Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1114. Breytingartillögur



við frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá Danfríði Skarphéðinsdóttur og Guðrúnu Agnarsdóttur.



1.    Við 1. grein. Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
         Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forrræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.
2.    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
         Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn og ekki víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar.
         Leyfður heildarafli botnfisktegunda skal miðaður við veiðar á 12 mánaða tímabili, frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári, og nefnist það tímabil fiskveiðiár. Skal heildarafli fyrir komandi fiskveiðiár ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnunina er ráðherra heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda. Þó er óheimilt að breyta leyfðum heildarafla þorsks eftir 15. apríl. Heildarafli annarra tegunda sjávardýra skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils og er ráðherra heimilt í samráði við Hafrannsóknastofnunina að auka hann eða minnka á meðan vertíð eða veiðitímabil varir.
3.    Við 4. gr. Greinin verði svohljóðandi:
         Að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun getur ráðherra ákveðið með reglugerð:
    a.    að veiðar á ákveðnum tegundum nytjastofna, veiðar í tiltekin veiðarfæri, veiðar ákveðinna gerða skipa eða veiðar á ákveðnum svæðum skuli háðar sérstöku leyfi ráðherra.
    b.    að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.
4.    Á eftir 4. gr. komi fimm nýjar greinar svohljóðandi:
    A.    (5. gr.)
        Heimildir til botnfiskveiða skulu vera tvenns konar:
        a.    80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 3. gr., skal skipt milli sveitarfélaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili.
        b.    20% heildaraflans skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga, sbr. 8. gr.
    B.    (6. gr.)
         Sveitarstjórnir skulu selja, leigja eða ráðstafa veiðiheimildum, sem þeim er úthlutað skv. a-lið 5. gr., til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga eftir þeim reglum sem þær setja sér.
         Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða gjald fyrir framsal veiðileyfa, sem þær fá skv. b-lið 5. gr., og skal gjaldið eigi vera lægra en það sem þær greiða fyrir þau í veiðileyfasjóð.
     C.    (7. gr.)
    Sveitarstjórnum er heimilt:
    a.    að úthluta tilteknu aflamarki til útgerða, fiskvinnslustöðva eða einstaklinga,
    b.    að setja skilyrði um, að afli, sem flytja á óunninn úr landi, verði veginn í íslenskri höfn,
    c.    að ákveða, að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi, allt að 20% á þorsk og ýsu, en allt að 15% á aðrar tegundir, þegar metið er hversu miklu af aflamarki er náð hverju sinni,
    d.    að leyfa færslu veiðiheimilda, allt að 5%, milli ára,
    e.    að setja reglur um veiði smábáta,
    f.    að setja reglur um tómstundaveiðar,
    g.    að telja fisk sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember aðeins að hálfu með í aflamarki fiskiskips,
    h.    að framleigja veiðiheimildir til annarra sveitarfélaga, enda verði aflanum að einhverju leyti landað í því sveitarfélagi sem framleigir veiðiheimild, ef viðkomandi sveitarstjórn óskar; tekjum af leigunni verði varið í þágu sjávarútvegsins.
     D.    (8. gr.)
         Gjald fyrir veiðiheimildir frá veiðileyfasjóði, sbr. b-lið 5. gr. skal miðast við ákveðið meðalverð á afla upp úr sjó.
         Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda skal varið til eftirtalinna verkefna:
    a.    fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fiskvinnsluskóla, símenntunar fiskvinnslufólks og fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, sjómannaskóla og öryggisfræðslu sjómanna,
    b.    rannsókna tengdum sjávarútvegi, grunnrannsókna á lífríki sjávar, rannsókna á ónýttum og vannýttum tegundum, vöruþróunar í sjávarútvegi, markaðsöflunar og markaðshönnunar fyrir sjávarafurðir,
    c.    verðlauna til þeirra sem veiðiheimildir hafa fyrir sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans eða fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks.
     E. (9.gr.)
         Sveitarfélagi er skylt að tilkynna sjávarútvegsráðuneytinu um framleigu veiðiheimilda til annarra sveitarfélaga. Sé um slíka framleigu að ræða í þrjú ár samfleytt skerðist aflamark sveitarfélagsins sem því nemur við næstu úthlutun.
         Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.
5.    Við 5. gr. Greinin falli brott.
6.    Við 6. gr. Greinin falli brott.
7.    Við 7. gr. er verði 10. gr. Greinin orðist svo:
         Veiðar á þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr. eru frjálsar öllum sem leyfi fá til veiða skv. 6. gr. með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri, veiðitíma og reglum settum skv. 4. gr.
8.    Við 8. gr. er verði 11. gr. 2. mgr. verði svohljóðandi:
         Ef ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla á viðkomandi tegund skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra sveitarfélaga, að fengnum tilögum Hafrannsóknastofnunarinnar.
9.    Við 9. gr. er verði 12 gr.:
    a.    Í stað orðsins „fiskiskipa“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: sveitarfélaga.
    b.    2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Veruleg telst breyting á aflatekjum af sérveiðum í þessu sambandi ef hún veldur því að heildaraflaverðmæti sveitarfélaga, þar sem viðkomandi sérveiðar eru stundaðar hefur að mati ráðherra vikið meira en 20% að meðaltali frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára miðað við fast verðlag.
    c.    2. mgr. falli niður.
10.    Við 10. gr. Greinin falli brott.
11.    Við 11. gr. Greinin falli brott.
12.    Við 12. gr. Greinin falli brott.
13.    Við 13. gr. Greinin falli brott.
14.    Við 14. gr. er verði 13. gr. Á eftir orðunum „og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna“ komi: einum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum tilnefndum af Verkamannasambandi Íslands.
15.    Við 15. gr. er verði 14. gr.
         Fyrri málsgrein verði svohljóðandi:
             Skipstjórnarmenn veiðiskipa skulu halda sérstakar afladagbækur sem sjávarútvegsráðuneytið leggur til. Skal með reglugerð kveða á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til ráðuneytis.
16.    Við 16. gr. er verði 15. gr. Á eftir orðunum „án sérstaks leyfis ráðuneytisins“ í 3. mgr. komi: að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag.
17.    Við 17. gr. er verði 16. gr. Í stað orðsins „Sjávarútvegsráðuneytið“ komi: Umhverfisráðuneytið.
18.    Við 18. gr. er verði 17. gr.
        a.    1. mgr. orðist svo:
             Sjávarútvegsráðherra skal í samráði við umhverfisráðherra ákveða með reglugerð sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga þessara eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Skal gjaldið renna til reksturs veiðieftirlits og skal upphæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins að hálfu.
        b.    3. mgr. falli niður.
19.    Við 20. gr. er verði 19. gr. Í stað orðanna „að svipta skip heimild til veiða“ í 2. mgr. komi: að svipta handhafa veiðiheimildum.
20.    19. I. og II. ákvæði til bráðabirgða falli brott.
21.     Við ákvæði til bráðabirgða III er verði I.
        a.    2. mgr. verði svohljóðandi:
                     Fyrir 1. nóvember 1990 skal ráðherra í samráði við Hafrannsóknastofnun taka ákvörðun um leyfðan heildarafla botnfisktegunda á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991. Skal þeim heildarafla skipt milli sveitarfélaga á grundvelli fastrar aflahlutdeildar hvers sveitarfélags sem ákveðin er skv. a-lið 5. gr.
    b.    3. og 4. mgr. falli niður.
    c.    Í stað orðsins „skipa“ í 5. mgr., sem verður 3. mgr., komi: sveitarfélaga.
22.    Við ákvæði til bráðabirgða IV er verði II. Ákvæðið verði svohljóðandi:
             Aflahlutdeild til veiða á loðnu, síld og humri skal úthlutað á grundvelli hlutdeildar viðkomandi sveitarfélags í heildarúthlutun afla á viðkomandi veiðisvæði, sbr. a-lið 5. gr., á því veiðitímabili eða vertíð sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.
             Aflahlutdeild í svæðisbundnum veiðum á innfjarðarrækju og hörpuskelfiski skal úthlutað í samræmi við hlutdeild viðkomandi sveitarfélags í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði, sbr. a-lið 5. gr., á því veiðitímabili sem síðast lauk fyrir gildistöku laga þessara.
23.    Ákvæði til bráðabirgða V og VI falli niður.