Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 415 . mál.


Ed.

916. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 109/1988 og 76/1989.

Frá meiri hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið. Var það sent til umsagnar fjölmargra aðila og bárust umsagnir frá eftirtöldum: Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, bæjarráði Mosfellsbæjar, Sjómannasambandi Íslands, Verkamannasambandi Íslands, samstarfshópnum „Þak yfir höfuðið“, Kjalarneshreppi, Alþýðusambandi Íslands, stjórn Verkamannabústaða Reykjavíkur, Verkamannafélaginu Fram og borgarstjóranum í Reykjavík.
    Páll Magnússon, formaður stjórnar Verkamannabústaða í Reykjavík, Ríkarður Steinbergsson framkvæmdastjóri og Gylfi Thorlacíus lögfræðingur komu á fund nefndarinnar. Einnig sátu Grétar J. Guðmundsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, og Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, fundi nefndarinnar.
    Athugasemdir hafa verið gerðar við nokkur atriði í frumvarpinu í áðurgreindum umsögnum og telur meiri hl. nefndarinnar að taka beri nokkrar þeirra til greina.
    Breytingarnar varða eftirfarandi:
1.     Þar sem sveitarfélög með fleiri en 10.000 íbúa hafa verulega meiri umsvif hvað varðar félagslegar byggingar þykir eðlilegt að húsnæðisnefndir í þeim sveitarfélögum séu skipaðar sjö mönnum.
2.     Skýrt sé kveðið á um það að húsnæðisnefnd hafi umsjón með byggingu félagslegs húsnæðis eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Slíkt er gert í umboði sveitarstjórnar.
3.     Framkvæmdaraðili getur vegna sérstakra aðstæðna hafnað forkaupsrétti án þess að glata lánsmöguleikum ef fyrir liggur að ekki er unnt að nýta félagslegar íbúðir á hagkvæman hátt.
4.     Nauðsynlegt þykir, til að auka rétt kaupandans, að kaupsamningur sé undirritaður við afhendingu íbúðar þegar kaupandi hefur greitt 10% áætlaðs kostnaðarverðs.
5.     Hert er á ákvæðum vegna óleyfilegrar útleigu. Leigusamningur er ógildur ef hann er ekki áritaður af húsnæðisnefnd eða sveitarstjórn.
6.     Lögin öðlast gildi 1. júní nk. að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
7.     Í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að húsnæðisnefndir taki við réttindum og skyldum er stjórnir verkamannabústaða hafa tekist á hendur, svo sem varðandi úthlutanir.
    Einnig fjallaði nefndin um þá tillögu að endurskoða vexti lána með tilliti til fjölskyldutekna á fimm ára fresti í stað átta ára eins og ákvæði ss. (95. gr.) í 3. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Niðurstaðan varð þó sú að hafa þetta ákvæði óbreytt.
    Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt ásamt breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 6. apríl 1990.



Margrét Frímannsdóttir,


form., frsm.


Jóhann Einvarðsson.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Karl Steinar Guðnason.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.