Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. beindi til okkar þriggja ráðherra nokkrum spurningum sem hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. hafa svarað fyrir sitt leyti. Ég mun nú svara þeim sjö spurningum af þeim tíu sem hv. þm. bar fram sem ég tel að með einum eða öðrum hætti sé til mín beint.
    Fyrsta spurningin er á þann veg hvort forsrh. og fjmrh. ætli að beita sér fyrir því í samræmi við ummæli okkar beggja að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir byggðaröskun þegar í ljós hafi komið að Landsvirkjun geti ekki staðið að því að greiða niður raforku úti á landi. Í þessum efnum vil ég vísa til orða hæstv. forsrh. sem benti með réttu á það að í okkar þjóðfélagi hefur um langan tíma verið jöfnun verðlagningar á mikilvægum orkugjafa eins og bensíni þar sem verðlagið er hið sama um allt land. Einnig á landbúnaðarafurðum er verðlag hið sama um allt land þótt flutningskostnaður og aðrir kostnaðarþættir séu mjög mismunandi. Ég er þeirrar sömu skoðunar eins og kom hér fram hjá hæstv. forsrh. að það eigi að vera markmið í orkumálum á Íslandi og það sama gildi um verðlag innlendrar orku og um verðlagningu erlendrar orku, þ.e. bensíns og olíu, að það sé sama verð um allt land. Ég tel að Landsvirkjun eigi að hafa fulla burði til þess að stuðla að slíku hér á næstu árum og er því ekki sammála þeirri fullyrðingu sem kemur fram í spurningu hv. 1. þm. Reykv. að það hafi komið í ljós að í Landsvirkjun séu engin efni til slíkra aðgerða. Vil ég í því sambandi nefna að samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar liggur fyrir að ef ekki verður efnt til nýrra virkjunarframkvæmda verður Landsvirkjun orðin skuldlaust fyrirtæki á fyrstu árum næstu aldar og jafnvel þótt efnt verði til virkjana við Fljótsdal og þessara stóru framkvæmda, ætti Landsvirkjun að geta verið orðin skuldlaus í lok fyrsta eða á öðrum áratug næstu aldar og vera þá með eigið fé upp á 140 milljarða. Það er því alveg ljóst að slíkt fyrirtæki hefur vissulega efni á því a.m.k. að ræða slíkar aðgerðir.
    Í öðru lagi spurði hv. þm. mig hvort stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin hefðu samþykkt fyrirliggjandi minnisblað um skattamál. Það er ljóst að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarflokkarnir hafa samþykkt þetta minnisblað. Það hefur hins vegar að hluta til verið kynnt og verður gert nánar á næstu dögum og vikum. Ég vil segja af þessu tilefni að allt þetta ár hefur verið mjög gott samstarf milli fjmrn. og iðnrn. um þessar viðræður um skattamálin. Ég ákvað að setja tvo af æðstu embættismönnum íslenska skattakerfisins til þess að vera fulltrúar fjmrh. í þessum viðræðum, ríkisskattstjóra Garðar Valdimarsson og skrifstofustjóra skattamála í fjmrn., Snorra Olsen. Þeir störfuðu samkvæmt þeirri grundvallarstefnu viðræðnanna að fyrirtækin ættu að greiða skatta og vera meðhöndluð eftir öðrum ákvæðum íslenskra laga. Það var það grundvallarerindi sem þeim ásamt öðrum viðræðuaðilum var fengið.
    Sú niðurstaða sem liggur fyrir er að mínum dómi

veigamikil í tveimur grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi hefur eftir um það bil 20 ára baráttu fengist full viðurkenning á því að verði af þeim samningum sem hér er um rætt, þá munu hin erlendu fyrirtæki lúta í öllu forræði íslenskra skattayfirvalda og íslenskra dómstóla þannig að íslensk skattalögsaga mun gilda um þessi fyrirtæki. Hér hefur í tvo áratugi verið gagnrýnt harðlega að Alusuisse hefur verið undanþegið íslenskri lögsögu í þessum efnum. Hér var á fyrri hluta síðasta áratugs hart deilt um mál sem þá gekk undir heitinu Álmál og kennt var við hækkun í hafi, þ.e. undanbrögð Alusuisse varðandi rétt gjöld og skyldur gagnvart íslenskum yfirvöldum. Í því máli höfðu íslensk skattayfirvöld og íslenskir dómstólar ekki forræði, en nú hefur náðst fram fullt samþykki erlendu fyrirtækjanna um að lúta úrskurðum og forræði íslenskra skattayfirvalda og íslenskra dómstóla. Út frá þeim stefnumálum og þeirri gagnrýni sem Alþb. hefur haft uppi um árabil á samninginn sem gerður var við Alusuisse á sínum tíma tel ég þessa niðurstöðu viðræðnanna vera afar mikilvæga. Hún er líka mikilvæg fyrir sjálfstætt forræði íslenskrar þjóðar gagnvart erlendum fyrirtækjum um alla framtíð vegna þess að ég efast um að eftir þessa niðurstöðu muni nokkur erlend fyrirtæki né nokkrir íslenskir ráðamenn orða það eftirleiðis að gera samninga þar sem fullt forræði íslenskra yfirvalda og íslenskra dómstóla er ekki virt.
    Hitt meginatriðið sem ég tel mikilvægt í þessu samkomulagi er það að tekjuskattsgreiðslan sem er megingreiðsla til íslenska ríkisins, u.þ.b. rösk 90% af þeim tekjum sem til íslenska ríkisins koma, er með þeim hætti að þau frádráttarákvæði og sérsjóðaákvæði sem íslensk fyrirtæki hafa getað nýtt sér til þess að lækka tekjuskattsgreiðslur sínar og jafnvel greiða engan tekjuskatt um árabil, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds hefur oft gert grein fyrir hér á Alþingi að mjög stór hluti íslenskra fyrirtækja greiðir ekki tekjuskatt vegna þessara sérstöku ákvæða í íslenskum skattalögum sem heimila frádrátt, þá verður í því samkomulagi sem náðst hefur gengið út frá því að engar slíkar frádráttarheimildir muni gilda um hin innlendu fyrirtæki. Í stað þess verður prósentan lægri, 30%, sem virk skattaprósenta í tekjuskatti. Ég tel að sú stefna sé mjög skynsamleg, hún sé í anda þess sem við höfum margir, hér á Alþingi og víðar úti í þjóðfélaginu, um árabil, lagt áherslu á að ætti að gerast varðandi breytingar á skattlagningu íslenskra fyrirtækja, sé í anda þeirra alþjóðlegu breytinga sem gerðar hafa verið víða á skattlagningu atvinnulífs, að fækka undanþáguákvæðum og frádráttarákvæðum fyrirtækja en taka í staðinn upp breiðari grunn og lægri prósentu en sem þá yrði virkari og skilaði meiri tekjum.
    Þriðja spurningin sem hv. þm. bar upp var um aðgerðir til þess að koma í veg fyrir þenslu. Í því fjárlagafrv. sem ég hef lagt fyrir Alþingi kemur fram að á árinu 1991 þarf ekki miklar ráðstafanir í ríkisfjármálum ef af samningum verður heldur er það fyrst og fremst á árunum 1992 til ársins 1995 sem slíkar ráðstafanir þarf að gera og ég hef látið það koma fram að það hlýtur að verða eitt meginviðfangsefni

fjárfestingar, stýringar og ríkisfjármálastjórnar á þeim árum að samræma annars vegar þann dýrmæta stöðugleika sem náðst hefur í efnahagslífi okkar Íslendinga og hins vegar framkvæmdirnar þannig að virkjanaframkvæmdirnar og bygging hins nýja álvers verði ekki til þess að eyðileggja þann mikilvæga stöðugleika sem hér hefur náðst. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að ljóst er að það stefnir í að verulegur samdráttur verði í varnarliðsframkvæmdum svokölluðum eða herstöðvarframkvæmdum á Suðurnesjum á næstu árum og það væri að mörgu leyti mjög skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að samræma þetta tvennt, draga úr eða hætta algjörlega framkvæmdum í herstöð Bandaríkjanna á Suðurnesjum og stuðla þannig að því að hvort tveggja náist, mikilvægt framlag okkar til friðar í heiminum og traust undirstaða undir stöðugleika í efnahagslífi okkar.
    Í fjórða lagi spurði hv. þm. um það í hvaða lög kæmu heimildir um erlenda lántöku fyrir Landsvirkjun og hæstv. iðnrh. hefur þegar svarað því. Ég get tekið undir það svar en vil þó láta það koma fram sem ég hef sagt á öðrum vettvangi að ég er þeirrar skoðunar að setja eigi Landsvirkjun þau skilyrði að fjármagna innlenda kostnaðarþáttinn í framkvæmdunum með lántöku hér innan lands. Ég hef rætt það mál við fjölmarga kunnáttumenn á íslenskum peningamarkaði og það er samdóma álit þeirra að slíkt eigi að vera gerlegt. Þetta væru um 3 -- 4 milljarðar árlega sem Landsvirkjun þyrfti að afla í þessu skyni og ég tel það mikilvægt, til þess að varðveita stöðugleikann, að Landsvirkjun fái ekki almenna heimild til þess að sækja allt þetta fjármagn til útlanda, heldur þurfi, eins og önnur fyrirtæki í landinu og eins og ríkissjóður, að sækja a.m.k. þann hlutann sem jafngildir innlendu kostnaðarþáttunum með sölu verðbréfa á íslenskum markaði.
    Í fimmta lagi spurði hv. þm. um afstöðu ríkisstjórnarinnar til meðferðar málsins í stjórn Landsvirkjunar. Ég var kosinn hér á Alþingi 1983 til setu í stjórn Landsvirkjunar og endurkosinn fjórum árum síðar þó að ég hafi ekki setið í stjórninni síðan ég tók við embætti fjmrh. Ég vil þess vegna láta það koma hér fram að ég er mjög undrandi á því hvernig mismunandi túlkanir og mismunandi skoðanir á því hver fari með orkuviðræðurnar hafa komið fram. Það hefur verið sagt í rúmt ár á vettvangi ríkisstjórnar og aldrei verið dregið í efa að Landsvirkjun færi með samningana um orkuverð. Á þeim grundvelli hafa forstjóri og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar verið þeir embættismenn sem hafa einkum og sér í lagi rætt um orkuverðið við hin erlendu fyrirtæki og á þeim grundvelli, m.a., hafa fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í viðræðunefndinni, eða a.m.k. þeir einstaklingar sem eru félagar í ríkisstjórnarflokkunum, þó að þeir hafi ekki verið valdir formlegir fulltrúar flokkanna, ekki allir komið að orkuverðsviðræðunum heldur hafa fyrst og fremst Jóhannes Nordal, Halldór Jónatansson og Jóhann Már, forstjóri og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, annast það verk.
     Ég vil þess vegna rifja það hér upp í örstuttu máli

að í október 1983, þegar hliðstæðar viðræður fóru fram um endurskoðun samningsins við Ísal, hafði stjórn Landsvirkjunar þann hátt á að með formlegum hætti var gengið frá umboði í samningaviðræðunum og sérstök nefnd þriggja stjórnarmanna, Baldvins Jónssonar, Birgis Ísl. Gunnarssonar og Böðvars Bragasonar, var kosin á fundi í stjórn Landsvirkjunar 27. október 1983 til þess að fara með viðræðurnar fyrir hönd Landsvirkjunar. Og í rúmt ár, nánast allt árið 1984, gerðu þessir nefndarmenn í stjórn Landsvirkjunar grein fyrir því með reglubundnum hætti hvaða álitamál væru uppi í viðræðunum, hvernig þeim miðaði áfram, hverju hefði verið hafnað og hvers vegna og þannig áfram og áfram.
     Ég er hér með fundargerðir stjórnar Landsvirkjunar fyrir þá fundi á árinu 1984, og þeir voru fjölmargir, þar sem ýmist Böðvar Bragason, Baldvin Jónsson eða Birgir Ísl. Gunnarsson gerðu stjórninni ítarlega grein fyrir hvernig viðræðum miðaði áfram. Og ég satt að segja skil ekki hvernig stendur á því að í stjórn Landsvirkjunar virðist hafa verið uppi sá misskilningur, að því er stjórnarmenn segja, að viðræðurnar hafi ekki verið á forræði Landsvirkjunar með sama hætti og áður var. Þegar ég sat í stjórn Landsvirkjunar var frá þessum atriðum gengið með mjög skýrum og formlegum hætti og reglubundinni skýrslugjöf og umræðum og afstöðugreiningu í stjórn fyrirtækisins.
     Ég vona að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sem á einnig sæti í stjórn Landsvirkjunar komi hér í ræðustól og víki eitthvað nánar að þessum atriðum og ég harma það að hv. þm. Páll Pétursson skuli vera erlendis vegna þess að ég hefði mikinn áhuga á því að ræða við þessa samstjórnarmenn mína í stjórn Landsvirkjunar frá þessum árum um hvernig á því stendur að ekki var hafður sami háttur á nú af hálfu stjórnar Landsvirkjunar og gert var árin 1983 og 1984.
    Ég skal svo svara fimmtu spurningunni, sem ég hef hér verið að víkja að, aðeins nánar og svar mitt er alveg skýrt. Það hefur ekkert komið fram sem breytir þeirri afstöðu sem lýst hefur verið í ríkisstjórninni hvað eftir annað, að Landsvirkjun væri formlega með samningana um orkuverðið í sínum höndum. Og þar til eitthvað annað kemur fram, skýrt og skorinort, hef ég enga ástæðu til þess að draga það í efa og tel nauðsynlegt að nánari skýringar komi fram af hálfu Landsvirkjunarstjórnar í þessum efnum. ( HBl: Er ekki rétt að ráðherrann útskýri betur við hvað hann á ...) Ja, ég tók eftir því að iðnrh. var mér sammála um þetta efni hér áðan, og eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur væntanlega heyrt hefur aldrei komið neitt annað fram á vettvangi ríkisstjórnarinnar en að Landsvirkjun væri sá aðili sem annaðist samningana um orkuverðið. Og það hefur líka komið fram innan viðræðunefndar iðnrh. að svo væri.
    Hvað snertir næstsíðustu spurninguna sem til mín var beint, um ályktun Alþb. þar sem því var lýst að álverið ætti að vera staðsett utan höfuðborgarsvæðisins, vil ég segja þetta. Samkvæmt almennum skilningi sjálfsagt vel flestra, bæði innan Alþb. og utan,

held ég að Suðurnesjabyggð sé varla með eðlilegum hætti hægt að telja til höfuðborgarsvæðisins. Hitt kann svo að vera líka að samkvæmt almennri málvitund manna munu ýmsir ekki heldur telja hana til landsbyggðarinnar og sú svæðaskipting sem vakir í hugum almennings í þessu landi sé e.t.v. á þann veg að höfuðborgarsvæðið sé Reykjavík og nágrannabæjarfélögin, síðan séu Suðurnes og svo sé það sem venjulega er kallað landsbyggð. Og ég er nokkuð viss um að þeir tveir ágætu þingmenn, hv. þm. Matthías Á. Mathiesen og Geir Gunnarsson sem lengst allra hafa verið fulltrúar nú á Alþingi fyrir Reykjaneskjördæmi, mundu hvorugur nokkru sinni hafa talið Suðurnesin til höfuðborgarsvæðisins.
    Ég tel þess vegna að það liggi nokkuð ljóst fyrir að Suðurnesin séu samkvæmt þeim almenna skilningi sem í hugtakið höfuðborgarsvæði hefur verið lagður ekki hluti af því svæði. (Gripið fram í.) Og ég vil í því sambandi vekja athygli hv. þm. Halldórs Blöndals á því að ef ég man rétt mun ég hafa svarað honum um þetta efni hér í umræðum í Ed. á síðasta þingi þar sem sú ályktun sem hv. þm. Friðrik Sophusson vék hér að kom til umræðu. Þessi skilningur er því ekki nýr. ( HBl: Keilisnes er ekki á Suðurnesjum.) Það er alveg ljóst að það sveitarfélag þar sem Keilisnes er er hluti af sveitarfélagabyggð Suðurnesja og hefur enginn maður dregið það í efa, mér vitanlega, fyrr en hv. þm. Halldór Blöndal.
    Hæstv. iðnrh. hefur einnig vikið hér að endurskoðunarákvæðinu og ákvæðinu um ábyrgð móðurfyrirtækja og hef ég ekki miklu við það að bæta nema ég vil árétta það sem ég hef sagt á öðrum vettvangi, að ég tel að endurskoðunarákvæðið í þessum samningi sé eitt mikilvægasta ákvæði orkuverðssamninganna og ég hef lýst þeirri afstöðu minni að ég er ekki tilbúinn til þess að taka endanlega afstöðu til orkuverðssamninganna fyrr en ég sé endanlegan texta endurskoðunarákvæðisins.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, ítreka það sem ég hef áður sagt, að mér hefur fundist ýmsir hafa nokkuð rangt mat á því hvar þetta mál væri á vegi statt. Ég sagði það fyrir nokkuð mörgum vikum síðan að það væri ýmislegt óunnið varðandi viðræður um orkuverð, varðandi viðræður um umhverfisskilyrði og mótun stefnu Íslendinga í þeim efnum. ( FrS: Er varaformaður Alþb. sammála formanni sínum um Keilisnes?) Það kemur sjálfsagt fram hér á eftir. Ég var að lýsa þeirri skoðun sem fólst í spurningu hv. þm. Friðriks Sophussonar, að samkvæmt þeim almenna skilningi sem ég hef talið vera við lýði tilheyrðu Suðurnesin ekki höfuðborgarsvæðinu og ég get getið þess hér með að þegar þessi ályktun kom til umræðu í þingflokki Alþb. lýsti hv. þm. Geir Gunnarsson þeirri skoðun sinni að svo væri ekki. Ég vil hins vegar láta það koma hérna fram að ég hef löngum talið að heppilegra væri, út frá almennri samstöðu um málið og út frá byggðaþróun í landinu, að skoða rækilega aðra staðsetningarmöguleika, hef gert það þó að ýmsir vinir mínir og félagar í Reykjaneskjördæmi hafi gagnrýnt þá afstöðu mína, en ég hef sannfærst um það

m.a. á síðustu vikum, eftir að hafa séð niðurstöður umhverfisverndarathugunar bæði varðandi Reyðarfjörð og Eyjafjörð, að það hefði orðið erfitt út frá umhverfisverndarsjónarmiðum að koma álverinu fyrir á þeim tveimur stöðum, en ef til vill hefði átt að skoða fleiri staði í þeim efnum.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo að síðustu láta það koma fram að sú atvinnustefna sem við höfum löngum talið vænlegasta hér í okkar landi hefur falið það í sér að varað sé við því að álver sé talið einhver allsherjarlausn í atvinnumálum okkar Íslendinga. Bygging álvers hlýtur ávallt að vera undantekning sem Íslendingar fallast aðeins á ef tilteknum skilyrðum og tilteknum áföngum í samningum er náð. Sú stefna sem hér var boðuð á áratugum áður, að mikill fjöldi álvera væri einhver allsherjarlausn fyrir atvinnulíf Íslendinga, reyndist ekki rétt, bæði vegna þess að útlendingar sóttu ekki eins stíft í byggingu álvera hér á Íslandi eins og margir óttuðust eða vonuðu eftir því hvaða afstöðu menn höfðu og eins vegna þess að vaxtarmáttur sjávarútvegsins, þjónustugreinanna og iðnaðarins á Íslandi var það mikill að við höfum getað náð hér gífurlegum vexti lífskjara á síðustu 20 árum án þess að slík viðbót kæmi. (Gripið fram í.) Þess vegna er mikilvægt að allir hv. alþm. átti sig á því að umræðan um byggingu álvers á Íslandi má ekki verða til þess að menn vanræki umræður um aðra atvinnuþróun í landinu. Hér er um sérstakt og afmarkað mál að ræða sem menn eiga að taka afstöðu til á grundvelli þeirra samninga sem unnið er að þegar þeirri samningavinnu er lokið.