Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 546 . mál.


Ed.

943. Frumvarp til lagaum flokkun og mat á gærum og ull.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989-90.)I. KAFLI

Um flokkun, meðferð og sölumat á gærum.

1. gr.

Flokkun gæra.


    Allar gærur, sem selja á, skulu flokkaðar við móttöku fjár í sláturhúsi. Skal flokkunin lögð til grundvallar útreikningi á verði gæranna til einstakra framleiðenda eftir því sem sundurliðun á verðlagsgrundvelli gefur tilefni til. Við flokkun gæra skal taka tillit til ástands, eðlisgæða og litar þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

2. gr.

Meðferð og sölumat gæra.


    Sláturleyfishöfum er skylt að hlíta fyrirmælum gærumatsmanna um fyrirristu, fláningu, kælingu, söltun, frágang, geymslu og afhendingu gæra. Við afhendingu skal tilgreina tölu og flokk saltaðra gæra. Gærumatsmaður skal yfirfara gærur við móttöku þeirra í sútunarverksmiðju, meta ástand þeirra og gefa vottorð þar um. Nánari ákvæði um meðferð, meðhöndlun og framkvæmd sölumats og gerð vottorðs skal setja í reglugerð.

II. KAFLI

Um flokkun, meðferð og sölumat á ull.

3. gr.

Mat á óþveginni ull.


    Öll óþvegin ull, sem framleidd er í landinu og selja á, skal flokkuð og metin eftir lit og gæðum samkvæmt flokkunar- og matsreglum sem landbúnaðarráðherra setur í reglugerð að fengnum tillögum ullarmatsnefndar.
    Framleiðendur ullar skulu skila ullinni í merktum umbúðum og er kaupanda eða umboðsaðila skylt að meta ullina sem fyrst eftir móttöku. Framleiðanda skal send skýrsla um matið.

4. gr.

Mat á þveginni ull.


    Öll þvegin ull, sem selja á, skal metin af ullarmatsmönnum ef kaupandi eða seljandi óskar þess. Landbúnaðarráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um útflutning ullar.

III. KAFLI

Um starfsmenn við gæru- og ullarmat.

5. gr.

Löggilding matsmanna gæra og ullar.


    Um löggildingu matsmanna fer eftir ákvæðum í reglugerð og er þar heimilt að ákveða að afurðastöð og söluaðilar (þar með taldar sútunarverksmiðjur) skuli á sinn kostnað hafa í þjónustu sinni matsmenn til að framkvæma mat samkvæmt lögum þessum. Þá eina má skipa eða löggilda sem matsmenn er hafa góða þekkingu á gærum og ull og reynslu á öllu er varðar meðferð vörunnar og mat á þeim.
    Afurðastöðvum og öðrum, sem selja gærur og ull, er skylt að sjá matsmönnum fyrir aðstöðu til að framkvæma matið.

6. gr.

Yfirmat á gærum og ull.


    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna gærumatsnefnd. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af Landssambandi sláturleyfishafa, annar af gærukaupendum og sá þriðji án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Landbúnaðarráðherra skipar þriggja manna ullarmatsnefnd. Skal einn tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, annar af ullarkaupendum og sá þriðji án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Landbúnaðarráðherra ræður eftirlitsmann með ullarmati samkvæmt tillögu ullarmatsnefndar. Skal hann hafa aflað sér þekkingar á ullarmati og meðferð ullar, t.d. með því að hafa áður starfað að ullarmati.
    Ágreiningi út af ullar- og gærumati er heimilt að skjóta til nefndar skv. 1. eða 2. mgr. sem fellir úrskurð innan 30 daga frá því að erindi barst nefndinni. Að öðru leyti skal hlutverk nefndanna vera að veita fræðslu um flokkun, meðferð og framkvæmd mats á gærum og ull og er matsmönnum skylt að hlíta mati í samræmi við fyrirmæli viðkomandi nefndar.
    Heimilt er landbúnaðarráðherra að setja nánari ákvæði um starfssvið gæru- og ullarmatsmanna, eftirlitsmanna skv. 3. mgr. og nefnda skv. 1. og 2. mgr.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

7. gr.

Kostnaður.


    Kostnaður af starfi gæru- og ullarmatsnefnda og eftirlitsmanns ullar greiðist úr ríkissjóði en kostnaður af starfi matsmanna greiða viðkomandi afurðastöðvar.

8. gr.

Refsiákvæði, gildistaka.


    Brot á ákvæðum laga þessara og reglugerða, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.
    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1990. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 21 21. apríl 1976, um flokkun og mat ullar, og lög nr. 22 10. maí 1976, um flokkun og mat á gærum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lög um flokkun og mat á gærum eru nr. 22 10. maí 1976 og lög um flokkun og mat ullar nr. 21 21. apríl 1976. Með frumvarpi þessu er lagt til að ákvæði um þetta efni verði felld saman í ein lög. Byggir frumvarpið á tillögum tveggja starfshópa sem gert hafa tillögur til landbúnaðarráðherra um breytingar á nefndum lögum og hefur landbúnaðarráðuneytið samkvæmt tillögum hópanna fellt þær saman í eitt frumvarp. Slíkt verður að telja til hægðarauka við umfjöllun frumvarpsins.
    Breyting sú, sem lögð er til á lögum um flokkun og mat ullar, er talin þýðingarmikil af starfshópi um bætta meðferð og nýtingu á ull, en í honum hafa starfað fulltrúar bænda, ullariðnaðarins og fulltrúi stjórnvalda.
    Helstu nýmæli og breytingar frumvarpsins eru:
A. Gærur.
1.     Mat á gærum er fært frá sláturleyfishöfum til sútunarverksmiðja.
2.     Yfirstjórn gærumats er falin þriggja manna nefnd sem landbúnaðarráðherra skipar, m.a. samkvæmt tilnefningu Landssambands sláturleyfishafa og gærukaupenda.
3.     Felld eru niður ákvæði gildandi laga um gærumatsformann og yfirgærumatsmenn er starfa í hverjum landsfjórðungi.
B. Ull.
1.     Felld eru niður ákvæði laga nr. 21/1976, um flokkun framleiðenda á ull, en það mun aldrei hafa komist til framkvæmda eins og ráð var fyrir gert vegna þess að því fylgdi of mikill kostnaður.
2.     Gert er ráð fyrir einum eftirlitsmanni með ullarmati er hafi það hlutverk að sjá um eftirlit, leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi mat og meðferð ullar um land allt undir yfirstjórn ullarmatsnefndar í stað fjögurra yfirullarmatsmanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 1. gr. laga nr. 22 10. maí 1976 og þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um skyldur sláturleyfishafa til að hlíta fyrirmælum matsmanna um meðferð gæra, þ.e. fyrirristu, fláningu, kælingu, söltun o.fl. Þá er það nýmæli í greininni að gærur skulu yfirfarnar við móttöku í sútunarverksmiðju, en ekki við afhendingu hjá sláturleyfishafa eins og kveðið er á um í gildandi lögum.

Um 3. gr.


    Fyrri málsgrein greinarinnar er samhljóða 1. gr. laga nr. 21 21. apríl 1976. Í 2. mgr. felst hins vegar sú breyting að ekki er lengur gerð sú krafa að framleiðendur ullar annist sjálfir flokkun hennar. Þetta er lagt til vegna þess að ekki hefur tekist að samræma flokkun ullar hjá einstökum framleiðendum og vegna of mikils kostnaðar sem þessu hefur fylgt.

Um 4. gr.


    Greinin er samhljóða 3. gr. laga nr. 21 21. apríl 1976 og þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin er hliðstæð ákvæðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1976 og 3. gr. laga nr. 22/1976, um skipan gæru- og ullarmatsmanna. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að skylda afurðastöðvar og söluaðila til að kosta og hafa í þjónustu sinni matsmenn sem framkvæma mat samkvæmt lögunum. Fordæmi er fyrir slíku fyrirkomulagi varðandi mat á öðrum landbúnaðarafurðum.

Um 6. gr.


    Ákvæðin í 1. og 2. mgr. greinarinnar um gæru- og ullarmatsnefndir eru nýmæli í lögum. Hlutverk nefnda þessara er rakið í 4. mgr. Er nefndunum ætlað að taka við ágreiningsmálum sem rísa út af gæru- og ullarmati, svo og að veita fræðslu um flokkun, meðferð og framkvæmd á mati og meðferð á gærum og ull. Þá er það nýmæli í 3. mgr. að gert er ráð fyrir að við ullarmat starfi sérstakur eftirlitsmaður, en hann kemur í stað þeirra fjögurra yfirullarmatsmanna sem starfa samkvæmt gildandi lögum um flokkun og mat ullar og að hluta í stað ullarmatsformanns. Gert er ráð fyrir að kveðið sé nánar á um hlutverk og starfssvið eftirlitsmanns ullar, svo og ullar- og gærumatsnefnda í reglugerð.

Um 7. gr.


    Greinin kveður á um að ríkissjóður greiði kostnað af störfum eftirlitsmanns ullar og ullar- og gærumatsnefnda. Gera má ráð fyrir að sú breyting, sem felst í frumvarpi þessu, á gæru- og ullarmati hafi ekki aukinn kostnað í för með sér, heldur þvert á móti minni heildarkostnað ríkissjóðs. Núverandi fyrirkomulag varðandi matið samsvarar einu og hálfu stöðugildi, en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir einu föstu stöðugildi eftirlitsmanns ullar, svo og tveimur þriggja manna nefndum sem hafa það meginhlutverk að skera úr ágreiningsmálum út af ullar- og gærumati eins og áður er vikið að.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.