Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1119. Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá 4. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða er samið af nefnd sem skipuð er fulltrúum þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi samkvæmt lögum nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990. Það er í samræmi við þá grundvallarskoðun sjálfstæðismanna að stjórn fiskveiða sé ekki dægurmál. Framtíðarskipan þess hvernig við nýtum auðlindir hafsins verður að byggjast á víðtækri samstöðu og tryggja að framþróun í sjávarútvegi geti orðið með eðlilegum hætti. Að öðrum kosti er borin von að unnt sé að ná nauðsynlegri hagræðingu í atvinnugreininni með því að afkastageta skipastólsins verði í samræmi við þann sóknarþunga sem nytjastofnarnir þola. Reynslan sýnir að opinber forsjá dugir ekki í þeim efnum. Fyrst þegar handhafar veiðiheimilda geta byggt á stöðugleika og traustri löggjöf er þess að vænta að langtímasjónarmið verði ofan á varðandi hagkvæma nýtingu fiskstofna. Á það jafnt við um dreifingu sóknarinnar og fullvinnslu aflans að því marki sem samrýmist útflutningshagsmunum okkar í bráð og lengd.
    Illu heilli hefur sjávarútvegsráðherra horfið frá þessum grundvallarsjónarmiðum við meðferð málsins á Alþingi. Héðan af verður því ekki haldið fram að hann vilji halda fiskveiðimálunum utan við dægurmál stjórnmálanna því að hann hefur tekið fullan þátt í því skæklatogi sem um málið hefur orðið í ríkisstjórninni og kosið að afgreiða það án samráðs og samvinnu við fulltrúa hagsmunaaðila. Nú er mál að linni og málefni sjávarútvegsins verði tekin úr höndum Framsóknarflokksins.
    Frumvarp um stjórn fiskveiða var lagt fram á Alþingi 15. febrúar sl. Full eining var um það innan þingsins að það fengi vandaða málsmeðferð. Sjávarútvegsnefndir beggja deilda unnu að athugun málsins og kölluðu fyrir sig fulltrúa hagsmunaaðila. Það var fyrst eftir að málið hafði verið til lokaafgreiðslu í sjávarútvegsnefnd efri deildar að ríkisstjórnin tók það til
efnislegrar umræðu. Þá kom í ljós að þar var mikill ágreiningur um grundvallaratriði. Það var ýmist að fundir í sjávarútvegsnefnd voru boðaðir eða afboðaðir uns fimmtudagurinn 25. apríl rann upp. Þá voru endanlegar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar lagðar fram í nefndinni og áttu bæði við frumvörp um stjórn fiskveiða og frumvörp um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Tillögurnar fela í sér grundvallarbreytingu á stjórn fiskveiða og verða ekki ræddar né afgreiddar nema í samhengi þar sem frumvörpin tvö mynda eina heild.
    Fyrsti minni hl. sjávarútvegsnefndar — framsóknarmennirnir í sjávarútvegsnefnd — hefur tekið upp breytingartillögur ríkisstjórnarinnar óbreyttar og er ekki til viðræðu um efnisbreytingar á þeim. Ekki var haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila. Á fundum sjávarútvegsnefndar kom fram að meðal fulltrúa hagsmunaaðila er mikil andstaða við málið eins og það liggur fyrir í heild.
    Kjarni breytingartillagnanna felst í þeim ákvæðum að hlutverki Úreldingarsjóðs fiskiskipa skuli breytt í grundvallaratriðum og nafni hans í Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Það eru að sjálfsögðu öfugmæli eins og jafnan þegar opinber forsjá á að koma einstökum atvinnugreinum til bjargar. Sannmæli væri að kalla sjóðinn Óhagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að skerða fiskveiðiheimildir um 12 þúsund þorskígildistonn frá einu ári til annars. Síðan á að gefa útgerðarmönnum kost á að kaupa helminginn til baka við opinberu verði sem næst markaðsverði. Með því er stigið fyrsta skrefið til auðlindaskatts. Þótt þessum heimildum séu þröngar skorður settar í breytingartillögunum er eftirleikurinn auðveldur. Það er að rétta skrattanum litla fingurinn og ekki er það laust sem skrattinn heldur. Allt þetta eiga múrarar að vita upp á sína tíu fingur, segir gamalt orðtak. Allt þetta eiga sjómenn og útgerðarmenn að vita upp á sína tíu fingur. Sex þúsund þorskígildistonnum á að verja til þess sem kallað er „að koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum“, þó þannig að sum sveitarfélög eiga að fá aflaheimildir við markaðsverði, sum fyrir eitthvað minna og sum fyrir ekki neitt. Þannig er um hnútana búið að helstu útgerðarstaðirnir verða utan garðs í þessari sérstöku úthutun.
    Gert er ráð fyrir að hinn nýi sjóður geti haldið hjá sér 5% af heildaraflaheimildum eða um 30 þúsund þorskígildistonnum, sem síðan verði seld innan fiskveiðiársins við markaðsverði. Þar er verið að tala um 600–750 millj. kr. Auk þess er árlegt gjald útgerðarmanna til hins nýja sjóðs hækkað um 50% frá Aldurslagasjóði og mun nema tæpum 100 millj. kr. á ári. Stofnfé
sjóðsins er um 400 millj. kr. og lánsheimild með ríkisábyrgð að 80% af kaupverði skipa sem sjóðurinn kann að eignast. Ef útgerðarmenn neyta ekki forkaupsréttar á aflaheimildum eða sjóðurinn eignast skip með aflaheimildum á fiskveiðiári skulu þær seljast hæstbjóðanda. Kvóti, sem framseldur er til frambúðar, skiptist hlutfallslega milli fiskiskipa án endurgjalds.
    Með hliðsjón af árlegum tekjum sjóðsins og starfsreglum hans er ljóst að markaðsverð á veiðiheimildum og fiskiskipum verður hærra en ella. Það er einnig ljóst að ákvæðið um að framselja aflaheimildir til einstakra byggðarlaga er varhugavert. Reynslan hefur sýnt að útgerðarstaðir, sem geta boðið fram aflakvóta fyrir landaðan afla, draga til sín fiskiskip frá öðrum stöðum. Slíkar ráðstafanir leysa ekki hráefnisskort fiskvinnslustöðva ef dæmið er reiknað í heild en færa vandann til. Eina lausnin er sú að setja strangar reglur sem koma í veg fyrir að sjávarafli sé fluttur út til vinnslu erlendis. Um það höfuðmál er ekki samstaða í ríkisstjórninni þótt óvissuástandið og ófremdarástandið í þessum efnum nú skaði útflutningshagsmuni Íslendinga stórlega og heildarafkomu fólksins í landinu þegar lengra er litið.
    Af framansögðu er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um Úreldingarsjóð fiskiskipa frá grunni með hliðsjón af breyttum viðhorfum. Þess vegna er brýnt að samráðsnefnd sú, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 3 8. janúar, um stjórn fiskveiða 1988–1990, verði kölluð saman á ný og skili áliti eigi síðar en 1. ágúst. Þá er svigrúm til að kalla saman aukaþing til þess að afgreiða nýja heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða áður en reglulegt Alþingi kemur saman 10. október nk.

Alþingi, 30. apríl 1990.



Guðmundur H. Garðarsson,


frsm.


Halldór Blöndal.