Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Nd.

1285. Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Lög um stjórn fiskveiða eru án vafa mikilvægasta mál þessa þings. Þess vegna hefði umfjöllun um það á Alþingi Íslendinga þurft að vera ítarleg. Lagarétting um svo viðamikið og flókið mál hefði þurft vandaða efnismeðferð. Staðreyndirnar eru hins vegar þær að stjórnarliðar hafa beitt lögvillu til að koma málinu fram. Það var í gær um klukkan hálffimm að frumvarpinu var vísað formlega til nefndarinnar. Þá var haldinn einn nefndarfundur sem stóð í nálægt 45 mínútur. Annar fundur nefndarinnar stóð í eina klukkustund og á lokafundi nefndarinnar rétt fyrir miðnætti í gær var okkur stjórnarandstæðingum tilkynnt að meiri hl. mundi taka málið út úr nefnd án frekari umfjöllunar.
    Þetta er sú efnismeðferð sem mikilvægasta mál þjóðarinnar fékk í nefndinni. Tíminn, sem alþingismönnum er ætlaður til að brjóta slíkt stórmál til mergjar, er svo knappur að slíkt er ekki samboðið virðingu Alþingis og minnir frekar á afgreiðslu í einræðisríki.
    Minni hl. mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og telur þau gróft brot á þingræðisvenjum og grundvallarreglum í lýðfrjálsu landi.
    Þá er það og staðreynd, hvað sem líður stjórn fiskveiða, að jafnframt hefði þurft að taka á vanda fiskvinnslunnar. Sú staðreynd, að sí aukinn útflutningur á sér stað á óunnum fiski, hefur leitt til þess að atvinnugreinin á í erfiðleikum um gjörvallt land. Hefur atvinna verkafólks minnkað og erfiðleikar í sjávarþorpum aukist þar sem viðkvæmt og einhæft atvinnulíf er undirstaða tilverunnar.
    Við undirritaðir nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins teljum því ekki ástæðu til að rekja í þessu nefndaráliti efnisatriði eða þær breytingartillögur sem voru gerðar á frumvarpinu í efri deild sem eru þó sumar til bóta.
    Minni hl. nefndarinnar leggur því til að sjávarútvegsnefndir Alþingis verði kallaðar saman í sumar til að vinna áfram í málinu og að reglulegt Alþingi verði kvatt til starfa 3. september 1990 til að fjalla um málið.

Alþingi, 5. maí 1990.



Hreggviður Jónsson,


fundaskr., frsm.


Matthías Bjarnason.


Kristinn Pétursson.