Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Hv. málshefjandi var svo vingjarnlegur að víkja til mínum einum tveimur spurningum sem mér er að sjálfsögðu ljúft að svara og reifa þá nokkuð í leiðinni mín viðhorf til þessa máls eins og það nú stendur. --- Er hv. málshefjandi ekki mættur, hæstv. forseti? ( Forseti: Forseta er lífsins ómögulegt að hafa augun stöðugt á hv. 1. þm. Reykv. en ég veit ekki annað en hann sé staddur hér og hlýði á mál hæstv. ráðherra.) Það má í sjálfu sér einu gilda, virðulegur forseti. Ef hv. málshefjandi hefur ekki áhuga á umræðunni, þá höfum við það hinir hv. þm. og ræðum þetta af engu minni áhuga þó málshefjandi sé fjarri. En málshefjandi, hv. 1. þm. Reykv., spurði í fyrsta lagi, og kvaddi mig til svaranna af einhverjum ástæðum, hvort gilda mundi enn sú ályktun sem þingflokkur Alþb. gerði í þessu máli í aprílmánuði sl. og ítrekaði síðan í júní um nauðsyn þess að stefna bæri að staðsetningu álvers ef af yrði utan höfuðborgarsvæðisins. Svarið er já. Þessari samþykkt hefur ekki verið breytt. Ég lít svo til og hef engar ástæður til að ætla annað en að það sé enn eindreginn vilji þingflokks Alþb. sem stóð að þessari samþykkt að hafa staðsetninguna utan höfuðborgarsvæðisins, það sé sem sagt mun æskilegra að svo verði og þarf varla að fjölyrða um hvers vegna. Ég held að mjög margir líti á það sem verulegan ókost, galla á málinu í sjálfu sér, ef staðsetning þessa mikla fyrirtækis með tilheyrandi umsvifum verður hér á þessu atvinnusvæði með tilheyrandi áhrifum og veldur þar með að líkindum enn vaxandi aðstöðumun í ýmsum efnum milli þessa svæðis og landsbyggðarinnar. ( HBl: Er Keilisnes á höfuðborgarsvæðinu?)
    Og nú kemur önnur spurning sem einmitt var borin fram af málshefjanda og hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal man einnig, og hún er þessi: Er Keilisnes á höfuðborgarsvæðinu? Nú veit ég ekki til að dregin hafi verið nein löggilt landamæri utan um höfuðborgarsvæðið og sennilega er það svo að í hugum manna er það nokkuð á reiki eftir því hver á í hlut hverju sinni. Ég get því í raun ekki svarað út frá öðru en minni máltilfinningu í þessum efnum og þeim skilgreiningum sem ég mundi styðjast við og hafa tilhneigingu til að horfa til og reyna þá að setja í eitthvert rökrænt samhengi við málið. Hvað er hér verið að ræða um? Það eru væntanlega ekki landfræðileg mörk í þeim skilningi sem birtast mönnum á korti eða annað því um líkt heldur hið raunverulega svæði í þeim skilningi að þar sé um eina heild, eina atvinnu- og samskiptaheild að ræða. Þá er það auðvitað enginn vafi að Keilisnes lendir innan þess sem í öllum venjulegum skilgreiningum mundi falla undir atvinnusvæði, atvinnusókn, samskiptaheild hér á suðvesturhorni landsins. Þannig að mitt svar er já, Keilisnes í minni skilgreiningu á þessu fellur innan höfuðborgarsvæðisins. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar og svara þar fyrir sjálfan mig a.m.k., að hér eigi það við að það sé óæskilegt mjög og galli í sjálfu sér ef staðsetningin verður þessi vegna þess að ég óttast að því muni fylgja ýmiss konar miður æskileg áhrif á byggðarþróunina í landinu og er þá ekki á bætandi. Og þannig er það væntanlega þegar hver og einn gerir síðan upp hug sinn til þessa máls, einstaklingar og flokkar, að þeir ætla sér að vega og meta, vigta saman kostina og gallana, og taka svo afstöðu út frá því hvort verður þyngra. Og ég skipa þessari niðurstöðu, ef hún á að verða, hikstalaust gallamegin sem ókost í sjálfu sér, vegna þeirra óæskilegu áhrifa sem ég óttast að þetta hafi. ( Gripið fram í: En ekki mikinn galla.) Svo er það mikill vandi hvernig á að vigta það, hv. þm., og verða menn sjálfsagt seint sammála um það. Einhverjir kunna að líta á þetta sem svo stóran ókost í sjálfu sér að það eitt og sér nægi til þess að slá málið af. Ég segi ekki að ég gangi svo langt, ég segi það nú ekki, en ég er þar með ekki að segja að þetta sé eitthvað léttvægt í mínum huga.
    Þar með hef ég svarað spurningum hv. þm. og væri ekki ástæða til að tefja hér mikið lengur í stólnum með vísan til þess að örugglega gefast fleiri tækifæri til að ræða þetta mál áður en lýkur. Við væntum þess, nái það hér inn í Alþingi, þá fái menn þess færi að ræða það og þá jafnvel við rólegri eða hægari aðstæður en hér bjóðast í kvöld. Mig langar þó að hlaupa á örfáum punktum í þessu máli, svona til þess að skýra nokkuð mína afstöðu til þess eins og það stendur á stundinni en mun reyna að taka ekki í það mjög langan tíma.
    Ég er sammála þeirri stefnu sem minn flokkur hefur fylgt í þessum efnum að við útilokum að sjálfsögðu ekki uppbyggingu orkufrekrar stóriðju sem valkost í okkar atvinnumálum og höfum ekki gert um langa hríð. Óþarft ætti að vera í sjálfu sér að leiðrétta þann misskilning sem stundum bryddar á í þeim efnum, nægir að vísa þar til sögu flokksins. Hann hefur iðulega átt aðild að því að slíkir kostir væru kannaðir og jafnvel þeim hrint í framkvæmd, en við höfum sett og setjum enn mjög skýr skilyrði fyrir því að þessar framkvæmdir rísi. Með öðrum orðum, við teljum ekki að það eigi að gefa sér fyrir fram að þær séu góðar eða vondar, heldur eigi að kanna málin og taka síðan afstöðu þegar efnisatriðin liggja fyrir. Og það ætti að vera flestum þeim sem eitthvað hafa fylgst með þessum málum nokkuð kunnugt hvaða meginskilyrði við höfum sett og setjum enn. Það fyrsta er forræði Íslendinga sjálfra fyrir þessum atvinnurekstri þannig að við getum haft nokkra hönd í bagga með því hvernig að honum er staðið, hvernig arði er ráðstafað, hvernig búið er að starfsfólki, hvernig umhverfi málsins í heild sinni lítur út. Og þar er að sjálfsögðu krafa okkar að þetta sé að einu og öllu leyti íslenskur atvinnurekstur, heyri undir íslensk lög, dómstóla o.s.frv.
    Í öðru lagi setjum við og höfum alltaf gert, og lagt kannski á það skýrari og þyngri áherslu en flestir aðrir gegnum tíðina þó margir taki þar undir, ævinlega sett mjög skýrar kröfur fram um það að svona starfsemi megi ekki spilla umhverfinu. Henni megi ekki fylgja mengun og ég hygg að það hafi verið einn af

þingmönnum Alþb. á árunum 1966 og 1967, reyndar sá sem hér var minnst í dag, sem einna fyrstur manna setti með mjög skýrum og skilmerkilegum hætti fram skoðanir sínar í sambandi við umhverfisáhrif og mengun sem leiða kynni af stóriðju af þessum toga og væri ástæða til að rifja upp þau merku orð sem þá voru sögð langt á undan sinni samtíð og flestir tækju núna undir, hygg ég, þó þeir væru fáir sem gáfu því gaum á þeim tíma.
    Í þriðja lagi, að sjálfsögðu verður orkuverðið sem einna mestu skiptir um arðsemi þjóðarbúsins að vera fullnægjandi. Það verður að vera nógu hátt til þess að greiða óyggjandi til baka á hæfilegum tíma þann kostnað sem við Íslendingar leggjum þarna út í og það má undir engum kringumstæðum koma niður á öðrum raforkunotendum í landinu. Það er ekki sanngjarnt og brýtur reyndar í bága við lög. En þar þarf að búa þannig um hnútana að enginn vafi geti á leikið.
    Í fjórða lagi þarf að sjálfsögðu hið þjóðhagslega samhengi málsins að vera sæmilega skýrt, það þarf að vera ljóst að málið sem slíkt í heild sinni sé þjóðhagslega skynsamleg fjárfesting og skynsamleg ráðstöfun. Og með því er ég að segja að það verður að skoða málið, ekki bara þröngt í samhengi út frá sjálfu sér, heldur líka í víðara samhengi, þannig að allir þættir þess séu metnir inn. Og þá er ég m.a. að tala um hluti eins og byggðaþróunina í landinu og önnur slík óbein áhrif sem ákvörðun af þessu tagi getur haft. Menn verða að muna eftir reikningum sem geta birst mönnum á öðrum sviðum í þjóðarbúskapnum þegar metnar eru tekjurnar sem þarna eru í sjónmáli, gætu orðið í hendi. Og ég óttast að enn sé nokkuð í land að náð hafi verið utan um málið í heild sinni að þessu leyti, þá á ég við það sem hér er til umfjöllunar núna. Þar er að mörgu að hyggja og mér finnst gæta nokkurrar tilhneigingar, svo ekki sé fastar að orði kveðið, til þess að líta í raun og veru mjög þröngt á málið út frá hagsmunum fyrirtækjanna annars vegar sem verið er að semja við og hvað sé þeim hagstætt til að mynda í sambandi við staðarval og út frá hagsmunum fyrirtækisins sem á að selja orkuna, þ.e. Landsvirkjunar, og ríkissjóðs vegna skattteknanna hins vegar þröngt. En ef, svo að dæmi sé tekið, þjóðarbúið kann að lenda í verulegum útgjöldum á næstu árum vegna byggðaröskunar sem leiddi af uppsetningu þessa mikla fyrirtækis hér á höfuðborgarsvæðinu, þá koma þar til bakreikningar sem verður auðvitað að draga frá ekki síst í afkomunni hjá ríkissjóði þegar hans hagur er þarna metinn. Það kann vel að vera að Landsvirkjun gæti sem slíkt, sem fyrirtæki látið sér það í léttu rúmi liggja og er ég þó ekki viss um það, en í öllu falli ekki ríkiskassinn.
    Síðan ætla ég hafandi gert grein fyrir þessum fyrirvörum að reifa það hvernig ég met stöðuna, hvar við erum á vegi stödd í þessari samningagerð, hvað hefur þar áunnist gott og hvað er ekki í nógu góðu horfi a.m.k. enn þá. Ég tel að það hafi náðst fram og því ber að fagna að sjálfsögðu og í raun verið viðurkennt að við eigum ekki að taka það í mál, við eigum ekki að ljá máls á því að svona fyrirtæki, svona atvinnurekstur upphefjist hér í landinu nema hann lúti íslenskum lögum og íslenskum dómstólum og falli undir þær reglur sem við erum að setja öðrum á sama tíma. Það er vissulega ánægjulegt að það er staðfest í þessu tilviki. Þó að við höfum vissulega áður staðið að uppsetningu fyrirtækja með útlendingum sem þetta hafa gert eins og á Grundartanga, þá er hér um það að ræða að jafnvel þótt fyrirtækið yrði í meirihlutaeigu útlendinga mun það gera þetta engu að síður.
    Hvað skattamálið snertir hefur þegar verið gerð grein fyrir því hér og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en, eins og hefur komið fram, að þar sé í sjónmáli góð niðurstaða og fyllilega samboðin þeim kröfum sem við höfum reist á þessu sviði, að fyrirtækin greiði með eðlilegum hætti skatta og skyldur eins og aðrir aðilar í landinu.
    Þá kem ég að staðsetningunni sem a.m.k. í þessari umferð virðist af hálfu viðræðuaðilanna vera orðin niðurstaðan þó svo að stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn og Alþingi, hafi að sjálfsögðu ekki lagt blessun sína yfir það mál, heldur sé þar einungis á ferðinni niðurstaða þeirra sem staðið hafa í viðræðunum enn sem komið er. Og ég leyni ekki þeirri skoðun minni að ég tel að þar hafi miður til tekist, að það sé í raun hin herfilegasta uppákoma gagnvart byggðastefnu og byggðaáherslum ef þetta á að verða niðurstaðan. Ég segi það ósköp einfaldlega út frá ákvæðum stjórnarsáttmálans og þeim áherslum sem fleiri en einn og fleiri en tveir stjórnarflokkanna hafa lagt í þessum efnum, þá verður því ekki í móti mælt að staðsetning úti á landsbyggðinni hefði verið mun æskilegri niðurstaða. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Það bíður þá síns tíma að ræða það ítarlegar en þetta er mín skoðun. (Gripið fram í.) Ég sagði að það liggur fyrir að stjórnvöld, þ.e. hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa fyrir sitt leyti endanlega staðfest þessa niðurstöðu viðræðuaðilanna um staðsetningu. Það bíður þess væntanlega að málið í heild sinni hljóti afgreiðslu á viðkomandi stöðum.
    Um orkuverðið segi ég það að ég deili þeim áhyggjum og efasemdum sem ýmsir hafa sett fram á undanförnum dögum og vikum um að það sé í lægsta lagi og kveð þá ekkert fastar að orði en það, auk þess sem viðurkennt er af öllum sem þetta hafa skoðað að í þeirri orkuverðsformúlu sem lögð er til grundvallar er fólgin umtalsverð viðskiptaleg áhætta svo að notuð séu til að mynda orð forstjóra Þjóðhagsstofnunar, ég vona nokkurn veginn orðrétt, sem hann viðhafði aðspurður í sjónvarpi, að í þessu væri að sjálfsögðu fólgin viðskiptaleg áhætta, því þýddi ekki að mótmæla. Þetta sér hver maður í hendi sér og menn verða síðan að meta það hversu mikla slíka áhættu þeir telja rétt að taka. Að sönnu er þarna líka fólginn möguleiki á mikilli gróðavon. Það er alveg laukrétt sem hér hefur komið fram og hv. síðasti ræðumaður gerði m.a. að umtalsefni. Hann lítur vonaraugum til gróðamöguleikanna og það er allt í góðu lagi með það. En aðrir kunna að hugsa sem svo að öryggið sé gróðavoninni mikilvægara eins og ræðumaður. Og ég segi það sem mína skoðun alveg hikstalaust að ég væri tilbúinn til að gefa upp á bátinn eitthvað af þessari mögulegu gróðavon í framtíðinni, einhvern tíma þegar komið er vel inn á næstu öld, fyrir meira öryggi, fyrir minni áhættu í svona stóru fjárfestingarmáli fyrir þjóðarbúið. Skuldsetning af þeirri stærðargráðu sem hér fer í hönd, ef af verður, er ósköp einfaldlega svo mikil, hún viktar það þungt í okkar erlendu lántökum t.d. að ef henni fylgir veruleg viðskiptaleg áhætta ofan í kaupið, þá hljóta að renna á menn tvær grímur í þeim efnum. 35 -- 40 milljarða lántökur vegna þessara virkjanaframkvæmda eru ekkert smámál. Þær auka okkar erlendu skuldir um 15 -- 20% og menn hljóta að vilja búa þar nokkuð tryggilega um hnútana. Ég lýsi þess vegna því viðhorfi mínu að á það bæri að láta reyna hvort unnt væri að ganga þar frá hlutunum þannig að meira öryggi yrði selt, ef svo má að orði komast, fyrir eitthvað minni gróðavon.
    Um umhverfismálin vil ég segja þetta. Því hefur verið haldið fram og fullyrt núna um langt skeið að ekkert annað kæmi til greina en ýtrustu og fullkomnustu mengunarvarnir. Þetta hafa menn meira og minna gefið sér sem útgangspunkt í umræðunni og menn hafa, held ég, trúað því almennt í landinu að það stæði ekki til að útkoman yrði nein önnur en ýtrustu, fullkomnustu mengunarvarnir. Ég get þess vegna ekki leynt vonbrigðum mínum með það ef sú á að verða niðurstaðan að þar verði slakað á vegna þess að það er alveg sama hvernig menn fara í kringum það að þar sem kröfurnar eru strangastar, þar sem menn vilja vera sem metnaðarfyllstir í þessum efnum, þar gera menn fyrir það fyrsta kröfur um vothreinsibúnað og í öðru lagi eru þar ákveðin mengunarmörk mjög ströng og ég hygg jafnvel strangari en þau sem okkur hefur verið kynnt að til standi að setja inn í starfsleyfi álversins. Ég á hér við þau sem nú eru sett á Norðurlöndunum og stendur til að setja í Evrópu gagnvart nýrri starfsemi af þessu tagi. Ég geri ekki mikið með samanburð við það sem liðið er í þessum efnum af þeirri einföldu ástæðu að það er einmitt á þessum missirum sem við erum að ræða þessa hluti hér heima sem víða er verið að gera harðari kröfur í þessum efnum. Mér er t.d. kunnugt um það og væri fróðlegt að heyra hvað umhvrh. hefur að segja okkur um umræður í Evrópu um svonefndan evrópskan staðal á þessu sviði og hvort það er rétt sem ég hef heyrt að það standi til að mynda til að setja mörkin við 1 / 2 kg, 500 grömm af flúor per tonn af unnu áli. Ég tel að það samræmist illa bæði þessari umræðu sem haldið hefur verið að þjóðinni um að ekkert annað standi til en ýtrustu mengunarvarnir og ég tel að það samrýmist þó enn verr þeirri ímynd af Íslandi sem við höfum verið að reyna að halda á lofti og kynna, að hér sé sérstaklega hreint og ómengað land og ætlunin sé að varðveita það. Hér séu einstakar aðstæður til að framleiða holl og ómenguð matvæli, hér sé að finna eitt besta vatn í heiminum sem við erum reyndar að hefja útflutning á í verulegum mæli vonandi og er þó þegar nokkuð að gert og hér sé ferðamannaland hreinna og fallegra en víðast hvar annars staðar fyrirfinnist. Ég tel að það væri slæm uppákoma og heldur léleg auglýsing út á við ef við sætum svo uppi með það að vera að því staðnir að reisa hér allstórt --- næstum að segja risastórt álver --- án þess að geta staðið á því og haft rétt fyrir okkur að það væri um ýtrustu mengunarvarnir að ræða. Þó svo að staðbundnar aðstæður hér geri það að verkum að það komi ekki til með að valda kannski miklum spjöllum í umhverfinu þó eitthvað væri slakað á. Út af fyrir sig tel ég enga ástæðu til að draga það í efa að okkur mundi af þeim sökum vel líðast að hafa þarna mengunarmörk eitthvað hærri en þau allra ströngustu. En ég er hér meira að hugsa um orðstír okkar og ímynd og það hvaða metnað við viljum setja okkur sjálf í þessum efnum. Og þar á ég sérstaklega við útlosun á brennisteinsdíoxíði og koldíoxíði. Það er að sjálfsögðu dapurleg niðurstaða ef við lendum í því Íslendingar, hafandi skrifað undir fleiri en eina og fleiri en tvær alþjóðlegar samþykktir um að draga úr þessari mengun eins og kostur er, að vísu með fyrirvara vegna okkar sérstöku aðstæðna, að fara í þveröfuga átt og auka umtalsvert, jafnvel svo skiptir fleiri tugum prósenta, allt upp í 50 -- 90% eftir því hvernig að verður staðið, útlosun þessara efna. Og ég hefði haft gaman af því að heyra umhvrh. til að mynda útlista það fyrir mér hvernig hann ætlar að útskýra fyrir kollegum sínum á Norðurlöndunum slíka niðurstöðu og hvernig hún rími saman við undirskrift Íslands á norrænu umhverfisverndaráætluninni. Þar er einmitt tekið fram að þó svo að Ísland hafi fyrirvara á og treysti sér ekki til að skrifa undir markmið samþykktarinnar um að draga úr brennisteinsdíoxíðlosun um 50% eins og hin Norðurlöndin hafa einsett sér að gera, það er skiljanlegt að það standi í okkur eins og okkar iðnaði og aðstæðum er háttað, en það er langur vegur á milli þess að draga úr brennisteinsdíoxíðlosun um 50% og yfir í hitt að auka hana kannski um 50 -- 90%. Það er heilmikið þarna á milli. Og það sem ég er einfaldlega að segja er það, ég tel að það veiki okkar stöðu í þessum efnum ef við getum ekki sýnt fram á að um ýtrustu og fullkomnustu mengunarvarnir sé að ræða og þess vegna sé hér ekki á ferðinni meiri aukning en óumflýjanlegt hafi verið vegna þessarar atvinnustarfsemi. Og þá tel ég reyndar að við getum með stolti sýnt fram á að með því að slík álframleiðsla færi fram á Íslandi og orkan væri raforka en ekki kol eða olía og að hér væru ýtrustu hreinsunartæki notuð drifin með raforku, þá væri hér um það bil eins lítil mengun við álframleiðslu og hægt væri að hugsa sér yfirleitt í heiminum. Og þá er það að sjálfsögðu jákvæð niðurstaða í stærra samhengi séð að þetta sé gert hér en t.d. ekki annars staðar þar sem orkugjafarnir væru kol eða olía. En auðvitað er það alveg ljóst að við getum teflt því fram á móti að hefði þetta orkuver t.d. ekki risið hér heldur á meginlandi Evrópu, sem er að vísu ólíklegt því að okkur er sagt að það bíði einhver lóð undir það í Kanada, en ef til að mynda þetta drægi úr þörfum fyrir álframleiðslu með kolum eða olíu þá væri það jákvæð

niðurstaða.
    Það er enginn vafi á því í mínum huga að þessi áfangi sem hér er á ferðinni er mjög stór og það er ókostur í sjálfu sér að mínu mati fyrir okkur að hann er svona stór. Það væri heppilegra að skrefin væru minni og jafnari, því fylgdi minna umrót, minna rask og það mundi auðvelda ýmislegt í sambandi við fleiri valkosti í staðsetningu þessara fyrirtækja. Þess vegna hefði ég talið það að mörgu leyti heppilegra og falla betur inn í okkar virkjanamynstur ef tekist hefði að semja um minni áfanga annaðhvort í þessu tilviki eða öðrum.
    Um hið þjóðhagslega samhengi málsins í sjötta lagi, þá vísa ég til þess sem ég áðan sagði. Ég tel að það sé að mjög mörgu að hyggja þegar slík stórákvörðun er tekin og það megi ekki gleyma því að horfa á hin óbeinu áhrif víðar úti í samfélaginu og efnahagslífinu en gert hefur verið. Mér finnst hafa gætt mikillar tilhneigingar til þess að skoða þetta þröngt, nota einföld líkön t.d. í sambandi við vinnuframboð og eftirspurn sem gefa mönnum líka einfaldar niðurstöður.
    Að lokum, hæstv. forseti, er það mín niðurstaða og mín sannfæring í þessu máli og ég vil fara um það nokkrum orðum að engin ástæða sé til þess fyrir okkur Íslendinga að sætta okkur við annað en mjög góða samninga í þessum efnum ef af á að verða. Það er engin ástæða til þess að lúta hér að slökum samningum. Við eigum margra góðra kosta völ að mínu mati í þessum efnum. Það er enginn vafi á því, ég hitti engan sérfræðing innlendan eða erlendan sem ekki telur verðmæti þeirrar auðlindar sem við sitjum hér á, þ.e. orku hverri fylgir ekki mengun að beisla, fara vaxandi. Ég hef engan hitt sem er annarrar skoðunar. Og ef einhver slíkur væri hér inni í salnum þá væri gaman að hann gæfi sig fram vegna þess að þrátt fyrir allar þær gífurlegu rannsóknir sem eiga sér stað í heiminum í kapphlaupi í leit að nýjum orkugjöfum þá er niðurstaðan enn sú sama að svona orkupottur í formi vatnsorku og jarðhitaorku sem við sitjum á á þeim tímum þegar vaxandi kröfur eru gerðar í sambandi við umhverfismál alls staðar í kringum okkur hljóti að vera ört vaxandi auðlind. Og ég held að það eitt og sér nægi til þess að rökstyðja að við eigum ekki að flýta okkur um of í þessum efnum og ekki að lúta hér að neinu öðru en því sem við sannanlega teljum góða samninga. Það eru ekki rök fyrir öðru. Málflutningur af því tagi að hér standi menn með eitthvert tækifæri í höndunum sem næstum má segja að komi aldrei aftur, hann er hættulegur vegna þess að við höfum áður brennt okkur á slíku.
    Því var haldið fram hér undir lok 7. áratugarins að við yrðum að stökkva á samninginn um Ísal. Það væri alveg síðasti sjens vegna þess að handan við þröskuldinn væri kjarnorkan og mundi gera rafmagnið svo ódýrt að eftir nokkur ár mundi enginn maður líta við Íslendingum því að þá yrði svo hræbilleg kjarnorka í boði út um allt, þ.e. raforka framleidd með kjarnorku, að við hefðum enga möguleika. Hvernig fór? Og ég segi, ég held að við ættum að láta okkur það að

kenningu verða og ekki rasa um ráð fram. Það eru engin efni til þess. Við búum að mikilli og vaxandi auðlind og það er ekkert sem bendir til annars en að hún haldi gildi sínu með fullum vöxtum. Þá aðstöðu eigum við að nota okkur og þó svo að á undangengnum árum kunni það að vera rétt að menn hafi ekki staðið í röðum nagandi þröskuldinn til þess að komast inn og byggja hér orkufreka stóriðju þá eru einfaldlega aðstæður að breytast og það mjög hratt núna vegna þeirra ströngu takmarkana og kvaða sem iðnríkin hafa þegar samið um að leggja á sinn iðnað. Er það ekki þannig að Vestur-Þjóðverjar til að mynda hafi verið í fararbroddi þeirra ríkja á meginlandi Evrópu sem ætla sér mjög metnaðarfulla hluti í sambandi við að draga úr brennisteinsdíoxíðmengun og koldíoxíðs og hvernig fara þeir að því? Þeir hljóta að þurfa að ráðast á meginuppsprettuna sem er orkuframleiðsla með lífrænum orkugjöfum. Svo einfalt er það mál. Og þá verða hin gríðarstóru orkuver sem nota brúnkol og kol, olíu, jarðgas o.s.frv. öll að grípa til ýmiss konar takmarkandi ráðstafana sem hljóta að hækka orkuverðið, sem hljóta að styrkja samkeppnisstöðu okkar. Þess vegna eigum við ekki að rasa um ráð fram. Það eru öll rök sem mæla fyrir því að við látum hér reyna á til þrautar hvort við náum nægjanlega hagstæðum samningum sannanlega og án of mikillar áhættu og þá skulum við samþykkja þetta og ég þar með talinn, en ef ekki þá eigum við að vera á móti þessu, þá eigum við ekki að gera þetta. Svo einfalt er það mál. (EJ: Samþykkja þá álverið, meinarðu, eða hvað?) Já, þá skulum við gera slíka samninga ef þeir eru nógu hagstæðir, hv. þm. En ef þeir eru það ekki og þá er ég að tala um allan pakkann, þá eigum við ekki að samþykkja þá. Við eigum ekki að stinga þá hausnum í sandinn og samþykkja þá samt, eins og mér virðist stundum að sumir vilji gera.