Ferill 345. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 345 . mál.


Sþ.

596. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar.

Flm.: Jón Kristjánsson, Jóhann Einvarðsson, Guðni Ágústsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar björgunarsveitar með aðsetur á Íslandi sem sinni björgunarmálum á Norður-Atlantshafi. Leitað verði samstarfs við þær þjóðir sem mestra hagsmuna hafa að gæta á þessu sviði.

Greinargerð.


    Mjög aðkallandi er að bæta tækjakost þann sem tiltækur er til björgunarstarfa á Norður-Atlantshafi og koma skipulagi á þau mál til frambúðar. Vegna legu Íslands á miðju hafsvæðinu milli Evrópu og Ameríku að verkum að björgunarsveitir hér á landi gegna lykilhlutverki þegar slys verða á eða yfir þessu hafsvæði.
    Íslenska landhelgisgæslan gegnir meginhlutverki í björgun á hafsvæðinu umhverfis Ísland og vél flugmálastjórnar hefur veitt mikilvæga flugleiðsögu í lofti, einkum þegar litlar flugvélar lenda í erfiðleikum í ferjuflugi, en leið þeirra liggur um Ísland þegar flogið er yfir Norður-Atlantshaf. Þá er ótalinn hinn mikilvægi þáttur Slysavarnafélags Íslands, Hjálparsveitar skáta, Flugbjörgunarsveitarinnar og annarra frjálsra samtaka sem sinna þessum málum. Enn má geta varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem veitt hefur mjög mikilvæga aðstoð með þyrlum sem það hefur yfir að ráða, ásamt tankvél sem er forsenda þess að hægt sé að athafna sig á þyrlum langt á hafi úti.
    Þótt mjög oft hafi björgun tekist farsællega við Ísland og unnið hafi verið afar gott starf á þessu sviði eru tækjakostur og skipulag þessara mála annmörkum háð. Þyrlur verða æ mikilvægari á þessu sviði ásamt góðum skipakosti. Þyrlur landhelgisgæslunnar og varnarliðsins eru allar á suðvesturhorni landsins og lengir það mjög viðbragðstíma ef slys verða á hafsvæðum fyrir norðan og austan land. Þá má og geta þess að þyrlur eru mjög oft ekki til taks vegna bilana og eftirlits.
    Til að auka megi öryggi í björgunarmálum á Norður-Atlantshafi er því augljóst að það þyrftu að vera björgunarþyrlur á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ljóst er að slíkt er mjög kostnaðarsamt og langur tími gæti liðið þar til Íslendingar risu einir undir slíkri útgerð.
    Mikil umræða hefur verið um kaup á stórri björgunarþyrlu fyrir landhelgisgæsluna og er að vonum mikill áhugi á slíku enda mikið í húfi. Hér er um háar upphæðir að ræða, þ.e. stofnkostnað sem nemur 750–900 millj. kr. auk rekstrarkostnaðar. Leiga fyrir slíkt tæki næmi um 100 millj. kr. árlega. Kaupum hefur ítrekað verið slegið á frest og jafnvel þótt af þeim yrði nægðu þau ekki til að mæta að fullu þörfinni.
    Starfandi er hópur 19 aðila sem hefur það að markmiði að vinna að samræmdu átaki í leitar- og björgunarmálum landsmanna. Leggur hópurinn höfuðáherslu á eflingu þyrluflotans, en það mál hefur ekki náð fram að ganga.
    Í hafréttarsáttmálanum frá 1958 er kveðið á um skyldur strandríkja varðandi björgunarmál og segir þar svo að „sérhvert strandríki skuli stuðla að stofnun, rekstri og viðhaldi fullnægjandi og virkrar leitar- og björgunarþjónustu vegna öryggis á og yfir hafinu og skal, ef aðstæður krefja, hafa samstarf við nágrannaríkin um sameiginlegar svæðisráðstafanir í þessu skyni“.
    Íslenska landhelgisgæslan hefur samstarf við danska sjóherinn um björgunarmál á hafsvæðinu við Grænland og Færeyjar og eins og áður segir hefur björgunarsveit varnarliðsins gegnt mikilvægu hlutverki við björgun á hafinu og hefur haft samstarf við Landhelgisgæsluna varðandi yfirstjórn.
    Alþjóðahyggja fer nú vaxandi og samstarf þjóða vex um ýmis málefni. Skriður er á umræðum um afvopnun í Evrópu og sá tími ef til vill skammt undan að tækjum og mannafla verði hægt að beita við borgaraleg verkefni og eru þá öryggismál mjög nærtæk. Því er fyllilega tímabært að kanna hvort ekki sé lag nú til þess að gera Ísland að miðstöð björgunarmála í Norður-Atlantshafi vegna ákjósanlegrar legu landsins.
    Þingsályktunartillaga þessi kveður á um það að ríkisstjórnin láti gera athugun á því hvort nágrannaþjóðir okkar séu reiðubúnar til samstarfs um björgunarmál á því víðfeðma hafsvæði sem hér um ræðir ásamt þátttöku í kostnaði við slíka starfsemi. Slík athugun er nauðsynlegur þáttur í framtíðarstefnumörkun á þessu sviði.