Ferill 460. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 460 . mál.


Nd.

797. Frumvarp til lagaum Skákskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)1. gr.

    Á vegum Skáksambands Íslands og í samvinnu við menntamálaráðuneytið starfar skóli er nefnist Skákskóli Íslands.

2. gr.

    Skólinn er starfræktur í húsakynnum Skáksambands Íslands. Skal árlega veittur til hans styrkur á fjárlögum sem hér segir:
a.    Framlag sem nemi einu stöðugildi í 8. þrepi 144. lfl. BHM.
b.    Rekstrarstyrkur sem nemi hæfilegri leigu fyrir afnot húsnæðis.

3. gr.


    Hlutverk skólans er að annast skákkennslu og hafa á hendi hvers kyns fræðslu sem miðar að því að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi. Skal skólinn m.a. halda námskeið úti á landi í samvinnu við skóla og taflfélög.

4. gr.

    Skólastjórn Skákskóla Íslands skal skipuð þremur mönnum sem tilnefndir eru af eftirtöldum aðilum til þriggja ára í senn: Menntamálaráðherra skipar einn, Skáksamband Íslands skipar tvo, þar af annan í samráði við Félag íslenskra stórmeistara.
    Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar skal kveðið á um verksvið hennar í reglugerð.

5. gr.

    Skólastjórn ræður skólastjóra Skákskóla Íslands sem annast rekstur skólans og ræður til hans kennara með samþykki stjórnar.

6. gr.

    Skólinn skiptist í almenna deild og framhaldsdeild. Nám í almennum deildum skal auglýst og greiða nemendur námsgjald fyrir. Í framhaldsdeild eru nemendur valdir á grundvelli inntökuprófs og skólavist ókeypis. Kennslu í framhaldsdeild annast stórmeistarar í skák, sbr. 4. gr. laga um launasjóð stórmeistara í skák.
    Í starfsemi skólans er skylt að gæta jafnréttis kynjanna í hvívetna.
    Nánar skal kveðið á um starfsemi deilda og tilhögun kennslu í reglugerð.

7. gr.

    Til að standa straum af kostnaði við stofnun skólans skal veittur sérstakur styrkur á fjárlögum ársins 1991.

8. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt að semja við önnur félagasamtök eða einkaaðila um rekstur skákskóla samkvæmt lögum þessum.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfest verði stofnun Skákskóla Íslands sem rekinn verði af Skáksambandi Íslands (samband taflfélaga um allt land) í samvinnu við menntamálaráðuneytið og þar með brugðist við brýnni þörf fyrir skákskóla er þjóni sem miðstöð almennrar skákfræðslu á öllu landinu.
    Hlutverk Skákskóla Íslands er einkum þríþætt:
    Í fyrsta lagi að þjóna sem almenn kennslustofnun fyrir frjálst skáknám allra aldurshópa, en mikil eftirspurn hefur verið eftir slíku námi á undanförnum árum.
    Í öðru lagi að þjóna sem eins konar háskóli á sviði skáklistarinnar. Í framhaldsdeild skólans fari fram markviss þjálfun og nám ungmenna sem skarað hafa fram úr. Sú þjálfun og fræðsla yrði í höndum stórmeistaranna, sbr. lög um launasjóð stórmeistara.
    Í þriðja lagi er skólanum ætlað það hlutverk að þjóna landsbyggðinni með erindrekstri, námskeiðahaldi og farkennslu af ýmsu tagi. Það er ekki síst úti um land sem þörfin er brýn. Skólar og taflfélög reyna að halda uppi kennslu og annarri starfsemi við erfiðar aðstæður þar sem víðast vantar bæði kennslugögn
og reynda kennara. Eins og nú er háttað er engin skipulögð skákkennsla sem nær út fyrir höfuðborgarsvæðið. Því er hugmyndin sú að Skákskóli Íslands verði eins konar farskóli sem hafi skyldum að gegna við landsbyggðina þar sem m.a. verði haldin námskeið og mót í samvinnu við skóla og taflfélög.
    Þá er það jafnframt hlutverk Skákskóla Íslands að auka veg kvenna í skák og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna á þessu sviði.
    Lagt er til að skólinn, sem hafi aðsetur sitt í Reykjavík, starfi í tveimur deildum. Í almennri deild verði kennsla á öllum stigum í formi námskeiða fyrir alla aldurs- og styrkleikahópa. Skólinn ræður kennara til að sinna kennslu í almennu deildinni og greiðist laun þeirra af námsgjöldum nemenda. Í framhaldsdeild fari fram kennsla fyrir þá sem lengra eru komnir og þá kennslu er gert ráð fyrir að stórmeistarar annist. Kennsla við skákskólann og önnur fræðsla á vegum hans er sú vinnuskylda sem stórmeistarar inna af hendi gegn launum úr launasjóði stórmeistara samkvæmt sérstökum lögum.
    Lagt er til að skólastjórn sé skipuð þremur aðilum tilnefndum af menntamálaráðherra og Skáksambandi Íslands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Vísað er til almennra athugasemda hér að framan. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Í þessu frumvarpi er lagt til að fjárveitingum ríkissjóðs til Skákskólans verði þannig háttað að stofnkostnaður vegna skólans, sem áætlaður er 1.500.000 kr., verði greiddur úr ríkissjóði. Enn fremur er lagt til að ríkissjóður greiði árlega annars vegar sem nemur einu stöðugildi skólastjóra og sé á valdi skólastjórnar að ráðstafa þessu stöðugildi milli stjórnunar og kennslulauna og hins vegar er nemur húsaleigu fyrir skólann sem starfræktur verði í húsakynnum Skáksambands Íslands og miðist þær greiðslur við leigugjald fyrir u.þ.b. 100 fermetra húsnæði. Má því á verðlagi dagsins í dag gera ráð fyrir að leigugjald nemi á ári u.þ.b. 360.000 kr. Árleg framlög næmu því um 1.560.000 kr., en annar kostnaður vegna skólans verði borinn af Skáksambandi Íslands og fjármagnaður m.a. með skólagjöldum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að lögð er áhersla á kennsluskyldu stórmeistara við skólann. Þá er áréttað það hlutverk skólans að honum sé skylt að gæta þess í hvívetna að stúlkum bjóðist sömu tækifæri og piltum til náms og þátttöku.

Um 7. gr.


    Hér er fjallað um hlutdeild ríkissjóðs í stofnkostnaði Skákskóla Íslands er miðist við eftirfarandi (upphæðir tilgreindar í kr.):

    Skákbúnað .....................
150.000
    Skrifstofuvélar og áhöld .........
250.000

    Tölvubúnað .....................
300.000
    Húsgögn ..........................
500.000
    Kennslugögn og bækur .............
100.000

    Ýmislegt .........................
200.000
    
————
    
Samtals
1.500.000

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.