Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1109. Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá 1. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið á tuttugu fundum. Sjö þeirra voru haldnir sameiginlega með sjávarútvegsnefnd neðri deildar. Á fundi nefndarinnar komu eftirtaldir: Þorsteinn Gíslason fiskimálastjóri, Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Lárus Jónsson frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Sigurbjörn Svavarsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson frá Aflamiðlun, Örn Pálsson, Arthur Bogason og Haraldur Jóhannsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Jón Kjartansson og Snær Karlsson frá Verkamannasambandi Íslands, Árni Benediktsson frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson, Kristján Ingibergsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal og Ragnar I. D. Hermannsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Dagbjartur Einarsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Kristján Ragnarsson, Brynjólfur Bjarnason, Eiríkur Tómasson, Sigurður Einarsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Jón Ingvarsson og Ólafur B. Ólafsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Ágúst Einarsson, Sturlaugur Sturlaugsson, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Jón Kristjánsson fiskifræðingur, Ólafur Karvel Pálsson frá Hafrannsóknarstofnun og Sigurgeir Sigurðsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nokkrir gestanna komu oftar en einu sinni til fundar við nefndina.
    Umsagnir um frumvarpið og ýmis erindi er vörðuðu það bárust frá eftirtöldum: Bæjarstjórn Stykkishólms, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Félagi viðskipta- og hagfræðinga, Fiskifélagi Íslands, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, rækjubátaeigendum við Ísafjarðardjúp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sjómannasambandi Íslands, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Verkalýðsfélaginu Baldri, verkalýðsfélögunum á Snæfellsnesi, Verslunarráði Íslands, Vinnuveitendafélagi Breiðafjarðar, Vinnuveitendafélagi Vestfjarða og Vinnuveitendafélagi Vestmannaeyja.
    Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, sat flesta fundi nefndarinnar. Veitti hann nefndinni ýmsar upplýsingar varðandi frumvarpið og aflaði þeirra gagna er nefndin óskaði eftir.
    Einnig var aflað gagna um ýmis atriði samkvæmt óskum sem fram komu, m.a. frá Fiskifélagi Íslands. Enn fremur voru lagðar fram tillögur þær sem þrír stjórmálaflokkar í Færeyjum hafa gert um hugsanlega fiskveiðistjórn þar í landi. Þá óskuðu níu alþingismenn eftir áliti Lagastofunar Háskóla Íslands á réttarfars-, skattaréttar- og eignarréttarlegum álitaefnum í frumvarpinu. Hafa prófessor Sigurður Líndal og Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður unnið að henni, en ekki tókst að ljúka álitsgerðinni fyrir afgreiðslu málsins úr nefndinni. Stefnt er að því að álitið liggi fyrir við 2. umr. málsins í efri deild.
    Fullvíst má telja að fá mál, sem komið hafa hér til afgreiðslu á Alþingi, hafi verið jafnrækilega undirbúin og það frumvarp sem hér er til umræðu. Er það eðlilegt þar sem hér er um eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða þar sem það fjallar um skipulag á nýtingu mikilvægustu auðlindar landsmanna. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, og allra helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa samkvæmt ákvörðun Alþingis unnið með sjávarútvegsráðuneytinu að undirbúningi frumvarpsins allt frá haustinu 1988 í ráðgjafarnefnd um mótun fiskveiðistefnu.
    Í frumvarpinu er byggt á þeim grunni sem Alþingi markaði með lagasetningu um stjórn fiskveiða árið 1984. Með þeirri lagasetningu var stigið mikilvægt skref af þeirri braut skipulagslausrar fjárfestingar og sóunar á verðmætum sem átti sér stað í sjávarútvegi á áttunda áratugnum. Var mörkuð sú stefna að skipta veiðiheimildum upp á milli skipa 10 brl. og stærri. Fyrsti minni hl. nefndarinnar telur að sú stefna hafi verið rétt og að með því fyrirkomulagi að skipta veiðiheimildum milli skipa verði sem minnst röskun á högum þeirra sem daglega starfa að fiskveiðum.
    Reynslan af því fyrirkomulagi, sem ríkt hefur við fiskveiðistjórn á undanförnum árum, hefur sýnt að engar verulegar tilfærslur hafa átt sér stað á botnfiskveiðiheimildum milli kjördæma. Þó virðist sem hlutur landsbyggðarinnar hafi frekar styrkst og vísast í því sambandi til fylgiskjals I sem unnið er af Fiskifélagi Íslands og sýnir annars vegar afla skipa miðað við skráningu eftir kjördæmum og hins vegar landaðan afla eftir kjördæmum. Á fylgiskjali II eru hins vegar sambærilegar upplýsingar um úthlutað botnfiskaflamark til skipa 10 brl. og stærri eftir kjördæmum. Þá hafa ekki heldur orðið neinar verulegar tilfærslur milli veiðiheimilda báta og togara frá því að þessi fiskveiðistjórn var tekin upp, sbr. fylgiskjal III.
    Með því að úthluta veiðiheimildum á skip voru bundnar miklar vonir við að fiskiskipum fækkaði og afkoma sjávarútvegsins batnaði af þeim sökum. Í þeim lögum, sem Alþingi samþykkti í upphafi árs 1988, var í fyrsta sinn veitt heimild til að sameina aflaheimildir skipa. Á grundvelli þeirra heimilda hefur fiskiskipum verið að fækka að undanförnu og vísast um það til svars sjávarútvegsráðherra á þskj. 698 við fyrirspurnar Skúla Alexanderssonar. Hins vegar hefur bátum undir 10 brl. fjölgað verulega frá árinu 1984 enda hafa litlar takmarkanir verið á fjölgun þeirra. Það hefur verið gagnrýnt að heildaraflinn hafi farið fram úr þeim mörkum sem stjórnvöld hafa sett. Þessi frávik skýrast að fullu með þeim sveigjanleika sem veiðar smábáta og sóknarmarkið hafa valdið, sbr. fylgiskjal IV þar sem fram koma upplýsingar um mismun í úthlutuðu aflamarki og raunverulegum afla fyrir þau skip sem stunduðu veiðar annars vegar með aflamarki og hins vegar með sóknarmarki árið 1989. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að byggja eingöngu á aflamarki og virðist nokkuð breið samstaða um það. Er það sama fyrirkomulag og ríkt hefur um veiðar á síld allt frá árinu 1976 og um veiðar á loðnu frá árinu 1980. Þá er gert ráð fyrir að veiðar smábáta verði skipulagðar að mestu með sama hætti og veiðar stærri skipa. 1. minni hl. nefndarinnar telur að með þeim breytingum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, skapist annars vegar færi á að halda settum markmiðum um heildarafla og hins vegar muni þessar breytingar leiða til þessa að eðlileg fækkun fiskiskipa geti átt sér stað. Þar með skapast forsendur til að stuðla að frekari lækkun á útgerðarkostnaði og betri afkomu fyrir sjávarútveginn í heild.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar telur afar brýnt að löggjöf um fiskveiðistjórn verði samþykkt á þessu þingi og er það í samræmi við álit flestra þeirra hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem komu á fund nefndarinnar. Leggur 1. minni hl. til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:
1.     Lagt er til að bætt verði inn í 1. gr. til áhersluaukningar ákvæði þar sem ótvírætt er tekið fram að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum stofni ekki eignarrétt né skerði forræði löggjafans til að ákveða síðar, án bótaskyldu til einstakra útgerða, breytingu á fyrirkomulagi við stjórn fiskveiða. Það hlýtur ávallt að vera ákvörðunarefni Alþingis á hverjum tíma hvað skipulag teljist best henta til að nýting fiskveiðiauðlindarinnar þjóni sem best hagsmunum heildarinnar.
2.     Með tillögu um breytingu á 4. gr. er lagt til að úr frumvarpinu falli ákvæði um að sérstakt leyfi þurfi til að stunda tómstundaveiðar. Skilyrðum frumvarpsins til að fá leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni verður hins vegar haldið óbreyttum sem og skilgreiningu á veiðum í atvinnuskyni.
3.     Þær breytingar, sem gerðar eru á 5. gr., eru tæknilegar og varða annars vegar skráningu á bátum undir 10 brl. og hins vegar breytingu á nafni Úreldingarsjóðs fiskiskipa í Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
4.     Breytingin á 6. gr. leiðir af breytingu á 4. gr. frumvarpsins um að ekki þurfi sérstakt leyfi til að stunda veiðar í tómstundum.
5.     Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að sveitarstjórnum verði veittur forkaupsréttur við sölu fiskiskips úr byggðarlagi. Þetta komi í stað ákvæða um tilkynningarskyldu í 11. gr. frumvarpsins. Með þessu ákvæði er betur tryggt að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup og er þetta í samræmi við tillögur síðasta fiskiþings. Jafnframt er lagt til að framsal aflaheimilda verði takmarkað nokkuð frá því sem er í frumvarpinu. Miða breytingartillögurnar að því að það skip, sem aflahlutdeild er framseld til, þurfi að hafa aflahlutdeild fyrir í viðkomandi tegund. Ráðherra geti þó vikið frá þessu ákvæði að fenginni umsögn samráðsnefndar.
6.     Tillaga er um breytingu á 12. gr. sem fjallar um framsal á árlegu aflamarki og er hún í samræmi við breytingartillögu skv. 5. tölul.
7.     Gerð er tillaga um að ákvæði til bráðabirgða II verði breytt þannig að smábátar, er bætast í flotann á árinu 1990 án þess að sambærilegir bátar séu úreltir, fái aflahlutdeild er svari til meðalaflahlutdeildar báta í sama stærðarflokki. Um aflahlutdeild þessara báta gildi sömu reglur og um aflahlutdeild annarra skipa að öðru leyti en því að framsal hennar er óheimilt í fimm ár frá gildistöku laganna með sama hætti og varðar framsal aflahlutdeildar stærri skipa sem rekja má til uppbóta, sbr. 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Aflahlutdeild þessara báta teljist ekki með við ákvörðun aflahlutdeildar annarra smábáta skv. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II.
8.     Gerðar eru tillögur um tæknilegar leiðréttingar á ákvæðum til bráðabirgða IV og V til að bæta úr ágöllum sem í ljós hafa komið í textanum.
9.     Loks er lagt til að við frumvarpið verði bætt tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða. Fyrra ákvæðið kveður á um að sjávarútvegsráðherra verði falið að láta fara fram úttekt á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða og hagkvæmni þeirra. Þá verði ráðherra falið að endurskoða lögin í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og skal þeirri endurskoðun lokið fyrir árslok 1992. Með síðara ákvæðinu er gerð tillaga um að lög nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, verði endurskoðuð og frumvarp að nýjum lögum lagt fram í haust.

    Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. apríl 1990.



Stefán Guðmundsson,


form., frsm.


Jóhann Einvarðsson.






Fylgiskjal I.


REPRÓ Í PRENTSMIÐJU






Fylgiskjal II.


REPRÓ Í PRENTSMIÐJU.







Fylgiskjal III.


REPRÓ Í PRENTSMIÐJU









Fylgiskjal IV.


Repró í GUt.