Ferill 496. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 496 . mál.


Nd.

868. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum sem undirritaður var í Kaupmannahöfn 7. desember 1989 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

    Þegar samningur sá, er um ræðir í 1. gr., hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 111/1972, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 8/1977 og 87/1981.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 7. desember 1989 var samningur milli Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum undirritaður í Kaupmannahöfn. Samningurinn fylgir frumvarpi þessu sem fylgiskjal. Gildandi Norðurlandasamningur um aðstoð í skattamálum var undirritaður 9. nóvember 1972, sbr. lög nr. 111/1972, en sá samningur hefur sætt nokkrum breytingum síðan. Á árinu 1988 óskuðu Færeyjar og Grænland eftir því að gerast aðilar að aðstoðarsamningnum.
    Aðalbreytingin frá gildandi samningi er sú að nýi aðstoðarsamningurinn nær einnig til Grænlands og Færeyja. Auk þess hafa verið gerðar nokkrar breytingar sem í aðalatriðum eru tæknilegs eðlis.
    Vegna framkvæmdar samningsins hér á landi er nauðsynlegt að ákvæði hans fái lagagildi, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu ákvæðum samningsins.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin fjallar um það í hvaða formi skylt er að veita aðstoð milli landa. Um er að ræða stjórnsýsluaðstoð, t.d. birtingu skjala, rannsóknir og upplýsingar í skattamálum, innheimtu og yfirfærslu skatta og ráðstafanir til tryggingar skattkröfum.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um þá skatta sem samningurinn nær til. Auk almennra skatta nær samningurinn til ýmissa sérgjalda og sérskatta, sbr. h-lið 1. tölul. greinarinnar.

Um 3. gr.


    Í greininni er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem notuð eru í samningnum.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið nánar á um skyldur ríkjanna samkvæmt samningnum. Því er m.a. slegið föstu að aðstoðarskyldan nái einnig til aðgerða gagnvart aðilum sem samkvæmt löggjöf einstakra ríkja eru skyldugir til þess að gefa skattyfirvöldum upplýsingar, t.d. banka, lánastofnana og launagreiðenda.

Um 5.–8. gr.


    Greinarnar fjalla nánar um form aðstoðarbeiðna og afgreiðslureglur og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um birtingu skjala, en hún skal fara fram samkvæmt reglum og framkvæmdavenjum sem gilda í því ríki sem beðið er um birtingu. Þá er í greininni fjallað um sönnun fyrir birtingu skjala.

Um 10.–13. gr.


    Í þessum greinum er fjallað nánar um öflun upplýsinga og framkvæmd þeirra milli landanna. Í 10. gr. er fjallað um öflun upplýsinga samkvæmt beiðni, en í
11. gr. er fjallað um upplýsingar án sérstakrar beiðni. 12. og 13. gr. fjalla um skattrannsóknir. Í 12. gr. er að finna nýmæli um skattrannsókn tveggja eða fleiri ríkja samtímis þar sem aðildarríkin hafa sameiginlegra eða samtengdra hagsmuna að gæta. Í 13. gr. er fjallað um heimildir ríkis til þess að fá að hafa fulltrúa sína viðstadda rannsókn í öðru ríki og er hún sama efnis og ákvæði 11. gr. A í gildandi aðstoðarsamningi.

Um 14.–18. gr.


    Í þessum greinum er fjallað um aðstoð við innheimtu skatta milli aðildarríkjanna. Innheimtuákvæðin eru að mestu samhljóða innheimtuákvæðum gildandi aðstoðarsamninga að undanskildum ákvæðum 14. gr. Í 14. gr. er að finna reglur um það hvaða reglur í hverju landi skuli gilda í hinum ýmsu tilvikum. Þegar um er að ræða aðfararhæf skjöl nægir það að skjalið sé viðurkennt sem aðfararhæft, þ.e. innheimtuhæft án sérstaks dóms í öðru aðildarríkjanna. Að því er fyrningu varðar er það löggjöfin í því landi sem sendir beiðni um aðstoð sem ræður. Auk þess er sett sú regla að innheimtuaðgerðir, sem rjúfa eða fresta fyrningarfresti í því landi þar sem beðið er um aðstoð, skuli einnig hafa þau áhrif samkvæmt löggjöf þess lands sem biður um aðstoð. Það land, sem beðið er um aðstoð, er skyldugt til að tilkynna um slíkar aðgerðir. Þá eru ákvæði um staðfestingu þess lands sem ber fram beiðni um innheimtu um að úrskurðurinn sé aðfararhæfur, um fyrningarfresti o.fl.

Um 19. gr.


    19. gr. er samhljóða 17. gr. A í gildandi samningi og kveður á um að ráðstafanir til tryggingar á skattkröfum samkvæmt samningnum skuli gerðar í samræmi við löggjöf eða stjórnsýslulöggjöf í því ríki þar sem tryggingarráðstafana er óskað.

Um 20. gr.


    Í 20. gr. er að finna heimild fyrir bær stjórnvöld í aðildarríkjunum til að gera samkomulag um framkvæmd ákvæða samningsins, sbr. samsvarandi heimild 20. gr. núgildandi samnings. Einnig eru þar ákvæði um lausn ýmissa vandamála sem upp kunna að koma við túlkun samningsins eða framkvæmd hans. Þá er þar einnig tekin inn regla sem kveður á um að í því tilviki, að ekki er komið í veg fyrir tvísköttun í tvísköttunarsamningum milli landanna, geti löndin reynt að komast hjá tvísköttun með gagnkvæmu samkomulagi í einstökum tilvikum. Þessi
regla er nauðsynleg þar eð Grænland er ekki aðili að tvísköttunarsamningi Norðurlanda.

Um 21.–25. gr.


    Greinar þessar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


(Texti er ekki til tölvutækur.)