Minning Páls Þorsteinssonar
Miðvikudaginn 10. október 1990


     Aldursforseti (Stefán Valgeirsson) :
Minning Páls Þorsteinssonar.
    
    Páll Þorsteinsson var fæddur á Hnappavöllum í Öræfum 22. október 1909. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn bóndi þar Þorsteinsson bónda á Hnappavöllum Pálssonar og Guðrún Þorláksdóttir bónda á Hnappavöllum Pálssonar. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni tvo fyrstu veturna eftir stofnun hans, 1928 -- 1930, og í Kennaraskólanum veturinn 1933 -- 1934 og lauk kennaraprófi um vorið. Hann var barnakennari í Öræfum 1930 -- 1933 og 1934 -- 1942, og bóndi á Hnappavöllum var hann frá 1935 fram undir 1980.
    Páll Þorsteinsson gekkst fyrir stofnun Ungmennafélags Öræfa árið 1933 og var formaður þess til 1943. Hann var í hreppsnefnd Hofshrepps 1934 -- 1982 og hreppstjóri 1945 -- 1984, formaður Sjúkrasamlags Hofshrepps 1951 -- 1974 og formaður fræðsluráðs Austur - Skaftafellssýslu 1954 -- 1974. Í stjórn Kaupfélags Austur - Skaftfellinga var hann 1965 -- 1980. Hann var kosinn árið 1954 í kosningalaganefnd, 1956 í milliþinganefnd í samgöngumálum og skipaður 1958 í skólamálanefnd. Forseti Rímnafélagsins var hann 1965 -- 1969. Við alþingiskosningarnar í júlí 1942 var hann í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Austur - Skaftafellssýslu, hlaut kosningu og var þingmaður Austur - Skaftfellinga 1942 -- 1959 og síðan þingmaður Austurlandskjördæmis 1959 -- 1974, sat á 35 þingum alls.
    Páll Þorsteinsson naut ekki langrar skólavistar en aflaði sér traustrar menntunar og víðtæks fróðleiks af sjálfsdáðum. Hann tók þátt í félagsstörfum í sveit sinni og sýslu og var valinn til forustu án eigin eftirsóknar. Hann var starfsamur og vandvirkur, brást ekki trausti sem til hans var borið, hógvær og hófsamur. Hann átti sæti á Alþingi rúma þrjá áratugi, vann kjördæmi sínu dyggilega, ekki síst í samgöngumálum, og naut þess í lok þingferils síns að þar hafði geysimikið áunnist. Ræður hans einkenndust af vandlegri íhugun og skilmerkilegum flutningi. Hann var árum saman skrifari í Alþingi og gætti þar sem annars staðar nákvæmni hans og reglufestu. Eftir að þingsetu lauk vann hann að ritstörfum og komu frá hans hendi nokkur fróðleiksrit um heimahérað hans. Á sumrum vann hann löngum að bústörfum á Hnappavöllum og þar varð hann bráðkvaddur á miðju sumri.