Ferill 110. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


112. löggjafarþing 1989–1990.
Nr. 20/112.

Þskj. 1060  —  110. mál.


Þingsályktun

um starfsreglur Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.


    Alþingi ályktar að setja eftirfarandi:

Starfsreglur
fyrir Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.


1. gr.

    Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter-Parliamentary Union) er skipuð alþingismönnum og starfar í samræmi við lög sambandsins.

2. gr.

    Stjórn Íslandsdeildarinnar skipa fimm þingmenn tilnefndir af þingflokkunum í samræmi við stærð þeirra eða eftir samkomulagi þingflokka. Heimilt er að tilnefna varamenn í stjórnina. Tilkynna skal um tilnefningar á fundi í sameinuðu þingi.

3. gr.

    Tilnefning í stjórn skal fara fram eftir hverjar þingkosningar og gildir út kjörtímabilið, nema þingflokkar ákveði annað.
Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla stjórnarmenn saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann Íslandsdeildarinnar fyrir kjörtímabilið.

4. gr.

    Heimilt er Íslandsdeildinni að tilnefna ritara í samráði við skrifstofustjóra Alþingis.

5. gr.

    Stjórnin sækir árlega um fjárveitingu á fjárlögum til starfsemi deildarinnar og skal umsóknin við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða þátttökugjald til aðalskrifstofu sambandsins, ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endurskoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

6. gr.

    Stjórn Íslandsdeildarinnar ákveður þátttöku deildarinnar í starfi sambandsins á ári hverju. Við val þátttakenda á þingum og ráðstefnum skal miða við hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka en jafnframt leitast við að tryggja að þingmenn úr öllum þingflokkum fái tækifæri til að sækja þing eða ráðstefnur sambandsins á kjörtímabilinu. Enn fremur skal reyna að tryggja eðlilega samfellu í starfi deildarinnar.
    Formaður skal að jafnaði sitja í ráði sambandsins en aðrir stjórnarmenn skiptast á um að taka þar sæti eftir sömu hlutfallsreglu og gildir um þátttöku skv. 1. mgr. þessarar greinar.

7. gr.

    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu tilnefningar í stjórn Íslandsdeildarinnar á þessu kjörtímabili haldast óbreyttar.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 1990.