Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég varð nú eiginlega fyrir nokkrum vonbrigðum með sumt sem kom fram hjá hæstv. landbrh. áðan það sem hann var að tala um byggðastefnu með því að koma álveri út á land. Minn haus er það þröngur að hann skilur ekki að það geti í því falist nokkur byggðastefna, hvar sem það verður sett niður. Það er auðvitað fjölgun á því svæði þar sem álverið verður sett og það dregur úr annars staðar af því hvað þetta er stórt fyrirtæki.
    En mér fannst merkilegt að heyra í hv. 10. þm. Reykv. Hann er líklega búinn að vera í áratug í þessari viðræðunefnd um álver, ég á við Guðmund G. Þórarinsson. Og nú segir hann í ræðustól, sem mér þótti merkilegt, eða það kom fram hjá honum að hann væri jafnvel hræddur um að svo gæti farið að þetta hugsaða álver mundi ekki starfa í 25 ár. Og þess vegna þyrfti að tryggja með einhverjum hætti greiðslu fyrir orkuna, þ.e. 81% af þeirri orku sem er verið að selja eða þar um bil. Þá sleppi ég forgangsorkunni.
    En gerir hv. þm. sér grein fyrir því að það mundi aldrei gerast nema álverð væri komið mjög neðarlega. Við höfum að vísu reynslu núna af Grundartangaverksmiðjunni. Nú er hún rekin með ekki hálfum afköstum og þannig gengur nú þetta til. Fyrir einum tveimur árum var hún rekin með miklum hagnaði en nú með tapi.
    Mér barst í hendur bréf þegar ég var að ganga hér út úr húsinu sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa upp. Það er samþykkt frá stjórn Landverndar sem beint er til alþingismanna.
    ,,Eitt af markmiðum Landverndar er að vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum. Stjórn Landverndar harmar því þau áform sem uppi eru um byggingu og rekstur mengandi stóriðju hér á landi.
    Stjórn Landverndar beinir því til stjórnvalda og Alþingis að ekki verði ráðist í byggingu nýs álvers hérlendis á sama tíma og iðnaðarþjóðir heims gera ráðstafanir til að draga úr mengun. Umrætt álver mun auka mengun allverulega, jafnvel þó að fullkominn mengunarvarnabúnaður verði notaður.
    Ísland hefur alla möguleika til að vera lítið mengað land og því er afar mikilvægt að vinna af heilum hug að því markmiði.
    Stjórn Landverndar hvetur ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að leita leiða í iðnaðar - og atvinnuuppbyggingu þannig að umhverfinu stafi ekki ógnun af. Enn fremur er því beint til sömu aðila að vinna að skýrari stefnumörkun í umhverfismálum og nauðsynlegum aðgerðum þar að lútandi."
    En hver er þessi stjórn Landverndar? Hvaða félagsskapur er þetta? Lengi vel var talið að það væru allir með byggingu álvers. En hvað er ekki að gerast? Í stjórn þessara samtaka eru tíu menn talsins. Þeirra á meðal er fulltrúi frá Hollustuvernd ríkisins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Kaupmannasamtökunum og Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Enn fremur Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasambandið og Bílgreinasambandið, sem sagt öll eiginlega fjöldasamtök

í landinu. Á þessum fundi voru átta menn af tíu og tillagan var samþykkt samhljóða. Tveir fulltrúar voru þarna ekki, það var ekki maður frá Landsvirkjun og ekki frá Ferðafélagi Íslands.
    Hvernig er nú reynslan af svona fyrirtækjum, hæstv. umhvrh.? Hvað hefur umhvrn. gert í því að laga það hörmungarástand sem er í álverinu í Straumsvík? Ég er hér með blaðagrein sem kom í Dagblaðinu fyrir nokkrum dögum frá varatrúnaðarmanni í kerskálanum hjá Ísal. Ég ætla ekki að lesa þessa blaðagrein upp nú en ég á kannski eftir að gera það síðar. Það er hrein hörmung hvernig ástandið er í Straumsvík. En hverju var lofað í upphafi? Hverju var lofað 1966 þegar samningurinn um álverið í Straumsvík var samþykktur hér á Alþingi? Þá var lofað að það yrði séð um að ekki yrði meiri mengun frá þessu álveri en sambærilegum verksmiðjum erlendis. Það var farið fram á það af Hollustuvernd ríkisins að þeir settu upp mengunarvarnir. Það var gert á árinu 1973. Það var ekki búið fyrr en 1982, eftir níu ár. Og það var ekki rannsakað hvernig ástandið var fyrr en 1986.
    En hvernig átti þetta að vera eftir því sem er annars staðar? Menn eru hér með hugmyndir um að geta jafnvel farið ofan í 300 grömm á hvert unnið áltonn. En mér er sagt af mönnum sem eru færastir í þessu og þekkja best til að það hafi nú ekki komist lengra en niður í 0,8 kg og það sé hrein bjartsýni og barnaskapur að halda að það komist ofan fyrir eitt kíló að meðaltali á ári. Þetta segja þeir sem best þekkja.
    Ég vil skora á hæstv. umhvrh. að upplýsa hvernig það stendur í Straumsvík og hvað á að gera. Þetta er sú reynsla sem við höfum og loforð eru nú létt á vog eins og ljómi er af gulli stafar. Þannig er reynslan.
    Mér hnykkti við þegar ég las skýrslu hæstv. iðnrh. Hann er ekki hér, ég hefði kosið að hann væri hér í salnum. ( Forseti: Forseti mun láta sækja hann því hann mun vera hér í húsinu.) En á meðan hann er ekki hér inni ætla ég að geyma mér það sem ég ætla að beina til hans.
    Í stefnu Samtaka jafnréttis og félagshyggju segir:
    ,,Samtökin eru ekki andvíg orkufrekum iðnaði en setja þau skilyrði að hann standi undir raunverulegum orkukostnaði og spilli ekki náttúru landsins.``
    Nú eru hér reiknimeistarar, verkfræðingar og hámenntaðir menn sem hljóta að hafa sett sig niður í það að athuga hvernig er staðið að þessum málum. Við heyrðum að meiningin er hjá hæstv. umhvrh. að slaka á ráðstöfunum til þess að draga úr mengun eins og aðrir gera, þ.e. að vothreinsibúnaður verði ekki settur upp, a.m.k. til að byrja með.
    En þá er það orkuverðið. Ég hef undir höndum áætlun frá Landsvirkjun upp á 15 virkjunarkosti. Þetta er þeirra áætlun, það er þeirra útreikningur hver kostnaðurinn er. Mér skilst að það sé meiningin að orkuverðið sé miðað við þær virkjanir sem er í ráði að hefjast handa um ef af þessum samningi verði plús Blönduvirkjun, en í þessu skjali sem ég hef hér fyrir framan mig er talið að hún muni kosta á verðlagi

1. des. sl. 12 milljarða 654 millj.
    Ef menn reikna hvað allar þessar virkjanir kosta, sem eru ekki nema 8000 gwst. á ári, þá kemur í ljós að hver orkueining kostar 15 millj. 832 þús. kr. Ef það ætti að taka meðaltal af þeim 8000 gwst. á ári þá mundu þessar framkvæmdir allar, þ.e. línulagnir plús spennuvirki, miðað við áætlun Landsvirkjunar sem ég hef ekki trú á að standist, þ.e. 1,2 millj. sem þeir segja að það kosti, þá er það yfir 55 milljarða.
     Nú skilst mér að bara eigi að reikna út frá þessum ódýrustu kostum sem nú á að virkja. Og kostnaður við suma, eins og stækkun Búrfellsvirkjunar, fimmti áfangi Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatns, að þar sé búið að leggja í verulegan kostnað nú þegar. Og þessi tala sem hér er inni, hún sé sá viðbótarkostnaður sem á nú að fara í.
    Hér er líka talað um Nesjavallavirkjun sem er sú langódýrasta, það munar miklu. En þó að maður taki bara þessar virkjanir þá mundi þetta kosta 48 milljarða miðað við verðlag 1. des. Og hvernig eru þá þessir samningar? Ég vil fá það í hendur, t.d. frá hv. 10. þm. Reykv. sem er búinn að vera í tíu ár á þessu flakki á milli landa til þess að reyna að gabba einhvern til þess að koma hingað til þess að byggja álver. Ég sé ekki annað en að miðað við það orkuverð sem er verið að tala um verði tap á þessu næstu 20 árin a.m.k. Samt er því haldið fram einhvers staðar að það verði búið að borga allar skuldirnar skömmu eftir aldamót, en það hljóta að vera snillingar sem stjórna þessum málum. Ég sé ekki betur en að ef miðað er við þá vexti sem nú eru --- ja, við skulum bara taka vextina hérna. Mér skilst að hæstv. fjmrh. búist við að hægt verði að taka nokkuð að láni hér innan lands. En hvernig eru vextirnir sem fólkið verður að bera í landinu? Raunvextir eru það lægsta 8,25 upp í 8,75% og svo er leyfi frá Seðlabankanum til að bæta 2% eða jafnvel meira við þegar skuldbreytt er. Þetta eru þau kjör sem fólkið í landinu verður að búa við þannig að mér þykir nú dálítið merkilegt þegar verið er að tala um 5,5% og miða það við það ástand sem nú ríkir í heiminum, en sýnilegt er að mikil eftirspurn verður eftir fjármagni á næstu árum erlendis, það gerir opnun Austur - Evrópu. Ég get þess vegna ekki séð hvernig á að ná endum saman með orkuna þar sem þetta er allt á sömu bókina lært.
    Ég var að lesa skýrslu hæstv. iðnrh. um nýtt álver. Ég hef hlaupið yfir hana, þetta eru 70 -- 80 blaðsíður. En ég rak augun í villu, heldur betur, sem ég þekki vel. Það er sagt að ef þetta álver hefði verið sett í Hvammslandið í Eyjafirði væru það tíu bæir sem hefðu orðið að hætta sinni framleiðslu og mjólkurframleiðslan á þessu svæði væri 109 þús. lítrar. Það er ekki einu sinni sú mjólk sem má framleiða í Hvammi, hvað þá á hinum jörðunum. Þegar svona villur geta verið um það sem maður veit, hvernig er þá skýrslan að öðru leyti? Ég spyr.
    Með þessar 10 jarðir, þá eru þar jarðir sem þeir sem hafa skoðað þetta telja að verði gróðurskemmdir á en ekki það svæði sem grasbítum mundi stafa hætta af ef álver hefði verið þarna byggt. Og ég vil

bara minna á það að í skýrslunni frá 1986 segja hinir norsku sérfræðingar: ,,Það hefur ekki verið mælt hver dreifingin er inn Hörgárdal eða framan við Akureyri.`` Ég hef spurt þá marga að því hvaða lærdóma væri hægt að draga af síldarreyknum sem var frá Hjalteyri í gamla daga, hvernig hann lagðist yfir byggðina, og svarið er að það muni gefa vísbendingu um það hvernig þetta mundi verða með loft frá álveri. Og það var stundum þannig að hann lá yfir byggðinni, yfir dölunum, alveg inni í Saurbæjarhreppi, inni í Hörgárdal og Öxnadal, svo dögum skipti, þegar þannig viðraði.
    Ég hef látið þau orð falla við hæstv. iðnrh. að aldrei hafi verið meiningin að byggja álver annars staðar en á Reykjanesi. Nú er ég ekki að væna ráðherrann um það að hann hafi verið að blekkja menn. En ef svo er ekki hefur hann ekki skilið það sem felst í þeim orðum sem hann viðhafði og margendurtók: Byggjendurnir áttu að ráða staðarvalinu. Byggjendurnir áttu að ráða því og þeir gerðu það. Og þegar ég heyrði þessi ummæli --- ekki einu sinni heldur margoft --- þurfti ekki að segja mér hvar það yrði byggt, enda náttúrlega sannleikurinn sá að það væri engin glóra í að byggja svona álver í Reyðarfirði eða Eyjafirði. Og það kemur fram í þessari skýrslu í sjálfu sér.
    Mig langar til að spyrja hæstv. iðnrh. að því, vegna þess að mér er kunnugt um það að Eyfirðingar og Reyðfirðingar hafa kostað miklu til í sambandi við dansinn í kringum álverið, hvort ekki verði greiddar, a.m.k. að verulegum hluta, allar þær milljónir sem munu hafa farið í sambandi við þann dans. Ég vil enn fremur leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. iðnrh. sem hljóða þannig, með leyfi forseta:
    Hverjar eru þær forsendur sem hæstv. iðnrh. gefur sér til þess að fá arðbæra útkomu miðað við umræddan samning? Er meðtalinn sá virkjunar - og línukostnaður, ásamt þéttum og spennivirkjum, sem þarf til þess að fullnægja 200 -- 215 þús. tonna álbræðslu? Nú er í sjálfu sér verið að semja um helmingi stærri verksmiðju sem menn hafa leyfi til að byggja á næstu 10 -- 15 árum, og hvað þá með orkuverðið síðar? Er ekki rökrétt að miða orkuverið við meðaltal af þeim virkjunarkostum sem áætlanir liggja fyrir um, ekki síst vegna þess að í raun er verið að semja um álbræðslu sem á að framleiða 400 -- 430 þús. tonn af áli? Og fyrir slíka álbræðslu þarf 6000 -- 6200 gwst., þ.e. alla vega 3 / 4 af því sem þessir virkjunarkostir framleiða.
     Með hvaða rekstrarkostnaði reiknar ráðherrann fyrir þetta fyrirtæki? Hver er afskriftartíminn á vatnsvirkjunum, á gufuvirkjunum og á háspennulínum og spennuvirkjum?
    Hversu háar fjárhæðir eru reiknaðar til að fylgjast með mengun og því að draga úr tjóni af hennar völdum, t.d. vegna slysa?
    Hvernig eru helstu virkjunarkostirnir metnir til verðs? Er þar ekki farið eftir kostnaðaráætlunum Landsvirkjunar?
    Loks væri fróðlegt að fá að vita um ávöxtunarkröfur Atlantsálsaðilanna af fjármagni þeirra í álbræðslunni. Ég man eftir að talað var um það að fyrsta starfsárið, 1995, mundu þeir fá 2 milljarða 300 millj. og þá var reiknað með að þeir hefðu lagt til eigið fé, um 12 milljarða, þ.e. ef þetta er rétt skilið --- þá er ávöxtunarkrafan rúmlega 19%.
    Ef orkuverðið verður miðað við framkvæmdakostnað við Blönduvirkjun ásamt ódýrustu virkjunarkostunum miðað við verðlag 1. desember, samkvæmt heildarkostnaðaráætlun Landsvirkjunar eru það um 48 milljarðar. Hvað þurfum við þá að fá fyrir orkueininguna til þess að orkusalan reynist arðbær? Hæstv. ráðherra hefur margoft sagt að það komi ekki til greina annað en að salan verði arðbær. Eða telja einhverjir hv. þm. að það eigi að ganga þannig frá málum að það sé ekki arðbært? Ef orkuverðið verður hins vegar miðað við meðaltalskostnað af þessum 15 virkjunarkostum sem ég nefndi, sem yrði þá a.m.k. 55 milljarðar, hvað þurfum við þá að fá fyrir orkueininguna til að hún reynist arðbær? Og í síðasta lagi, ef enginn álsamningur yrði gerður og Blönduvirkjun lögð til hliðar, hve mikið væri hægt að lækka raforkuna til almenningsveitna á næstu tíu árum?
    Það kom fram í máli frummælanda áðan að það væri Landsvirkjun sem ætti að semja um orkuverðið og mér skildist hann telja að það þyrfti þá ekki að koma hér fyrir Alþingi. En í lögunum um Landsvirkjun frá 1983 stendur í 13. gr.:
    ,,Landsvirkjun gerir orkusamninga við almenningsveitur og iðjuver innan þeirra marka sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma, við iðjuver sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess er fer með orkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.
    Landsvirkjun gerir samrekstrarsamninga við aðra raforkuframleiðendur sem tengjast stofnlínukerfi fyrirtækisins.``
    Ég get ekki séð annað en að af þessari grein séu hendur ráðherra bundnar, að ekki megi semja um orkuverð sem yrði til þess að hækka orkuverð til hins almenna notanda í landinu.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef lagt fram hér till. til þál. sem kemur sjálfsagt fljótlega til umræðu þar sem ég legg til að skipuð verði rannsóknarnefnd til þess að athuga öll þessi mál og ég held að gott sé fyrir hæstv. iðnrh. og ríkisstjórn að slík athugun færi fram ef þeir eru jafnsannfærðir um það eins og mætti marka á máli sumra þeirra að þarna væri allt með felldu og við mundum hafa hag af þessum samningi og að af þessu álveri mundi ekki leiða umtalsverð mengunarspjöll.