Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1113. Nefndarálitum frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá 2. minni hl. sjávarútvegsnefndar.    Verkefni þeirrar nefndar, sem sjávarútvegsráðherra skipaði 13. júlí 1988 til að leggja drög að þessu frumvarpi, var margþætt. Skyldi hún samkvæmt skipunarbréfi m.a. „... athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki séu bundnar við skip“. Í umræðunni, sem fram fór í nefndinni, var greinilegt að hugmyndinni um byggðakvóta hefur stöðugt vaxið fylgi frá setningu núgildandi laga. Nefndin skilaði drögum að nýju frumvarpi til sjávarútvegsráðherra 26. janúar 1990.
    Eins og fram kemur í þeim 13 sérálitum og bókunum, sem fram koma frá einstökum nefndarmönnum og birt eru sem fylgiskjal með frumvarpinu, fer því fjarri að samkomulag hafi náðst í nefndinni um þau drög að frumvarpi sem hún skilaði af sér og sjávarútvegsráðherra lagði fram óbreytt á Alþingi 15. febrúar 1990. Ljóst er af þeim athugasemdum sem fram koma að ágreiningur er um veigamikla þætti. Annar minni hl. bendir á þá staðreynd að í sérálitum og bókunum 10 aðila af 13 kemur fram stuðningur við hugmyndir um byggða- eða fiskvinnslukvóta.
    Í mörgum þeirra umsagna, sem sjávarútvegsnefnd efri deildar bárust um frumvarpið, koma einnig fram áskoranir til Alþingis um að hyggja að byggðasjónarmiðum og koma í veg fyrir að örfáir aðilar getið höndlað með sameiginlega auðlind landsmanna í eigin þágu algjörlega án tillits til byggðar í landinu og hagsmuna þjóðarinnar í heild.
    Annar minni hl. telur að með tilliti til reynslu undanfarinna ára og þeirra réttmætu athugasemda, sem fram hafa komið, sé óhjákvæmilegt að Alþingi geri byggðasjónarmiðum hærra undir höfði en stefnt er að við afgreiðslu málsins. Minnir 2. minni hl. í því sambandi einnig á þá stefnumarkandi yfirlýsingu sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir:
    „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja
með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“
    Annar minni hl. er sammála því að þetta séu þau markmið sem að skal stefnt, að viðbættum atriðum eins og betri kjörum, aðbúnaði og öryggi þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Kvennalistakonur telja frumvarpið þó í mótsögn við þessi markmið þar sem enn er stefnt að því að úthluta veiðiheimildum beint til einstaklinga og útgerðarfélaga sem geta ráðskast með þær að eigin geðþótta án tillits til sameiginlegra hagsmuna þjóðarinnar.
    Þegar líða tók að afgreiðslu málsins eftir marga fundi um það í sjávarútvegsnefnd efri deildar fór loks að koma upp á yfirborðið sá mikli ágreiningur sem er um málið í ríkisstjórninni og innan einstakra flokka sem aðild eiga að henni. Þrátt fyrir fjölda funda í sjávarútvegsnefnd efri deildar er vart hægt að segja að umræða hafi farið fram um grundvallaratriði, svo sem úthlutun veiðiheimilda fyrr en allt var komið í eindaga. Þá fyrst hófst hin raunverulega umræða um málið, þó ekki í nefndinni, heldur fyrst og fremst meðal formanna stjórnarflokkanna sem gerðu með sér samkomulag um afgreiðslu málsins. Í kjölfar þess samkomulags voru nefndarmönnum kynntar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarp þetta og frumvarps til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Þessar tillögur virðast aðallega miða að því að leita úrræða til að sætta sjónarmið innan ríkisstjórnarinnar í bili.
    Þótt í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við þessi tvö frumvörp örli á viðurkenningu á réttmæti byggðasjónarmiða eru þær þó langt frá því að geta talist raunveruleg lausn og enn er mikill ágreiningur um málið innan ríkisstjórnarflokkanna.
    Samkvæmt breytingartillögum ríkisstjórnarinnar er enn ætlunin að úthluta meginhluta kvótans beint til einstaklinga og útgerðarfélaga í algjörri mótsögn við þá yfirlýsingu 1. gr. frumvarpsins að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og enn er lögð ofuráhersla á yfirráð sjávarútvegsráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra á öllum stigum við stjórnun fiskveiða.
    Breytingartillögur kvennalistakvenna við afgreiðslu núgildandi laga um stjórn fiskveiða fyrir rúmlega tveimur árum eru enn í fullu gildi og eru grundvöllur þeirra breytingartillagna sem þær flytja nú. Þá eins og nú töldu kvennalistakonur fyrst og fremst nauðsynlegt að rjúfa óeðlilegt samband milli skips og veiðiheimilda og vildu úthluta veiðiheimildum til byggðarlaga. Með því móti væru hagsmunir þeirra og þess fólks, sem starfar í sjávarútvegi, best tryggðir, auk þess sem slík tilhögun drægi úr óhóflegri miðstýringu. Reynslan hefur sannað réttmæti þessara sjónarmiða og flestir annmarkar núgildandi tilhögunar, sem þá var bent á, eru nú komnir fram. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir vaxandi skilning og stuðning við áðurnefndar hugmyndir sem fram hefur komið meðal fulltrúa í nefndinni, sem vann að undirbúningi frumvarpsins í umsögnum um frumvarpið og í umræðunni í þjóðfélaginu, er lítið sem ekkert komið til móts við þær í frumvarpinu.
    Þingkonur Kvennalistans flytja því breytingartillögur við frumvarpið í anda þeirrar stefnu að fiskimiðin séu í raun sameign þjóðarinnar og fela enn sem fyrr í sér eftirtalin meginatriði:
1.    Sjávarútvegsráðherra verði ekki heimilt að víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á ári hverju.
2.    80% heildaraflans verði úthlutað til sveitarfélaga með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili.
3.    20% heildaraflans renni í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og verði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga. Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda verði varið til fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, rannsókna tengdum sjávarútvegi og verðlauna til handhafa veiðiheimilda fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks eða sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans.
4.    Eftirlit með nýtingu fiskstofna verði fært frá hagnýtingarráðuneyti atvinnugreinarinnar til umhverfisráðuneytis.
    Annar minni hl. lítur svo á að breytingartillögur ríkisstjórnarinnar séu örlítil viðurkenning á nauðsyn þess að taka á þeim grundvallarágreiningi sem ríkir um málið. Í ljósi þess telur annar minni hl. óviðunandi að ekki gafst nauðsynlegt svigrúm til að útfæra þær nánar og gefa gaum öðrum þeim hugmyndum, sem fram hafa komið, og kynna þær betur bæði fyrir hagsmunaaðilum og úti í þjóðfélaginu.
    Annar minni hl. telur að vegna þeirrar viðurkenningar á veigamiklum grundvallaratriðum málsins, sem fram kemur í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar, sé ærin ástæða til að vísa málinu aftur til þeirrar nefndar sem vann að frumvarpinu, þó aðeins með því skilyrði að litið verði á allar þær hugmyndir og tillögur sem fram hafa komið og þær útfærðar nánar og mat lagt á þær.
    Annar minni hl. vill taka fram að þrátt fyrir það að kvennalistakonur hafni frumvarpinu í heild sinni telja þær ýmis atriði þess til bóta miðað við núverandi fyrirkomulag. Má sem dæmi nefna breytingartillögu ríkisstjórnarinnar
við 1. gr. frumvarpsins um að úthlutun veiðiheimilda myndi hvorki eignarrétt né óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum, breytt mörk fiskveiðiárs og afnám sóknarmarks sem var ein af þeim breytingartillögum sem Kvennalistinn lagði fram við núgildandi lög. Þá telja kvennalistakonur ákvæði frumvarpsins um vigtun sjávarafla spor í rétta átt, en hefðu viljað ganga lengra og gera skylt að vigta allan afla innan lands.
    Markmiðið með breytingartillögum Kvennalistans er fyrst og fremst að rjúfa það óeðlilega samband sem nú er milli skips og veiðiheimilda, að taka tillit til byggðasjónarmiða, að draga úr ofstjórn og miðstýringu, að efla rannsóknir, að hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og búa betur að fólki í sjávarútvegi. Í fylgiskjali með nefndaráliti þessu er frumvarpið birt í heild sinni að teknu tilliti til breytingartillagna Kvennalistans.
    Verði breytingartillögur Kvennalistans samþykktar mun 2. minni hl. styðja frumvarpið en greiða atkvæði gegn því ella.

Alþingi, 30. apríl 1990.


Danfríður Skarphéðinsdóttir.

Fylgiskjal.


Drög að frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
    Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr.

    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.
    Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn og ekki víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar.
    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skal miðaður við veiðar á 12 mánaða tímabili, frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári, og nefnist það tímabil fiskveiðiár. Skal heildarafli fyrir komandi fiskveiðiár ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnunina er ráðherra heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda. Þó er óheimilt að breyta leyfðum heildarafla þorsks eftir 15. apríl. Heildarafli annarra tegunda sjávardýra skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils og er ráðherra heimilt í samráði við Hafrannsóknastofnunina að auka hann eða minnka á meðan vertíð eða veiðitímabil varir.

II. KAFLI


Veiðileyfi og aflamark.


4. gr.

    Að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun getur ráðherra ákveðið með reglugerð:
a.    að veiðar á ákveðnum tegundum nytjastofna, veiðar í tiltekin veiðarfæri, veiðar ákveðinna gerða skipa eða veiðar á ákveðnum svæðum skuli háðar sérstöku leyfi ráðherra.
b.    að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.

5. gr.


    Heimildir til botnfiskveiða skulu vera tvenns konar:
a.    80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 3. gr., skal skipt milli sveitarfélaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili.
b.    20% heildaraflans skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga, sbr. 8. gr.

6. gr.


    Sveitarstjórnir skulu selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, sem þeim er úthlutað skv. a-lið 5. gr., til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga eftir þeim reglum sem þær setja sér.
    Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjald fyrir framsal veiðileyfa, sem þær fá skv. b-lið 5. gr., og skal gjaldið eigi vera lægra en það sem þær greiða fyrir þau í veiðileyfasjóð.

7. gr.

    Sveitarstjórnum er heimilt:
a.    að úthluta tilteknu aflamarki til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga,
b.    að setja skilyrði um, að afli, sem flytja á óunninn úr landi, verði veginn í íslenskri höfn,
c.    að ákveða, að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi, allt að 20% á þorsk og ýsu, en allt að 15% á aðrar tegundir, þegar metið er hversu miklu af aflamarki er náð hverju sinni,
d.    að leyfa færslu veiðiheimilda, allt að 5%, milli ára,
e.    að setja reglur um veiði smábáta,
f.    að setja reglur um tómstundaveiðar,
g.    að telja fisk, sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember aðeins að hálfu með í aflamarki fiskiskips,
h.    að framleigja veiðiheimildir til annarra sveitarfélaga, enda verði aflanum að einhverju leyti landað í því sveitarfélagi, sem framleigir veiðiheimild, ef viðkomandi sveitarstjórn óskar; tekjum af leigunni verði varið í þágu sjávarútvegsins.

8. gr.


    Gjald fyrir veiðiheimildir frá veiðileyfasjóði, sbr. b-lið 5. gr. skal miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó.
    Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda skal varið til eftirtalinna verkefna:
a.    fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks og fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna,
b.    rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir,
c.    verðlauna til þeirra sem veiðiheimildir hafa fyrir sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.

9. gr.


    Sveitarfélagi er skylt að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu um framleigu veiðiheimilda til annarra sveitarfélaga. Sé um slíka framleigu að ræða í þrjú ár samfleytt skerðist aflamark sveitarfélagsins sem því nemur við næstu úthlutun.
    Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.

10. gr.

    Veiðar á þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv.3. gr. eru frjálsar öllum sem leyfi fá til veiða skv. 6. gr. með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri, veiðitíma og reglum settum skv. 4. gr.

11. gr.

    Verði veiðar takmarkaðar skv. 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.
    Ef ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla á viðkomandi tegund skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra sveitarfélaga, að fengnum tilögum Hafrannsóknastofnunarinnar.

12. gr.

    Sé fyrirsjáanlegt að verulegar breytingar verði á aflatekjum milli veiðitímabila af veiðum á öðrum tegundum, sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla, en botnfiski og úthafsrækju, er ráðherra heimilt að skerða eða auka tímabundið botnfiskaflamark þeirra sveitarfélaga sem aflahlutdeild hafa af þeirri tegund sem breytingum sætir. Veruleg telst breyting á aflatekjum af sérveiðum í þessu sambandi ef hún veldur því að heildaraflaverðmæti sveitarfélaga þar sem viðkomandi sérveiðar eru stundaðar hefur að mati ráðherra vikið meira en 20% að meðaltali frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára miðað við fast verðlag.

III. KAFLI

Framkvæmd og eftirlit.

13. gr.

    Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna, einum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum tilnefndum af Verkamannasambandi Íslands, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutun aflahlutdeildar og aflamark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.

14. gr.

    Skipstjórnarmenn veiðiskipa skulu halda sérstakar afladagbækur sem sjávarútvegsráðuneytið leggur til. Skal með reglugerð kveða á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til ráðuneytis.
    Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum og lánastofnunum, er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskifélagi Íslands ókeypis í té og í því formi, sem ráðherra ákveður, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.

15. gr.

    Afli skal ávallt veginn á löndunarstað. Hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað skulu hafa yfirumsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla.
    Ráðuneytið skal að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og hafnasamband sveitarfélaga kveða nánar á í reglugerð um hvernig afli skuli veginn og upplýsingum um landað aflamagn safnað.
    Sé afli unninn um borð í veiðiskipi skal skylt að halda sérstaka vinnsludagbók, sem ráðuneytið leggur til, um vinnslu aflans. Skipum, sem vinna afla um borð, er óheimilt að sigla með afurðir til sölu á mörkuðum erlendis án sérstaks leyfis ráðuneytisins að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag. Ráðuneytið getur bundið slík leyfi því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns ráðuneytisins til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða skipið komi til hafnar á Íslandi vegna eftirlits.

16. gr.

    Umhverfisráðuneytið annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og hefur í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu.
    Jafnframt því sem þessir eftirlitsmenn sinna verkefnum skv. 8. gr. laga nr. 31. maí 1976 og eftirliti með reglum settum samkvæmt heimild í þeim lögum skulu þeir fylgjast með löndun, vigtun og vinnslu afla, enn fremur útflutningi afla eða afurða eins og nánar er kveðið á í lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og í erindisbréfi.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á farmi og veiðarfærum. Enn fremur skal þeim heimill aðgangur að öllum vinnslusölum fiskverkana og birgðageymslum.

17. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal í samráði við umhverfisráðherra ákveða með reglugerð sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga þessara eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Skal gjaldið renna til reksturs veiðieftirlits og skal upphæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins að hálfu.
    Gjald vegna tilkynningar um aflamark skal miðast við áætlað verðmæti þess aflamarks sem úthlutað er. Skal ráðherra árlega áætla hlutfallslegt verðmæti einstakra tegunda í þessu skyni. Aldrei skal gjald samkvæmt þessari málsgrein vera hærra en 0,2% af áætluðu verðmæti þess afla sem aflamark skips heimilar veiðar á á komandi fiskveiðiári, vertíð eða veiðitímabili. Gjald fyrir hverja tilkynningu um aflamark skal þó aldrei vera lægra en 1.000 kr. og er sú fjárhæð grunntala er miðast við byggingarvísitölu í janúar 1991 og breytist í hlutfalli við þær breytingar sem síðar kunna að verða á henni.
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð.

IV. KAFLI

Viðurlög o.fl.

18. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um mál þau, sem rísa út af brotum gegn lögum þessum, skal fara að hætti opinberra mála.

19. gr.

    Ráðuneytið skal beita ákvæðum laga nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, vegna brota gegn þessum lögum eftir því sem við á.
    Ráðuneytinu er enn fremur heimilt, vegna brota á ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa, að svipta handhafa veiðiheimildum í tiltekinn tíma og varða veiðar eftir leyfissviptingu m.a. upptöku skv. 1. mgr. Sama gildir verði vanskil á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla sem sætt hefur upptöku.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, skulu veiðar með vörpu heimilaðar á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt reglum er ráðherra setur.

21. gr.

    Með lögum þessum eru felldar úr gildi 10., 13. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Jafnframt breytist 2. mgr. 2. gr. þeirra laga og orðist svo:
    Íslenskum skipum eru bannaðar veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni, nema þar sem sérstakar heimildir eru veittar til slíkra veiða í lögum þessum.

22. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1991. Ákvæði er lúta að veiðum á öðrum tegundum sjávardýra en botnfiski koma til framkvæmda við upphaf fyrstu vertíðar eða veiðitímabils eftir 1. janúar 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skv. 2. mgr. 3. gr. fyrir heilt 12 mánaða tímabil skal í fyrsta skipti ákveðinn fyrir fiskveiðiárið er hefst 1. september 1991. Skal sú ákvörðun tekin fyrir 1. ágúst 1991.
    Fyrir 1. nóvember 1990 skal ráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnun taka ákvörðun um leyfðan heildarafla botnfisktegunda á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991. Skal þeim heildarafla skipt milli sveitarfélaga á grundvelli fastrar aflahlutdeildar hvers sveitarfélags sem ákveðin er skv. a-lið 5. gr.
    Ráðherra skal með hliðstæðum hætti ákveða heildarafla af úthafsrækju á fyrstu átta mánuðum ársins 1991 og hlutdeild einstakra sveitarfélaga í honum.

II.


    Aflahlutdeild til veiða á loðnu, síld og humri skal úthlutað á grundvelli hlutdeildar viðkomandi sveitarfélags í heildarúthlutun afla á viðkomandi veiðisvæði, sbr. a-lið 5. gr., á því veiðitímabili eða vertíð sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.
    Aflahlutdeild í svæðisbundnum veiðum á innfjarðarrækju og hörpuskelfiski skal úthlutað í samræmi við hlutdeild viðkomandi sveitarfélags í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði, sbr. a-lið 5. gr., á því veiðitímabili sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.