Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Nd.

1200. Frumvarp til laga



um stjórn fiskveiða.

(Eftir 3. umr. í Ed., 3. maí.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

2. gr.

    Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.
    Til fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn.
    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skal miðaður við veiðar á 12 mánaða tímabili, frá 1. september ár hvert til 31. ágúst á næsta ári, og nefnist það tímabil fiskveiðiár. Skal heildarafli fyrir komandi fiskveiðiár ákveðinn fyrir 1. ágúst ár hvert. Ráðherra er heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda, þó er óheimilt að breyta leyfðum heildarafla þorsks eftir 15. apríl. Heildarafli annarra tegunda sjávardýra skal ákveðinn með hæfilegum fyrirvara fyrir upphaf viðkomandi vertíðar eða veiðitímabils og er ráðherra heimilt að auka hann eða minnka á meðan vertíð eða veiðitímabil varir.

II. KAFLI


Veiðileyfi og aflamark.


4. gr.

    Enginn má stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Veiðileyfi skulu gefin út til árs í senn.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að auk almenns veiðileyfis skuli veiðar á ákveðnum tegundum nytjastofna, veiðar í tiltekin veiðarfæri, veiðar ákveðinna gerða skipa eða veiðar á ákveðnum svæðum háðar sérstöku leyfi ráðherra. Getur ráðherra bundið leyfi og úthlutun þess þeim skilyrðum er þurfa þykir. Ráðherra getur m.a. ákveðið að aðeins hljóti leyfi ákveðinn fjöldi skipa, skip af ákveðinni stærð eða gerð eða skip er tilteknar veiðar stunda eða hafa áður stundað.

5. gr.

    Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina þau skip ein sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, og ekki hafa horfið varanlega úr rekstri. Enn fremur bátar undir 6 brl. enda hafi beiðni um skráningu þeirra á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum borist ásamt fullnægjandi gögnum innan mánaðar frá gildistöku laga þessara. Auk þess skal gefinn kostur á veiðileyfi fyrir nýja báta undir 6 brl. enda hafi smíði þeirra hafist fyrir gildistöku laganna og haffærisskírteini verið gefið út innan þriggja mánaða frá þeim tíma.
    Hverfi skip, sem á kost á veiðileyfi skv. 1. mgr. þessarar greinar, varanlega úr rekstri má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað, enda hafi veiðiheimildir þess skips, er úr rekstri hvarf, ekki verið sameinaðar varanlega veiðiheimildum annarra skipa eða horfið til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins.

6. gr.

    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari grein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.

7. gr.

    Veiðar á þeim tegundum sjávardýra, sem ekki sæta takmörkun á leyfilegum heildarafla skv. 3. gr., eru frjálsar öllum þeim skipum, sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni skv. 4. gr., með þeim takmörkunum sem leiðir af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri, veiðitíma og reglum settum skv. 2. mgr. 4. gr.
    Veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, skal úthlutað til einstakra skipa. Skal hverju skipi úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar. Nefnist það aflahlutdeild skips og helst hún óbreytt milli ára, sbr. þó 4. málsl. þessarar málsgreinar. Við ákvörðun hlutdeildar einstakra skipa í botnfiskafla skal árlega áætla þann afla, sem er utan aflamarks, á grundvelli heimilda í 1. málsl. 6. mgr. 10. gr.
    Aflamark skips á hverju veiðitímabili eða vertíð ræðst af leyfðum heildarafla viðkomandi tegundar og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla skv. 2. mgr., sbr. þó ákvæði 9. gr. Skal sjávarútvegsráðuneytið senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um aflamark þess í upphafi veiðitímabils eða vertíðar.

8. gr.

    Verði veiðar takmarkaðar skv. 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.
    Ef ekki er fyrir hendi samfelld veiðireynsla á viðkomandi tegund skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Getur hann við þá ákvörðun tekið mið af fyrri veiðum, stærð eða gerð skips. Getur ráðherra bundið úthlutun samkvæmt þessari málsgrein því skilyrði að skip afsali sér heimildum til veiða á öðrum tegundum.

9. gr.


    Sé fyrirsjáanlegt að verulegar breytingar verði á aflatekjum milli veiðitímabila af veiðum á öðrum tegundum, sem sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla, en botnfiski og úthafsrækju er ráðherra heimilt að skerða eða auka tímabundið botnfiskaflamark þeirra fiskiskipa sem aflahlutdeild hafa af þeirri tegund sem breytingum sætir. Veruleg telst breyting á aflatekjum af sérveiðum í þessu sambandi ef hún veldur því að heildaraflaverðmæti skipa, sem viðkomandi sérveiðar stunda, hefur að mati ráðherra vikið meira en 20% að meðaltali frá meðalaflaverðmæti síðustu fimm ára miðað við fast verðlag.
    Tímabundin breyting botnfiskaflamarks skv. 1. mgr. skal koma til hlutfallslegrar hækkunar eða lækkunar á botnfiskveiðiheimildum annarra fiskiskipa. Leiði þetta til breytinga á botnfiskaflamarki á yfirstandandi fiskveiðiári skal sjávarútvegsráðuneytið þegar í stað senda sérstaka tilkynningu vegna hvers skips um breytingu á botnfiskaflamarki þess, sbr. 3. mgr. 7. gr.

10. gr.

    Heimilt er að veiða umfram úthlutað aflamark af tiltekinni botnfisktegund allt að 5% af heildarverðmæti botnfiskaflamarks, enda skerðist aflamark annarra botnfisktegunda hlutfallslega miðað við verðmæti samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs. Heimild þessarar málsgreinar nær þó ekki til veiða umfram úthlutað aflamark af þorski.
    Hafi aflamark verið flutt milli skipa skv. 12. gr. flyst heimild til breytinga skv. 1. mgr. frá skipi sem flutt er af til þess skips sem flutt er til.
    Heimilt er að flytja allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta. Á sama hátt er heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki humars og síldar frá einu veiðitímabili til þess næsta.
    Þá er og heimilt að veiða allt að 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.
    Beita skal skerðingarákvæðum 1. mgr. áður en heimild 3. mgr. er nýtt. Heimild 4. mgr. rýmkar ekki heimildir til breytinga milli fisktegunda skv. 1. mgr.
    Fiskur, sem veiðist á línu í janúar, febrúar, nóvember og desember, skal aðeins að hálfu talinn með í aflamarki fiskiskips. Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta með í aflamarki.
    Þá getur ráðherra ákveðið að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með álagi þegar metið er hversu miklu af aflamarki skips er náð hverju sinni. Skal álagið vera allt að 20% á þorsk og ýsu en allt að 15% á aðrar tegundir.

11. gr.

    Sé rekstri skips hætt, sbr. 2. mgr. 5. gr., skal úthluta nýju eða nýkeyptu skipi í eigu sama aðila aflahlutdeild hins eldra skips, enda sé um sambærilegt skip að ræða. Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.
    Við eigendaskipti að fiskiskipi fylgir aflahlutdeild þess, nema aðilar geri sín á milli skriflegt samkomulag um annað, enda sé fullnægt ákvæðum 3. og 4. mgr. þessarar greinar.
    Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.
    Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.
    Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta.
    Heimilt er að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða öllu leyti og sameina hana aflahlutdeild annars skips, enda leiði flutningur aflahlutdeildar ekki til þess að veiðiheimildir þess skips, sem flutt er til, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Þó skal framsalið háð samþykki ráðherra hafi það skip, sem flutt er til, ekki aflahlutdeild af þeirri tegund sem framseld er. Tafarlaust skal leita staðfestingar ráðuneytisins á að flutningur aflaheimildar sé innan heimilaðra marka. Öðlast slíkur flutningur ekki gildi fyrr en staðfesting ráðuneytis liggur fyrir. Ekki er heimilt að framselja þann hluta aflahlutdeildar skips, sem rekja má til uppbóta samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða, fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara, enda hafi skipi, sem framselt er af, verið haldið til veiða allt það tímabil.

12. gr.

    Heimilt er að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar eða skipa sem gerð eru út frá sömu verstöð eftir því sem hlutaðeigandi aðilar koma sér saman um enda hafi það skip, sem fært er til, aflahlutdeild af þeirri tegund sem millifærð er. Sama gildir um skipti á aflamarki milli skipa sem ekki eru gerð út frá sömu verstöð, enda sé um jöfn skipti að ræða að mati ráðuneytisins.
    Tilkynna skal sjávarútvegsráðuneytinu fyrir fram um flutning aflamarks milli skipa og öðlast hann ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest móttöku tilkynningar um flutninginn frá þeim sem hlut eiga að máli.
    Annar flutningur á aflamarki milli skipa er óheimill nema með samþykki ráðuneytisins og að fenginni umsögn sveitarstjórnar og stjórnar sjómannafélags í viðkomandi verstöð.
    Séu minna en 25% af aflamarki skips ekki nýtt með veiðum skipsins sjálfs tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður. Skal við mat á þessu hlutfalli miðað við verðmæti einstakra tegunda í aflamarki skips samkvæmt ákvörðun ráðuneytis í upphafi árs.

III. KAFLI

Framkvæmd og eftirlit.

13. gr.

    Ráðherra getur sett nánari reglur varðandi framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Sérstök samráðsnefnd, skipuð einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af samtökum sjómanna og einum tilnefndum af samtökum útvegsmanna, auk formanns sem skipaður er af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutun aflahlutdeildar og aflamark samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim og gera tillögur til ráðherra um úrlausn þeirra.

15. gr.

    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hljóta veiðileyfi í atvinnuskyni skv. 5. gr., skulu halda sérstakar afladagbækur sem ráðuneytið leggur til. Skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til ráðuneytis.
    Útgerðarmönnum, skipstjórnarmönnum og kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum og lánastofnunum, er skylt að láta ráðuneytinu eða Fiskifélagi Íslands ókeypis í té og í því formi, sem ráðherra ákveður, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara.

16. gr.

    Afli skal ávallt veginn á löndunarstað. Hafnaryfirvöld á hverjum löndunarstað skulu hafa yfirumsjón með vigtun afla og söfnun upplýsinga um landaðan afla.
    Ráðuneytið skal að höfðu samráði við samgönguráðuneytið og Hafnasamband sveitarfélaga kveða nánar á í reglugerð um hvernig afli skuli veginn og upplýsingum um landað aflamagn safnað.
    Sé afli unninn um borð í veiðiskipi skal skylt að halda sérstaka vinnsludagbók, sem ráðuneytið leggur til, um vinnslu aflans. Skipum, sem vinna afla um borð, er óheimilt að sigla með afurðir til sölu á mörkuðum erlendis án sérstaks leyfis ráðuneytisins. Ráðuneytið getur bundið slík leyfi því skilyrði að útgerð skipsins greiði kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns ráðuneytisins til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis eða skipið komi til hafnar á Íslandi vegna eftirlits.

17. gr.

    Sjávarútvegsráðuneytið annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og hefur í því skyni sérstaka eftirlitsmenn í sinni þjónustu.
    Jafnframt því sem þessir eftirlitsmenn sinna verkefnum skv. 8. gr. laga nr. 81 31. maí 1976 og eftirliti með reglum settum samkvæmt heimild í þeim lögum skulu þeir fylgjast með löndun, vigtun og vinnslu afla, enn fremur útflutningi afla eða afurða eins og nánar er kveðið á í lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim og í erindisbréfi.
    Eftirlitsmönnum er heimilt að fara í veiðiferðir með fiskiskipum og að fara um borð í skip til athugunar á farmi og veiðarfærum. Enn fremur skal þeim heimill aðgangur að öllum vinnslusölum fiskverkana og birgðageymslum.

18. gr.

    Ráðherra skal með reglugerð ákveða sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga þessara eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Skal gjaldið renna til reksturs veiðieftirlits ráðuneytisins og skal upphæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins að hálfu.
    Gjald vegna tilkynningar um aflamark skal miðast við áætlað verðmæti þess aflamarks sem úthlutað er. Skal ráðherra árlega áætla hlutfallslegt verðmæti einstakra tegunda í þessu skyni. Aldrei skal gjald samkvæmt þessari málsgrein vera hærra en 0,2% af áætluðu verðmæti þess afla sem aflamark skips heimilar veiðar á á komandi fiskveiðiári, vertíð eða veiðitímabili. Gjald fyrir hverja tilkynningu um aflamark skal þó aldrei vera lægra en 1.000 kr. og er sú fjárhæð grunntala er miðast við byggingarvísitölu í janúar 1991 og breytist í hlutfalli við þær breytingar sem síðar kunna að verða á henni.
    Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli 2. mgr. 4. gr., skal greiða 5.000 kr. Ráðherra er heimilt að hækka gjaldið er nemur hlutfallslegri hækkun er kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. l. nr. 42/1987. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í desember 1989, þ.e. 157,9 stig.
    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð.

IV. KAFLI

Viðurlög o.fl.

19. gr.

    Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim eða ákvæðum leyfisbréfa varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um mál þau, sem rísa út af brotum gegn lögum þessum, skal fara að hætti opinberra mála.

20. gr.

    Ráðuneytið skal beita ákvæðum laga nr. 32 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla, vegna brota gegn þessum lögum eftir því sem við á.
    Ráðuneytinu er enn fremur heimilt, vegna brota á ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa, að svipta skip heimild til veiða í tiltekinn tíma og varða veiðar eftir leyfissviptingu m.a. upptöku skv. 1. mgr. Sama gildir verði vanskil á greiðslu andvirðis ólöglegs sjávarafla sem sætt hefur upptöku.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

21. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, með áorðnum breytingum, skulu veiðar með vörpu heimilaðar á vannýttum fisktegundum á ákveðnum svæðum samkvæmt reglum er ráðherra setur.

22. gr.

    Með lögum þessum eru felldar úr gildi 10., 13. og 14. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Jafnframt breytist 2. mgr. 2. gr. þeirra laga og orðist svo:
    Íslenskum skipum eru bannaðar veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilandhelginni, nema þar sem sérstakar heimildir eru veittar til slíkra veiða í lögum þessum.

23. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 1991. Ákvæði, er lúta að veiðum á öðrum tegundum sjávardýra en botnfiski, koma til framkvæmda við upphaf fyrstu vertíðar eða veiðitímabils eftir 1. janúar 1991.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Við ákvörðun aflahlutdeildar við gildistöku laga þessara til veiða á botnfiski og úthafsrækju fyrir skip 10 brl. og stærri skal leggja til grundvallar úthlutun aflamarks á árinu 1990 samkvæmt rg. nr. 585 19. desember 1989, um stjórn botnfiskveiða 1990, og rg. nr. 586 19. desember 1989, um veiðar á úthafsrækju 1990.
    Fyrir hvert fiskiskip 10 brl. og stærra skal reikna aflamark í einstökum botnfisktegundum og úthafsrækju til þorskígilda. Ráðherra skal með reglugerð ákveða verðmætahlutfall við þann útreikning. Fyrir hvern sóknarmarksflokk samkvæmt rg. nr. 585 19. desember 1989 skal síðan reikna meðaltalsaflamark þessara tegunda samanlagt. Fyrir þau skip, sem hafa samanlagt aflamark ofan við meðaltal síns flokks, er aflamark hverrar tegundar á árinu 1990 ráðandi við ákvörðun aflahlutdeildar.
    Fyrir þau fiskiskip, sem hafa samanlagt aflamark þessara tegunda undir meðaltali síns sóknarmarksflokks, skulu hins vegar reiknaðar uppbætur á eldra aflamark er nema skulu 40% af þeim mun sem er milli meðaltals sóknarmarksflokksins og aflamarks skipsins. Til aflamarks skips í þessu sambandi telst þó ekki sá hluti aflamarks sem sameinaður hefur verið eldra aflamarki á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1988. Þannig reiknaðri uppbót skal síðan skipt milli einstakra tegunda í aflamarki skipsins í hlutfalli við verðmæti fyrra aflamarks. Fyrir skip, sem fá reiknaða uppbót samkvæmt þessari málsgrein, verður því samtala aflamarks ársins 1990 og reiknaðrar uppbótar ákvarðandi fyrir aflahlutdeildina.
    Skip, sem loðnuveiðar stunda og skip sem stunda úthafsrækjuveiðar sem sérhæfð rækjuveiðiskip á árinu 1990 samkvæmt ákvæðum rg. 586 19. desember 1989, um veiðar á úthafsrækju 1990, fá þó ekki reiknaðar uppbætur skv. 3. mgr. þessarar greinar. Þessum skipum gefst kostur á í árslok 1990 að velja milli aflamarks í botnfiski og aflamarks í úthafsrækju í samræmi við ákvæði rg. 586 19. desember 1989, um veiðar á úthafsrækju 1990, og verður aflamark samkvæmt því vali ákvarðandi fyrir aflahlutdeild þeirra.

II.


    Við úthlutun aflahlutdeildar við gildistöku þessara laga til veiða á botnfiski fyrir báta minni en 10 brl. skulu eftirfarandi reglur gilda sé óskað eftir leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni skv. 1. mgr. 4. gr.
    Samanlögð úthlutuð aflahlutdeild allra báta minni en 10 brl. í leyfilegum heildarafla allra botnfisktegunda, sem úthlutað er til einstakra skipa og báta, skal vera jöfn aflahlutdeild þeirra í ársafla sömu botnfisktegunda árið 1989.
    Fyrir þá báta, sem á árinu 1990 stunda veiðar með aflahámarki sem byggir á eigin veiðireynslu samkvæmt ákvæðum rg. nr. 587 19. desember 1989, um veiðar smábáta 1990, skal miða við forsendur þess aflahámarks við úthlutun aflahlutdeildar.
    Hjá þeim bátum, sem ekki falla undir ákvæði 3. mgr. þessarar greinar, skal aflahlutdeild byggð á veiðireynslu áranna 1987–1989 þannig að byggt sé á meðalafla tveggja bestu áranna.
    Aflahlutdeild báta, sem veiðileyfi fá í fyrsta sinn eftir 31. desember 1989, án þess að sambærilegir bátar hafi horfið varanlega úr rekstri í þeirra stað, skal þó miðast við meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki. Aflahlutdeild þessara báta hefur ekki áhrif á útreikning aflahlutdeildar annarra báta skv. 2. mgr. Ekki er heimilt að framselja aflahlutdeild þessara báta fyrr en að liðnum fimm árum frá gildistöku laga þessara enda hafi þeim verið haldið til veiða allt tímabilið.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. og 4. mgr. þessarar greinar gefst útgerðum báta undir 6 brl., sem skráðir eru á skipaskrá fyrir 31. desember 1989, og útgerðum báta undir 6 brúttótonnum sem skráðir eru á skipaskrá eftir þann tíma en fyrir gildistöku laga þessara, kostur á að velja á árunum 1991, 1992 og 1993 leyfi til veiða með línu og handfæri með dagatakmörkunum í stað aflahlutdeildar. Reynist hlutdeild þessara báta af heildarbotnfiskafla hafa vaxið meira en sem nemur 25% að meðaltali á þessum þremur árum miðað við þá aflahlutdeild sem þeir áttu kost á árið 1991 skal þeim ákvörðuð aflahlutdeild frá og með upphafi þess fiskveiðiárs er hefst 1. september 1994. Ræður aflareynsla þeirra á þessum þremur árum þá aflahlutdeild þeirra, sbr. þó 2. mgr. Hafi aflahlutdeild þessara báta hins vegar ekki farið fram úr framangreindum mörkum skulu gilda óbreyttar reglur um veiðar þeirra næstu þrjú fiskveiðiár og koma þær aftur til sams konar endurskoðunar í lok þess tímabils. Þeim bátum, sem þennan kost velja, skulu óheimilar ár hvert veiðar frá og með 1. janúar til og með 31. janúar, í tíu daga um páskahelgi, tíu daga um verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra og enn fremur frá og með 1. desember til og með 31. desember.
    Sérstök samstarfsnefnd, skipuð fulltrúa tilnefndum af Landssambandi smábátaeigenda, fulltrúa tilnefndum af Fiskifélagi Íslands og formanni skipuðum af ráðherra án tilnefningar, skal fjalla sérstaklega um málefni þeirra aðila sem keypt hafa nýja báta eftir 31. janúar 1988 og hafa því ekki fulla aflareynslu á viðmiðunartímabilinu til að byggja ákvörðun aflahlutdeildar á. Nefndin skal og fjalla um önnur álitaefni sem upp koma og gera tillögur til sjávarútvegsráðherra um aflahlutdeild viðkomandi báta.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um úthlutun þessa, þar á meðal um stærðarflokkun báta. Úthlutunin skal taka mið af þeim reglum sem giltu um úthlutun aflamarks til skipa 10 brl. og stærri á árinu 1984, sbr. rg. nr. 44/1984, eftir því sem við verður komið. Þó skulu reglur um frátafir frá veiðum og skipstjóraskipti undanskildar.
    Sjávarútvegsráðuneytið skal til upplýsingar birta bréflega útgerðum allra báta 10 brl. og minni úthlutað aflamark eins og það hefði orðið árið 1990 samkvæmt lögum þessum ásamt forsendum fyrir þeirri úthlutun.
    Útgerðum skal veittur hæfilegur frestur til athugasemda og skýringa gerist þess þörf. Að því loknu skal samstarfsnefnd skv. 7. mgr. gera endanlega tillögu um aflahlutdeild sérhvers báts í viðkomandi botnfisktegund. Sú aflahlutdeild verður síðan grundvöllur árlegrar úthlutunar aflamarks viðkomandi báta.

III.


    Leyfður heildarafli botnfisktegunda skv. 2. mgr. 3. gr. fyrir heilt 12 mánaða tímabil skal í fyrsta skipti ákveðinn fyrir fiskveiðiárið er hefst 1. september 1991. Skal sú ákvörðun tekin fyrir 1. ágúst 1991.
    Fyrir 1. nóvember 1990 skal ráðherra taka ákvörðun um leyfðan heildarafla botnfisktegunda á tímabilinu 1. janúar 1991 til 31. ágúst 1991. Skal þeim heildarafla skipt milli skipa á grundvelli fastrar aflahlutdeildar hvers skips sem ákveðin er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I og II annars vegar og dreifingu afla af hverri tegund innan ársins hjá einstökum flokkum fiskiskipa hins vegar.
    Reiknað skal hversu hátt hlutfall ársafla af hverri botnfisktegund hefur veiðst að meðaltali á fyrstu átta mánuðum ársins á árunum 1986 til 1988. Jafnframt skal reiknað fyrir hvern útgerðarflokk, sbr. 2. gr. rg. nr. 585 19. desember 1989, um stjórn botnfiskveiða 1990, og fyrir hvern stærðarflokk smábáta, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, hversu mikill hluti heildarársafla flokksins af hverri tegund hefur verið veiddur á fyrstu átta mánuðum ársins að meðaltali á sama árabili.
    Hlutdeild hvers skips í heildarafla hverrar tegundar á framangreindu átta mánaða tímabili á árinu 1991 skal vera föst aflahlutdeild skipsins af viðkomandi tegund deilt með hlutfalli átta mánaða heildarveiða af tegundinni skv. 1. málsl. 3. mgr. en margfaldað með hlutfalli átta mánaða veiða flokksins skv. 2. málsl. 3. mgr.
    Ráðherra skal með hliðstæðum hætti ákveða heildarafla af úthafsrækju á fyrstu átta mánuðum ársins 1991 og hlutdeild einstakra skipa í honum.

IV.


    Aflahlutdeild til veiða á loðnu, síld og humri skal úthlutað á grundvelli hlutdeildar viðkomandi skips í heildarúthlutun á því veiðitímabili eða vertíð sem síðast lauk áður en lög þessi koma til framkvæmda.
    Aflahlutdeild á svæðisbundnum veiðum á innfjarðarrækju og hörpuskelfiski skal úthlutað í samræmi við hlutdeild viðkomandi skips í heildarúthlutun á viðkomandi veiðisvæði á því veiðitímabili sem síðast lauk áður en lög þessi koma til framkvæmda.

V.


    Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips skv. 6. mgr. 11. gr. án þess að skip hverfi varanlega úr rekstri og sé afmáð af skipaskrá, nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu er lög þessi koma til framkvæmda.

VI.


    Sjávarútvegsráðherra skal þegar eftir gildistöku laga þessara skipa nefnd er kanni hvort og þá með hvaða hætti mögulegt sé að koma við vigtun hérlendis á afla sem fluttur er óunninn úr landi. Nefnd þessi skal skipuð fulltrúum útgerðar, sjómanna og fiskvinnslu, auk formanns er ráðherra skipar. Skal hún skila tillögum sínum eigi síðar en hálfu ári eftir gildistöku laga þessara.

VII.


    Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Skal athugunin, er m.a. taki mið af reynslu annarra þjóða, beinast að því að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga. Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.

VIII.


    Sjávarútvegsráðherra skal láta fara fram endurskoðun á lögum um upptöku ólöglegs sjávarafla, nr. 32 19. maí 1976, og leggja frumvarp að nýrri löggjöf um það efni fyrir Alþingi haustið 1990. Skal sú endurskoðun m.a. beinast að því að aðskilja eftirlit og úrskurðarvald.