Minning Ásbergs Sigurðssonar
Miðvikudaginn 10. október 1990


     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson) : Minning Ásbergs Sigurðssonar.
    
    Ásberg Sigurðsson var fæddur á Hvítárbakka í Borgarfirði 18. apríl 1917. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður skólastjóri þar, síðar barnakennari á Seltjarnarnesi, Þórólfsson bónda í Holti á Barðaströnd Einarssonar og Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir bónda á Kárastöðum á Vatnsnesi Jónatanssonar. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1937 og lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 1944, hlaut réttindi héraðsdómslögmanns 1958. Hann var skrifstofustjóri Sölunefndar varnarliðseigna 1944 -- 1946, en áður og að nokkru jafnframt fulltrúi í lögfræðiskrifstofu. Bæjarstjóri á Ísafirði var hann 1946 -- 1948, síðan framkvæmdastjóri togarafélagsins Ísfirðings 1949 -- 1962, en stundaði þau ár jafnframt málflutning á Ísafirði. Hann var skrifstofustjóri Eimskipafélags Íslands í Kaupmannahöfn 1962 -- 1964, sýslumaður í Barðastrandarsýslu 1964 -- 1968, borgarfógeti í Reykjavík 1968 -- 1981 og deildarstjóri yfir hlutafélagaskrá í viðskiptaráðuneytinu 1981 -- 1987.
    Ásberg Sigurðsson átti hlut að ýmsum félagsmálum og gegndi trúnaðarstörfum auk aðalstarfa. Á háskólaárunum átti hann sæti í byggingarnefnd Nýja stúdentagarðsins og var formaður stúdentaráðs 1942 -- 1943. Ritstjóri blaðsins Vesturlands var hann 1948 -- 1952. Hann var í stjórn togarafélagsins Ísfirðings 1946 -- 1962, formaður stjórnarinnar 1948 -- 1953, átti sæti í stjórn Samlags skreiðarframleiðenda 1953 -- 1962 og Félags íslenskra botnvörpuskipaeigenda 1956 -- 1962. Hann var formaður skólanefndar Húsmæðraskólans á Ísafirði 1950 -- 1958, átti sæti í rafveitustjórn 1950 -- 1953, í áfengisvarnanefnd 1952 -- 1957 og hafnarnefnd 1955 -- 1961. Hann var kjörinn formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda við stofnun þess 1971. Á fiskiþingi átti hann sæti 1953, 1955 og 1959. Við alþingiskosningarnar 1967 var hann kosinn fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi, tók sæti aðalmanns á Alþingi við þingmennskuafsal Sigurðar Bjarnasonar 1. mars 1970 og sat til loka kjörtímabilsins vorið 1971. Á árunum 1968 -- 1969 og 1972 -- 1974 tók hann nokkrum sinnum sæti varamanns á Alþingi, sat tímabundið á sjö þingum.
    Ásberg Sigurðsson átti sér fjölbreyttan starfsferil. Á menntaskólaárum sínum vann hann að vegagerð á sumrum. Hann varð síðan lögfræðingur, en störf hans um ævidagana voru ekki öll tengd því námi. Ríflega hálfan annan áratug starfaði hann að bæjarmálum og útvegsmálum á Ísafirði á umbrotatímum í stjórnmálum þar og nýjungatímum í atvinnuháttum landsmanna. Á þeim árum var honum auk margs annars falin þátttaka í stjórnarstörfum í landssamtökum sjávarútvegsins, svo sem áður hefur verið rakið. Síðar tóku við embættisstörf á vegum ríkisins fram til sjötugs, og á því tímabili sat hann á Alþingi takmarkaðan tíma. Störf sín öll leysti hann samviskusamlega af hendi, var skoðanafastur málafylgjumaður og prúðmenni í eðli og raun.