Ferill 508. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 508 . mál.


Ed.

891. Frumvarp til lagaum vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að fela hlutafélagi, sem stofnað yrði í því skyni, að annast að nokkru eða öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, svo og rekstur um tiltekinn tíma.

2. gr.

    Til að bera kostnað af framkvæmdum og rekstri samkvæmt lögum þessum skal hlutafélagi skv. 1. gr. heimilt að taka umferðargjald af vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð enda liggi fyrir samningar við samgönguráðherra um verkefnið og rétt til gjaldtökunnar.

3. gr.

    Vegagerð ríkisins skal hafa eftirlit með að gerð og rekstur mannvirkja samkvæmt lögum þessum sé á viðunandi hátt. Sé um vanrækslu að ræða að dómi Vegagerðar ríkisins skal hún gefa veghaldara fyrirmæli um að framkvæma nauðsynlegar útbætur innan hæfilegs frests.

4. gr.

    Þegar vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð er lokið skal vegurinn teljast til þjóðvega samkvæmt ákvæðum vegalaga með þeim undantekningum sem lög þessi ákveða. Ef samkomulag næst ekki um kaup á landi og efni sem þörf verður á vegna framkvæmda samkvæmt lögum þessum heimilast Vegagerð ríkisins eignarnám skv. X. kafla vegalaga.

5. gr.

    Nánari ákvæði um gerð, rekstur, tilhögun mannvirkja, gjaldtökutíma og
önnur atriði, sem þurfa þykir, skulu vera í samningi sem samgönguráðherra gerir við framkvæmdaaðila. Slíkur samningur öðlast ekki gildi fyrr en hann hefur hlotið staðfestingu Alþingis.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með bréfi dags. 8. ágúst sl. skipaði samgönguráðherra starfshóp til að fjalla um hugmyndir um samgöngur undir/yfir utanverðan Hvalfjörð.
    Það varð niðurstaða starfshópsins að tengin um utanverðan Hvalfjörð á svæðinu frá Hnausaskeri inn undir Hvalfjarðareyri væri fýsileg framkvæmd. Kostnaður við mannvirkjagerð þessa er talinn vera 3.000–3.500 m.kr. og rekstrarkostnaður 70–90 m.kr. á ári. Þessar tölur miðast við verðlag í desember 1989.
    Stytting akstursleiða er mikil, 45–60 km, og framkvæmdin þjóðhagslega hagkvæm og líkleg til að hafa jákvæð áhrif á þróun byggðar á Vesturlandi, auk þess sem hún kemur umferð til annarra landshluta og höfuðborgarsvæðisins til góða.
    Tenging um utanverðan Hvalfjörð hefur ekki verið tekin með í áætlanir þær sem gerðar hafa verið um almenna vegagerð í landinu, þ.e. langtímaáætlun og vegáætlun. Hún er heldur ekki inni í röðun framkvæmda í jarðgangaáætlun.
    Eins og áður kom fram er framkvæmd þessi dýr og mundi því óhjákvæmilega raska verulega framkvæmdum samkvæmt vegáætlun ef hún væri fjármögnuð með hefðbundnum hætti.
    Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að stofna félag sem annaðist mannvirkjagerðina og fjármögnun hennar eða fjármögnunina eina gegn rétti til töku veggjalds af umferðinni.
    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er í samræmi við þetta álit starfshópsins, en skýrsla hans fylgir frumvarpinu sem fylgiskjal.
    Rétt er að taka það skýrt fram að í lagafrumvarpi þessu felast engar fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs, svo sem öflun lánsfjár til framkvæmda eða veiting ríkisábyrgða.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–2. gr.


    Eins og nánar kemur fram í meðfylgjandi greinargerð starfshópsins sem fjallaði um þetta mál hefur allvíða erlendis verið farin sú leið við kostnaðarsamar vegaframkvæmdir að stofna um þær félag sem útvegar fjármagn til undirbúnings og byggingar mannvirkjanna. Félagið fær síðan heimild til töku gjalds af vegfarendum sem stendur undir vöxtum og afborgunum af fjármagni auk kostnaðar félagsins við innheimtu o.fl., en gjaldtöku er hætt þegar endurgreiðslum er lokið.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um eftirlit Vegagerðar ríkisins og henni gert skylt að grípa inn í telji hún að um vanrækslu veghaldara sé að ræða.

Um 4. gr.


    Nauðsynlegt þótti að setja hér inn eignarnámsheimild til Vegagerðar ríkisins.

Um 5. gr.


    Vegna sérstöðu þessa máls og þeirrar nýbreytni, sem það felur í sér, þykir rétt að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um þann samning sem gert er ráð fyrir að gerður verði við framkvæmdaraðila og staðfesti hann fyrir sitt leyti.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Skýrsla starfshóps.


Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð.


(Janúar 1990.)(Texti er ekki til tölvutækur.)