Guðnason, formaður laganefndar, kynnti þær fyrir Íslandsdeild á fundi þar 30. ágúst. Íslandsdeild var ekki einhuga í afstöðu sinni til tillagnanna. Laganefnd lagði til að notuð yrði regla stærstu leifar við skiptingu í trúnaðarstöður, en bent var á í Íslandsdeild að d'Hondt reglan væri notuð við skiptingu sæta í nefndir á öllum norrænu þjóðþingunum nema því norska. Sumir fulltrúar í Íslandsdeild töldu því að þá reglu ætti einnig að nota í Norðurlandaráði.
    Skiptar skoðanir voru og um tillögu laganefndar um að sérstök kjörnefnd skyldi skipuð til að undirbúa kjör í trúnaðarstöður, en þeir sem studdu tillöguna töldu að tryggja bæri að landsdeildir allra ríkjanna fengju fulltrúa þar.
    Íslandsdeild fjallaði um bréf frá upplýsingastofu Háskóla Íslands um nám erlendis. Tilefni bréfsins var að íslenskir námsmenn, sem sótt hafa um inngöngu í háskóla í Svíþjóð, hafa í auknum mæli fengið synjun. Íslandsdeild lýsti á fundinum áhyggjum vegna þessarar þróunar. Ólafur G. Einarsson minnti á að hann hefði borið fram fyrirspurn á 37. þingi Norðurlandaráðs um möguleika þess að sömu reglur yrðu látnar gilda fyrir íslenska og danska stúdenta, sem sæktu um skólavist í Danmörku, og að svar danska menntamálaráðherrans hefði verið jákvætt, en þó ekki falið í sér neitt loforð um úrbætur. Íslandsdeild ákvað að beina þeim tilmælum til menntamálaráðherra Íslands að hann leitaði lausnar á vandamáli þessu á fyrirhuguðum fundi með menntamálaráðherra Svíþjóðar og að málinu yrði auk þess fylgt eftir í Norðurlandaráði.
    Haldinn var á vegum Íslandsdeildar undirbúningsfundur fyrir ráðstefnu forsætisnefndar Norðurlandaráðs um mengun sjávar sem haldin var í Kaupmannahöfn 16.–18. október. Þá ráðstefnu sóttu fulltrúar 15 þjóðþinga í Evrópu og Kanada. Fulltrúar á ráðstefnunni sameinuðust um lokaskjal þar sem m.a. var bent á nauðsyn þess að sem flestar þjóðir staðfestu hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sem fulltrúar Alþingis sóttu ráðstefnuna Páll Pétursson, Friðjón Þórðarson, Guðrún Helgadóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson. Auk þess sat Ólafur G. Einarsson ráðstefnuna sem fulltrúi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Jón Ólafsson haffræðingur var meðal sérfræðinga á ráðstefnunni.
    Haldinn var fundur með Hannesi Hafstein, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, um undirbúning samningsviðræðna EFTA og Evrópubandalagsins. Var sá fundur haldinn til undirbúnings aukaþings Norðurlandaráðs 14. nóvember í Mariehamn, um Norðurlönd og þróunina í Evrópu.
    Íslandsdeild fjallaði um erindi sem barst henni frá umboðsmanni Alþingis. Tilefni þess var að dönskum stúdent búsettum á Íslandi hafði verið synjað um námslán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna til náms í þriðja landi. Það var álit umboðsmanns að synjun þessi væri ekki í samræmi við 2. gr. Helsinkisáttmálans, en í henni er kveðið á um að samningsaðilar (þ.e. ríkisstjórnir norrænu ríkjanna) skuli vinna að því að ríkisborgarar Norðurlanda, sem dveljast á Norðurlöndum utan heimalands síns, njóti svo sem framast er unnt sömu réttarstöðu og ríkisborgarar dvalarlandsins. Meðferð málsins í Íslandsdeild er ekki lokið.
    Utanríkismálanefnd sendi til umsagnar Íslandsdeildar tillögu til þingsályktunar um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989. Íslandsdeild hefur ekki haldið fund síðan málið barst henni.

3. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
3.1.
    Á 37. þingi Norðurlandaráðs, 27. febrúar til 3. mars 1989, var sænski þingmaðurinn Karin Söder kjörinn forseti Norðurlandaráðs. Aðrir fulltrúar í forsætisnefnd voru kjörnir dönsku þingmennirnir Ivar Hansen og Anker Jörgensen, finnsku þingmennirnir Ilkka-Christian Björklund og Elsi Hetemäki-Olander, íslensku þingmennirnir Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson, norsku þingmennirnir Kjell Magne Fredheim og Jan P. Syse og sænski þingmaðurinn Grethe Lundblad. Í samræmi við ákvörðun Finnlandsdeildar Norðurlandaráðs 19. maí gekk Mats Nyby inn í forsætisnefnd í stað Ilkka-Christians Björklund og 8. desember tóku Thea Knutzen og Bjarne Mörk Eidem sæti Jans P. Syse og Kjells Magne Fredheim.
    Forsætisnefnd hélt þrettán fundi á starfsárinu og tvær ákvarðanir voru teknar bréflega (per capsulam). Nefndin hélt tvo fundi með forsætisráðherrum Norðurlanda, tvo fundi með samstarfsráðherrum landanna, einn fund með formönnum fastanefnda ráðsins og einn fund með sambandsstjórn norrænu félaganna.

4. Fastanefndir Norðurlandaráðs.
4.1. Laganefnd.
    Á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember 1989 hélt laganefnd átta fundi. Auk þes hélt nefndin tvo fundi með ráðherranefnd Norðurlanda, í janúar með jafnréttisráðherrum og í nóvember með dómsmálaráðherrum. Formaður nefndarinnar var Eiður Guðnason og varaformaður danski þingmaðurinn, Helge Adam Möller.
    Forsætisnefnd fól laganefnd að semja drög að reglum um kjör í trúnaðarstöður Norðurlandaráðs fyrir 1. október, sbr. 2.1. að framan. Laganefnd lagði fram tillögur sínar að loknum fundi á Íslandi í lok júní. Hún lagði m.a. til að landsdeildirnar tilnefndu þrjá til fjóra mögulega fulltrúa í forsætisnefnd, að stofnuð yrði kjörnefnd til að undirbúa kjör í trúnaðarstöður, að reglu stærstu leifar yrði beitt við kjörið og að fulltrúum í forsætisnefnd yrði fjölgað úr tíu í ellefu, og væri ellefta sætið uppbótarsæti. Að lokinni umfjöllun um tillögur laganefndar ákvað forsætisnefnd á fundi í Reykjavík 10.–11. desember að fela ný skipaðri skipulagsnefnd að gera tillögur um framtíðarskipan þessara mála en ákvað að við kjör í trúnaðarstöður á 38. þingi ráðsins skyldi kjörinn áheyrnarfulltrúi auk hinna tíu reglulegu fulltrúa, stofnuð skyldi kjörnefnd skipuð einum fultrúa frá hverjum flokkahópi og að beitt skyldi d'Hondt-reglunni við skiptinguna.
    Að öðru leyti mótaðist starf laganefndarinnar að miklu leyti af málum varðandi þróunina í Evrópu og auknum alþjóðasamskiptum Norðurlandaráðs. Nefndin fjallaði m.a. um skýrslu alþjóðanefndar Norðurlandaráðs um alþjóðlegt starf Norðurlandaráðs og um starfsáætlun ráðherranefndar um Evrópumálin.
    Nefndin hafði til umfjöllunar átta þingmannatillögur og mun meðferð þeirra allra líklega ljúka fyrir 38. þing ráðsins. Um þrjár tillagnanna mun nefndin ekki fjalla efnislega þar sem þær falla innan starfssviðs hinnar nýskipuðu skipulagsnefndar.
    Aðrar tillögur, sem liggja fyrir nefndinni, eru um beinar kosningar í Norðurlandaráð, aukið alþjóðasamstarf í jafnréttismálum, gentækni, merkingu norrænna vara með tilliti til mengunar, um Finnland, Noreg og Svíþjóð sem sameiginlegt umsjónarsvæði stórra rándýra og samnorræna löggjöf um meðferð vopna. Auk þess var þremur tillögum vísað til nefndarinnar til umsagnar.
    Á fundi nefndarinnar með jafnréttisráðherrum var m.a. rætt um samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um jafnréttismál og hvernig fylgja skyldi eftir jafnréttisráðstefnunni Nordisk Forum.
    Á fundi nefndarinnar með dómsmálaráðherrum var rætt um nauðsyn þess að Norðurlönd verði áfram sameiginlegt vegabréfasvæði, nýja norræna áætlun um löggjafarsamstarf og samræmingu norrænnar löggjafar og löggjafar Evrópubandalagsins.
    Nefndin bauð fulltrúum norræna Samaráðsins til fundar 31. janúar. Þar var m.a. rætt um norrænan umboðsmann Sama og norrænan milliríkjasamning um málefni Sama. Nefndin hélt 14. febrúar fund með sérfræðingi um ólöglega notkun lyfja í íþróttum. Einnig hélt nefndin 26. september fund með sérfræðingum um Evrópubandalagsrétt. Þann fund sótti meðal annarra sérfræðinga Stefán Már Stefánsson prófessor.

4.2. Menningarmálanefnd.
    Á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember 1989 hélt nefndin átta fundi. Auk þess hélt hún fund með menningar- og menntamálaráðherrum Norðurlanda. Vinnuhópur, sem nefndin skipaði, hélt fund til að undirbúa fund nefndarinnar með menntamálaráðherrunum.
    Formaður nefndarinnar var danski þingmaðurinn J.K. Hansen og varaformaður Valgerður Sverrisdóttir.
    Starf nefndarinnar mótaðist á árinu, eins og starf laganefndar, allmikið af aukningu hins alþjóðlega starfs Norðurlandaráðs. Nefndin hefur lagt áherslu á að rækt verði lögð við menningarsamstarfið í því evrópska og norræna samræmingarstarfi sem nú á sér stað. Hún hefur og bent á mikilvægi norræns málasamstarfs, mikilvægi þess að háskólapróf frá einu norrænu landi séu viðurkennd í öðrum, mikilvægi þess að NORDPLUS-samstarfið og norrænt samstarf á sviði rannsókna og vísinda verði styrkt.
    Varðandi fjárlög ráðherranefndarinnar fyrir árið 1990 benti nefndin sérstaklega á nauðsyn þess að fjárveitingar til menningarmála verði ekki skornar niður þó að það starf tengist ekki beint Evrópuþróuninni. Í því sambandi benti nefndin á að væri samstarfi því á sviði menningar- og menntamála, sem tengdist Evrópuþróuninni, gefinn forgangur, þyrfti að auka fjárveitingar til þess að annað samstarf um menningar- og menntamál liði ekki fyrir það.
    Auk þeirra þriggja þingmannatillagna á sviði nefndarinnar sem lagðar voru fyrir aukaþing Norðurlandaráðs í Mariehamn (sjá lið 5), hefur nefndin lokið umfjöllun og samþykkt nefndarálit um þrjár þingmannatillögur. Fyrir 38. þing ráðsins í Reykjavík er búist við að nefndin ljúki umfjöllun um fjórar ráðherranefndartillögur. Efni þeirra er m.a. samstarfsáætlun um norræna tungu, nýjar reglur fyrir norræna rannsóknaráðið og nýjar reglur fyrir Norræna menningarsjóðinn. Í tengslum við umfjöllun nefndarinnar um samstarfsáætlunina um norræna tungu mun hún m.a. taka til athugunar stöðu íslenskrar og finnskrar tungu í norrænu samstarfi.
    Á fundi nefndarinnar með mennta- og menningarmálaráðherrunum í apríl var m.a. rætt um norrænu samstarfsáætlunina um menningarmál. Var þar sérstaklega fjallað um Norræna menningarsjóðinn, fjölmiðlamál og menningar- og íþróttamál.
    Nefndin fékk á fundi í september upplýsingar um menningarár UNESCO, upplýsingar um álit norræna háskólamannaráðsins á m.a. norrænni viðurkenningu háskólaprófa, samnorrænni menntun til doktorsprófs og á evrópskum rannsóknarstyrkjum. Á sumarfundi nefndarinnar skýrði fulltrúi frá NORDVISION frá nýrri skýrslu um starfsemi NORDVISION. Á grundvelli þeirra upplýsinga hefur nefndin lagt til að ráðherranefndin leiti fullnægjandi lausna á vandamálum varðandi greiðslu fyrir höfundarétt við sendingar sjónvarpsefnis, sem framleitt er í einu norrænu landi, til annarra norrænna landa.

4.3. Félags- og umhverfismálanefnd.
    Á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember hélt nefndin sjö fundi og tvo fundi með ráðherranefnd Norðurlanda, annan með umhverfismálaráðherrum og hinn með þeim ráðherrum sem fara með málefni varðandi vinnuvernd. Formaður nefndarinnar var finnski þingmaðurinn Marjatta Väänänen og varaformaður norski þingmaðurinn Svein Alsaker. Fulltrúi Íslands í nefndinni var Páll Pétursson.
    Á fundi nefndarinnar með ráðherrum þeim sem fara með vinnuverndarmálefni var rætt um norræna milliríkjasamninginn um aðbúnað á vinnustöðum og vinnuvernd, en hann var undirritaður í júní 1989. Einnig var rætt um ráðherranefndartillögu þá sem var í undirbúningi um norræna samstarfsáætlun um sama mál. Á fundi nefndarinnar með umhverfismálaráðherrunum var rætt um fjórar ráðherranefndartillögur sem voru í undirbúningi, samstarfsáætlunin gegn mengun sjávar, samstarfsáætlun gegn loftmengun, samstarfsáætlun um meðferð sorps og tillögu um fjárfestingar til umhverfisverndar í Austur-Evrópu.
    Norðurlandaráð samþykkti á aukaþinginu í Mariehamn tvenn tilmæli frá félags- og umhverfismálanefnd í tilefni þingmannatillagna frá fulltrúum alþjóðanefndar ráðsins. Efni tilmælanna var annars vegar að stofnaður yrði evrópskur umhverfisverndarsjóður og að gerð yrði áætlun um fjármögnun útflutnings tækniþekkingar til landa utan Norðurlanda og var Austur-Evrópa höfð sérstaklega í huga.
    Í yfirlýsingu sinni til aukaþingsins í Mariehamn um starfsáætlun ráðherranefndarinnar, „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“, lagði nefndin til að gerð yrði samstarfsáætlun um réttindi Norðurlandabúa á Norðurlöndum og að samræma ætti enn frekar löggjöf landanna um félagsleg málefni og um umhverfisvernd. Með vísan til skýrslu Bruntlandsnefndarinnar taldi nefndin rétt að Norðurlönd ynnu að alheimsáætlun um verndun skóga og að verja ætti fjármunum í norrænu fjárlögunum til verndunar skóga.
    Nefndin fjallaði á árinu um fjölda þingmannatillagna sem lagðar verða fyrir 38. þing ráðsins í Reykjavík, m.a. um útflutning á sorpi, um að olíuflutningaskip skuli hafa tvöfaldan botn, um þjónustu við fatlaða gegnum símakerfið, um samnorrænar rannsóknir á skaðsemi amalgams, um réttindi barna, um félagslega aðstöðu samkynhneigðra og um samstarfsáætlun gegn atvinnuleysi ungs fólks. Umfjöllun er lokið um aðeins eina tillögu.
    Fulltrúar nefndarinnar tóku þátt í alþjóðaráðstefnu forsætisnefndar um mengun sjávar í október (sjá lið 2.2.). Ritari nefndarinnar tók þátt í fundi á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn um stefnu í heilbrigðismálum. Ritarinn tók og þátt í alþjóðlegum fundi í ágúst í Tallinn um málefni fatlaðra og í fyrsta fundi evrópsku heilbrigðisráðherranna í Frankfurt í desember.
4.4. Samgöngumálanefnd.
    Á tímabilinu frá 1. janúar til 31. desember hélt nefndin átta fundi. Auk þess hélt nefndin einn fund með ráðherrum þeim sem fara með umferðarmál og umferðaröryggismál, einn fund með samstarfsráðherrum og einn með ferðamálaráðherrum. Formaður nefndarinnar var sænski þingmaðurinn Elver Jonsson og varaformaður, finnski þingmaðurinn, Sakari Knuuttila. Fulltrúi Íslands í nefndinni var Óli Þ. Guðbjartsson. Guðrún Agnarsdóttir tók við störfum hans í nefndinni í september þegar Óli tók sæti í ríkisstjórn Íslands.
    Þremur þingmannatillögum var á árinu vísað til nefndarinnar til meðferðar. Efni þeirra varðaði bætt kjör eftirlaunaþega, fatlaðra og ungs fólks í norrænu millilandaflugi, bætta ferðamöguleika heyrnarskertra og flugsamgöngur þvert yfir miðjan Skandinavíuskaga og til Finnlands. Umfjöllun um þessar tillögur er ekki lokið.
    Á fundi nefndarinnar á Álandseyjum í maí með ferðamálaráðherrum og ferðamálanefnd ráðherranefndarinnar og sérfræðingum um ferðamál var rætt um nýju norrænu áætlunina um ferðamál, norrænt ferðamálaátak í Bandaríkjunum og ferjusamgöngur til og frá Álandseyjum.
    Á fundi nefndarinnar með ráðherrum þeim sem fara með umferðarmál og umferðaröryggismál var m.a. rætt um starf á Norðurlöndum að bættu umferðaröryggi, umferð og umhverfi, áætlun um fjárfestingu til að bæta innra skipulag samgöngukeðja á Norðurlöndum og fjárveitingar til umferðamála á fjárlögum ráðherranefndar Norðurlanda.
    Nefndin hafði á starfsárinu samband við fjölda norrænna nefnda til að fylgjast almennt með starfi þeirra. Einnig bauð nefndin fjölda sérfræðinga á fundi sína. Þeir gerðu m.a. grein fyrir járnbrautasamgöngum í Svíþjóð, ferjusamgöngum milli Svíþjóðar, Finnlands og Álandseyja, símamálum í Mið-Finnlandi, tölvumálum og samgöngum yfir Eyrarsund.

4.5. Efnahagsmálanefnd.
    Efnahagsmálanefd hélt tíu fundi á starfsárinu og tvo fundi með ráðherranefnd Norðurlanda, annan með fjármálaráðherrum landanna og hinn með þeim ráðherrum sem fara með þróunarmál. Einnig hélt nefndin fund um þróunaraðstoð þar sem einn ráðherra mætti. Formaður nefndarinnar var norski þingmaðurinn Anders Talleraas og varaformaður til l2. október Arne Gadd sem hætti þá þingmennsku. Hans Gustavsson tók við varaformennsku efnahagsmálanefndar. Fulltrúar Íslands í nefndinni voru Hjörleifur Guttormsson og Þorsteinn Pálsson.
    Á tímabilinu frá lokum 37. þings ráðsins og til áramóta 1989–1990 hafði nefndin lokið af sinni hálfu meðferð sex þingmannatillagna og fjögurra ráðherranefndartillagna. Tvær tillagnanna, sem báðar fjölluðu um alþjóðamál, komu til meðferðar á aukaþinginu í Mariehamn.
    Haustið 1989 hélt nefndin námsstefnu í Visby á Gotlandi um þróunina í Evrópu og norrænt efnahagssamstarf. Í námsstefnunni tóku þátt u.þ.b. 50 þingmenn auk fulltrúa frá atvinnulífinu, stéttarfélögum og alþjóðlegum samtökum (EFTA, Evrópubandalaginu og SEV).
    Þingmannatillögu um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði var vísað til nefndarinnar. Nefndin lagði til að Norðurlandaráð aðhefðist ekkert í tilefni tillögunnar, með vísan til þess að fyrir því væri hefð að Norðurlandaráð fjallaði ekki um öryggismál. Nefndin lagði einnig til að Norðurlandaráð aðhefðist ekkert í tilefni þingmannatillögu um fiskistofnana með vísan til þess að efni hennar félli innan samstarfsáætlunar þeirrar um fiskveiðimál sem samþykkt var á 37. þingi ráðsins.
    Fyrir nefndinni liggur þingmannatillaga um samræmingu við Evrópubandalagið og byggðamál. Sú tillaga kemur til meðferðar á fundum nefndarinnar í janúar, en þá verður einnig lögð fyrir nefndina ráðherranefndartillaga um norræna samstarfsáætlun um byggðamál. Á sama fundi mun nefndin fjalla um þingmannatillögur um stuðning við landbúnað sem skaðar ekki umhverfið og um verndun norrænna skóga. Nefndin mun fjalla um þessar síðastnefndu tillögur í tengslum við ráðherranefndartillögu um endurskoðaða samstarfsáætlun um landabúnað og skógrækt.
    Auk ofannefndra ráðherranefndartillagna verður líklega vísað til nefndarinnar eftir áramót 1989–1990 ráðherranefndartillögum um aukningu á verkefnalánum Norræna fjárfestingarbankans og tillögu um samstarf við Austur-Evrópu um fjárfestingu í tækni sem ekki skaðar umhverfið.
    Á fundi nefndarinnar um þróunaraðstoð, þar sem Kirsti Kolle Gröndahl, þróunaraðstoðarráðherra Noregs, mætti, var m.a. fjallað um framkvæmd norrænu samstarfsáætlunarinnar um þróunarmál, stofnun sérstakrar ráðherranefndar ráðherra þeirra sem fara með mál varðandi þróunaraðstoð og um þróunaraðstoð við Namibíu.
    Á fundi nefndarinnar með fjármálaráðherrum Norðurlanda var m.a. skýrt frá efnahagsástandi landanna og úttekt sem gerð hafði verið á framkvæmd samstarfsáætlunarinnar um efnahagsmál.

4.6. Fjárlaga- og eftirlitsnefnd.
    Á starfsárinu hélt nefndin sjö fundi og níu manna vinnuhópur þeirra nefndarmanna, sem ekki eiga sæti í öðrum nefndum, hélt einnig sjö fundi. Nefndin hélt einn fund með samstarfsráðherrum Norðurlanda. Formaður nefndarinnar frá 1. janúar til 3. mars var danski þingmaðurinn Ivar Hansen. Þann 3. mars tók sænski þingmaðurinn Wiggo Komstedt við formennsku, en hann hafði frá ársbyrjun og fram til þess tíma gegnt varaformennsku í nefndinni. Þá tók sænski þingmaðurinn Per Olof Håkansson við varaformennsku. Fulltrúar Íslands í nefndinni voru Ólafur G. Einarsson og Eiður Guðnason sem sat þar sem formaður laganefndar.
    Í áliti nefndarinnar um áætlun ráðherranefndar fyrir árið 1989 (C2/1989) kom fram sú skoðun hennar að ný og kostnaðarfrek verkefni á vegum ráðherranefndarinnar ættu ekki að leiða til þess að önnur verkefni yrðu skorin niður; að tekjuafgangur ársins 1987 ætti ekki að renna aftur til ríkissjóða landanna, heldur að nýtast til annarra norrænna verkefna; að gefa ætti í áætlun ráðherranefndarinnar upplýsingar um áætluð fjárútlát vegna fyrirhugaðra verkefna, og sama ætti að gilda um fyrirhugaðar norrænar samstarfsáætlanir, og að verkefni á sviði menningarmála, þróunar, rannsókna, umhverfismála og umferðaröryggis hefðu áfram forgang.
    Á aukaþingi Norðurlandaráðs í Mariehamn í nóvember, sem haldið var til umfjöllunar um Norðurlönd og þróunina í Evrópu, var einnig tekin afstaða til norrænna fjárlaga ársins 1990. Nefndin lagði í nefndaráliti sínu áherslu á að fjárlagatillagan ætti að vera skýr og aðgengileg og liggja fyrir eigi síðar en í september fyrir upphaf fjárlagaársins. Nefndin hitti danska samstarfsráðherrann Thor Pedersen á fundi og ræddi við hann um fjárlögin og uppsetningu þeirra. Nefndin hefur á árinu fjallað um starfsgrundvöll sinn og er þeirrar skoðunar að samsetning nefndarinnar, en þar sitja formenn hinna fastanefndanna, auk níu fulltrúa, sem ekki eiga sæti í öðrum nefndum, sé þess eðlis að erfitt sé fyrir nefndina að sinna því hlutverki sínu að samræma fjárlagatillögur hinna nefndanna og leggja fram sameiginlega fjárlagatillögu fyrir hönd ráðsins. Nefndin hefur því í bréfi til forsætisnefndarinnar lagt til að annaðhvort verði fulltrúum í nefndinni fækkað niður í þá níu, sem ekki eiga sæti í öðrum nefndum, eða að þessir níu mundi fastan vinnuhóp sem undirbúi öll erindi sem fyrir nefndina eru lögð.
    Nefndin bauð til sín á fund í október fulltrúum frá fjárlaganefnd Evrópuþingsins til að fá upplýsingar um hvernig fjárlagaundirbúningi Evrópuþingsins væri háttað.
    Nefndin ákvað í febrúar að kanna sérstaklega starfsemi NORDINFO (Norræna vísindaupplýsingabankans) og norrænt samstarf um neytendamál. Þessar kannanir eru hluti þess eftirlitsstarfs sem nefndinni ber að sinna. Könnun nefndarinnar á starfsemi NORDINFO er lokið og hafa tillögur nefndarinnar um starfsemi NORDINFO verið sendar menningarmálanefnd Norðurlandaráðs.
    Könnuninni um samstarfið á sviði neytendamála er einnig lokið, en markmið hennar var að komast að raun um hvernig verkefni, sem embættismannanefndin um neytendamál hefði látið framkvæma, hefðu nýst, og til hve stórs hóps fengnar niðurstöður hefðu borist.

5. Aukaþing Norðurlandaráðs í Mariehamn.
    Norðurlandaráð hélt aukaþing í þriðja sinn 14. nóvember 1989 i Mariehamn. Það var fyrst og fremst haldið til að fjalla um tillögur varðandi Norðurlönd og þróunina í Evrópu, en jafnframt voru fjárlög ráðherranefndar Norðurlanda fyrir árið 1990 afgreidd.
    Á dagskrá var starfsáætlun ráðherranefndar Norðurlanda „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“, sex þingmannatillögur, sem allar vörðuðu einhver svið norræns samstarfs, sem snerta Evrópuþróunina, auk fjárlagatillagna ráðherranefndar Norðurlanda.
    Þingið hófst með stuttu ávarpi forseta Norðurlandaráðs, Karin Söder, þar sem hún í upphafi fjallaði um hinar öru þjóðfélagsbreytingar í Austur-Evrópu sem gerðu það enn brýnna en fyrr að meta áhrif þróunarinnar í Evrópu á norrænt samstarf. Hún kvað starfsáætlun ráðherranefndarinnar, „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“, mikilvæga í því tilliti. Hún fjallaði og um skýrslu alþjóðanefndar Norðurlandaráðs og drap á helstu tillögur sem þar voru lagðar fram, t.d. um gagnkvæma norræna viðurkenningu á prófum, aukin nemenda- og kennaraskipti, fjárstuðning til umhverfismála í Austur-Evrópu og norrænan umboðsmann. Í lok ræðu sinnar las hún upp samþykkt sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs hafði gert sama dag um aukin samskipti við Austur-Evrópu. Helstu atriði þeirrar samþykktar eru að allt árið 1989 hafi aukin samskipti við austur-evrópsku nágrannalöndin verið á dagskrá forsætisnefndar og að ræða Gorbatsjovs í Finnlandia-húsinu 26. október hafi sýnt enn frekar hversu mikilvægt mál þetta væri. Samþykktin fól og í sér ákvörðun um að aðalritari forsætisnefndar færi til Moskvu til að undirbúa samskipti fulltrúa í Norðurlandaráði og þingmanna í æðsta ráði Sovétríkjanna og kanna á hvaða sviðum samstarf hentaði best og hvernig þessi samskipti gætu farið fram. Forsætisnefnd hafði jafnframt ákveðið að leggja til að þjóðþing Norðurlanda tilnefndu í samráði sendinefnd til að stofna til samskipta þinganna við æðsta ráðið og styrkja samskiptin við Austur-Evrópu, sérstaklega nálægustu norðlægu svæðin. Í lok ræðu sinnar fjallaði hún um fimmtán þjóða ráðstefnu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í október um mengun sjávar. Hún kvað ráðstefnuna, sem samhljóða hafði samþykkt lokaskjal um margvíslegar aðgerðir til að sporna við mengun sjávar, hafa verið mikilvæga.
     Júlíus Sólnes samstarfsráðherra, formaður ráðherranefndar Norðurlanda, ræddi í upphafi ræðu sinnar þróunina í Austur-Evrópu og viðræður EFTA og Evrópubandalagsríkjanna. Hann kvað starfsáætlun ráðherranefndarinnar, „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“, vera afrakstur nokkurra ára starfs sem hafi haft það markmið að afmarka þau svið sem hentuðu fyrir norrænt samstarf með tilliti til þróunarinnar í Evrópu. Þetta starf hefði og leitt til þess að norrænt samráð um mál, sem eru á dagskrá varðandi væntanlega samninga Fríverslunarbandalags Evrópu og Evrópubandalagsins, er nú haft í ráðherranefnd Norðurlanda. Hann kvað starfsáætlunina og vera afleiðingu samspils við Norðurlandaráð og þá ekki síst við alþjóðanefnd Norðurlandaráðs, og hefði það samstarf verið til fyrirmyndar. Til stæði að leggja fram endurskoðaða starfsáætlun í desember með nánari upplýsingum um það starf sem hafið væri og einnig það sem til stæði. Hann kvað mat ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs á því hvaða verkefni skyldu hafa forgang falla saman í stórum dráttum.
    Hann kvað það vera meðal forgangsverkefna að fjarlægja þær hindranir, sem enn þá væru, fyrir frjálsu flæði á vörum og þjónustu milli norrænu ríkjanna, ásamt því að standa vörð um vegabréfafrelsi á Norðurlöndum. Hann kvað ráðherranefnd Norðurlanda að svo stöddu vera í vafa um réttmæti tillagna alþjóðanefndar Norðurlandaráðs um stofnun embættis norræns umboðsmanns með svo miklu víðara starfssvið en lagt hefði verið til í samstarfsáætluninni um efnahagsmál. Varðandi tillögu alþjóðanefndar um Evrópuréttarstofnun vísaði hann til þess álits efnahagsmálanefndar að kanna þyrfti nánar ýmis svið tengd því máli áður en tekin yrði afstaða. Í lok ræðu sinnar kvað hann það hafa komið fram í nefndarálitum margra nefnda ráðsins um starfsáætlunina að aukning fjárveitinga til norræns samstarfs um Evrópumálin mætti ekki leiða til minni fjárveitinga til annars norræns samstarfs. Hann kvað ráðherranefndina vera sammála því að öðru norrænu samstarfi yrði haldið áfram, en samstarfið um Evrópumálin hefði forgang og af því hlyti að leiða að vissan samdrátt á öðrum sviðum.
     Eiður Guðnason, formaður flokkahóps sósíaldemókrata í Norðurlandaráði, kvað samskipti við meginland Evrópu hafa verið talin mikilvæg á Norðurlöndum allt frá víkingaöld og ekki væri það síður mikilvægt nú á tímum að Norðurlönd einangruðust ekki. Þróunin í Evrópu hefur jafnvel á sumum sviðum þvingað fram aukið norrænt samstarf, t.d. um að aflétta viðskiptahindrunum innan Norðurlanda. Hann kvað flokkahóp sósíaldemókrata styðja samningsviðræður EFTA og Evrópubandalagsins og ekki telja tímabært að taka afstöðu til þess hvað gera skyldi ef þær samningaviðræður reyndust árangurslausar.
    Hann lýsti fyrir hönd flokkahóps sósíaldemókrata ánægju yfir þróuninni í Austur-Evrópu og kvað áhuga þeirra á norrænum sósíaldemókrötum greinilegan. Hann kvað og aukin samskipti þingmanna á Norðurlöndum við þingmenn í Austur-Evrópu þýðingarmikil. Norðurlandaráð, sem væri samstarfsvettvangur fimm fullvalda ríkja, ætti að þróa samskipti við samstarfssamtök í Austur-Evrópu sérstaklega á sviði umhverfis- og menningarmála. Af hálfu sósíaldemókratíska flokkahópsins væru samskipti við lýðræðisöfl í þessum ríkjum talin mikilvæg.
    Hann kvað þing norrænu launþegasamtakanna 1986 hafa samþykkt yfirlýsingu um mikilvægi norræns efnahagssamstarfs fyrir þróunina í Evrópu. Þær tillögur, sem þar hefðu verið lagðar fram, væru afar mikilvægar með tilliti til samninganna við Evrópubandalagið, t.d. um samræmda evrópska stefnu í efnahagsmálum til að örva iðnþróun og fjárfestingu á sviði samgangna, orkumála og umhverfisverndar, sameiginlega evrópska stefnu í samningum innan GATT, og aukið samstarf á sviði umhverfisverndar, rannsókna og tækniþróunar. Varðandi þróunina í Evrópu kvað hann nauðsynlegt að huga sérstaklega að félagslegu hliðinni. Í lok ræðu sinnar benti hann á mikilvægi þess að norrænt samstarf væri þróttmikið, með því væri sótt fram á við og það hefði ekki að markmiði að einangra Norðurlönd. Þetta ætti að hafa að leiðarljósi í samskiptum við Vestur- og Austur-Evrópu, t.d í ECE og í starfi EFTA.
     Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra kvað þetta aukaþing vera sögulegt. Það væri nú talið nauðsynlegt að boða til aukaþings til umræðna um stöðu Norðurlanda vegna hins fyrirhugaða efnahagssvæðis í Evrópu. Þetta sýndi mikilvægi málsins. Forsætisráðherra lýsti aðdraganda og gangi viðræðna EFTA og Evrópubandalagsins. Hann kvað það skoðun nefndar þeirrar, sem stofnuð var í apríl sl. og í eiga sæti háttsettir embættismenn frá EFTA og Evrópubandalagsríkjunum, að samkomulag væri um að EFTA-ríkin væru tilbúin til undirbúningsviðræðna við Evrópubandalagið um stofnun evrópsks efnahagssvæðis sem EFTA og Evrópubandalagið ættu aðild að sem tvö sjálfstæð bandalög. Embættismannanefndin teldi það líklegra að um yrði að ræða fríverslunarsvæði en tollabandalag. Forsætisráðherra kvað mikla vinnu fram undan og ljóst að sum EFTA-ríkjanna hefðu á vissa fyrirvara. Íslendingar mundu m.a. leggja áherslu á fríverslun með fisk. Þeir mundu ekki heldur viðurkenna yfirþjóðlegt vald stofnana, yfirráð yfir náttúruauðlindum á landi eða í sjó eða óheft aðstreymi vinnuafls ef hætta yrði á ójafnvægi. Með vísan til mikilvægis þess að sameina Vestur-Evrópu í sterka efnahagslega heild taldi forsætisráðherra rétt að samþykkja 19. desember nk. að ganga til samninga eins og ákveðið hefði verið. Í lok ræðu sinnar minnti hann á að EFTA hefði ákveðið að koma á fríverslun með fisk innan aðildarríkja sinna frá 1. júlí 1990. Þetta kvað forsætisráðherra dæmi um jákvætt samstarf, og lýsti ánægju yfir þeim skilningi á málstað Íslendinga sem það sýndi.
     Hjörleifur Guttormsson spurði forsætisráðherra að því hvaða niðurstöðu „fimmta nefnd“, sem er ein fimm undirbúningsnefnda fyrir samningaviðræðurnar, hefði komist, sem mundi tryggja að ekki kæmi til yfirþjóðlegs valds.
     Steingrímur Hermannsson kvað það rétt hjá Hjörleifi Guttormssyni að EFTA-ríkin væru sammála um að semja ekki um að veita neinum stofnunum yfirþjóðlegt vald. Vafalaust væri að starf það, sem biði, varðandi það hvernig ákvarðanatökum í framtíðinni yrði háttað afar vandasamt, en engar ákarðanir hefðu verið teknar þar að lútandi. Þetta yrði jafnvel erfiðasti, en jafnframt mikilvægasti hluti viðræðnanna. Þær hæfust líklega í byrjun næsta árs.
    Í tilefni ræðu danska innanríkisráðherrans og norræna samstarfsráðherrans Thor Pedersen kvað Hjörleifur Guttormsson hann hafa talað um hindranir milli EFTA og Evrópubandalagsríkjanna, sem þyrfti að rjúfa, og þar á meðal aðgang að fiskimiðum. Hjörleifur óskaði skýringa á því hve langt Danir og Evrópubandalagið teldu nauðsynlegt að ganga í að opna fiskimið, ekki bara Íslands, heldur einnig Noregs, Færeyja o.fl. EFTA-ríkja, fyrir fiskiskipaflotum Evrópubandalagsríkjanna. Thor Pedersen kvaðst í tilefni spurningarinnar taka fram að til umræðu væri að styrkja Norðurlönd, bæði út á við og inn á við með því að fjarlægja hindranir, og í því fælist einnig vilji til að fjarlægja takmarkanir, eða með öðrum orðum viðurkenning á því að þegar til lengdar lætur borgar sig fyrir allar þjóðir að opna sem mest. Í því felst og viðurkenning á því að frímiðar eru ekki gefnir út í alþjóðlegu samstarfi, allir þurfa að leggja sitt af mörkum, einnig á sviði fiskveiða.
     Hjörleifur Guttormsson fjallaði í upphafi ræðu sinnar um breytingar í Austur-Evrópu og tók undir þau orð Gorbatsjovs að tímabili eftirstríðsáranna væri nú lokið. Hann taldi Norðurlandaráð eiga að bregðast skjótt við hugmyndunum þeim, sem Gorbatsjov lagði fram í Helsinki, um aukin samskipti við Sovétríkin. Hjörleifur lagði m.a. til að fulltrúar Norðurlandaráðs, t.d. forsætisnefnd þess og nefndarformenn, færu til Moskvu til fundar við æðsta ráð Sovétríkjanna og síðan færu sendinefndir til Eystrasaltsríkjanna og Karelíu, og að fulltrúum þessara ríkja yrði boðið sem áheyrnarfulltrúum á Norðurlandaráðsþingið í Reykjavík. Hann harmaði að forsætisnefnd hefði ekki tekið ákvörðun um þetta. Hann kvaðst hafa efasemdir um stofnun evrópsks efnahagssvæðis og vísaði til fyrirvara sinna um fjármagnsflutninga og fjármagnsþjónustu í nefndaráliti efnahagsmálanefndar um starfsáætlun ráðherranefndarinnar, „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“. Þessar hugmyndir fælu í sér að reglur Evrópubandalagsins um innri markað yrðu yfirfærðar á Norðurlönd. Hann kvaðst ekki álíta að hin svonefnda „Two Pillars Approach“ væri hagkvæm fyrir EFTA-ríkin vegna þess að áherslur ríkjanna væru svo ólíkar innbyrðis. Sum þeirra byggðu t.d. á aðild að Evrópubandalaginu. Hagsmunir Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar og skandinavískra fjölþjóðlegra fyrirtækja færu heldur ekki saman. Hann kvað yfirþjóðlegt vald í vissu tilliti felast í hugmyndunum um evrópsk efnahagssvæði. Það væri og ólýðræðislegt að undirbúningstími fyrir viðræðurnar væri svo skammur. Hann kvað Norðurlandaþjóðirnar eiga að vera opnar fyrir öðrum lausnum en þeim sem leiddu þær beint í biðsal Evrópubandalagsins sem stefndi mörgum norrænum lausnum í hættu.
    Í lok ræðu sinnar lýsti hann stuðningi við tillögu alþjóðanefndar Norðurlandaráðs um stofnun fastanefndar í Norðurlandaráði um alþjóðamál.
     Þorsteinn Pálsson kvað rof Berlínarmúrsins sýna hve nefndarálit og skýrslur skipta í raun litlu um samskipti fólks. Rof múrsins væri sögulegur viðburður sem veitti Þjóðverjum ný tækifæri, það opnaði einnig nýja möguleika fyrir þau lýðræðisríki sem berðust fyrir frjálsri sameinaðri Evrópu. Hann kvað það nærtækt dæmi að Norðurlandaþjóðirnar styddu Eystrasaltsríkin sem hefðu verið innlimuð í Sovétríkin með valdi. Eystrasaltsríkjunum bæri því sjálfum að ákveða hvernig samskiptum þeirra við önnur ríki skyldi háttað, slíkar ákvarðanir ætti ekki að taka í Moskvu.
    Hann kvað þær breytingar, sem eiga sér stað í Austur-Evrópu, undir forustu Gorbatsjovs, verða á sömu forsendum og lýðræðisríkin byggja á, þar eiga ekki að verða neinar málamiðlanir. Það verður að finna leiðir til samstarfs við ríki Austur-Evrópu. Það sem er að gerast getur haft í för með sér breytingar í varnar- og öryggismálum, en jafnvægið má ekki raskast því að það gæti eyðilagt þá þróun sem nú á sér stað. Þróunin í Austur-Evrópu gerir það að verkum að flýta
þarf þeim viðræðum sem nú eru í gangi milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins um evrópskt efnahagssvæði. Áður fyrr tryggðu ríki hagsmuni sína með landvinningum, en nú gerist það best með fríverslunarsamningum, m.a. um vörur, fjármagn og þjónustu. Á þessum sviðum eiga Norðurlönd að samræma löggjöf sína. Litlum þjóðum er nauðsyn að taka þátt í þessari þróun, en það getur þó verið nauðsynlegt að tillit sé tekið til sérstöðu einstakra þjóða. Auk þess er ljóst að það alþjóðlega samstarf, sem nú er á döfinni, verður ekki byggt upp nema tunga og menning þeirra þjóða, sem að því standa, sé virt.
     Óli Þ. Guðbjartsson dómsmálaráðherra kvað þróun mála síðan í vor í Evrópu hafa orðið mun hraðari en talið hefði verið. Hann benti á að fiskveiðar væru grundvöllur íslensks efnahagslífs og að 60% útflutningsverðmæta Íslendinga færu til Evrópubandalagsins. Þetta sýndi hve þessi markaður væri verðmætur fyrir Íslendinga. Hann kvað sig, og þá Íslendinga, sem væru í vafa um hag þess að auka efnahagssamvinnu við Evópubandalagið, vera þeirrar skoðunar að slík samvinna væri fyrst og fremst til hagsbóta fyrir stórþjóðir hins þéttbýla meginlands Evrópu. Ísland yrði einungis verstöð yst úti í hafi.
    Hann áleit þó að fleiri teldu nauðsynlegt að auka frelsi á þeim fjórum sviðum, sem eru grundvöllur samninga EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Gagnkvæm vöru- og fjármagnsskipti, frjáls flutningur fólks, tækniþekking og menningarleg samskipti eru jákvæð ef jafnframt er tekið tillit til sérstöðu strjálbýlla landa.
    Við umræðu á þinginu um þingmannatillögu um stofnun norrænna upplýsingaskrifstofa í Brussel og Moskvu, sem menningarmálanefnd Norðurlandaráðs hafði lagt til að yrði felld, bað Hjörleifur Guttormsson sem einn flutningsmanna tillögunnar, með vísan til breyttra aðstæðna, um að lögð yrði undir atkvæði upprunalega tillagan. Það var gert, en tillaga menningarmálanefndar um að fella þingmannatilöguna var samþykkt með 54 atkvæðum gegn 21.
    Einn Íslendingur, Júlíus Sólnes, samstarfsráðherra, tók þátt í umræðum þingsins um fjárlögin. Í máli hans kom m.a. fram að álit ráðherranefndar Norðurlanda og fjárlaga- og eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs um norræn fjárlög ársins 1990 félli í aðalatriðum saman. Starfsáætlunin, „Arbeidsprogram Norden i Europa 1989–1992“, ætti að beggja dómi að hafa forgang. Hann kvað ráðherranefndina geta fallist á mörg atriði sem fjárlaga- og eftirlitsnefnd hefði sett fram og sagði það vera von ráðherranefndar Norðurlanda að hinar nýju reglur um fjárlögin, sem beitt yrði í fyrsta sinn við fjárlög ársins 1991, gæfu Norðurlandaráði betri möguleika en hingað til á málefnalegum skoðanaskiptum við ráðherranefndina um efni fjárlaganna.

6. Tillögur lagðar fram af fulltrúum í Íslandsdeild á tímabilinu
frá lokum 37. þings Norðurlandaráðs og til loka ársins 1989.

    Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um norrænar upplýsingaskrifstofur í Brussel og Moskvu.
    Eiður Guðnason var fyrsti flutningsmaður þingmannatillögu um aukið alþjóðasamstarf að jafnréttismálum.
    Valgerður Sverrisdóttir var meðflutningsmaður þingmannatillögu um merkingu norrænna vara með tilliti til mengunar.
    Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson voru meðflutningsmenn tillögu um framkvæmd nokkurra tillagna sem alþjóðanefnd Norðurlandaráðs hafði lagt fram í lokaskýrslu sinni (m.a. um stofnun embættis norræns umboðsmanns, gagnkvæma viðurkenningu á loka- og hlutaprófum, auknar fjárveitingar til NORDPLUS-verkefnisins og stofnun evrópsks umhverfisverndarsjóðs).