Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 567 . mál.


Sþ.

1024. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins um 83. þing sambandsins í Nikósíu á Kípur 2.–7. apríl 1990.


I. Inngangur.


    Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir 83. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union) sem haldið var í Nikósíu á Kípur dagana 2.– 7. apríl sl. Þingið á Kípur var sótt af fulltrúum frá 92 þjóðþingum, en aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga nú þingmenn á þjóðþingum 113 ríkja. Þá sóttu einnig þingið áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal frá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðinu og ýmsum svæðisbundnum samtökum þjóðþinga. Samþykkt var á þinginu að veita Norðurlandaráði áheyrnaraðild að þingum sambandsins. Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, Ólafur Þ. Þórðarson og Sighvatur Björgvinsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar. Einnig sótti Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis, fund skrifstofustjóra þjóðþinga innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn var á sama tíma.
    Skýrslan skiptist í fjóra meginþætti. Fyrst er fjallað um störf og ályktanir þingsins. Þá er gerð grein fyrir störfum og ákvörðunum ráðs sambandsins sem fundaði tvívegis meðan á þinginu stóð. Síðan er fjallað um störf óformlegra hópa á þinginu. Að síðustu er rætt um ástand mála á Kípur sem leiðir af skiptingu eyjarinnar.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Þing Alþjóðaþingmannasambandsins kemur saman tvisvar á ári til skiptis í aðildarlöndunum. Það mega sækja allt að 8 fulltrúar frá hverri þjóðdeild í ríki með færri en 100 milljónir íbúa og allt að 10 fulltrúar ef íbúarnir eru fleiri en eitt hundrað milljónir. Alþingi hefur undanfarin ár sent 3 fulltrúa. Atkvæðisréttur er þar misjafn og eftir lagabreytingar sem samþykktar voru á þinginu í Nikósíu, hafa smæstu ríkin 10 atkvæði (áður 8) en hið stærsta 23 atkvæði. Íslendingar höfðu 9 atkvæði en hafa nú 10. Heimilt er að skipta atkvæðum ríkis ef skoðanamunur er í sendinefnd þess um afstöðu til máls sem til meðferðar er. Á dagskrá hvers þings eru ætíð tvö aðalumræðuefni auk almennra umræðna um heimsmálin. Þá getur hvert þing tekið á dagskrá eitt viðbótarumræðuefni og eitt mjög brýnt skyndiumræðuefni sem ákveðin eru á þinginu sjálfu. Yfirleitt er aðeins tekið fyrir viðbótarefni enda þarf að uppfylla mjög ströng skilyrði svo að hægt sé að koma skyndiumræðuefni á dagskrá. Um aðalumræðuefnin og viðbótarefni er fjallað í þingsal og í fastanefndum. Fastanefndirnar gera drög að ályktunum og eiga allar þjóðdeildir rétt á einum fulltrúa í hverri nefnd. Venjan er sú að kjörnar eru undirnefndir með fulltrúum 10–12 ríkja til að fjalla um ályktunardrög og freista þess að ná um þau samstöðu. Takist það eru þau afgreidd án atkvæðagreiðslu á þinginu. Annars koma þau til atkvæða í hlutaðeigandi nefnd og á þinginu sjálfu.
    Á dagskrá þingsins í Nikósíu voru að vanda tvö aðalumræðuefni og voru þau annars vegar um aðgerðir til að berjast gegn dreifingu og neyslu fíkniefna í heiminum og hins vegar áhrif tækniþróunar á atvinnumál og starfsmenntun. Fyrir þinginu lágu tillögur um níu viðbótarumræðuefni. Fjórar þessara tillagna voru að lokum dregnar til baka en greidd atkvæði um hinar fimm. Tillaga Kípurdeildarinnar um að fjallað yrði um frið og öryggi á Miðjarðarhafssvæðinu hlaut flest atkvæði. Íslenska sendinefndin greiddi þeirri tillögu atkvæði þegar ljóst var að tillaga Breta (sem Ísland og aðrar Vesturlandaþjóðir höfðu stutt) um að fjallað yrði um þátt þjóðþinga í því að styðja við bakið á lýðræðisþróun í Evrópu og annars staðar í heiminum hafði ekki hlotið nægan stuðning. Næst á eftir Kípurtillögunni að atkvæðamagni kom tillaga Túnis um að fjallað yrði um landnám Gyðinga frá Sovétríkjunum á hernámssvæðum Ísraelsmanna í Palestínu.
    Samþykktar voru ítarlegar ályktanir um aðal- og viðbótarumræðuefnið að undangengnum löngum umræðum og umfangsmiklu nefndastarfi. Íslensku þingmennirnir skiptu með sér nefndastörfum í þeim þremur nefndum sem störfuðu á þinginu. Góð samstaða ríkti um þær ályktanir sem þingið gerði um aðalumræðuefnin en til harðra deilna kom um ályktun þingsins um viðbótarefnið um frið og öryggi á Miðjarðarhafssvæðinu eins og vikið verður að hér á eftir.

1. Samstaða um aðalályktanir þingsins.
    Fyrir þinginu lágu frá ýmsum þjóðdeildum fjölmargar álitsgerðir og drög að ályktunum um tvö áðurgreind aðalefni sem þingið fjallaði um. Að loknum löngum almennum umræðum um þessi efni var ályktunardrögum og álitsgerðum vísað til hlutaðeigandi nefnda. Með hliðsjón af þeim gögnum gengu nefndirnar frá ályktunardrögum sem samþykkt voru samhljóða á síðasta degi þingsins. Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessar ályktanir sem og aðrar ályktanir og gögn frá þinginu er bent á að hafa samband við Þorstein Magnússon, ritara Íslandsdeildarinnar, eða Þóru Guðnadóttur sem hefur umsjón með skjalasafni alþjóðanefnda.
    Andreotti, forsætisráðherra Ítalíu, sem var fyrir ítölsku sendinefndinni, ávarpaði þingið á fyrsta degi þess og fjallaði sérstaklega um baráttuna gegn dreifingu og neyslu fíkniefna. Þess má geta að það voru Ítalir sem áttu frumkvæði að því að fíkniefnamálin voru tekin til umræðu á þessu þingi.
    Í þeirri nefnd, er fjallaði um baráttuna gegn dreifingu og neyslu fíkniefna, var sú nýbreytni tekin upp að efnt var til svokallaðra vitnaleiðslna („hearings“). Þar sat fyrir svörum Giuseppe Di Gennaro sem er einn af aðstoðarframkvæmdastjórum Sameinuðu þjóðanna og jafnframt forstöðumaður einnar af þeim stofnunum Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn dreifingu og neyslu fíkniefna. Fundur þessi þótti mjög fróðlegur og er ætlunin að gera slíkar „yfirheyrslur“ að föstum lið í starfi þingsins.

2. Hart deilt um Miðjarðarhafsályktun.
    Það kom fljótt í ljós í þeirri nefnd er fjallaði um viðbótarumræðuefnið um frið og öryggi á Miðjarðarhafi að skiptar skoðanir voru um hvað leggja bæri áherslu á í ályktun þingsins um það efni. Ellefu manna undirnefnd varð ekki einhuga og skilaði drögum að ályktun sem sættu harðri gagnrýni vestrænna þingfulltrúa. Þau drög þóttu mjög einhliða og ekki bera vott um vilja til að ná samstöðu þingfulltrúa um málið. Á nær sex klukkustunda nefndarfundi var hart deilt um ályktunardrögin. Það var einkum þrennt sem vestrænir þingfulltrúar gerðu athugasemdir við.
    Í fyrsta lagi gagnrýndu þeir ákvæði í drögunum þar sem lagt er til að ríki sem ekki eiga land að Miðjarðarhafi, kalli á brott herskip sín frá þessu hafsvæði. Vestrænu fulltrúarnir bentu á að Miðjarðarhafið væri alþjóðlegt hafsvæði sem opið væri öllum þjóðum og auk þess væri það mikilvægt fyrir öryggi Vesturlanda að herskip þeirra gætu athafnað sig á þessu hafsvæði. Lögðu þau til að ákvæðinu yrði breytt þannig að þau herskip skyldu kölluð brott sem ekki væru á svæðinu á grundvelli alþjóðalaga eða milliríkjasamninga. Sú breytingartillaga var felld.
    Í öðru lagi var í drögunum víða fjallað um deilur Ísraelsmanna og araba og gengið lengra en við önnur tækifæri í einhliða fordæmingu á Ísrael. Þannig var m.a. ályktað um að Ísralesmenn skiluðu Jerúsalemsborg allri en ekki aðeins austurhlutanum einum auk hernumdu svæðanna. Einnig voru aðgerðir þeirra í suðurhluta Líbanons fordæmdar án þess að minnst væri á dvöl sýrlenska hersins í norðurhluta landsins. Þá var skipulagður tilflutningur innflytjenda til herteknu svæðanna og uppbygging þar fordæmd og því jafnframt lýst yfir að PLO væri eini lögmæti fulltrúi palestínsku þjóðarinnar. Við öll þessi atriði voru fluttar breytingartillögur en engin þeirra náði fram að ganga.
    Í þriðja lagi var í drögunum lýst yfir „virkri samstöðu“ með Líbýumönnum. Vestrænu fulltrúarnir lýstu yfir að óverjandi væri að lýsa yfir sérstökum stuðningi við ríkisstjórn sem vitað væri að hefði um langt skeið veitt hermdarverkamönnum víða um heim fjárhagslegan og hernaðarlegan stuðning. Vestrænu fulltrúarnir fluttu breytingartillögu þar sem felld var brott stuðningsyfirlýsingin við Líbýumenn. Sú breytingartillaga náði fram að ganga. Því má bæta hér við að Líbýu var veitt aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu á síðasta hausti.
    Þegar niðurstöður nefndarinnar voru lagðar fyrir þingheim til afgreiðslu gerðu fulltrúar Vesturlanda síðustu tilraun til að ná fram frekari breytingum á ályktuninni en tillögur þeirra voru allar felldar og auk þess var jafnframt samþykkt að taka á nýjan leik inn fyrri stuðningsyfirlýsingu við Líbýumenn. Þegar ljóst var að allar breytingartillögur vestrænu fulltrúanna höfðu verið felldar greiddu þeir atkvæði gegn ályktunartillögunni í heild. Tillagan var engu að síður samþykkt með 595 atkvæðum gegn 237 en fulltrúar, er höfðu að baki sér 99 atkvæði, sátu hjá. Í þessum atkvæðagreiðslum nutu arabaríkin einkum stuðnings Afríkuríkja og margra Asíuríkja auk Sovétríkjanna og Kína. Þegar niðurstöður atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir gerðu margar sendinefndir, þar á meðal sú íslenska, grein fyrir afstöðu sinni til afgreiðslu málsins. Í munnlegri greinargerð formanns íslensku sendinefndarinnar kom m.a. fram að sendinefndin harmaði að geta ekki greitt tillögunni atkvæði því að íslenska sendinefndin gæti tekið undir flest atriði ályktunarinnar önnur en þau sem knúin hefðu verið í gegn með meirihlutavaldi. Lýsti sendinefndin sérstökum stuðningi við ákvæði ályktunarinnar um Kípurvandamálið. Ályktunin, eins og hún lægi fyrir í heild, væri hins vegar ekki jákvætt framlag til þess að stuðla að friði í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og á henni yrði ekki tekið mark á alþjóðavettvangi.

3. Almennar stjórnmálaumræður.
    Að vanda var mikil þátttaka í almennu stjórnmálaumræðunum og var þar víða komið við í ræðum manna. Formaður íslensku sendinefndarinnar, Geir H. Haarde, tók þátt í þessum umræðum. Í ræðu sinni vék hann m.a. að framvindu alþjóðamála frá síðasta þingi sambandsins, einkum atburðunum í Austur-Evrópu, og þeirri þróun sem orðið hefði frá harðstjórn og alræði í átt til fjölflokkalýðræðis og markaðsbúskapar. Hann fjallaði einnig um ástandið í Litáen og sagðist vona að þess yrði skammt að bíða að þingmenn frá Litáen, Eistlandi og Lettlandi yrðu fullgildir aðilar að Alþjóðaþingmannasambandinu sem fulltrúar sjálfstæðra ríkja. Geir vék og að afvopnunarmálum og þeim tækifærum sem nú virtust blasa við á því sviði og fleiri málefnum sem eru ofarlega á baugi á alþjóðavettvangi um þessar mundir.

4. Breytingar á lögum Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Fyrir þinginu lágu tillögur um ýmsar breytingar á lögum Alþjóðaþingmannasambandsins sem miðuðu einkum að því að gera nokkur ákvæði laganna skýrari og færa önnur til nútímalegra horfs. Mikil vinna hafði verið lögð í þessa endurskoðun laganna. Fyrst fjallaði sérstök laganefnd um málið og á þinginu í London í september 1989 voru niðurstöður hennar kynntar. Þeim var vel tekið og lagði framkvæmdanefnd sambandsins tillögurnar aftur fyrir ráðið á fundi þess í Nikósíu eftir að hafa gert á þeim smávægilegar orðalagsbreytingar. Ráðið samþykkti að mæla með samþykkt þeirra við þing sambandsins og féllst þingið einróma á tillögurnar.
    Tillögur framkvæmdanefndarinnar voru þó ekki einu lagabreytingartillögurnar sem lágu fyrir þinginu í Nikósíu því að þjóðdeild Zaire hafði einnig lagt fram breytingartillögu er fól í sér að a.m.k. ein kona skyldi vera í sendinefnd hverrar þeirrar þjóðdeildar á þingum Alþjóðþingmannasambandsins þar sem kona ætti sæti. Í flestum löndum teljast þjóðþingin í heild vera þjóðdeild innan sambandsins. Tillagan þýddi því í raun að öll þjóðþing, þar sem konur eru meðal þingmanna, skyldu ávallt tryggja a.m.k. einni konu sæti í sendinefndum sínum á þingum sambandsins óháð öðrum þáttum, eins og t.d. fjölda sendinefndarmanna eða reglum um tilnefningu eða kosningu þeirra. Íslenska sendinefndin hafði um það forustu á þinginu að beita sér gegn þessari tillögu óbreyttri og tók málið upp innan norræna hópsins, Vesturlandahópsins og í ráði sambandsins þar sem málið var til afgreiðslu. Íslenska sendinefndin lagði m.a. áherslu á að hér væri um að ræða of ósveigjanlega reglu sem gæti verið erfitt að framkvæma í fámennum sendinefndum. Í ráðinu tóku m.a. þingmenn frá Austurríki, Kenía, Jórdaníu, Sovétríkjunum og Mónakó undir málflutning Íslendinga. Lyktir málsins urðu þær að sendinefnd Zaire féllst á að breyta tillögu sinni á þann veg að í stað afdráttarlausrar skyldu til að tilnefna konu í sérhverja sendinefnd kæmi ákvæði um að það skyldi gert verði því við komið. Talsmaður kvennahópsins á þinginu lýsti stuðningi hans við tillöguna svo breytta og var hún þannig samþykkt einróma bæði í ráðinu og á þinginu sjálfu.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins kemur ætíð saman samhliða þingi sambandsins. Ráðið fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Í ráðinu eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild og hafa því allar þjóðdeildir jafnmörg atkvæði ólíkt því sem er á þinginu sjálfu. Í ráðinu sátu að þessu sinni af Íslands hálfu Geir H. Haarde og Ólafur Þ. Þórðarson. Ráðið er hin formlega stjórn sambandsins, kýs m.a. forseta sambandsins, tekur ákvörðun um aðild og brottvikningu þjóðdeilda og ákveður fjárhags- og starfsáætlun hvers ár. Þá tekur ráðið sjálfstætt ákvarðanir um mál er varða ýmis önnur innri málefni sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim helstu málum sem komu til umræðu og ákvörðunar ráðsins.

1. Ný aðildarþing.
    Ráðið samþykkti aðild tveggja nýrra þjóðdeilda, frá Afganistan og Alþýðulýðveldinu Laos. Þinginu barst einnig umsókn frá Afríkuríkinu Níger en hún barst of seint til að hægt væri að taka hana fyrir og var afgreiðslu hennar frestað til fundar ráðsins á næsta þingi. Nokkur önnur þing hafa einnig lýst áhuga á aðild að sambandinu, þar á meðal þing hins nýfrjálsa ríkis Namibíu og hið endurreista þing í Chile. Það má því búast við að aðildarríkjum sambandsins fjölgi eitthvað á næstunni. Einni þjóðdeild var vikið úr sambandinu, þjóðdeildinni frá Afríkuríkinu Benín, en þar hafði þingið verið lagt niður. Þá var þingi Andes-ríkjanna svokölluðu í Suður-Ameríku veit aukaaðild að sambandinu, en auk þess á þing Evrópubandalagsins einnig aukaaðild að Alþjóðaþingmannasambandinu.
    Fulltrúar Pakistans í ráðinu mótmæltu aðild þingsins í Afganistan að sambandinu og bentu á að stjórnin í Kabúl réði aðeins hluta landsins.
    Framkvæmdanefnd sambandsins, sem mælt hafði með aðildinni, benti hins vegar á að samkvæmt lögum Alþjóðaþingmannasambandsins uppfyllti þjóðþingið í Afganistan öll aðildarskilyrði. Aðild Afganistans var samþykkt án atkvæðagreiðslu en bókuð var andstaða Pakistans.
    Þess má geta að Þjóðarráð Palestínu (Palestine National Council) hefur um nokkurt árabil verið áheyrnaraðili að þingum sambandsins. Framkvæmdanefnd sambandsins heimilaði ráðinu á fundi sínum á Kípur að koma framvegis fram á þingum sambandsins undir heitinu Palestína.

2. Næstu þing og ráðstefnur.
    Hér verður stuttlega gerð grein fyrir áætlun ráðsins um næstu þing og helstu ráðstefnur á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins, en auk hinna reglubundnu þinga gengst sambandið á hverju ári fyrir nokkrum sérstökum ráðstefnum og fundum um afmörkuð málefni.

     a. Þing Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á þinginu í Nikósíu var skýrt frá því að þjóðdeild Úrúgvæ hefði ákveðið að bjóða til næsta þings sem verður það 84. í röðinni. Þingið verður haldið í borginni Punta del Este 15.–20. október nk. Aðalumræðuefnin á því þingi verða annars vegar hvernig efla megi almenna lestrarkunáttu í því skyni að auka lýðræðislega þátttöku almennings í þjóðfélaginu og efla hagþróun. Hins vegar hvernig útrýma megi nýlendustefnu með aukinni samvinnu þróaðra ríkja og þróunarríkja og með svæðisbundinni samvinnu af ýmsum toga.
    Þá liggur fyrir að Spánverjar munu halda vorþing sambandsins í Madrid 19.–25. apríl 1991. Áður höfðu Brasilíumenn ætlað að halda það þing en treysta sér ekki lengur til þess vegna efnahagserfiðleika heima fyrir. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um þingstaði á næstu þingum þar á eftir en Svíar, Danir og Frakkar hafa lýst yfir því að þeir ætli að athuga möguleika á að bjóða til þings á næstu árum.

     b. Ráðstefna um afvopnunarmál í Bonn.
    Haldin verður ráðstefna á vegum sambandsins um afvopnunarmál í Bonn 21.–25. maí nk. Ráðstefnan er skipulögð með stuðningi og í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Meðal þátttakenda á ráðstefnunni verða ýmsir af helstu samningamönnum stórveldanna í afvopnunarviðræðum auk fjölda annarra sérfræðinga í afvopnunarmálum. Stjórn Íslandsdeildarinnar hefur ákveðið að senda tvo fulltrúa á þessa ráðstefnu.

     c. Fundur þingmanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
    Á undanförnum árum hafa þingmenn, sem sótt hafa allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, hist fyrir milligöngu Alþjóðaþingmannasambandsins og rætt ýmis mál er varða störf þingsins. Fyrirhugað er að næsti fundur þessara aðila verði haldinn í New York 4. október 1990.

     d. RÖSE-ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur staðið fyrir sex ráðstefnum þingmanna um öryggi og samvinnu í Evrópu. Sú síðasta var haldin í Bonn 1986. Þessar ráðstefnur hafa verið sóttar af þingmönnum frá ríkjunum 35 sem aðild eiga að Helsinki-samkomulaginu um öryggi og samvinnu í Evrópu. Hefur þótt mikilvægt að þingmenn ræðist við um þessi mál sín í milli samhliða hinum opinberu viðræðum stjórnvalda. Staðið hefur til að sambandið stæði að nýju fyrir slíkri ráðstefnu og var röðin komin að Rúmeníu að halda ráðstefnuna á síðasta ári. Þangað neituðu vestrænir fulltrúar hins vegar að fara í ljósi þess hvernig ástandið var þá í landinu. Rúmenar bjóðast enn til að halda ráðstefnuna ef engin andstaða er gegn slíku meðal RÖSE-ríkjanna. Sú skoðun er hins vegar almennt ríkjandi að Rúmenar hafi vart möguleika á að standa fyrir slíkri ráðstefnu vegna erfiðleikanna í landinu. Á fundi, sem fulltrúar frá RÖSE-ríkjunum efndu til um málið, var ákveðið að næsta RÖSE-ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins yrði haldin í maí eða júní 1991 og fól fundurinn framkvæmdastjóra sambandsins að kanna hvaða aðildarríki gæti boðið til ráðstefnunnar.

3. Mannréttindamál þingmanna.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins starfar sérstök fastanefnd sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum (The Committee on the Human Rights of Parliamentarians) og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Hefur verulegur árangur náðst í þessu efni á undanförnum árum. Í ráðinu var lögð fram ítarleg skýrsla þessarar nefndar og er þar gerð grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum á þingmönnum í sex ríkjum sem nefndin rannsakaði. Sum þessara mála eru mjög nýleg. Ríkin, sem hér er um að ræða, eru Chile, Colombía, Gínea-Bissá, Hondúras, Súdan og Tyrkland.
    Formenn norrænu deildanna í Alþjóðaþingmannasambandinu rituðu á síðasta ári hlutaðeigandi stjórnvöldum bréf vegna þessara mála og hvöttu til þess að þau yrðu upplýst í samræmi við ályktanir sambandsins.

4. Breytingar á lögum Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á fundi ráðsins fóru fram umræður um breytingar á lögum sambandsins og féllst þingið umræðulaust á tillögur ráðsins, sbr. það sem nefnt var áður um störf þingsins.

5. Skýrsla Namibíunefndarinnar.
    Ráðið ákvað í september 1989 að senda sendinefnd á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins til að fylgjast með framkvæmd fyrstu lýðræðislegu þingkosninganna í Namibíu sem haldnar voru í kjölfar þess að landið öðlaðist sjálfstæði. Í sendinefndina voru valdir D. Sow frá Senegal, forseti sambandsins, D. Andersson frá Bretlandi og J. Jabbar frá Pakistan. Sendinefndin dvaldist í Namibíu frá 29. október–10. nóvember 1989 og fylgdist með kosningunum. Sendinefndin lagði fram ítarlega skýrslu um för sína fyrir ráðið og var það mat hennar að framkvæmd kosninganna hefði verið með eðlilegum hætti og þær farið vel fram að öllu leyti.

6. Alþjóðleg friðarráðstefna um Mið-Austurlönd.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins hefur undanfarin ár starfað sérstök nefnd til að kanna möguleika á að efna til alþjóðlegrar ráðstefnu um frið í Mið-Austurlöndum. Nefndin fundaði meðan á þinginu í Nikósíu stóð og átti meðal annars fund með þingmönnum frá arabalöndunum og þingmönnum frá Ísrael. Þetta var í fyrsta skipti sem ísraelskir þingmenn léðu máls á að koma á fund nefndarinnar. Ljóst er að mikill meiri hluta þeirra þjóðdeilda, sem aðild eiga að Alþjóðaþingmannasambandinu, er hlynntur slíkri ráðstefnu en enn hefur ekki tekist að sætta sjónarmið Ísraelsmanna og araba um þetta mál enda eru Ísraelsmenn algerlega mótfallnir hugmyndinni.

7. Ráðning framkvæmdastjóra.
    Á fundi ráðsins var samþykkt að endurráða Frakkann Pierre Corneillon sem framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins. Endurráðningin gildir fyrir tímabilið frá 1. janúar 1991 til 31. desember 1994. Corneillon þykir hafa staðið sig frábærlega vel sem framkvæmdastjóri sambandsins.

IV. Störf óformlegra hópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi óformlegra hópa sem þingfulltrúar skiptast í. Verður hér gerð grein fyrir þessum hópum og þátttöku Íslendinga í þeim eftir því sem við á.

1. „Þingflokkarnir“ og upplausn kommúnistahópsins.
    Mikilvægustu hópunum, sem myndast hafa á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins, má að nokkru líkja við þingflokka í þjóðþingum. Hver „þingflokkur“ er skipaður þingfulltrúum ríkja sem af landfræðilegum og pólitískum ástæðum telja sig eiga nokkra samleið. Þessir þingflokkar halda fundi á meðan á þinginu stendur og ráða þar ráðum sínum og leitast við að samræma afstöðu þeirra þjóðdeilda sem aðild eiga að viðkomandi hópi. Á þinginu í Nikósíu störfuðu sjö slíkir þingflokkar og þeir eru: 12-plúshópurinn (vestræn ríki), Afríkuhópurinn, arabahópurinn, Asíu- og Kyrrahafshópurinn, ríkjahópurinn frá rómönsku Ameríku, hópur hlutlausra ríkja og hópur Mið-Evrópuríkja. Nokkur skörun er á milli þeirra þingflokka sem hér eru nefndir og eiga sum ríki aðild að tveimur þingflokkum.
    Síðastnefndi hópurinn, Mið-Evrópuríkin, er alveg nýr og skipaður fulltrúum þjóðdeilda Ungverjalands, Póllands og Tékkóslóvakíu. Að sögn er þess vænst að fulltrúar Búlgaríu og Júgóslavíu eigi eftir að bætast í hópinn og e.t.v. fleiri. Þó er líka hugsanlegt að þessar þjóðdeildir muni ganga til liðs við 12-plúshópinn enda stóðu þær mjög oft með honum í atkvæðagreiðslum á þinginu. Á undanförnum þingum hefur starfað sérstakur hópur þjóðdeilda frá kommúnistaríkjum undir forustu Sovétríkjanna en á þessu þingi var ekki grundvöllur fyrir því að kalla þann hóp saman og er ljóst að hrun kommúnismans í Mið-og Austur-Evrópu hefur leitt til þess að slíkur þingflokkur mun tæpast starfa framar innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins. Því má bæta við hér að á þinginu voru að þessu sinni hvorki sendinefndir frá Rúmeníu né Þýska alþýðulýðveldinu, en sú fyrrnefnda hefur verið áberandi á síðustu þingum.

2. Fundur Norðurlandahópsins með sovésku sendinefndinni.
    Þeir fulltrúar norrænu þinganna, sem þátt taka í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins, eiga með sér náið samstarf. Norrænu sendinefndirnar halda reglulega fundi á þingum sambandsins, en einnig hafa formenn norrænu þjóðdeildanna hist reglulega fyrir þingin til að bera saman bækur sínar og undirbúa sig undir þingstörfin. Norrænu þjóðdeildirnar skiptast á að stýra þessu samstarfi og er formennskan nú í höndum Finna, en eftir þingið í Úrúgvæ í október nk. taka Íslendingar við formennskunni.
    Á þinginu í Nikósíu hittust allir norrænu fulltrúarnir einu sinni meðan á þinginu stóð. Á fundinum var skiptst á skoðunum um ýmis mál er vörðuðu þinghaldið. Þá var og gengið frá bréfi til sovésku sendinefndarinnar á þinginu varðandi fyrirhugaðar kjarnorkutilraunir Sovétmanna á eyjunni Novaja Semlja við Barentshaf. Í bréfinu er lýst sameiginlegri andstöðu norrænu þjóðdeildanna við þessar tilraunir. Á þessum sama fundi lýsti formaður íslensku sendinefndarinnar, Geir H. Haarde, yfir því að íslenska sendinefndin hefði áhuga á því að norrænu sendinefndirnar afhentu einnig sovésku sendinefndinni yfirlýsingu um ástandið í Litáen. Nokkur umræða varð um málið en í ljós kom að ekki var grundvöllur fyrir slíkri sameiginlegri yfirlýsingu. Hins vegar var ákveðið að Geir mundi taka málið upp munnlega á fundi formanna norrænu sendinefndanna með þeirri sovésku þegar Sovétmönnum væri afhent bréfið varðandi Novaja Semlja.
    Formenn norrænu sendinefndanna áttu síðan fund með Alexei S. Elisseyev, formanni sovésku sendinefndarinnar. Johannes Virolainen, formaður finnsku sendinefndarinnar, hafði orð fyrir norrænu formönnunum og afhenti Elisseyev yfirlýsinguna um Novaja Semlja. Í yfirlýsingunni er sovéska sendinefndin hvött til að beita sér fyrir því að endurskoðaðar verði áætlanir um að nota eyjuna Novaja Semlja fyrir tilraunir með kjarnorkuvopn. Minnt er á að slíkar áætlanir hafi verið ræddar í einni af nefndum æðsta ráðsins í mars sl. Þar hafi verið rætt um að flytja allar kjarnorkutilraunir á næstu þremur árum til Novaja Semlja. Ástæðan fyrir þessum tilflutningi er sögð hörð andstaða íbúa í lýðveldinu Kazakstan sem telja sig hafa orðið fyrir geislun frá kjarnorkutilraunastöðinni við Semipalatinsk sem er þar í lýðveldinu. Í bréfinu segja formenn norrænu sendinefndanna enn fremur að meginástæðan fyrir andstöðu þeirra við þessar ráðagerðir Sovétmanna sé sú hætta sem geislavirkt úrfelli geti skapað fyrir allt umhverfi á heimskautasvæðinu. Þá væri og fólk, dýr og plöntur í Norður-Evrópu í hættu vegna slíkra tilrauna. Minnt er á að Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, hafi í Múrmansk-ræðu sinni í október 1987 og Finnlandsræðu sinni í október 1989 boðiðst til að eiga nána samvinnu við Norðurlandaþjóðirnar um að varðveita heimskautasvæðið. Kjarnorkutilraunastöð á Novaja Semlja væri hins vegar ekki í anda slíkrar samvinnu.
    Formaður sovésku sendinefndarinnar sagðist mundi koma bréfinu áleiðis til réttra aðila. Hann gat þess jafnframt að andstaða íbúanna í Kazakstan við kjarnorkustöðina í Semipalatinsk væri lýsandi dæmi um áhrifamátt „glasnost“-stefnu Gorbatsjovs. Vegna „glasnost“ hefðu íbúarnir í Kazakstan fengið upplýsingar um kjarnorkutilraunir á svæðinu og í framhaldi af því hefði myndast hreyfing sem beitti sér fyrir því að fá kjarnorkutilraunastöðina flutta. Stjórnvöld hefðu reynt að fullvissa íbúana um að geislun frá svæðinu væri fyrir neðan hættumörk en íbúarnir hefðu ekki látið sannfærast. Í æðsta ráðinu væri því verið að ræða um flutning á kjarnorkutilraunastöðinni en enn þá hefðu engar formlegar ákvarðanir verið teknar í málinu. Bréfið til sovésku sendinefndarinnar er birt sem fylgiskjal með skýrslu þessari.
    Þegar umræðunni um Novaja Semlja var lokið vakti Geir H. Haarde máls á sjálfstæðisbaráttu Litáa og lýsti áhyggjum íslensku sendinefndarinnar vegna þróunar mála þar í landi. Hann lagði áherslu á að það væri von íslensku sendinefndarinnar að Sovétmenn beittu ekki vopnum eða öðrum þrýstingi gegn Litáum og fundin yrði friðsamleg leið til þess að Litáen fengi þegar fullt sjálfstæði og sömuleiðis hin Eystrasaltsríkin ef þau óskuðu þess. Alexei Elisseyev, formaður sovésku sendinefndarinnar, sagði að sovésk stjórnvöld hefðu sýnt mikla þolinmæði vegna ástandsins í Litáen og gerðu allt til að forðast átök og komast hjá beitingu vopnavalds. Hann sagðist hafa trú á að friðsamleg lausn fyndist á þessu máli. Einstök lýðveldi hefðu stjórnarskrárbundinn rétt til að segja sig úr ríkjasambandinu, en vandinn væri að engar reglur væru til um hvernig standa ætti að slíku. Æðsta ráðið væri nú að fjalla um löggjöf um þetta efni er gilti fyrir öll lýðveldin. Meðan þessar reglur væru ekki til gætu einstök lýðveldi ekki ákveðið upp á eigin spýtur að yfirgefa ríkjasambandið.

3. Fundir Vesturlandahópsins (12-plúshópsins).
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum 12-plúshópsins sem fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var afstaða til einstakra mála og þátttaka í nefndastarfi rædd. 12-plúshópurinn er kenndur við ríkin tólf í Evrópubandalaginu en nú eiga aðild að honum öll ríki í Vestur-Evrópu auk Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands. Alls eru aðildarríkin 26. Í þessum hópi ráða menn ráðum sínum um störfin innan sambandsins og þau mál sem á dagskrá eru. Vesturlandahópurinn er líklega best skipulagður allra hópa innan Alþjóðaþingmannasambandsins. Hópurinn heldur venjulega samráðsfundi fyrir hvert þing ýmist á þingstaðnum eða í öðru nálægu ríki eftir hentugleikum hverju sinni. Þjóðdeildirnar skiptast á að fara með formennsku í hópnum og er formaðurinn talsmaður Vesturlandahópsins gangvart öðrum ríkjahópum á þinginu. Á þessu ári hafa Svíar undir forustu jafnaðarmannsins Sture Ericson stýrt hópnum af miklum skörungsskap.

4. Fundir alþjóðasambanda stjórnmálaflokka.
    Venja er að aðilar að alþjóðasamböndum stjórnmálaflokka hittist meðan á þingum sambandsins stendur. Á þessu þingi var boðað til þriggja slíkra funda og tóku allir íslensku fulltrúarnir þátt í þeim fundum. Geir H. Haarde sótti fund þingmanna íhaldsflokka, Ólafur Þ. Þórðarson sótti fund á vegum Alþjóðasambands frjálslyndra stjórnmálaflokka og Sighvatur Björgvinsson sótti fund þingmanna í Alþjóðasambandi jafnaðarmanna.

5. Fundur fulltrúa frá RÖSE-ríkjum.
    Fulltrúar frá þeim 35 ríkjum, sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum um öryggi og samvinnu í Evrópu, héldu einn fund meðan þingið stóð yfir. Þar var ákveðið að fela framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins að gera ráðstafanir til þess að næsta RÖSE-ráðstefna á vegum sambandsins yrði haldin í maí eða júní 1991, sbr. það sem áður segir um það efni.

6. Fundur kvenfulltrúa á þinginu.
    Konur, sem sitja þing Alþjóðaþingmannasambandsins, hafa síðan 1975 haldið með sér sérstakan fund á þinginu til að ráða ráðum sínum. Hópur þessi hefur með árunum orðið æ betur skipulagður og látið meira að sér kveða í starfi sambandsins. Fyrir frumkvæði hópsins var t.d. á síðasta ári haldin ráðstefna á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf í Sviss um þátttöku kvenna í stjórnmálum og starfi þjóðþinga. Þá hefur hópurinn beitt sér fyrir því að sambandið láti á fjögurra ára fresti gera skýrslu um þátttöku kvenna í stjórnmálum. Ein slík skýrsla hefur þegar komið út og sú næsta er væntanleg á næsta ári. Á þinginu í Nikósíu var lögð fram skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins um störf þessa kvennahóps, sem og yfirlit um störf sambandsins að málum er varða stöðu kvenna. Skýrslu framkvæmdastjórans er hægt að fá hjá ritara Íslandsdeildarinnar.

V. Ástand mála á Kípur.


    Þátttakendur á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins á Kípur urðu áþreifanlega varir við þá staðreynd að eyjan er tvískipt og voru þingfulltrúar á margvíslegan hátt minntir á þann harmleik sem deilur grískra og tyrkneskra Kípurbúa hafa leitt yfir eyjaskeggja. Þannig fjölmenntu t.d. einn daginn fjölskyldur margra þeirra 1619 Kípurgrikkja, sem saknað er síðan í innrás Tyrkja 1974, fyrir utan ráðstefnuhöllina með spjöld, borða og myndir af horfnum ættingjum til að vekja athygli á þeirri staðreynd að ekkert hefur verið upplýst um afdrif þessa fólks sem hvarf á yfirráðasvæði Tyrkja.
    Til fróðleiks skal rifjað upp að þegar Kípur öðlaðist sjálfstæði 1960, eftir að hafa lotið breskri nýlendustjórn síðan 1878, var gert samkomulag um skiptingu pólitísks valds milli grískra og tyrkneskra Kípurbúa. Þannig fól stjórnarskráin m.a. í sér að forsetinn skyldi vera grískur að uppruna og varaforsetinn tyrkneskur. Þá var ákveðið að 70% þingmanna skyldu vera grískrar ættar og 30% tyrkneskrar ættar. Sama hlutfall átti að gilda um embættismenn ríkisins. Löngum hafði verið grunnt á því góða milli grískra og tyrkneskra Kípurbúa sem rekja mátti til þess að Tyrkir höfðu á dögum Ottóman-heimsveldisins verið ráðandi á Kípur í rúm 300 ár (1573–1878). Sjálfstæði eyjarinnar 1960 varð ekki til að jafna þennan ágreining og fljótlega fór að bera á skærum milli þessara tveggja þjóðarhópa. Sameinuðu þjóðirnar sendu friðargæslusveitir til eyjarinnar 1964 en skærur héldu þó áfram. Upp úr sauð 1974 þegar þjóðvarðliðið, er var undir stjórn Kípurgrikkja, gerði tilraun til að steypa Makaríosi erkibiskupi og forseta landsins úr stóli. Tyrkneskir Kípurbúar, sem óttuðust að uppreisnarmenn ætluðu að sameina eyjuna Grikklandi, leituðu ásjár Tyrklands og tyrkneskur her tók land á eyjunni. Á skömmum tíma hafði tyrkneski innrásarherinn lagt undir sig allan norðurhluta eyjarinnar eða rúmlega þriðjung allrar eyjarinnar. Frá þeim tíma hefur eyjan verið tvískipt og eru friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna á „græna beltinu“ svokallaða milli landshlutanna. Í nóvember 1983 lýsti tyrkneska lýðveldið á Norður-Kípur einhliða yfir sjálfstæði sínu en sú sjálfstæðisyfirlýsing hefur aðeins hlotið viðurkenningu Tyrklands. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur oftar en einu sinni ályktað um málið og hvatt Tyrki til að kalla her sinn frá eyjunni.
    Þegar ákvörðun var tekin um að halda 83. þing Alþjóðaþingmannasambandsins á Kípur lýsti tyrkneska þjóðdeildin yfir því að hún mundi ekki sækja þingið. Sú ákvörðun mæltist mjög illa fyrir innan sambandsins. Denktash, leiðtogi Kípurtyrkja, bauð þingfulltrúum í kvöldverðarboð sem fáir ef nokkrir þingfulltrúa munu hafa þegið. Íslenska sendinefndin fór hins vegar að landamærunum í Nikósíu (en landamærin liggja í gegnum borgina miðja) og sá þannig með eigin augum þá „múra“ sem skipta borginni og þessari litlu eyju í tvennt. Geir H. Haarde, formaður sendinefndarinnar, vék að tvískiptingu eyjarinnar í ræðu sinni í almennu umræðunum á þinginu og sagði m.a. að eftir dvöl sína á eyjunni hefðu þingfulltrúar mun betri skilning á þeim vandamálum sem Kípurbúar ættu við að glíma. Hann sagðist vona að sanngjörn lausn fyndist á deilumálum eyjarskeggja þannig að íbúarnir mættu á ný búa sameinaðir á eyjunni. Sá múr, er þingfulltrúar hefðu fyrir augum í Nikósíu, hlyti brátt að heyra fortíðinni til líkt og aðrar sambærilegar takmarkanir og pólitísk höft á samskiptum manna sem fjarlægð hefðu verið í Evrópu á undanförnum mánuðum.
    Á vegum Vesturlandahópsins (12-plúshópsins) hefur starfað nefnd þriggja manna til að leita lausna á Kípurdeilunni, enda allir málsaðilar í hópnum. Í nefndinni eiga sæti Heinrich Ott frá Sviss, sem er formaður, Johannes Virolainen frá Finnlandi og Jim Tunney frá Írlandi. Nefndin hefur átt viðræður við báða málsaðila á Kípur og á þinginu í Nikósíu gaf nefndin Vesturlandahópnum munnlega bráðabirgðaskýrslu um störf sín. Ætlun nefndarinnar er að ljúka störfum fyrir þingið í Úrúgvæ í október og skila þá skriflegri skýrslu til hópsins sem yrði þá rædd að öllum málsaðilum viðstöddum en Tyrkir voru fjarverandi nú eins og áður segir. Með hliðsjón af þeirri munnlegu bráðabirgðaskýrslu, sem nefndin gaf í Nikósíu, er ljóst að hún telur að einhvers konar sambandsríki sé æskilegasta lausnin á stjórnskipun eyjarskeggja.

Alþingi, 23. apríl 1990.



Geir H. Haarde,


formaður.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Sighvatur Björgvinsson.






Fylgiskjal.


Til sovésku sendinefndarinnar á 83. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins í Nikósíu á Kípur 2.–7. apríl 1990.

    Sendinefndir Norðurlandanna á 83. þingi Alþjóðaþingmannasambandsins hvetja sendinefnd Sovétríkjanna á sama þingi til að vinna að því strax við heimkomuna til Moskvu að hafin verði endurskoðun áætlana um að byrja tilraunir með kjarnorkuvopn í auknum mæli í Novaja Semlja og að nota Novaja Semlja sem framtíðartilraunasvæði fyrir kjarnorkuvopn.
    Skýrt hefur verið frá því að slík áætlun hafi verið til umræðu á nefndarfundi í æðsta ráði Sovétríkjanna snemma í mars á þessu ári. Meginástæðan fyrir lokun tilraunasvæðisins í Semipalatinsk er sögð vera hörð mótmæli meðal íbúa í Kazakstan sem að sögn hafa orðið fyrir geislun af völdum geislavirks leka frá tilraununum.
    Samkvæmt því sem skýrt hefur verið frá hefur verið lagt til að innan þriggja ára verði allar tilraunir færðar til Novaja Semlja. Því getum við alls ekki unað.
    Meginástæðan fyrir mótmælum okkar gegn þessum áætlunum er hættan á stjórnlausri útbreiðslu geislavirkni í viðkvæmu umhverfi norðurheimskautsins. Í ræðu, sem Gorbatsjov, forseti Sovétríkjanna, hélt í Múrmansk í október 1987 og í Finnlandsræðu sinni í október 1989, bauð hann Norðurlöndum til aukinnar samvinnu um verndun umhverfis á norðurheimskautinu. Áætlun um kjarnorkutilraunir í Novaja Semlja samræmist ekki stefnu sem miðar að bættu umhverfi á norðurheimskautinu.
    Útbreiðsla geislavirkni til Barentshafs og Norðurlanda, sem hlytist af slíkum tilraunum, væri andstæð alþjóðalögum og umhverfisverndarstefnu. Þeir sem yrðu í mestri hættu ef áætlun um að færa tilraunirnar til Novaja Semlja yrði hrint í framkvæmd væru auðvitað menn, dýr og plöntur í norðurhluta Evrópu.
    Við skorum á ykkur að gera ykkar ýtrasta til að hindra þessa áætlun.

Níkósíu í apríl 1990.



Ivar Nörgaard,


f.h. sendinefndar


Danmerkur.


Johannes Virolainen,


f.h. sendinefndar


Finnlands.


Geir H. Haarde,


f.h. sendinefndar


Íslands.


Sigurd Holemark,


f.h. sendinefndar


Noregs.


Sture Ericson,


f.h. sendinefndar


Svíþjóðar.