Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 402 . mál.


Nd.

702. Frumvarp til lagaum innflutning dýra.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)1. gr.

    Merking orða er í lögum þessum sem hér segir:
Búfé:     Hvers konar dýr sem haldin eru og alin í þeim tilgangi að hafa af þeim nytjar.
Búfjárræktarnefnd: Nefnd skv. 5. gr. laga um búfjárrækt, nr. 84 30. maí 1989.
Dýr:     Öll lifandi landdýr, bæði hryggdýr og hryggleysingjar, að undanskildum manninum, og lagardýr sem lifa að hluta eða öllu leyti í fersku vatni.
Einangrunarstöð: Sóttvarnaraðstaða fyrir loðdýr, fugla og fiska.
Erfðaefni:     Hvers kyns efni sem geymir erfðaeiginleika, dýra svo sem fósturvísir (frjóvgað egg eða fóstur á frumstigi), egg, sæði eða annað lifandi efni sem af getur vaxið nýtt dýr.
Sóttvarnastöð:     Staður þar sem dýr og erfðaefni eru geymd meðan rannsakað er hvort þau eru haldin smitsjúkdómi.
Umsjónardýralæknir: Hver sá dýralæknir sem sérstaklega hefur verið skipaður vegna innflutnings samkvæmt lögum þessum.
Umsjónarmaður: Yfirmaður sóttvarnastöðvar þar sem dýr hafa verið flutt inn samkvæmt lögum þessum.

2. gr.


    Óheimilt er að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin og villt, svo og erfðaefni.
    Landbúnaðarráðherra getur, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, vikið frá banni því sem um getur í 1. mgr. og leyft innflutning dýra og erfðaefnis, enda sé stranglega fylgt þeim fyrirmælum, sem felast í lögum þessum, og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim.
    Dýrum, sem flutt eru inn án heimildar, skal tafarlaust lógað og skrokkum eytt svo að eigi stafi hætta af. Eggjum, sæði eða fósturvísum, skal á sama hátt eytt, svo og dýrum sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður, og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir slíkan ólöglegan innflutning.

3. gr.

    Þegar yfirdýralæknir mælir með eða hafnar innflutningi dýra eða annars erfðaefnis skal hann skila rökstuddu áliti um heilbrigðisástand í viðkomandi landi eða landsvæði og meðmælum skulu fylgja vottorð frá viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum um að þar finnist ekki sjúkdómar í dýrum sem sérstaklega þarf að óttast hér á landi.
    Þegar óskað er heimildar til innflutnings á búfé skal ráðherra skipa nefnd þriggja dýralækna, yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal einn þeirra tilnefndur af Tilraunastöð Háskólans í meinafræði, annar af yfirdýralækni og sá þriðji skipaður án tilnefningar.

4. gr.

    Áður en leyfi til innflutnings á búfé eða erfðaefni þess er veitt skal ráðherra leita álits búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein og skal hún meta þörf eða hugsanlegan ábata fyrir íslenska búfjárrækt af slíkum innflutningi. Skal nefndin gera tillögur um hvaða kyn skuli flytja inn, með hvaða hætti og frá hvaða landi.
    Búfjárræktarnefnd skal leggja mat á innflutning þann, sem óskað er eftir skv. þeim upplýsingum, sem fylgja með umsókninni, og yfirdýralæknir lætur í té skv. 3. gr. þessara laga. Nefndin getur lagt til annað form á innflutningi en umsækjandi gerir ráð fyrir telji hún það tryggara og forsendur fyrir meðmælum með umsókninni.

5. gr.

    Áður en leyfi er veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér eru fyrir skal landbúnaðarráðherra afla umsagnar Náttúruverndarráðs.

6. gr.

    Landbúnaðarráðuneytið skal annast og bera ábyrgð á innflutningi búfjár sem heimilaður kann að verða samkvæmt lögum þessum. Á sama hátt annast það framræktun kynja, sem inn verða flutt, en landbúnaðarráðherra er þó heimilt að fela hana einstökum búgreinasamtökum eða ræktunarfélögum, enda mæli yfirdýralæknir og viðkomandi búfjárræktarnefnd með því. Viðkomandi aðili skal þá sýna fram á að hann geti fullnægt öllum skilyrðum um sóttvarnir og aðbúnað og kostað framræktunina að öllu leyti. Slíkt framsal skal ávallt bundið við einn innflutning með ákveðnum tímamörkum.

7. gr.

    Vegna innflutnings á dýrum og erfðaefni samkvæmt lögum þessum skal vera til staðar eða byggð sóttvarnastöð á hentugum stað. Öll aðstaða til einangrunar og sóttvarna skal fullnægja þeim kröfum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar og nánar skal kveðið á um í reglugerð.

8. gr.

    Þegar dýr eða erfðaefni er valið til innflutnings skal hvert einstakt dýr, sem flytja skal inn, karldýr sem eru fyrirhugaðir sæðisgjafar, og foreldrar, sem gefið hafa frjóvguð egg, heilbrigðisskoðuð af viðurkenndum dýralækni og skulu vottorð og aðrar nauðsynlegar upplýsingar fylgja með þegar innflutningur fer fram. Fósturvísa, egg eða sæði má aðeins flytja frá viðurkenndum kynbótastöðvum þar sem fylgst hefur verið með heilbrigði foreldra eða foreldris nægilega lengi að mati yfirdýralæknis. Landbúnaðarráðherra skal setja reglur samkvæmt tillögum yfirdýralæknis um kröfur til hvers kyns upplýsinga og vottorða sem þurfa að liggja fyrir þegar slíkur innflutningur er leyfður.

9. gr.

    Einangra skal öll innflutt dýr og erfðaefni á sóttvarnastöð svo lengi sem yfirdýralæknir telur þörf á undir stöðugu eftirliti umsjónarmanns stöðvarinnar.
    Umsjónarmaður sóttvarnastöðvar skal ráðinn af landbúnaðarráðherra, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, og skal hann fá sérstakt erindisbréf. Umsjónarmaður skal vera dýralæknir er hafi sérstaka þekkingu og þjálfun í eggjaflutningi og sæðingum búfjár. Umsjónarmanni er óheimilt að stunda lækningar dýra utan sóttvarnastöðvar.
    Landbúnaðarráðherra setur, að fengnum tillögum yfirdýralæknis, reglugerð um allt er veit að rekstri sóttvarna- og einangrunarstöðva og öryggi gagnvart hugsanlegri sýkingarhættu frá þeim, þar á meðal ströng ákvæði um mannaferðir, meðferð áburðar, hvers konar úrgangs og afurða frá stöðvunum. Starfsmenn við slíkar stöðvar skulu fá sérstök erindisbréf og skal umsjónarmaður ábyrgur fyrir því að öryggisreglum sé fylgt.

10. gr.

    Óheimilt er að flytja innflutt dýr eða dýr, sem hafa vaxið af innfluttu erfðaefni, út af sóttvarnastöð.
    Þegar tryggt þykir að við innflutning hafi ekki borist neinir erfðagallar eða smitsjúkdómar, hættulegir íslenskum dýrum og liðinn er ákveðinn tími, sem nánar skal kveðið á um í reglugerð, frá síðasta innflutningi dýra eða erfðaefnis getur yfirdýralæknir heimilað að dýr eða erfðaefni, annað en getið er í 1. mgr., séu flutt úr sóttvarnastöð.

11. gr.

    Hreinræktun innfluttra kynja og blöndun þeirra við innlent búfé skal vera undir stjórn viðkomandi búfjárræktarnefnda sem starfa eftir lögum um búfjárrækt.

12. gr.

    Íslensk dýr, sem tekin eru til blöndunar við innflutt búfjárkyn eða til að vera fósturmæður við innflutning á fósturvísum, skulu valin af ráðunautum Búnaðarfélags Íslands í viðkomandi búgrein og skal yfirdýralæknir eða fulltrúi hans ganga úr skugga um að þeir séu eigi grunaðir um eða haldnir smitsjúkdómum. Ekki má hefja ræktun á íslensku búfjárkyni með innfluttu kyni fyrr en gengið hefur verið úr skugga um hvernig kynin blandast og að einblendingsrækt með íslenska kyninu fylgi ekki alvarlegir burðarerfiðleikar eða skapgerðargallar.
    Gæta skal þess að verðmætir eiginleikar í íslenskum búfjárkynjum tapist ekki við blöndun við innflutt kyn. Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði sem kveða svo á um að aðeins megi nota hið innflutta kyn til einblendingsræktar telji ráðunautur Búnaðarfélags Íslands og/eða viðkomandi búfjárræktarnefnd ástæðu til.

13. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. þessara laga er landbúnaðarráðherra heimilt að leyfa innflutning loðdýra, sem haldin eru í búrum, frjóvgaðra alifuglaeggja frá viðurkenndum kynbótabúum og fiskum og erfðaefni þeirra á einangrunarstöð. Slíkt leyfi skal þó aðeins veita ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis.
Aðeins skal leyft að flytja dýr úr einangrunarstöð á bú sem fullnægja þeim ákvæðum sem yfirdýralæknir setur til að hindra smithættu frá þeim og fá viðurkenningu landsráðunautar í greininni. Dýr má ekki flytja úr einangrunarstöð fyrr en þau hafa dvalið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að þau séu ekki haldin neinum smitsjúkdómi.

14. gr.

    Landbúnaðarráðherra er heimilt, ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis, að víkja frá ákvæðum 10. gr. þessara laga og veita leyfi til þess að heimilisdýr, sem ekki eru af ætt hóf- og klaufdýra, séu flutt úr sóttvarnastöð. Slíkur flutningur skal ekki fara fram fyrr en dýrin hafa verið svo lengi í einangrun að tryggt þyki að mati yfirdýralæknis að dýrin séu ekki haldin neinum smitsjúkdómum. Slíku leyfi mega fylgja ákvæði um að dýralæknir fylgist reglulega með heilsufari dýranna á kostnað eigenda svo lengi sem yfirdýralæknir telur slíkt nauðsynlegt.

15. gr.

    Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð skal gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans, m.a. fella dýr, ef nauðsyn krefur, og stöðva dreifingu erfðaefnis þaðan. Rekstraraðili ber allan kostnað af slíkum aðgerðum og er skyldur að hlíta fyrirmælum yfirdýralæknis í einu og öllu.
    Eigendum er skylt að hlíta fyrirmælum yfirdýralæknis um eyðingu dýra í stöðvunum og eiga þeir ekki rétt á bótum fyrir dýr sem eyða þarf vegna slíkra aðgerða.

16. gr.

    Heimilt er að geyma djúpfryst sæði eða fósturvísa utan sóttvarnastöðvar að fengnu leyfi og eftir fyrirsögn yfirdýralæknis. Umsjónarmaður sóttvarnastöðvar skal halda nákvæma skrá um alla gripi sem koma í stöðina eða fæðast þar, svo og um sæði og fósturvísa sem þar er tekið eða þaðan flutt. Við mælingar á gripum og skýrsluhald skal umsjónarmaður fara eftir fyrirmælum viðkomandi búfjárræktarnefndar.

17. gr.

    Nú telur yfirdýralæknir að tryggt sé orðið að með innflutningi Galloway-kyns til Hríseyjar hafi engir hættulegir sjúkdómar borist og getur hann þá heimilað að erfðaefnið verði flutt til lands. Ræktun kynsins í landi skal lúta ákvæðum laga um búfjárrækt.

18. gr.

    Nú er ákveðið að leggja niður sóttvarnastöð sem starfrækt hefur verið og ekki þykir rétt að mati viðkomandi búfjárræktarnefndar að nota frekar það erfðaefni sem þar er geymt og skal þá eyða því svo að ekki stafi hætta af eða gera aðrar ráðstafanir sem tryggja að frá því stafi ekki sýkingarhætta. Gripi slíkrar stöðvar skal fella hafi ekki verið heimilað samkvæmt lögum þessum að flytja þá úr einangrun.

19. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum til ríkissjóðs. Berist sjúkdómur til landsins vegna vanrækslu, varðar það þann sem vanrækslu hefur sýnt starfs- og stöðumissi eða fangelsi ef miklar sakir eru.
    Ef lifandi dýr, fósturvísar, egg eða annað erfðaefni dýra er flutt til landsins án heimildar, sbr. 2. gr., varðar það sektum fyrir eiganda, svo og fyrir skipstjóra eða flugstjóra á farartæki því, sem dýrin eða erfðaefnið flutti, ef ætla má að það sé flutt með hans vitund.

20. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, að fengnum tillögum yfirdýralæknis og Búnaðarfélags Íslands.
    Um starfsemi sóttvarnastöðvar ríkisins í Hrísey fer samkvæmt lögum þessum.

21. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felld lög um innflutning búfjár, nr. 74 28. apríl 1962, lög nr. 49 11. maí 1989, um breytingu á þeim lögum, 48.–52. gr. búfjárræktarlaga, nr. 31 24. apríl 1973, svo og 3. gr. laga um loðdýrarækt, nr. 53 29. maí 1981.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 24. febrúar 1987 var samþykkt á Alþingi svohljóðandi þingsályktun:
    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að láta endurskoða lög um innflutning búfjár, nr. 74/1962. Endurskoðun laganna taki mið af þeim breytingum sem orðið hafa á tækni við flutning erfðaefnis búfjár og athuguð verði sérstaklega sú grein laganna sem fjallar um þær tegundir nautgripa sem innflutningur er heimill á. Stefnt verði að því að leggja lagafrumvarp um mál þetta fyrir næsta þing.
    Í samræmi við ályktun Alþingis skipaði landbúnaðarráðherra, með bréfi dags. 26. maí 1987, eftirtalda í nefnd til að vinna að endurskoðun laganna: Davíð Aðalsteinsson formann, Jónas Jónsson og Þorstein Ólafsson.
    Við umfjöllun Alþingis var málið sent nokkrum aðilum til umsagnar. Flestar umsagnir voru jákvæðar fyrir efni tillögunnar en lögð var áhersla á mikilvægi þess að ýtrustu varúðar skyldi gætt framvegis sem hingað til um allar sjúkdómavarnir.
    Segja má að samkvæmt orðanna hljóðan fjalli umrædd þingsályktun í þrengsta skilningi um nautgripi, sbr. „og athuguð verði sérstaklega sú grein laganna sem varðar tegundir nautgripa sem innflutningur er heimill á„. Jafnframt er í greinargerð með tillögunni efnislega svo að segja eingöngu fjallað um nautgripi.
    Nefndin tók þann kostinn að vinna við endurskoðun laganna á breiðum grunni og án þess að taka afstöðu til innflutnings einstakra búfjárkynja eða dýrategunda, enda verði slíkt til ákvörðunar hverju sinni þar til bærra aðila á grundvelli laga og reglna. Nefndin leitaði álits margra á sviði búfjárræktar og sjúkdómavarna. Viðhorf einstakra aðila voru nokkuð breytileg til þessara mála og mismunandi rök færð fyrir þörfinni á breyttum reglum um innflutning dýra. Þrátt fyrir ólíkar áherslur, sem fram komu í greinargerðum og/eða viðræðum við nefndina, voru allir á einu máli um að allrar varúðar skyldi gætt til að forðast sjúkdóma.
    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er að stofni til byggt á tillögum ofangreindrar nefndar. Frá því að gengið var frá þeim tillögum hafa verið sett ný lög um búfjárrækt og því hafa ýmis atriði frumvarpsins, sem lúta að búfjárrækt, verið sett upp í samræmi við hin nýju lög. Einnig hafa möguleikar til innflutnings í þeim tilgangi að bæta alifugla- og svínastofna í landinu verið til sérstakrar athugunar af hálfu landbúnaðarráðuneytisins og viðkomandi bænda að undanförnu og sú umræða hefur m.a. varpað ljósi á atriði sem gera þarf ráð fyrir í lögum um innflutning dýra og erfðaefnis.
    Í frumvarpinu er meginreglan sú að bannað sé að flytja inn dýr, svo sem verið hefur. Landbúnaðarráðherra getur þó vikið frá banni þessu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og leyft innflutning, eins og er í gildandi lögum, og einnig á erfðaefni, en frá setningu gildandi laga hefur flutningur þess komið til sögunnar með nýrri tækni.
    Gert er ráð fyrir því að landbúnaðarráðherra geti því aðeins leyft innflutning að yfirdýralæknir mæli með slíkum innflutningi, og að fenginni umsögn búfjárræktarnefnda, þegar um búfé er að ræða. Jafnframt er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra leiti umsagnar Náttúruverndarráðs þegar um nýja stofna eða tegundir dýra er að ræða og fela breytingar þessar í sér víðtækara faglegt mat en er nú samkvæmt gildandi lögum.
    Þau ákvæði frumvarpsins, sem kveða á um aðdraganda að umfjöllun af hálfu búfjárræktarnefnda, ættu að tryggja fagleg viðhorf með tilliti til ræktunar og kynbóta.
    Frumvarp þetta, ef að lögum verður, skyldar ríkissjóð ekki til nýrra fjárútláta, enda er ákvörðun landbúnaðarráðherra um innflutning sjálfstæð ákvörðun hverju sinni.
    Af öryggisástæðum er það mikilvæg grundvallarregla að opinber aðili annist innflutning og geti þannig borið ábyrgð á að ekki berist til landsins sjúkdómar sem valda stórfelldu tjóni eins og dæmin sanna.
    Unnt er að verulegu leyti að nýta þær fjárfestingar sem fyrir eru í landinu til sóttvarna vegna þess innflutnings sem nauðsynlegur kann að reynast á næstunni og á það bæði við um gæludýr og flest nytjadýr. Hins vegar er gert ráð fyrir að einangrunarstöðvar vegna innflutnings á loðdýrum, alifuglaeggjum og erfðaefni fiska verði eingöngu í höndum innflutningsaðila en undir ströngu eftirliti opinberra aðila.
    Að öðru leyti skal vísað til athugasemda um einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er áréttað, eins og í eldri lögum, bann við innflutningi dýra. Með dýrum er átt við öll dýr, önnur en menn og lagardýr, eins og nánar er rakið í orðskýringum 1. gr.
    Jafnframt er getið frávika sem landbúnaðarráðherra getur leyft, þó aðeins að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Þá er einnig getið um hvernig eytt skuli ólöglegum, innfuttum dýrum eða erfðaefni.

Um 3. gr.


    Greinin segir til um hlutverk yfirdýralæknis við umsóknir um innflutning og nefnd dýralækna sem skal vera honum til ráðuneytis þegar sótt er um að flytja til landsins búfé eða erfðaefni þess.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að búfjárræktarnefndir meti þörf á innflutningi í hverju einstöku tilviki þegar um búfé eða erfðaefni þess er að ræða og á það að tryggja að við innflutning, ef leyfður verður, ráði ræktunarfræðileg sjónarmið ákvörðun um hvaða kyn eru valin og hvaðan flutt.

Um 5. gr.


    Greinin er nýmæli og fjallar um tilvik þegar flytja á inn nýjar dýrategundir eða erlenda stofna tegunda sem fyrir eru í landinu. Þá skal landbúnaðarráðherra afla umsagna frá Náttúruverndarráði sem í samráði við aðra sérfróða aðila á sviði náttúrufræði og líffræði legði mat á þau áhrif sem innflutningur viðkomandi dýra gæti haft á íslenska náttúru. Slíkt ákvæði verður að telja afar mikilvægt til að útiloka röskun hins viðkvæma lífríkis landsins.

Um 6. gr.


    Frumvarpið gengur út frá þeirri meginreglu að landbúnaðarráðuneytið annist og beri ábyrgð á innflutningi búfjár. Af öryggisástæðum er það mikilvæg grundvallarregla að opinber aðili annist innflutning og geti þannig borið ábyrgð á að ekki berist til landsins sjúkdómar sem valda stórfelldu tjóni, eins og dæmin sanna. Af sömu ástæðum er gert ráð fyrir að ríkissjóður kosti innflutning búfjár, nema um annað sé sérstaklega samið, t.d. við samtök bænda í viðkomandi búgrein. Gert er ráð fyrir að slíkt kæmi frekast til ef um væri að ræða endurtekinn innflutning sem ætla mætti að skilaði sér tiltölulega fljótt í betri afkomu greinarinnar. Innflutning með langtímamarkmið í huga mundi ríkissjóður kosta svo fremi að fé væri til þess veitt á fjárlögum. Þar gæti þó jafnframt komið til kostnaðarþátttaka utanaðkomandi aðila.
    Framræktun kynja, sem inn verða flutt, þ.e. eftir að fyrstu einangrun lýkur, skal ráðuneytið sömuleiðis annast, en þó er ráðherra heimilt að fela hana að öllu leyti einstökum búgreinasamtökum eða ræktunarfélögum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Um 7. gr.


    Fjallað er um sóttvarnastöð fyrir dýr sem skal vera tilbúin til notkunar áður en innflutningur á sér stað. Um sóttvarnastöðvar ber að setja reglugerðir þegar í upphafi byggingar þeirra.

Um 8. gr.


    Greinin fjallar um kröfur til heilbrigðisskoðunar á öllum dýrum sem snerta fyrirhugaðan innflutning. Ástæða þykir til að setja með reglugerð nánari ákvæði um kröfur til heilbrigðisvottorða og annarra upplýsinga, svo sem um ætterni sem liggja verða fyrir við innflutning.

Um 9. gr.


    Hér kemur fram að öll dýr eða erfðaefni, sem til landsins koma, skulu í upphafi vistuð í sóttvarnastöð. Fjallað er um einangrun innfluttra dýra, eyðingu úrgangs og um kröfur til starfsmanna. Ákvæði þessarar greinar verða nánar útfærð í reglugerð.

Um 10. gr.


    Hér er lagt bann við að innflutt dýr eða dýr sem hafa vaxið af innfluttu erfðaefni, svo sem kálfar, sem fæðst hafa eftir notkun á innfluttu sæði, eða grís sem kom til einangrunarstöðvar sem fósturvísir, fari lifandi út úr sóttvarnastöð. Hins vegar getur yfirdýralæknir, þegar hann metur það óhætt, heimilað að erfðaefni og jafnvel dýr af síðari kynslóðum séu flutt úr stöðinni. Flutningur lifandi dýra frá sóttvarnastöð mundi þó fyrst og fremst geta komið til á lokastigi hvers „innflutnings“, sbr. 18. gr.

Um 11. gr.


    Í greininni eru ákvæði um stjórn framræktunar innfluttra búfjárkynja og blöndun þeirra við íslenskt búfé.

Um 12. gr.


    Í greininni eru nánari ákvæði um blöndun innlendra og erlendra dýra, m.a. til að koma í veg fyrir að hin innfluttu dýr smitist af innlendum búfjársjúkdómum og að eiginleikar íslenskra dýra fari ekki forgörðum við blöndun búfjárkynja.

Um 13. gr.


    Hér eru sérstök ákvæði um innflutning loðdýra, sem haldin eru í búrum, frjóvgaðra alifuglaeggja og fiska eða erfðaefnis þeirra og heimild til að hafa þau í sérstökum einangrunarstöðvum. Þau ákvæði eru sniðin eftir þeim venjum sem fylgt hefur verið við innflutning loðdýra og alifuglaeggja til landsins á undanförnum árum.

Um 14. gr.


    Greinin fjallar um innflutning heimilisdýra og flutning þeirra úr einangrun.

Um 15. gr.


    Í þeim tilfellum, sem hér um ræðir, hefur yfirdýralæknir yfirumsjón og úrslitavald í aðgerðum gegn alvarlegum smitsjúkdómum sem upp koma í sóttvarnastöð eða einangrunarbúi. Í 2. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að eigendum dýra í sóttkví sé skylt að hlíta fyrirmælum um ráðstafanir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma í sóttvarna- eða einangrunarstöð og að þeir eigi ekki rétt á bótum fyrir dýr sem eyða þarf.

Um 16. gr.


    Greinin fjallar um hugsanlega geymslu djúpfrysts erfðaefnis utan sóttvarnastöðvar og um skýrsluhald og ræktunarþætti.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Hér eru ákvæði um hvernig staðið skuli að því að leggja niður sóttvarnastöð.

Um 19. gr.


    Ákvæði greinarinnar um sektir eru óbreytt frá gildandi lögum.

Um 20.–21. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.