Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1110. Breytingartillögur



við frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá 1. minni hl. sjávarútvegsnefndar (StG, JE).



1.    Við 1. gr. Við greinina bætist nýr málsliður er orðist svo: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
2.    Við 4. gr. 1. mgr. orðist svo:
         Enginn má stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Veiðileyfi skulu gefin út til árs í senn.
3.    Við 5. gr.
    a.    Í stað 2. málsl. fyrri málsgreinar komi tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Enn fremur bátar undir 6 brl. enda hafi beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Auk þess skal gefinn kostur á veiðileyfi fyrir nýja báta undir 6 brl. enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma.
    b.    Í stað orðanna „Úreldingarsjóðs fiskiskipa“ í 2. mgr. komi orðin: Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins.
4.    Við 6. gr. Greinin orðist svo:
         Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari grein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.
5.    Við 11. gr.
    a.    Í stað 3. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar er orðist svo:
             Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.
             Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.
             Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta.
    b.    2. málsl. 4. mgr. (er verði 6. mgr.) orðist svo: Þó skal framsalið háð samþykki ráðherra hafi það skip, sem flutt er til, ekki aflahlutdeild af þeirri tegund sem framseld er.
6.    Við 12. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo:
         Heimilt er að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar eða skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð eftir því sem hlutaðeigandi aðilar koma sér saman um enda hafi það skip, sem fært er til, aflahlutdeild af þeirri tegund sem millifærð er.
7.    Við ákvæði til bráðabirgða II.
    a.    Á eftir 4. mgr. ákvæðisins bætist ný málsgrein er verði 5. mgr. og orðist svo:
             Aflahlutdeild báta, sem veiðileyfi fá í fyrsta sinn eftir 31. desember 1989, án þess að sambærilegir bátar hafi horfið varanlega úr rekstri í þeirra stað, skal þó miðast við meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Aflahlutdeild þessara báta hefur ekki áhrif á útreikning aflahlutdeildar annarra báta skv. 2. mgr. Ekki er heimilt að framselja aflahlutdeild þessara báta fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara enda hafi þeim verið haldið til veiða allt tímabilið.
    b.    1. málsl. 7. mgr. (er verður 8. mgr.) orðist svo:
             Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um úthlutun þessa, þar á meðal um stærðarflokkun báta.
    c.    Í stað orðanna „5. mgr.“ í lokamálsgrein ákvæðisins komi: 7. mgr.
8.    Við ákvæði til bráðabirgða IV. Í stað orðanna „fyrir gildistöku laga þessara“ í lok 1. og 2. mgr. ákvæðisins komi orðin: áður en lög þessi koma til framkvæmda.
9.    Við ákvæði til bráðabirgða V. Í stað orðanna „við gildistöku laga þessara“ komi orðin: er lög þessi koma til framkvæmda.
10.    Við bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
    a.     (VII.) Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Skal athugunin, er m.a. taki mið af reynslu annarra þjóða, beinast að því að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga. Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.
    b.    (VIII.) Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram endurskoðun á lögum um upptöku ólöglegs sjávarafla, nr. 32 19. maí 1976, og leggja frumvarp að nýrri löggjöf um það efni fyrir Alþingi haustið 1990. Skal sú endurskoðun m.a. beinast að því að aðskilja eftirlit og úrskurðarvald.